Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 882, 115. löggjafarþing 72. mál: barnalög (heildarlög).
Lög nr. 20 22. maí 1992.

Barnalög.


I. KAFLI
Gildissvið laganna.

1. gr.

     Lög þessi taka til allra barna, en um kjörbörn eru einnig sérlög. Einstök ákvæði laganna ná til stjúpbarna og fósturbarna samkvæmt því er í þeim segir.
     Réttarstaða barna er í hvívetna hin sama nema lög mæli annan veg.

II. KAFLI
Um faðerni barna.
A. Feðrunarreglur um börn giftra foreldra og sambúðarforeldra.

2. gr.

     Eiginmaður móður barns telst faðir þess ef það er alið í hjúskap þeirra eða svo skömmu eftir hjúskaparslit að það sé hugsanlega getið í hjúskapnum. Þetta gildir þó ekki ef hjónin voru skilin að borði og sæng á getnaðartíma barnsins.
     Nú giftist móðir barns eftir fæðingu þess manni er hún hefur kennt barnið og telst hann þá faðir þess.
     Ef móðir barns og maður, sem hún lýsir föður þess, búa saman við fæðingu þess samkvæmt því er greinir í þjóðskrá eða öðrum ótvíræðum gögnum telst hann faðir barnsins. Sama er ef móðir barns og maður, er hún lýsir föður þess, taka upp sambúð samkvæmt framansögðu, enda sé barn þá ófeðrað.

3. gr.

     Eiginmaður eða sambúðarmaður, sem samþykkt hefur skriflega og við votta að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu hans með sæði úr öðrum manni, telst faðir barns sem þannig er getið.

B. Viðurkenning á faðerni barns er ákvæði 2. og 3. gr. taka ekki til.

4. gr.

     Ef feðrunarreglur 2. og 3. gr. eiga ekki við verður barn feðrað með faðernisviðurkenningu manns er móðir lýsir föður þess, sbr. 5. og 6. gr., eða með dómsúrlausn, sbr. VII. kafla A.

5. gr.

     Nú gengst karlmaður, sem kona kennir barn sitt, sbr. 4. gr., við faðerni þess með skriflegri yfirlýsingu sinni fyrir presti eða sýslumanni eða bréflega og vottfast og telst hann þá faðir barnsins.
     Ef barnsfaðir er yngri en 18 ára þegar yfirlýsing er uppi látin skal hún styrkt með staðfestingu lögráðamanns.
     Nú er þann veg háttað sálrænum högum lýsts barnsföður að varhugavert er að taka mark á yfirlýsingu hans og skal dómur þá ganga á mál.
     Hið sama er ef upp kemur að fleiri menn en hinn lýsti faðir hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barnsins, enda verði eigi talið fyrir fram að faðerni annarra en þess er gangast vill við faðerni sé útilokað.

6. gr.

     Dómsmálaráðuneytið getur mælt svo fyrir að faðernisviðurkenning, sem fengin er erlendis, sé jafngild faðernisviðurkenningu sem fengist hefur hér á landi.

C. Skráning á faðerni barns.

7. gr.

     Læknir eða ljósmóðir, sem tekur á móti barni, skal þegar skrá á fæðingarskýrslu öll þau atriði er af má ráða um þroska barnsins, svo og spyrja móður um faðerni þess og rita á skýrsluna frásögn hennar þar um. Sá sem móðir lýsir föður barns verður ekki skráður faðir þess nema barnið sé feðrað samkvæmt lögum þessum.

D. Dómsmál varðandi faðerni barns.

8. gr.

     Um dómsmál til feðrunar barns fer samkvæmt ákvæðum VII. kafla A, en um dómsmál til vefengingar faðernis og ógildingar faðernisviðurkenningar fer samkvæmt ákvæðum VII. kafla B.

III. KAFLI
Framfærsla barna.
A. Framfærsluskylda foreldra.

9. gr.

     Skylt er foreldrum, báðum saman og hvoru um sig, að framfæra barn sitt. Framfærslu barns skal haga með hliðsjón af högum foreldra og þörfum barns. Ákvæði þetta á einnig við um kjörbarn og kjörforeldra.
     Skylt er stjúpforeldri að framfæra stjúpbarn sitt svo sem eigið barn þess væri. Sama á við um sambúðarforeldri.
     Nú er barn í fóstri og er þá fósturforeldri skylt að framfæra fósturbarn sitt með sama hætti og væri það eigið barn þess.

B. Úrskurður um framfærslueyri.

10. gr.

     Nú fullnægir foreldri ekki framfærsluskyldu sinni gagnvart barni og getur sýslumaður þá úrskurðað það til greiðslu framfærslueyris með því. Framlög þessi verða þó ekki ákvörðuð lengra aftur í tímann en eitt ár frá því að krafa var sett fram nema alveg sérstakar ástæður leiði til annars.
     Framfærslueyri skal ákveða með hliðsjón af þörfum barnsins og fjárhagsaðstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra.
     Nú hefur faðir barns sætt dómi fyrir brot skv. XXII. kafla almennra hegningarlaga gagnvart móður þess og telja verður að barn sé getið við þessa háttsemi og er þá heimilt að úrskurða barnsföður til að kosta framfærslu barns að öllu leyti.

11. gr.

     Í meðlagsúrskurði skal, auk fulls nafns meðlagsskylds foreldris, tilgreina kennitölu þess, heimilisfang, stöðu og atvinnustað á þeim tíma sem meðlagsúrskurður er gefinn út.
     Í meðlagsúrskurði má aldrei ákveða lægri meðlagsgreiðslu en barnalífeyri nemur, eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar, né heldur takmarka meðlagsskyldu meðlagsskylds foreldris við lægri lágmarksaldur en þann er greinir í 13. gr. laga þessara. Frá gildistöku laga þessara skal greiða meðlag með barni þar til það nær framangreindum aldri þótt annað aldurstakmark hafi verið ákveðið í meðlagsúrskurði.

12. gr.

     Nú hefur verið sett fram krafa um framfærslueyri með barni, en fyrirsjáanlegt er að mál muni dragast á langinn þar sem foreldri, sem krafa beinist gegn, er búsett erlendis eða sérstökum örðugleikum er bundið að ná til þess og getur þá sýslumaður kveðið upp bráðabirgðaúrskurð um framfærslueyri með barninu á hendur Tryggingastofnun ríkisins. Ríkissjóður endurgreiðir þessar fjárhæðir, en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir þær hjá hinu meðlagsskylda foreldri í samræmi við úrskurð sýslumanns á hendur því.

