Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 958, 115. löggjafarþing 214. mál: Lánasjóður íslenskra námsmanna (heildarlög).
Lög nr. 21 25. maí 1992.

Lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna.


I. KAFLI
Hlutverk og stjórn.

1. gr.

     Hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna er að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags.
     Sjóðurinn veitir lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms hérlendis.

2. gr.

     Lánasjóði er heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. enda stundi þeir sérnám. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um til hvaða sérnáms skuli lánað.

3. gr.

     Miða skal við að námslán samkvæmt lögum þessum nægi hverjum námsmanni til að standa straum af náms- og framfærslukostnaði meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar námsmanns.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að taka tillit til búsetu og annarra atriða er áhrif kunna að hafa á fjárhagsstöðu námsmanns.
     Stjórn sjóðsins setur nánari ákvæði um úthlutun námslána.

4. gr.

     Ráðherra skipar stjórn sjóðsins þannig: Einn samkvæmt tilnefningu stúdentaráðs Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra námsmanna erlendis, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra sérskólanema, einn samkvæmt tilnefningu fjármálaráðherra og tvo án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður stjórnar en hinn varaformaður.
     Stjórnin skal skipuð til tveggja ára í senn. Skipunartími fulltrúa menntamálaráðherra og fjármálaráðherra skal þó takmarkaður við embættistíma þeirra ráðherra sem skipuðu þá eða tilnefndu sitji þeir skemur. Varamenn í stjórn sjóðsins skulu skipaðir með sama hætti og til jafnlangs tíma.
     Verði atkvæði jöfn við afgreiðslu mála í stjórn sjóðsins sker atkvæði formanns úr.
     Ráðherra ræður framkvæmdastjóra til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk með samþykki sjóðstjórnar að fenginni heimild ráðuneytisins, sbr. ákvæði laga nr. 97/1974.

5. gr.

     Hlutverk stjórnar sjóðsins er:
  1. að veita námsmönnum námslán,
  2. að annast fjármál sjóðsins og gerð fjárhagsáætlana,
  3. að annast gagnasöfnun varðandi þörf námsmanna á námslánum,
  4. að setja reglur um úthlutun námslána,
  5. að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum með bókuðum samþykktum,
  6. að afla upplýsinga um námsskipan og námstíma þeirra skóla sem lánað er til,
  7. að hafa eftirlit með árangri og ástundun námsmanna,
  8. að annast útgáfustarfsemi og aðra kynningu á starfsemi sjóðsins.

     Stjórn sjóðsins er heimilt að fela bankastofnunum útborgun lána, innheimtu og aðra daglega afgreiðslu.
     Bókhaldi skal haga samkvæmt fyrirmælum Ríkisbókhalds, sbr. lög nr. 52/1966.

II. KAFLI
Námslán.

6. gr.

     Námslán skal aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur.
     Námsmaður skal að jafnaði hafa heimild til að taka lán á hverju missiri meðan hann er við nám, þó ekki lengur en hæfilegur námstími er talinn í þeirri grein og í þeim skóla þar sem nám er stundað.
     Námslán skal ekki veitt nema námsframvinda sé með eðlilegum hætti.
     Námsmenn, sem fá lán úr sjóðnum, skulu undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu a.m.k. eins manns um að hann taki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni hámarksfjárhæð.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita námslán allt að þeirri fjárhæð sem ábyrgð hefur verið veitt fyrir skv. 4. mgr. Sæki námsmaður um hærra lán en ábyrgð er fyrir þarf hann að leggja fram nýtt skuldabréf, sbr. 4. mgr.
     Stjórn sjóðsins ákveður hvaða skilyrðum lántakendur og ábyrgðarmenn skuli fullnægja. Ábyrgð ábyrgðarmanns, eins eða fleiri, getur fallið niður enda setji námsmaður aðra tryggingu sem stjórn sjóðsins metur fullnægjandi.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að innheimta lántökugjöld af veittum lánum.

7. gr.

