Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1065, 115. löggjafarþing 421. mál: fullorðinsfræðsla.
Lög nr. 47 1. júní 1992.

Lög um almenna fullorðinsfræðslu.


I. KAFLI
Markmið og gildissvið.

1. gr.

     Markmið laga þessara er að
 1. stuðla að jafnrétti fullorðinna til að afla sér menntunar án tillits til búsetu, aldurs, kyns, starfs eða fyrri menntunar,
 2. fullorðnir hafi hliðstæð tækifæri til náms og nemendur í grunn- og framhaldsskólum,
 3. skapa fullorðnum skilyrði til aukins þroska og alhliða menntunar sem nýtist í starfi, fjölskyldulífi og tómstundum og stuðlar að virkri þátttöku einstaklingsins í samfélaginu,
 4. skapa, í samræmi við fjárveitingar á hverjum tíma, fræðsluaðilum skilyrði til að þeir geti boðið þátttakendum viðunandi nám og námsaðstöðu.


2. gr.

     Lög þessi taka til eftirfarandi þátta:
 1. Náms á grunn-, framhalds- eða háskólastigi sem skipulagt er sérstaklega fyrir fullorðna og ekki er fjallað um í öðrum lögum.
 2. Almennrar lýðfræðslu og tómstundanáms sem ekki fellur undir a-lið.
 3. Þróunarstarfs innan almennrar fullorðinsfræðslu.


II. KAFLI
Yfirstjórn fullorðinsfræðslu.

3. gr.

     Menntamálaráðherra skipar 13 manna fullorðinsfræðsluráð til tveggja ára. Í ráðið skal skipa á eftirfarandi hátt: Einn fulltrúa menntamálaráðuneytisins, einn tilnefndan af félagsmálaráðherra, tvo tilnefnda af samtökum atvinnurekenda, þrjá tilnefnda af samtökum launafólks, þrjá fulltrúa þeirra aðila sem hafa á hendi fullorðinsfræðslu, einn tilnefndan af Samtökum sveitarfélaga, einn tilnefndan af Öryrkjabandalaginu. Menntamálaráðherra skipar formann ráðsins án tilnefningar. Kveða skal nánar á um skipan ráðsins í reglugerð.
     Kostnaður við fullorðinsfræðsluráð greiðist úr ríkissjóði.

4. gr.

     Verkefni fullorðinsfræðsluráðs eru að
 1. vera stjórnvöldum til ráðuneytis um meginstefnu og áhersluþætti í fullorðinsfræðslu, jafnt starfsmenntun samkvæmt sérstökum lögum sem almenna fullorðinsfræðslu,
 2. afla gagna og miðla upplýsingum um fullorðinsfræðslu í landinu og erlendis,
 3. beita sér fyrir samræmdu faglegu mati á námskeiðum,
 4. stuðla að samstarfi milli skóla og annarra sem hafa á hendi fullorðinsfræðslu,
 5. beita sér fyrir menntun kennara og leiðbeinenda fyrir fullorðna,
 6. sjá um önnur verkefni er ráðherra felur ráðinu eða það sjálft telur nauðsynlegt að vinna að.


III. KAFLI
Skipulag almennrar fullorðinsfræðslu.

5. gr.

     Menntamálaráðherra skipar fimm menn í nefnd um almenna fullorðinsfræðslu, þar af skulu að minnsta kosti fjórir eiga sæti í fullorðinsfræðsluráði. Menntamálaráðherra skipar formann úr hópi nefndarmanna. Skipunartími nefndarinnar er hinn sami og fullorðinsfræðsluráðs.
     Kostnaður við nefnd um almenna fullorðinsfræðslu greiðist úr ríkissjóði.

6. gr.

     Verkefni nefndar um almenna fullorðinsfræðslu eru að
 1. vera menntamálaráðuneyti og fræðsluaðilum til ráðuneytis um framkvæmd almennrar fullorðinsfræðslu,
 2. vera tengiliður menntamálaráðuneytis við fræðsluaðila,
 3. fara með stjórn menntunarsjóðs fullorðinna og annast styrkveitingar úr sjóðnum, sbr. 12. gr. laga þessara,
 4. stuðla að útgáfu og samnýtingu námsefnis og beita sér fyrir útgáfu upplýsingarita á sviði almennrar fullorðinsfræðslu.


7. gr.