C. Lok framfærsluskyldu.

13. gr.

     Framfærsluskyldu lýkur er barn verður 18 ára. Skyldu til greiðslu meðlags lýkur fyrir þann tíma ef barn giftist nema sýslumaður ákveði annað. Framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ungmennis er heimilt að ákveða samkvæmt kröfu þess allt til þess er það nær 20 ára aldri. 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. á hér við að sínu leyti.
     Ákvæði 1. mgr. 16. gr. eiga við um ákvarðanir sýslumanns skv. 1. mgr.

D. Greiðsla meðlags.

14. gr.

     Meðlag skal greiða mánaðarlega fyrir fram nema annað sé löglega ákveðið.

E. Úrskurður vegna sérstakra útgjalda.

15. gr.

     Heimilt er að úrskurða framfærsluskyldan (meðlagsskyldan) aðila til að inna af hendi sérstök framlög vegna útgjalda við skírn barns, fermingu, vegna sjúkdóms eða greftrunar eða af öðru sérstöku tilefni.
     Framlög skv. 1. mgr. verða því aðeins úrskurðuð að krafa um það sé uppi höfð við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara varð til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

F. Breyting á meðlagsúrskurði.

16. gr.

     Sýslumaður getur breytt meðlagsúrskurði ef rökstudd krafa kemur fram um það, enda sé sýnt fram á að hagir foreldra eða barns hafi breyst.
     Ákvörðun um framfærslueyri, sem eindagaður er áður en krafa er uppi höfð, verður þó ekki breytt nema alveg sérstakar ástæður leiði til þess.

G. Samningur um framfærslueyri.

17. gr.

     Samningur um framfærslueyri með barni er því aðeins gildur að sýslumaður staðfesti hann. Eigi er heimilt að semja um lægra meðlag en barnalífeyri eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar og eigi má takmarka meðlagsgreiðslu við lægri aldur barna en þann sem greinir í 13. gr.

18. gr.

     Staðfestur samningur um framfærslueyri, sbr. 17. gr., er því ekki til fyrirstöðu að sýslumaður skipi máli annan veg en samningur kveður á um ef rökstudd krafa kemur fram um það, enda telji hann að aðstæður hafi breyst verulega eða samningur gangi í berhögg við þarfir barns.
     Ákvæði 2. mgr. 16. gr. á hér við að sínu leyti.

H. Hverjir geti krafist framfærslueyris o.fl.

19. gr.

     Framfærslueyrir samkvæmt ákvæðum þessa kafla tilheyrir barni. Nú er greidd af hendi fúlga til þess að fullnægja framfærsluskyldu og skal þá varðveita fúlguféð með þeim hætti sem fyrir er mælt almennt um fé ófjárráða í lögræðislögum eða í verðtryggðum ríkisskuldabréfum.
     Sá sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns getur krafist þess að framfærslueyrir sé ákveðinn og innheimtur, enda hafi viðkomandi forsjá barns eða barnið búi hjá honum samkvæmt lögmætri skipan. Nú hefur verið innt af hendi framfærsluframlag af hálfu hins opinbera og hefur þá viðkomandi stjórnvald eða stofnun rétt þann sem greinir í þessari málsgrein.

I. Framfærslueyrir barna er foreldrar skilja.

20. gr.

     Sé samkomulag milli foreldra við skilnað um framfærslueyri með börnum staðfestir sýslumaður eða dómstóll, sem skilnaðarmál hefur til meðferðar, samning foreldra þar að lútandi, enda fullnægi samningur þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 17. gr. Að öðrum kosti úrskurðar sýslumaður um framfærslueyri að kröfu annars hvors foreldris samkvæmt ákvæðum þessa kafla.

IV. KAFLI
Greiðslur er standa í tengslum við barnsburð og meðgöngu.

21. gr.

     Sýslumaður getur úrskurðað föður barns til að greiða framfærslueyri með konu samtals í þrjá mánuði fyrir og eftir fæðingu barns.
     Nú sýkist kona vegna meðgöngu eða barnsfara og er sýslumanni þá rétt að úrskurða barnsföður til að greiða henni mánaðarlega styrk til hjúkrunar og framfærslu, þó ekki lengur en níu mánuði eftir fæðingu.
     Skylda má mann til greiðslu framlaga samkvæmt þessari grein þótt barn fæðist andvana.

22. gr.

     Hafi barnsfaðir orðið sannur að slíku tilræði við barnsmóður sem um getur í 3. mgr. 10. gr. skal sýslumaður úrskurða hann til að greiða allan kostnað er af meðgöngu og barnsförum stafar.
     Sýslumaður getur enn fremur úrskurðað þann sem valdur er að þunga konu til að greiða útgjöld vegna lögmætrar eyðingar á fóstri hennar.

23. gr.

     Framlög þau, sem greind eru í 21. gr. og 1. mgr. 22. gr., eru gjaldkræf þegar við ákvörðun á þeim, ef barn er þá fætt, og endranær á því tímamarki er sýslumaður ákveður. Framlög skv. 2. mgr. 22. gr. eru gjaldkræf við úrskurð þeirra.
     Framlög skv. 1. mgr. verða ekki ákvörðuð lengra aftur í tímann en eitt ár frá því að krafa var sett fram nema alveg sérstakar ástæður leiði til annars.
     Framlög skv. 21. og 22. gr. tilheyra móður barns og/eða þeirri opinberu stofnun er staðið hefur straum af útgjöldum þeim sem hér getur verið um að ræða.

V. KAFLI
Greiðsla framfærslueyris og innheimtuúrræði.

24. gr.

     Framfærslueyrir (meðlag) með barni, sem sýslumaður hefur úrskurðað, er kræfur með fjárnámi. Hinu sama gegnir um greiðslur sem sýslumaður úrskurðar skv. 13., 15., 21. og 22. gr., sbr. 23. gr.
     Greiðslur skv. 1 mgr., sem samningur aðila tekur til, staðfestur af sýslumanni, eru einnig kræfar með fjárnámi.

25. gr.

