Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 942, 115. löggjafarþing 442. mál: Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda (ávöxtun á fé, stigaútreikningur, verðtrygging o.fl.).
Lög nr. 33 27. maí 1992.

Lög um breyting á lögum nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo:
     Í hlutabréfum í fyrirtækjum sem hafa skráð kaup- og sölugengi á markaði hjá viðurkenndu verðbréfaþingi eða a.m.k. tveimur verðbréfafyrirtækjum. Þó skal eigi verja meira en 10% af árlegu ráðstöfunarfé sjóðsins til hlutabréfakaupa. Árleg hlutabréfakaup samkvæmt ákvæðum þessa töluliðar teljast einvörðungu kaup umfram sölu á hlutabréfum. Eigi er sjóðnum heimilt að eiga meira en 10% af hlutafé í hverju fyrirtæki. Heildarhlutabréfaeign sjóðsins skal á hverjum tíma ekki vera meiri en nemur 15% af hreinni eign til greiðslu lífeyris.

2. gr.

     6. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Dragist lengur en 20 daga fram yfir gjalddaga að iðgjöldum sé skilað er stjórn sjóðsins heimilt að innheimta vangoldin iðgjöld með vanskilavöxtum, sem Seðlabanki Íslands heimilar innlánsstofnunum hæsta að taka, frá gjalddaga.

3. gr.

     Við 3. mgr. 9. gr. laganna bætast eftirfarandi málsliðir: Frá 1. janúar 1992 skal í stað grundvallarlauna miða við grundvallarfjárhæð sem tengist lánskjaravísitölu þeirri sem Seðlabanki Íslands auglýsir með heimild í 39. gr. laga nr. 13/1979, með síðari breytingum. Grundvallarfjárhæð í janúar 1992 er 45.602 kr. miðað við lánskjaravísitölu sem gildir í þeim mánuði og tekur fjárhæðin sömu hlutfallsbreytingum í mánuði hverjum og lánskjaravísitalan. Verði gerð breyting á grundvelli eða útreikningi lánskjaravísitölu skal ráðherra, að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins, ákveða hvernig stigagrundvelli og breytingum hans skuli háttað þaðan í frá.

4. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:
     Lífeyrir, sem úrskurðaður hefur verið skv. 10., 11. og 12. gr., skal taka sömu hlutfallsbreytingum í mánuði hverjum og lánskjaravísitala sú sem Seðlabanki Íslands auglýsir með heimild í 39. gr. laga nr. 13/1979, með síðari breytingum. Verði gerð breyting á grundvelli eða útreikningi lánskjaravísitölu skal ráðherra, að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins, ákveða með hvaða hætti lífeyrir samkvæmt fyrrnefndum greinum skuli verðtryggður þaðan í frá.

5. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:
     Stjórn sjóðsins er heimilt að endurgreiða erlendum ríkisborgara, sem flyst úr landi, iðgjaldahluta launþega sem hann hefur greitt sjóðnum, enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að. Sjóðurinn skal endurgreiða iðgjöld sem honum eru greidd vegna starfsmanna sem ekki hafa náð 16 ára aldri eða þeirra sem náð hafa 75 ára aldri.

6. gr.

     21. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð, að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins, að lífeyrisréttindum þeim, sem um getur í 10.–13. gr., skuli breytt til samræmis við lífeyrisréttindi samkvæmt reglugerðum þeirra lífeyrissjóða sem starfa innan þeirra sambanda lífeyrissjóða sem aðild eiga að stjórn sjóðsins.
     Ráðherra er enn fremur heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga með reglugerð.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 14. maí 1992.