Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1047, 115. löggjafarþing 198. mál: skattskylda innlánsstofnana (fjárfestingarlánasjóðir).
Lög nr. 48 1. júní 1992.

Lög um breyting á lögum nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Í stað 1. mgr. 1. gr. laganna koma þrjár málsgreinar er orðast svo:
     Viðskiptabankar, sparisjóðir, veðdeildir við innlánsstofnanir og opinberir fjárfestingarlánasjóðir, sbr. þó 2. gr., skulu með þeim takmörkunum, er síðar greinir, skyld til að greiða tekjuskatt af öllum tekjum sínum hvar sem þeirra er aflað og eignarskatt af öllum eignum sínum hvar sem þær eru, í samræmi við ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
     Opinberir fjárfestingarlánasjóðir skv. 1. mgr. skulu undanþegnir aðstöðugjaldi, sbr. V. kafla laga nr. 90/1990, um tekjustofna sveitarfélaga.
     Lögbundin framlög, sem opinberir fjárfestingarlánasjóðir skv. 1. mgr. fá frá ríkissjóði eða sveitarfélögum, sem og lögbundnar tekjur þeirra aðrar, teljast ekki til tekjuskattsstofns viðkomandi sjóðs.

2. gr.

     1. málsl. 2. gr. laganna orðast svo:
     Til skattskyldra tekna og eigna skv. 1. gr. teljast þó ekki tekjur og eignir Byggðastofnunar, Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna, Framkvæmdasjóðs Íslands, Framkvæmdasjóðs fatlaðra, Framkvæmdasjóðs aldraðra, Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, Lánasjóðs sveitarfélaga og Lánasjóðs Vestur-Norðurlanda.

3. gr.

     Á eftir 5. gr. laganna komi ný grein svohljóðandi:
     Þeir sjóðir, sem skattskyldir eru skv. 1. gr., skulu undanþegnir stimpilgjaldi af fjárskuldbindingum sem þeir kunna að taka á sig.

4. gr.

     Við gildistöku laga þessara falla úr gildi eftirtalin lagaákvæði:
  1. 29. gr. laga nr. 76/1987, um Iðnlánasjóð.
  2. 6. gr. laga nr. 9/1970, um Iðnþróunarsjóð.
  3. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 89/1966, um Framleiðnisjóð landbúnaðarins.
  4. 8. gr. laga nr. 62/1979, um Landflutningasjóð.
  5. 16. gr. laga nr. 45/1987, um Stofnlánadeild landbúnaðarins.
  6. 33. gr. laga nr. 79/1985, um skipulag ferðamála.
  7. 36. gr. hafnalaga, nr. 69/1984.
  8. 19. gr. laga nr. 44/1976, um Fiskveiðasjóð Íslands.
  9. 6. gr. laga nr. 47/1970, um Útflutningslánasjóð.
  10. Í 77. gr. orkulaga, nr. 58/1967, falli niður orðið „Orkusjóður“.

     Jafnframt falla úr gildi önnur lagaákvæði sem undanþiggja sjóði, sem skattskyldir verða skv. 1. gr., skattskyldu.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts og eignarskatts á árinu 1993 vegna tekna á árinu 1992 og eigna í lok þess árs, sbr. þó ákvæði 12. gr.

II. KAFLI
Ákvæði til bráðabirgða.

6. gr.