     Tryggingastofnun ríkisins er skylt að greiða foreldri barns, sem á framfærslurétt hér á landi, og öðrum þeim aðilum, er greinir í 27. gr., framfærslueyri (meðlag) með barni samkvæmt lögmætum úrskurði eða staðfestum samningi, þó innan þeirra marka um fjárhæð og aldur barns er greinir í almannatryggingalögum svo sem þau mæla fyrir um þetta atriði á hverjum tíma.
     Kröfu foreldris til Tryggingastofnunar ríkisins skal fylgja meðlagsúrskurður löglega birtur eða samningur um meðlagsgreiðslur staðfestur af sýslumanni.
     Hafi foreldrar barns fengið skilnað erlendis og svo háttar til að því foreldri, sem ekki hefur forsjá barns, hefur verið gert að greiða lægra meðlag með því en nemur barnalífeyri almannatrygginga eða hefur ekki verið gert að greiða meðlag með því getur sýslumaður úrskurðað meðlag til forsjárforeldris á hendur Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli erlends skilnaðarleyfis, skilnaðardóms eða úrskurðar. Ríkissjóður endurgreiðir þessar fjárhæðir, en Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtir þær eftir því sem fært reynist.
     Um kröfu skv. 2. mgr. svo og endurgreiðslu hennar gilda að öðru leyti ákvæði laga um almannatryggingar, þar á meðal um endurgreiðslu ríkissjóðs á meðlögum er Tryggingastofnun ríkisins greiðir vegna foreldra sem framfærslurétt eiga erlendis.

26. gr.

     Um aðgang barnsmóður að Tryggingastofnun ríkisins vegna framfærslueyris skv. 1. mgr. 21. gr. fer svo sem segir í lögum um almannatryggingar.
     Foreldri á aðgang að Tryggingastofnun ríkisins um þær greiðslur sem greinir í 15. gr. og barnsmóðir um greiðslur skv. 2. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 22. gr. þessara laga. Ungmenni, sem í hlut á, hefur aðgang að Tryggingastofnun ríkisins vegna úrskurðaðra framlaga skv. 13. gr. eftir því sem almannatryggingalög mæla fyrir um.
     Með reglugerð, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið setur, má ákveða hámarksgreiðslur sem Tryggingastofnun ríkisins innir af hendi skv. 1. og 2. mgr.

27. gr.

     Þeir sem annast framfærslu barns að foreldri látnu eða af öðrum lögmæltum ástæðum, þar með talin sveitarstjórn í framfærslusveit barnsins hafi hún greitt fé til framfærslu þess, eiga sama rétt og foreldri skv. 24.–26. gr.

28. gr.

     Um skyldu foreldris til að greiða Innheimtustofnun sveitarfélaga meðlög og um innheimtuúrræði þeirrar stofnunar segir í lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga.

VI. KAFLI
Foreldraskyldur, forsjá barns og umgengnisréttur.
A. Inntak forsjár.

29. gr.

     Foreldrum ber að sýna barni sínu umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Foreldrum ber að afla barni sínu lögmæltrar fræðslu og ala með því iðjusemi og siðgæði.
     Barnið á rétt á forsjá foreldra sinna uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það. Einstakar forsjárskyldur geta þó haldist lengur ef þarfir barns krefjast þess. Foreldri, sem fer eitt með forsjá barns síns, er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema umgengni sé andstæð hag og þörfum barns að mati lögmælts stjórnvalds.
     Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir forsjáraðila til að ráða persónulegum högum barnsins og gegna öðrum foreldraskyldum. Þeir sem hafa forsjá barns á hendi hafa rétt og skyldu til að vera fjárráðamenn barnsins, sbr. ákvæði lögræðislaga.
     Foreldrum ber að stuðla eftir mætti að því að barn þeirra fái menntun og starfsþjálfun í samræmi við hæfileika þess og áhugamál.
     Foreldrum ber að hafa samráð við barn sitt áður en persónulegum málefnum þess er ráðið til lykta eftir því sem gerlegt er, þar á meðal með tilliti til þroska barns.
     Ákvæði þessarar greinar eiga við um kynforeldri, kjörforeldri, stjúpforeldri og fósturforeldri, sbr. 3. mgr. 9. gr., svo og um sambúðarforeldri, þ.e. karl eða konu sem er í sambúð við kynmóður barns eða kynföður samkvæmt því er greinir í þjóðskrá eða samkvæmt öðrum ótvíræðum gögnum.

B. Lögbundin forsjá.

30. gr.

     Ósjálfráða barn á rétt á forsjá beggja foreldra sinna sem eru í hjúskap, sbr. þó 1. mgr. 32. gr., eða búa saman, sbr. 3. mgr. 2. gr.
     Nú eru foreldrar barns hvorki í hjúskap né búa saman við fæðingu barns og fer móðir þá ein með forsjá þess, sbr. þó 1. mgr. 33. gr.
     Taki ógift foreldri, sem fer með forsjá barns síns, upp sambúð eða gangi í hjúskap er forsjá barns einnig hjá stjúpforeldri eða sambúðarforeldri.

C. Forsjá við andlát forsjárforeldris.

31. gr.

     Nú fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns og annað þeirra andast og fer þá eftirlifandi foreldri eitt með forsjána ásamt maka sínum eða sambúðaraðila ef því er að skipta. Fela má maka eða sambúðaraðila hins látna foreldris, sem einnig hefur farið með forsjá barnsins, forsjá þess að kröfu hans ef það er talið barninu fyrir bestu.
     Nú hefur annað foreldri farið með forsjá barns og fer þá stjúpforeldri eða sambúðarforeldri, sem einnig hefur farið með forsjána, áfram með forsjá eftir andlát forsjárforeldris. Fela má hinu foreldrinu forsjá barnsins að kröfu þess foreldris ef það er talið barninu fyrir bestu.
     Við andlát foreldris, sem farið hefur eitt með forsjá barns, hverfur forsjá þess til hins foreldrisins. Fela má öðrum forsjá barnsins komi fram ósk um það og sé það álitið barninu fyrir bestu.
     Um mál skv. 1.–3. mgr. fer eftir því sem kveðið er á um í 33., 34. og 36. gr.
     Verði barn forsjárlaust vegna andláts forsjárforeldra hverfur forsjá þess til barnaverndarnefndar samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.

D. Forsjá við skilnað eða samvistaslit foreldra.

32. gr.