     Lán úr sjóðnum skulu verðtryggð. Verðtryggingin er miðuð við breytingar á lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands, sbr. lög nr. 13/1979. Reiknast verðtryggingin frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að lán er veitt, eða einstakir hlutar þess greiddir út, til fyrsta dags þess mánaðar er greiðsla fer fram.
     Verði breyting á grundvelli lánskjaravísitölunnar eða við útreikning hennar skal þriggja manna nefnd ákveða hvernig vísitölur samkvæmt nýjum breyttum grundvelli skulu tengdar eldri vísitölum. Nefndin skal þannig skipuð að Seðlabanki Íslands tilnefnir einn mann, Hæstiréttur annan en hagstofustjóri skal vera formaður nefndarinnar.
     Lánstími námsláns er ótilgreindur en greitt skal af námsláni skv. 8. gr. þar til skuldin er að fullu greidd.
     Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir námslok. Sjóðstjórn skilgreinir hvað telja beri námslok samkvæmt lögum þessum og úrskurðar um vafatilfelli.
     Vextir af lánum sjóðsins skulu vera breytilegir en þó aldrei hærri en 3% ársvextir af höfuðstól skuldarinnar. Vextir reiknast frá námslokum. Ríkisstjórnin, að tillögu menntamálaráðherra, tekur nánari ákvörðun um vexti námslána á hverjum tíma samkvæmt þessari grein.

8. gr.

     Árleg endurgreiðsla ákvarðast í tvennu lagi. Annars vegar er föst greiðsla, sem innheimt er á fyrri hluta ársins, óháð tekjum og hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimt er á síðari hluta ársins og er háð tekjum fyrra árs.
     Fasta ársgreiðslan er 48.000 kr. miðað við lánskjaravísitölu 3.198 nema eftirstöðvar láns ásamt verðbótum og vöxtum séu lægri. Þessi upphæð breytist á hverju ári í hlutfalli við lánskjaravísitölu 1. janúar hvers árs.
     Viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári. Hundraðshluti þessi er 5% við afborganir af skuldabréfinu fyrstu fimm árin. Við næstu afborganir skal hundraðshlutinn nema 7%. Frá viðbótargreiðslunni samkvæmt þessari málsgrein dregst fasta greiðslan skv. 2. mgr.
     Fjárhæðin skv. 3. mgr. skal margfölduð samkvæmt hlutfallslegri breytingu á lánskjaravísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.
     Skuldara ber á hverjum gjalddaga að greiða kostnað af innheimtu hverrar greiðslu.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu skv. 1. mgr., að hluta eða öllu leyti, ef skyndilegar og verulegar breytingar verða á högum skuldara, t.d. ef hann veikist alvarlega eða verður fyrir slysi er skerðir til muna ráðstöfunarfé hans og möguleika til að afla tekna. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að veita undanþágu frá ársgreiðslu skv. 1. mgr. ef nám, atvinnuleysi, veikindi, þungun, umönnun barna eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega eða fjölskyldu hans.
     Skuldari, sem sækir um undanþágu skv. 6. mgr., skal leggja fyrir sjóðstjórn ítarlegar upplýsingar um eignir sínar, lífeyri og önnur atriði er stjórnin telur máli skipta.
     Heimilt er að endurgreiða lán örar en mælt er fyrir í þessari grein.

9. gr.

     Hverri endurgreiðslu skal skipt í höfuðstól, verðbætur og vexti. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu skv. 7. gr. frá grunnvísitölu til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á vísitölunni milli gjalddaga.
     Skuldari skuldbindur sig til að greiða ársvexti skv. 7. gr. af höfuðstól skuldarinnar þegar hann hefur verið reiknaður út. Vextir reiknast frá námslokum og greiðast eftir á á sömu gjalddögum og afborganir.
     Endurgreiðslur eru aðfararhæfar án undangengins dóms eða sáttar ef um vanskil er að ræða. Sama gildir um eftirstöðvar skuldar sem felld er í gjalddaga skv. 11. gr.
     Endurgreiðslur, sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi andast, falla sjálfkrafa niður.

10. gr.

     Verði á endurgreiðslutíma námslána breyting á skattalögum þannig að veruleg breyting verði á því er telst útsvarsstofn frá því sem nú er skal hámark árlegrar endurgreiðslu skv. 8. gr. reiknað af stofni sem nefnd þriggja manna ákveður. Skal nefndin þannig skipuð að menntamálaráðherra tilnefnir einn nefndarmann, fjármálaráðherra annan en ríkisskattstjóri skal vera formaður nefndarinnar. Skal nefndin leitast við að setja reglur um útreikning endurgreiðslustofns sem geri hámark árlegrar endurgreiðslu hvers skuldara sem líkast því og orðið hefði að óbreyttum skattalögum.
     Sé skattþega áætlaður útsvarsstofn skal miða við hann. Komi í ljós að útsvarsstofn hafi verið of hátt áætlaður eða oftalinn og lánþegi því innt af hendi of háa greiðslu skal honum endurgreidd hin ofgreidda fjárhæð með þeim vöxtum sem á hverjum tíma eru reiknaðir af venjulegum sparisjóðsinnstæðum.
     Sé lánþegi á endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að telja fram tekjur sínar til Lánasjóðs og yrði hámark árlegrar endurgreiðslu ákveðið í samræmi við það. Geri hann það ekki eða telja verði framtal hans ósennilegt og ekki unnt að sannreyna útsvarsstofn samkvæmt því verður árleg endurgreiðsla hans ákveðin skv. 1. mgr. 8. gr.