     Með skattframtali á árinu 1993 vegna tekna á árinu 1992 og eigna í lok þess árs skulu aðilar, sem skattskyldir verða samkvæmt ákvæðum þessara laga en voru það ekki samkvæmt eldri lögum, framkvæma endurmat á þeim fyrnanlegu eignum, sbr. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem voru í eigu þeirra í byrjun þess árs.
     Endurmatið skal framkvæma þannig að kostnaðarverði (stofnverði) skal breytt eftir verðbreytingarstuðli fyrir hvert ár. Kostnaðarverð, þannig framreiknað, myndar fyrningargrunn sem fyrning reiknast af, í fyrsta sinn á árinu 1992.
     Til frádráttar framreiknuðu stofnverði reiknast sá hundraðshluti fyrninga af stofnverðinu sem um getur í 38. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á, fyrir hvert ár frá og með kaup- eða byggingarári til ársloka 1991. Samtala þessara fyrninga telst fengin heildarfyrning en hún skal þó aldrei vera hærri en 90% af framreiknuðu stofnverði, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
     Mismunur fyrningargrunns, sbr. 2. mgr. þessa ákvæðis, og framreiknaðra fyrninga, sbr. 3. mgr., telst eftirstöðvar fyrningarverðs. Fyrningargrunnur og fengnar fyrningar breytast síðan árlega, sbr. 26. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
     Ríkisskattstjóri skal reikna verðbreytingarstuðul fyrir eignir sem aðili skv. 1. mgr. þessa bráðabirgðaákvæðis hefur eignast á árunum 1977 til 1991. Stuðullinn reiknast í samræmi við ákvæði 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 26. gr. sömu laga, með síðari breytingum. Hafi skattaðili eignast fyrnanlegar eignir skv. 1., 3., 4. eða 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, fyrir ársbyrjun 1977 skulu þær ekki endurmetnar samkvæmt þessu ákvæði. Þegar endurmetnar eru eignir skv. 2. tölul. greindrar 32. gr. sem verið hafa í eigu skattaðila í fimmtán ár eða lengur skal ríkisskattstjóri reikna stuðul til notkunar í því sambandi og skal hann hafa sömu viðmiðun og um getur í upphafi þessarar málsgreinar. Liggi byggingarvísitala ekki fyrir skal stuðullinn reiknaður eftir hliðstæðum upplýsingum og skal ríkisskattstjóri hafa samráð við Hagstofu Íslands við útreikninginn.
     Endurmatsverð mannvirkja, sbr. 2. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum, er skattaðila heimilt að ákveða jafnt gildandi fasteignamati í árslok 1992 í stað framreiknaðs kostnaðarverðs (stofnverðs). Sé þessi heimild notuð myndar fasteignamatið nýjan fyrningargrunn. Sé fasteignamatið notað sem fyrningargrunnur samkvæmt þessari málsgrein reiknast ekki fyrningar skv. 3. mgr. fyrir liðinn tíma.
     Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi má víkja frá skyldu til endurmats samkvæmt ákvæði þessu að því er varðar eignir skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og veitir ríkisskattstjóri heimild til slíkra frávika.
     Reglur þessa ákvæðis gilda einnig um endurmat ófyrnanlegra eigna eftir því sem við á.
     Aðilar skv. 1. mgr. þessa ákvæðis, sem eiga eignir í ársbyrjun 1992 sem ber að endurmeta, skulu senda skattstjóra, eigi síðar en með skattframtali 1993, greinargerð um endurmatið í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
     Endurmatsbreyting samkvæmt þessu ákvæði telst ekki til tekna heldur færist í sérstakan reikning, endurmatsreikning, sem telst til eigin fjár.

7. gr.

     Við ákvörðun á söluhagnaði eigna, sem skattaðili skv. 1. mgr. 6. gr. hefur eignast fyrir árið 1992, skal stofnverð þeirra framreiknað eftir sömu verðbreytingarstuðlum og með sama hætti og endurmetið er skv. 6. gr., eftir því sem við á. Eftir þann tíma gilda ákvæði 26. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, um beitingu verðbreytingarstuðuls. Sé um sölu á fyrnanlegum eignum að ræða fer á sama hátt um framreikning fyrninga umræddra eigna.
     Þegar eignir skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem aðili eignaðist fyrir ársbyrjun 1977, eru seldar skal framreikna stofnverð þeirra frá kaupári til söluárs með verðbreytingarstuðli kaupárs og telst söluhagnaður þá mismunur á söluverði og 10% af þannig framreiknuðu stofnverði.
     Nú hefur ríkisskattstjóri veitt undanþágu frá endurmati eigna, sbr. 7. mgr. 6. gr., og telst þá söluverð þeirra að fullu til tekna á söluári.