     Nú slíta giftir foreldrar samvistir án þess að hjúskap ljúki og geta þeir þá ákveðið að annað þeirra fari með forsjá barns. Ákvæði 4. mgr. 33. gr. á við um samninga samkvæmt þessari málsgrein.
     Forsjá barns skal ávallt skipa við skilnað foreldra að borði og sæng og við lögskilnað, svo og við slit óvígðrar sambúðar foreldra, sbr. 3. mgr. 2. gr. og 6. mgr. 29. gr. Skipan forsjár við skilnað að borði og sæng skal gilda óbreytt við lögskilnað, sbr. þó ákvæði 1. mgr. 35. gr.
     Foreldrar geta samið svo um að forsjá barns þeirra verði hjá þeim báðum (sameiginleg forsjá) eftir skilnað eða sambúðarslit eða í höndum annars hvors. Ákvæði 4. mgr. 33. gr. á við um samninga samkvæmt þessari málsgrein.
     Ef ágreiningur rís um forsjá barns við slit hjúskapar eða við sambúðarslit giftra eða ógiftra foreldra fer um það mál eftir því sem kveðið er á um í 34. gr.

E. Samningar foreldra um forsjá.

33. gr.

     Foreldrar, sem ekki fara sameiginlega með forsjá barns síns, geta samið um að forsjáin verði sameiginleg. Í samningi um sameiginlega forsjá skal greina hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði hafa búsetu.
     Foreldrar geta samið um breytingu á forsjá barns þannig að forsjá flytjist frá öðru foreldri til hins eða að samningur um sameiginlega forsjá falli niður og forsjá verði í höndum annars foreldris.
     Foreldrar geta falið þriðja manni forsjá barns síns með samningi, enda mæli barnaverndarnefnd með þeirri skipan. Ef forsjá barns er í höndum annars foreldris skal leitað umsagnar hins foreldrisins.
     Samningur um forsjá barns öðlast gildi við staðfestingu sýslumanns. Sýslumaður skal leiðbeina aðilum um réttaráhrif samnings. Hann getur synjað um staðfestingu samnings ef hann er andstæður hag og þörfum barnsins.

F. Ágreiningsmál um forsjá.

34. gr.

     Þegar foreldra greinir á um forsjá barns sker dómstóll úr ágreiningsmálinu. Dómsmálaráðuneytið getur skorið úr ágreiningi um forsjá séu aðilar sammála um að fela ráðuneytinu úrskurðarvald. Þegar skilnaðar er leitað fyrir dómi leysir sami dómstóll úr ágreiningi um forsjá nema aðilar séu á einu máli um að leita úrlausnar dómsmálaráðuneytisins í forsjármálinu. Þótt sýslumaður leysi úr kröfu um skilnað er unnt að leggja ágreining um forsjá barns fyrir dómstól. Hraða skal meðferð þessara mála.
     Dómstóll eða dómsmálaráðuneytið kveða í úrlausnum sínum á um hjá hvoru foreldri forsjá barns verði eftir því sem barni er fyrir bestu. Eigi verður mælt fyrir um sameiginlega forsjá barns, nema foreldrar séu sammála um þá skipan. Nú þykir hvorugt foreldra hæft til að fara með forsjá barns og tekur barnaverndarnefnd þá við forsjá þess samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.
     Dómsmálaráðuneytið skal að jafnaði leita umsagnar barnaverndarnefndar áður en forsjármáli er ráðið til lykta. Dómari leitar umsagnar barnaverndarnefndar ef hann telur þörf á því.
     Veita skal barni, sem náð hefur 12 ára aldri, kost á að tjá sig um forsjármál nema telja megi að slíkt geti haft skaðvænleg áhrif á barnið eða sé þýðingarlaust fyrir úrslit málsins. Rétt er einnig að ræða við yngra barn eftir því sem á stendur miðað við aldur þess og þroska. Dómstóll eða dómsmálaráðuneyti getur falið sérfróðum manni eða mönnum að kynna sér viðhorf barnsins og gefa skýrslu um það.
     Skipa má barni talsmann til að gæta hagsmuna þess við úrlausn forsjármáls ef sérstök þörf er á því og er þóknun hans greidd úr ríkissjóði.
     Nánari ákvæði um meðferð þessara mála eru í VIII. og IX. kafla laganna.

35. gr.

     Nú krefst annað foreldra þess að samningi eða úrlausn dómstóls eða dómsmálaráðuneytis um forsjá verði breytt og leysir dómstóll þá úr málinu skv. VIII. kafla, en dómsmálaráðuneytið ef aðilar eru á einu máli um þá málsmeðferð. Krafa samkvæmt þessari málsgrein verður því aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins. Um kröfu foreldris til niðurfellingar samkomulags um sameiginlega forsjá fer þó samkvæmt næstu málsgrein.
     Foreldrar, er fara sameiginlega með forsjá barns samkvæmt samningi, geta hvenær sem er krafist þess, bæði eða annað, að hann verði felldur úr gildi. Staðfestir sýslumaður þá nýtt samkomulag foreldranna ef því er að skipta, sbr. 4. mgr. 33. gr., en ágreiningsmál fara til úrlausnar dómstóls eða dómsmálaráðuneytisins, sbr. 34. gr. og 36. gr.
     Nú fer móðir með forsjá barns skv. 2. mgr. 30. gr. og má þá fela föður forsjá barnsins að ósk hans, enda þyki sú forsjárskipan koma barni best. Við úrlausn máls samkvæmt þessari málsgrein skal m.a. tekið tillit til tengsla barns við föður. Ákvæði 1. og 2. málsl. 1. mgr. 34. gr. eiga við um mál samkvæmt þessari málsgrein.

G. Bráðabirgðaúrlausn um forsjá.

36. gr.

     Í ágreiningsmáli út af forsjá barns getur dómstóll eða dómsmálaráðuneytið, eftir því hvar forsjármál er til meðferðar, ákveðið til bráðabirgða hvernig fara skuli um forsjá þess eftir því sem barni er fyrir bestu. Breyta má þessari ákvörðun vegna verulega breyttra aðstæðna. Ákvörðun um skipan forsjár til bráðabirgða bindur ekki hendur úrskurðarvalds þegar ákvarða skal forsjá til frambúðar, enda verður sá aðili, sem kveður á um bráðabirgðaforsjá, ekki vanhæfur til að leysa úr forsjármálinu að öðru leyti.