     Nemandi, sem lokið hefur námi utan hins almenna skólakerfis, sbr. lög um skólakerfi nr. 55/1974, getur fengið það metið til námseininga í skólakerfinu samkvæmt reglum sem menntamálaráðuneytið setur. Vitnisburður um námsárangur utan skólakerfisins skal metinn jafngildur vitnisburði á hliðstæðu skólastigi hins almenna skólakerfis.
     Vísa má ágreiningi um námsmat til menntamálaráðuneytisins til úrskurðar. Niðurstaða ráðuneytisins er bindandi.

8. gr.

     Við skipulagningu og framkvæmd almennrar fullorðinsfræðslu skal tekið tillit til sérþarfa þeirra sem vegna frávika frá eðlilegum þroskaferli og vegna sjúkdóma eða hvers konar fötlunar geta ekki notið venjulegrar fræðsluskipunar.

9. gr.

     Skólahúsnæði og aðstaða í skólum í eigu opinberra aðila skal að öðru jöfnu standa fræðsluaðilum til boða á þeim tímum þegar almenn kennsla eða starf í skólanum liggur niðri. Fræðsluaðila ber að semja um slík afnot við stjórnendur skóla og þá aðila sem eru ábyrgir fyrir rekstri skólans. Um skiptingu kostnaðar og aðra notkun skólahúsnæðis til fullorðinsfræðslu skal setja ákvæði í reglugerð.

10. gr.

     Sá sem hefur með höndum almenna fullorðinsfræðslu og fær til þess fjárstuðning samkvæmt lögum þessum ber ábyrgð á þeirri fræðslu sem veitt er og að farið sé eftir gildandi lögum og reglugerðum. Kveða skal nánar á um þennan þátt í reglugerð.

IV. KAFLI
Fjármál.

11. gr.

     Stofna skal menntunarsjóð fullorðinna. Tekjur sjóðsins eru:
 1. Framlag ríkissjóðs á fjárlögum ár hvert.
 2. Aðrar tekjur er sjóðurinn kann að hafa, t.d. með útgáfu og sölu á námsefni eða annarri þjónustu.

     Menntunarsjóður fullorðinna er í umsjón menntamálaráðuneytis. Nefnd um almenna fullorðinsfræðslu er jafnframt stjórn sjóðsins. Nánar skal kveðið á um starfsemi sjóðsins í reglugerð.

12. gr.

     Stjórn menntunarsjóðs fullorðinna úthlutar styrkjum úr sjóðnum. Fræðsluaðili er njóta vill styrks úr menntunarsjóði sækir um það til sjóðstjórnar. Hann skal leggja fram áætlun um þá fræðslu sem hann hyggst bjóða á komandi missiri, fyrir 1. júní vegna haustmissiris og fyrir 1. nóvember vegna vormissiris. Heimilt er að áskilja í reglugerð að fræðsluaðili fullnægi tilteknum skilyrðum til að geta fengið styrk, svo sem um námsaðstöðu, kennslukrafta eða námsefni. Heimilt er að veita tiltekinni menntun forgang að styrkjum.
     Styrki til fullorðinsfræðslu má veita
 1. fræðsluaðilum,
 2. fjölmiðlum eða fræðsluaðila er samvinnu hefur við fjölmiðil um verkefni á sviði almennrar fullorðinsfræðslu,
 3. til þróunarverkefna og útgáfu á vegum nefndar um almenna fullorðinsfræðslu eða fræðsluaðila,
 4. til annarra verkefna á sviði almennrar fullorðinsfræðslu samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar.

     Nánari ákvæði um úthlutun styrkja skal setja í reglugerð.

13. gr.

     Námsefni, sem samið er með tilstyrk menntunarsjóðs fullorðinna, skal vera öðrum fræðsluaðilum til frjálsra afnota, enda beri þeir ábyrgð á að notkun þeirra á efninu brjóti ekki í bága við höfundarétt.

14. gr.

     Fræðsluaðilum, sem rétt eiga á styrk samkvæmt lögum þessum, er skylt að veita menntamálaráðuneytinu upplýsingar um það nám sem í boði er. Nánari ákvæði um þetta skal setja í reglugerð.

V. KAFLI
Um gildistöku og reglugerðir.

15. gr.

     Menntamálaráðherra setur nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í reglugerð, þar á meðal um afmörkun og gildissvið, að fengnum tillögum nefndar um almenna fullorðinsfræðslu.

16. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Lögin skal endurskoða eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 20. maí 1992.