8. gr.

     Aðilar, sem skattskyldir verða samkvæmt lögum þessum, skulu reikna verðbreytingarfærslu skv. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, í fyrsta sinn vegna ársins 1992 miðað við stöðu eigna og skulda í lok ársins 1991.

9. gr.

     Við mat á eignum í ársbyrjun 1992 skulu skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum draga 1% frá samanlögðum útlánum og veittum ábyrgðum í árslok 1991.

10. gr.

     Ákvæði laga þessara skulu þó ekki koma til framkvæmda um Iðnþróunarsjóð fyrr en við álagningu 1995 vegna tekna ársins 1994 og eigna í lok þess árs.

11. gr.

     Skuldaskjöl vegna lánveitinga úr Fiskveiðasjóði Íslands, sem ákveðnar hafa verið með formlegu lánsloforði Fiskveiðasjóðs fyrir gildistöku laga þessara, skulu undanþegin stimpilgjaldi.
     Skuldaskjöl vegna lánveitinga úr Fiskveiðasjóði skulu undanþegin stimpilgjaldi þegar andvirði lánsins gengur til greiðslu eldri lána úr sjóðnum. Slík skjöl skulu sérstaklega auðkennd.

12. gr.

     Á árinu 1992 skulu aðilar, sem verða skattskyldir samkvæmt lögum þessum, greiða sérstaka fyrirframgreiðslu vegna væntanlegrar álagningar skatta samkvæmt lögum þessum. Kemur hún í stað fyrirframgreiðslu skv. 110. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.
     Stofn sérstakrar fyrirframgreiðslu skal vera hagnaður viðkomandi aðila á árinu 1991, ákvarðaður í samræmi við góða reikningskilavenju. Skattskyldir aðilar samkvæmt lögum þessum skulu skila til skattstjóra fyrir 1. júlí 1992 greinargerð um hagnað ársins 1991. Skattyfirvöld skulu ákveða fyrirframgreiðsluskyldu samkvæmt lögum þessum og skal hún innt af hendi á tímabilinu ágúst til desember 1992 með fimm jöfnum greiðslum. Gjalddagi fyrirframgreiðslunnar er 15. dagur hvers mánaðar og eindagi 10 dögum síðar. Fyrirframgreiðsla hvers mánaðar skal nema 4% af stofni og skal hún ganga upp í álagningu á árinu 1993 vegna tekna ársins 1992.
     Komi í ljós við álagningu 1993 að skattskyldur aðili hafi greitt meira í fyrirframgreiðslu en nemur álögðum gjöldum samkvæmt lögum þessum skal ríkissjóður þegar endurgreiða það sem umfram er. Reynist álögð gjöld hærri en fyrirframgreiðsla skal það sem vangreitt er innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum fyrsta hvers mánaðar það sem eftir lifir álagningarársins.
     Ákvæði laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, að því er varðar vanskil, viðurlög vegna vanskila, könnun á skilum, ákvörðun skila vegna vanrækslu eða vanskila á greinargerð, greiðsluskrár, kærufresti, úrskurði á kærum og áfrýjun þeirra, skulu gilda um fyrirframgreiðslu skv. 1. og 2. mgr. eftir því sem við á.
     Frá og með gjaldárinu 1993 skal fara um greiðslur aðila, sem skattskyldir eru samkvæmt lögum þessum, eftir ákvæðum XIII. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Ákvæði þess kafla gilda einnig um innheimtu á mismun álagningar og fyrirframgreiðslu á árinu 1992 eftir því sem við getur átt.
     Fjármálaráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd fyrirframgreiðslu samkvæmt þessu ákvæði.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1992.