H. Um umgengnisrétt.

37. gr.

     Barn á rétt á umgengni við það foreldra sinna er ekki fer með forsjá þess og gagnkvæmt. Foreldri er skylt að rækja umgengni og samneyti við barn og hlíta nánari skilmálum er að því lúta.
     Ef foreldrar verða sammála um hvernig skipa skuli umgengnisrétti skal eftir því farið nema sú skipan komi í bága við hag og þarfir barnsins að mati sýslumanns.
     Ef foreldra greinir á um umgengni úrskurðar sýslumaður, að kröfu foreldris, um inntak þess réttar og hversu honum verði beitt. Sýslumaður getur hafnað því að ákvarða inntak umgengnisréttar og getur einnig breytt eða fellt úr gildi úrskurð eða samning foreldra um umgengni ef slík úrlausn þykir barni fyrir bestu. Ef sérstök atvik valda því að mati sýslumanns að umgengni barns við foreldri sé andstæð hag barns og þörfum getur hann kveðið svo á að umgengnisréttar njóti ekki við.
     Meðan forsjármál er til meðferðar getur sýslumaður að kröfu þess foreldris, sem barn býr ekki hjá, ákveðið umgengni barns við það til bráðabirgða samkvæmt meginreglum 1. og 3. mgr. uns forsjármálinu hefur verið ráðið til lykta.
     Nú er annað foreldra barns látið eða bæði eða foreldri er ókleift að rækja umgengnisskyldur sínar við barn og geta þá nánir vandamenn látins foreldris eða foreldris, er ekki getur rækt umgengnisskyldur sínar, krafist þess að sýslumaður mæli fyrir um umgengni þeirra við barn. Ræður hann máli til lykta eftir því sem barni þykir koma best.
     Leita skal umsagnar barnaverndarnefndar þegar ástæða þykir til, svo og liðsinnis hennar eða sérstaklega tilnefnds tilsjónarmanns í sambandi við framkvæmd umgengnisréttarins. Ákvæði 4. mgr. 34. gr. á hér við að breyttu breytanda.

38. gr.

     Nú tálmar foreldri, sem hefur forsjá barns, hinu foreldrinu að njóta umgengnisréttar við barnið er úrskurðaður hefur verið og getur sýslumaður þá að kröfu þess skyldað þann sem með forsjá barnsins fer til að láta af tálmunum að viðlögðum dagsektum að fjárhæð allt að 5.000 kr. Dagsektir verða eigi lagðar á fyrr en að liðnum málskotsfresti þeim er greinir í 74. gr. eða fyrr en úrskurður ráðuneytisins um umgengni er genginn ef máli hefur verið skotið þangað. Dagsektir skal ákveða með úrskurði, en gefa skal þeim sem með forsjá barnsins fer kost á að tala máli sínu áður en hann er kveðinn upp. Dagsektir skulu ákveðnar til allt að þriggja mánaða í senn fyrir hvern dag sem líður frá uppkvaðningu úrskurðar þar til látið er af tálmunum. Dagsektir falla niður þegar sýslumaður telur að látið hafi verið af tálmunum. Dagsektir má innheimta með fjárnámi samkvæmt kröfu þess sem tálmað er að njóta umgengnisréttar og renna þær í ríkissjóð. Hámarksfjárhæð dagsekta samkvæmt framansögðu skal taka breytingum í samræmi við lánskjaravísitölu sem í gildi verður 1. júlí 1992. Öðrum lagaúrræðum verður ekki beitt til framdráttar umgengnisrétti.

I. Fyrirhugaður flutningur barns úr landi.

39. gr.

     Nú hefur forsjármáli eigi verið ráðið til lykta og getur dómstóll eða dómsmálaráðuneytið, eftir því hvar forsjármál er til úrlausnar, lagt svo fyrir að ósk annars foreldris að eigi megi að svo vöxnu fara með barnið úr landi. Dómstóll eða dómsmálaráðuneytið leysa úr málinu með úrskurði. Úrskurð dómara má kæra til Hæstaréttar. Kæra frestar ekki réttaráhrifum úrskurðar.

40. gr.

     Nú á annað foreldra umgengnisrétt við barn og má hitt foreldra þá eigi flytjast með barnið úr landi nema því foreldri, sem umgengnisréttinn á, sé veitt færi á að tjá sig um málið og þar á meðal bera mál undir sýslumann.

VII. KAFLI
Dómsmál vegna faðernis barna.
A. Faðerni barns sem 2.–6. gr. taka ekki til.
1. Lögsaga.

41. gr.

     Dómsmál um faðerni barns er unnt að höfða hér á landi ef:
 1. varnaraðili er búsettur hér á landi,
 2. dánarbú varnaraðila sætir eða hefur sætt skiptameðferð hér á landi,
 3. móðir barns er búsett hér á landi,
 4. barn er búsett hér á landi.

     Víkja má frá reglum þessarar greinar með samningum við erlend ríki.

2. Varnarþing.

42. gr.

     Faðernismál má höfða á heimilisvarnarþingi móður eða varnaraðila, sbr. og 2. mgr.
     Nú á móðir ekki varnarþing hér á landi og má þá höfða mál á varnarþingi varnaraðila eða því varnarþingi sem hann átti síðast hér á landi ef hann er farinn af landi eða ókunnugt er hvar hann er niður kominn eða á varnarþingi þar sem með bú hans er farið.
     Höfða má mál á varnarþingi barns ef varnarþingi hér á landi skv. 1. og 2. mgr. er ekki til að dreifa eða fyrir öðrum dómstóli hér á landi samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðuneytis.

3. Málsaðild.

43. gr.

     Sóknaraðili faðernismáls er móðir barns eða barnið sjálft. Nú hefur móðir barns höfðað mál og hún andast áður en máli er lokið og getur þá einstaklingur eða það sveitarfélag, sem við framfærslu barns hefur tekið að nokkru eða öllu, haldið áfram málinu.
     Varnaraðili máls er sá maður eða þeir menn sem eru taldir hafa haft samfarir við barnsmóður á getnaðartíma barns. Nú er varnaraðili látinn áður en mál er höfðað og má þá höfða það á hendur búi hans.
     Ef víst má þykja eða líklegt að fleiri hafi haft samfarir við móður á getnaðartíma barns skal stefna þeim báðum eða öllum.