11. gr.

     Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns skal stjórn sjóðsins heimilt að fella allt lánið í gjalddaga.
     Sömu heimild hefur sjóðstjórn ef í ljós kemur að lánþegi hefur vantalið tekjur á framtali sínu.
     Sú hækkun, sem verður á viðbótargreiðslu vegna endurskattlagningar lánþega, skal gjaldkræf þegar í stað og skulu reiknaðir af henni hæstu lögleyfðir dráttarvextir frá gjalddaga þeirrar viðbótargreiðslu sem hækkuð er.

12. gr.

     Sé námsmanni vegna örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum illmögulegt að dómi sjóðstjórnar að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild má veita honum aukalán úr sjóðnum enda verði höfð hliðsjón af þeim bótum sem hann fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf. Lán þessi eru veitt með sömu kjörum og almenn námslán.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að veita venjuleg skuldabréfalán sem séu verðtryggð og beri vexti sem eru sambærilegir við almenna útlánavexti banka á hverjum tíma. Vextir skulu reiknast frá útborgun láns. Lánstími skal að hámarki vera 10 ár. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um veitingu lána samkvæmt þessari málsgrein.

13. gr.

     Stjórn sjóðsins er heimilt að ákveða að námsmenn frá Norðurlöndum, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda nám hérlendis, hafi rétt til námslána samkvæmt lögum þessum með sama hætti og íslenskir námsmenn enda njóti þeir ekki aðstoðar frá heimalandi sínu.
     Einnig er heimilt að láta ákvæði þessarar greinar taka til einstakra annarra erlendra ríkisborgara njóti íslenskir námsmenn sambærilegra réttinda í heimalandi þeirra.

14. gr.

     Umsækjendur um lán skulu láta fylgja umsókn sinni allar þær upplýsingar sem sjóðstjórn telur máli skipta við ákvörðun um veitingu námsláns.
     Umsækjendur skulu tilgreina í lánsumsókn hvort þeir óski eftir fullu láni samkvæmt reglum sjóðsins eða lægri fjárhæð.
     Innlendum skólum, sem lög þessi taka til, er skylt að láta Lánasjóði í té nauðsynlega aðstoð við framkvæmd laganna, þar á meðal upplýsingar um framvindu náms umsækjenda.
     Skattstjórum er skylt að láta Lánasjóði í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
     Með einstaklingsbundnar upplýsingar, sem Lánasjóði eru látnar í té samkvæmt þessari grein, skal farið með sem trúnaðarmál.

III. KAFLI
Ráðstöfunarfé o.fl.

15. gr.

     Ráðstöfunarfé Lánasjóðs er:
  1. Endurgreiðslur samkvæmt lögum þessum og vextir og afborganir af eldri námslánum.
  2. Ríkisframlag.
  3. Lánsfé.

     Árlegur rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist af ráðstöfunarfé sjóðsins og með lántökugjöldum, sbr. 6. gr.
     Stjórn sjóðsins skal árlega gera fjárhagsáætlanir fyrir sjóðinn á næsta almanaksári með sama hætti og aðrar ríkisstofnanir.
     Ársreikningar sjóðsins skulu samþykktir af sjóðstjórn og endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun. Þeir skulu birtir í Stjórnartíðindum.

16. gr.

     Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð frekari ákvæði um framkvæmd þessara laga.
     Sjóðstjórn setur reglur um önnur atriði er greinir í lögum þessum og reglugerð skv. 1. mgr. Stjórnin gefur árlega út þessar reglur sem skulu samþykktar af ráðherra.
     Sjóðstjórn er heimilt, ef hagsmunasamtök námsmanna óska eftir, að draga félagsgjald frá láni enda komi ósk námsmanns þar að lútandi fram á lánsumsókn.

17. gr.

     Skjöl samkvæmt lögum þessum skulu undanþegin stimpilgjöldum samkvæmt lögum nr. 36/1978.

18. gr.

     Ef skuldari samkvæmt lögum þessum er jafnframt að endurgreiða námslán samkvæmt lögum nr. 72/1982 eða eldri lögum skal hann fyrst endurgreiða að fullu lán sem tekin eru samkvæmt þessum lögum. Greiðslur af eldri námsskuldum frestast þar til lán samkvæmt þessum lögum eru að fullu greidd.

19. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Falla samtímis úr gildi lög nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki.

Samþykkt á Alþingi 15. maí 1992.