4. Málsmeðferð.

44. gr.

     Faðernismál eru rekin og dæmd í héraðsdómi.
     Mál þessi sæta almennri meðferð einkamála nema annan veg sé mælt fyrir um í lögum.

45. gr.

     Meðan á meðferð faðernismáls stendur á barnsmóðir kröfu á liðsinni barnaverndarnefndar eftir því sem dómari telur þörf á. Sama er um barn ef það er sóknaraðili.
     Sóknaraðili faðernismáls skal hafa gjafsókn í héraði og fyrir Hæstarétti.

46. gr.

     Dómari fylgist með öflun sönnunargagna.
     Hann getur lagt fyrir aðila eða lögmenn þeirra að afla nánar tilgreindra gagna.
     Dómari getur enn fremur, ef nauðsynlegt þykir, aflað sjálfur sönnunargagna.
     Ákvæði laga um meðferð einkamála um útivist málsaðila eða áhrif þess að ekki er hreyft andmælum við staðhæfingum gilda ekki um mál samkvæmt þessum kafla.

47. gr.

     Aðilum máls er skylt, eftir kröfu dómara, að mæta fyrir dómi og gefa skýrslu, konunni þó ekki ef hún er sóknaraðili máls, enda skal vísa máli frá dómi ef hún neitar að gefa skýrslu sem henni er unnt að gefa fyrir dómi eða neitar að leggja sig eða barnið undir blóðrannsókn eða aðra sérfræðilega rannsókn sem dómari mælir fyrir um.

48. gr.

     Dómari getur mælt fyrir um að blóðrannsókn sé gerð á móður barns og barninu, svo og varnaraðilum, og enn fremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir. Eru þeir sem í hlut eiga skyldir til að hlíta blóðtöku, svo og annarri rannsókn í þágu sérfræðilegra kannana. Dómari getur kveðið svo á að blóðrannsókn og mannerfðafræðileg rannsókn skuli fram fara á foreldrum og eftir atvikum systkinum barnsmóður og varnaraðila, svo og á öðrum börnum barnsmóður og öðrum börnum lýsts barnsföður.

49. gr.

     Dómþing í faðernismálum skulu háð fyrir luktum dyrum. Fulltrúi barnaverndarnefndar getur sótt dómþing með barnsmóður eða barni.

50. gr.

     Dómari er ekki bundinn af kröfum þeim sem uppi eru hafðar í faðernismáli.
     Í máli samkvæmt framanskráðum ákvæðum skal sá maður teljast faðir barns sem sannað er að hafi haft samfarir við móður þess á getnaðartíma þess nema gögnum sé til að dreifa sem geri það lítt sennilegt að hann sé faðir barnsins.
     Nú sannast að móðir barns hefur haft samfarir við fleiri menn en einn á getnaðartíma þess og verður varnaraðili í faðernismáli þá því aðeins dæmdur faðir þess að verulega meiri líkur séu á að hann sé faðir barnsins en annar eða aðrir sem til greina hafa komið.

5. Birting dóms.

51. gr.

     Nú er dómur í faðernismáli prentaður eða birtur með öðrum hætti opinberlega og skal þá gæta leyndar um nöfn þeirra, stöðu og heimili sem greindir eru í dóminum.

B. Mál til vefengingar á faðerni barns og ógildingar á faðernisviðurkenningu.
1. Vefenging á faðerni barns skv. 2. og 3. gr.

52. gr.

     Mál til vefengingar á faðerni barns skv. 2. og 3. gr. geta höfðað eiginmaður og sambúðarmaður móður barns, móðir þess, barnið sjálft og lögráðamaður barns sem sérstaklega er skipaður ef því er að skipta; enn fremur að eiginmanni eða sambúðarmanni látnum sá erfingi hans er gengur jafnhliða eða næst barninu að erfðum.
     Mál skal höfða innan eins árs frá því að sóknaraðili fékk vitneskju um atvik sem orðið getur efni til þess að vefengja faðerni barns og þó eigi síðar en innan fimm ára frá fæðingu þess. Nú er eiginmaður eða sambúðarmaður látinn, en málshöfðunarfrestur þó ekki liðinn, og getur þá sá er gengur jafnhliða eða næst barninu að erfðum eftir hinn látna höfðað vefengingarmálið innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um fæðingu barnsins og dauða eiginmannsins eða sambúðarmannsins. Ofangreindir tímafrestir eiga ekki við þegar barn höfðar mál.

2. Ógilding á faðernisviðurkenningu skv. 4.–6. gr.

53. gr.

     Mál til ógildingar á faðernisviðurkenningu, sbr. 4.–6. gr., er unnt að höfða ef fram koma nýjar upplýsingar um faðernið eða upplýsingar sem sýna að sá sem viðurkenndi faðernið geti ekki verið faðir barnsins.
     Aðild að málssókn samkvæmt þessari grein eiga sá sem viðurkennt hefur faðerni barnsins, móðir þess og barnið sjálft.
     2. mgr. 52. gr. á við um mál samkvæmt þessari grein að breyttu breytanda.

3. Málsmeðferð.

54. gr.

     Mál skv. 52. og 53. gr. skulu rekin að hætti einkamála. Ákvæði 48., 49. og 51. gr. eiga við um mál þessi.
     Nú er lögð fram í vefengingarmáli skrifleg yfirlýsing, staðfest fyrir dómara frá öðrum manni en eiginmanni eða sambúðarmanni móður barnsins, um að hann sé faðir þess og móðirin og eiginmaður eða sambúðarmaður hennar lýsa því með sama hætti að þau telji mann þennan föður barnsins og getur dómari þá kveðið upp dóm um að eiginmaður eða sambúðarmaður móður barns sé eigi faðir þess, enda telji hann yfirlýsinguna studda nægjanlegum gögnum. Þessi háttur verður þó eigi á hafður ef barn er orðið sjálfráða nema samþykki þess til breyttrar feðrunar komi til.
     Nú er barn sóknaraðili vefengingarmáls og á þá 2. mgr. 45. gr. við um mál.
     Ef eiginmaður eða sambúðarmaður móður barns er látinn áður en mál skv. 2. mgr. 52. gr. er höfðað má beina því gegn búi hans.

4. Vefenging á faðerni barns sem getið er við tæknifrjóvgun.

55. gr.

     Nú hefur maður samþykkt að tæknifrjóvgun fari fram á eiginkonu eða sambúðarkonu sinni, sbr. 3. gr., og er þá í máli skv. 52. gr. því aðeins unnt að taka til greina kröfu um vefengingu á faðerni barnsins að ljóst sé að það sé ekki getið við tæknifrjóvgunina.

VIII. KAFLI
Dómsmál vegna ágreinings um forsjá barna.
A. Lögsaga.

56. gr.

     Dómsmál vegna ágreinings um forsjá barns er unnt að höfða hér á landi ef:
 1. stefndi er búsettur hér á landi,
 2. barn eða börn, sem málið varðar, eru búsett hér á landi,
 3. stefnandi er íslenskur ríkisborgari og leitt er í ljós að hann geti ekki vegna ríkisfangs síns höfðað mál í því landi sem hann býr eða þar sem stefndi eða börn búa,
 4. báðir foreldrar eru íslenskir ríkisborgarar og stefndi lýsir sig eigi andvígan því að mál sé höfðað hér á landi.

     Ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að, skulu þó ganga framar ákvæði 1. mgr.
     Nú er krafa um forsjá þáttur í hjúskaparmáli og gilda þá þær reglur um lögsögu og varnarþing sem greinir í hjúskaparlögum. Um forsjárþáttinn skal gæta ákvæða þessa kafla.
     Íslenskur dómstóll getur, ef alveg sérstaklega stendur á, leyst úr kröfu um forsjárskipan til bráðabirgða ef stefndi eða barnið dvelst hér á landi.

B. Varnarþing.

57. gr.

     Mál skal höfða á heimilisvarnarþingi barns eða á heimilisvarnarþingi stefnda að öðrum kosti. Ef hvorugt þeirra á heimilisvarnarþing hér á landi má höfða mál á heimilisvarnarþingi stefnanda.
     Nú er eigi til að dreifa varnarþingi skv. 1. mgr. og skal þá höfða mál fyrir dómstóli er dómsmálaráðuneyti kveður á um.

C. Málsmeðferð.
1. Almenn meðferð einkamála og frávik.

58. gr.

     Um rekstur máls vegna forsjár barna fer að hætti einkamála nema um frávik sé mælt í lögum.

2. Sáttaumleitun.

59. gr.

     Dómari leitar um sættir í forsjármálum.
     Dómari getur ákveðið að sáttatilraun í stofnun um fjölskylduráðgjöf komi í stað sátta skv. 1. mgr. að nokkru eða öllu.

3. Sönnunargögn.

60. gr.

     Dómari fylgist með öflun sönnunargagna.
     Dómari getur lagt fyrir aðila eða lögmenn þeirra að aflað verði nánar tilgreindra gagna, svo sem skýrslna sérfróðra manna um foreldra og barn. Um skýrslur samkvæmt þessari málsgrein fer samkvæmt ákvæðum IX. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, um dómkvadda matsmenn.
     Dómari getur enn fremur, ef nauðsynlegt þykir, aflað sjálfur sönnunargagna, þar á meðal með yfirheyrslu vitna og öflun sérfræðilegra álitsgerða. Hann getur einnig lagt fyrir aðila að gefa skýrslu í dómi samkvæmt reglum þeim sem gilda um vitni. Dómari leysir úr því í dómi hvort kostnaður vegna gagnaöflunar samkvæmt þessari málsgrein verði greiddur úr ríkissjóði.

61. gr.

     Dómari getur ákveðið að öðrum málsaðila eða báðum sé óheimilt að vera viðstaddur er viðhorf barns er kannað skv. 4. mgr. 34. gr. Kynna skal aðilum hvað fram hafi komið um afstöðu barns áður en mál er flutt nema slíkt þyki varhugavert vegna hagsmuna barnsins.

4. Um dómkröfur og málsástæður.

62. gr.

     Aðilar geta gert nýjar dómkröfur og flutt fram nýjar málsástæður og ný andmæli allt til þess að mál er flutt, enda þarf ekki að leita sátta að nýju vegna nýrra dómkrafna nema dómari telji ástæðu til þess.
     Dómari er ekki bundinn af málsástæðum og kröfum aðila.

5. Um þinghöld.

63. gr.

     Forsjármál skulu sótt og varin og aðilar og vitni spurð fyrir luktum dyrum nema dómari kveði öðruvísi á með samþykki málsaðila.

D. Nafnleynd o.fl.

64. gr.

     Eigi má án leyfis dómara birta almenningi á nokkurn hátt annað af því sem gerst hefur í slíkum málum en dóminn. Brot gegn ákvæði þessu varðar sektum.
     Nú er dómur í slíku máli birtur, þar á meðal að tilstuðlan dómsins, og skal þá gæta leyndar á nöfnum og upplýsingum sem bent geti til þess hverjir séu aðilar máls eða hvert barn eða börn dómurinn varði.

IX. KAFLI
Um meðferð og úrlausn stjórnvalda á málum samkvæmt lögum þessum.
A. Lögsaga.

65. gr.

     Stjórnvöld geta leyst úr þeim málum er tengjast öðrum ríkjum í eftirfarandi tilvikum:
 1. ef barn, sem málið varðar, er búsett hér á landi,
 2. ef sá sem krafa beinist gegn er búsettur hér á landi,
 3. hafi úrskurður eða dómur í forsjár- eða faðernismáli gengið hér á landi má einnig leysa úr meðlagsmáli varðandi það barn, enda komi fram krafa þar að lútandi innan eins árs frá því að úrskurður eða dómur gekk.

     Ákvæði milliríkjasamninga, sem Ísland er aðili að, skulu þá ganga framar ákvæðum 1. mgr.

B. Úrskurðarumdæmi.

66. gr.

     Úrskurða skal ágreiningsmál er sæta úrlausn sýslumanns eftir lögum þessum í umdæmi þar sem barn býr.
     Sé barn ekki búsett hér á landi skal úrskurða mál þar sem sá er krafa beinist gegn er búsettur.
     Séu samtímis rekin samkynja mál er varða systkin sem ekki eru búsett í sama úrskurðarumdæmi skal sameina málin og úr þeim leysa í því umdæmi þar sem úrskurða átti um þá kröfu er kom fyrr fram.
     Dómsmálaráðuneytið ákvarðar úrskurðarumdæmi ef hvorki barn né sá sem krafan beinist gegn eru búsett hér á landi eða ef annars leikur vafi á því hvar leysa skuli úr máli samkvæmt framangreindu.

C. Leiðbeiningarskylda.

67. gr.

     Sýslumaður skal leiðbeina aðilum ágreiningsmáls um réttindi þeirra og skyldur er málið varða.

D. Sáttaumleitan.

68. gr.

     Sýslumaður leitar sátta með báðum aðilum áður en hann tekur ákvörðun í ágreiningsmáli nema sáttaumleitan sé bersýnilega þýðingarlaus eða aðili sinni ekki ítrekuðum kvaðningum sýslumanns. Ef aðilar máls búa eða dvelja hvor í sínu umdæmi má leita sátta þar sem hvor aðila býr eða dvelst.
     Hafi sáttaumleitan í forsjár- eða umgengnismáli farið fram í stofnun um fjölskyldu- ráðgjöf er eigi þörf sáttaumleitana sýslumanns.

E. Kröfur aðila og gagnaöflun.

69. gr.

     Aðilum máls ber að setja fram skýrar kröfur fyrir stjórnvaldi og afla þeirra gagna sem stjórnvald telur þörf á til úrlausnar máls. Enn fremur getur stjórnvald aflað gagna að eigin frumkvæði ef þörf krefur.
     Ef úrskurðarbeiðandi sinnir eigi ítrekuðum kvaðningum eða tilmælum stjórnvalds um framlagningu gagna er stjórnvaldi heimilt að synja um úrlausn.
     Nú sinnir gagnaðili máls eigi ítrekuðum kvaðningum eða tilmælum stjórnvalds um gagnaöflun og skal þá veita úrlausn á grundvelli þeirra krafna og gagna sem fyrir liggja.

F. Réttur aðila til að kynna sér gögn máls.

70. gr.

     Aðilum máls er heimilt að kynna sér skjöl og önnur gögn sem málið varða. Réttur þessi nær ekki til vinnuskjala sem rituð hafa verið hjá stjórnvaldi til eigin afnota í sambandi við meðferð málsins.
     Stjórnvaldi er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum er veita upplýsingar um afstöðu barns ef hagsmunir barnsins krefjast þess.

G. Réttur aðila til að tjá sig um mál.

71. gr.

     Aðilar skulu eiga þess kost að tjá sig um mál áður en ákvörðun er tekin og getur stjórnvald sett þeim ákveðinn frest til þess.

H. Form og efni úrskurða.

72. gr.

     Úrskurður stjórnvalds skal vera skriflegur. Þar skal greina úrlausnarefni, niðurstöðu og rökstuðning fyrir henni, þar á meðal lagaatriði er niðurstaða byggist á og önnur atriði er máli skipta, þar á meðal kæruheimild og þvingunarúrræði ef því er að skipta.

I. Tilkynning um úrskurð.

73. gr.

     Úrskurð stjórnvalds skal senda aðilum máls með ábyrgðarbréfi, hann birtur af einum stefnuvotti eða kynntur með öðrum sannanlegum hætti.

J. Stjórnsýslukæra.

74. gr.

     Kæra má úrskurð sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins innan tveggja mánaða frá dagsetningu hans. Kæra frestar ekki réttaráhrifum úrskurðar nema sýslumaður ákveði annað.

X. KAFLI
Um framkvæmd forsjárákvarðana.

75. gr.

     Þegar ákvörðun er fengin um forsjá barns og sá sem barn dvelst hjá neitar að afhenda það réttum forsjáraðila getur forsjáraðili beint til héraðsdómara beiðni um að forsjá hans verði komið á með aðfarargerð.
     Ef sá sem barn dvelst hjá neitar þrátt fyrir úrskurð héraðsdómara að afhenda barn samkvæmt framansögðu eða að veita upplýsingar þær sem sýslumaður telur óhjákvæmilegar til framgangs gerðinni getur sýslumaður að kröfu gerðarbeiðanda ákvarðað honum dagsektir á grundvelli 38. gr. Skulu þær renna í ríkissjóð. Fullnægja má ákvörðun um dagsektir með fjárnámi. Gerðarþoli verður ekki sviptur frelsi þrátt fyrir að hann fullnægi ekki upplýsingaskyldu sinni.
     Ef til aðfarar kemur að kröfu gerðarbeiðanda skal sýslumaður boða fulltrúa barnaverndarnefndar til að vera viðstaddan, svo og talsmann barnsins ef skipaður hefur verið, sbr. 5. mgr. 34. gr. Sýslumaður getur skipað barni talsmann ef slíkt hefur ekki verið gert áður. Að svo miklu leyti sem lögreglumenn liðsinna við aðför skulu þeir að jafnaði vera óeinkennisklæddir. Reynt skal að haga framkvæmd aðfarar svo að sem minnst álag verði fyrir barnið.

XI. KAFLI
Gildistaka og brottfelld lagaákvæði.

76. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. júlí 1992.
     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi barnalög, nr. 9/1981, ásamt breytingalögum nr. 44/1985. Enn fremur ákvæði 47., 48. og 53. gr. laga nr. 60/1972, um stofnun og slit hjúskapar.
     Dómsmálaráðuneytið skal kynna almenningi helstu nýmæli laganna.
     Dómsmálaráðuneytið setur reglugerð og önnur fyrirmæli um einstök atriði er varða framkvæmd laganna.

77. gr.

     Nú er forsjármál til meðferðar í dómsmálaráðuneytinu við gildistöku laga þessara og skal aðilum þá gerð grein fyrir heimild þeirra til að leita úrlausnar dómstóla um málið. Setja má aðilum frest til að ákveða hvort óskað sé að horfið verði frá meðferð málsins í ráðuneytinu.
     Mál út af umgengnisrétti og meðlagsmál, sem til meðferðar eru í dómsmálaráðuneytinu við gildistöku laga þessara, skulu send viðkomandi sýslumanni til úrlausnar nema mál sé komið á lokastig að mati ráðuneytis.
     Ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. 2. gr. og 55. gr. verður ekki beitt um börn sem fædd eru fyrir gildistöku laga þessara.
     Ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 32. gr. á ekki við um skilnað að borði og sæng sem veittur er fyrir gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 9. maí 1992.