Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1011, 115. löggjafarþing 218. mál: Háskólinn á Akureyri (heildarlög).
Lög nr. 51 1. júní 1992.

Lög um Háskólann á Akureyri.


I. KAFLI
Hlutverk.

1. gr.

     Háskólinn á Akureyri skal vera vísindaleg fræðslu- og rannsóknastofnun er veiti nemendum sínum menntun til þess að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum, gegna ýmsum störfum í atvinnulífinu, öðrum ábyrgðarstöðum og stunda frekara háskólanám. Háskólanum er einnig heimilt að annast endurmenntun á vettvangi fræða sem kennd eru í deildum skólans, sbr. 9. gr.

II. KAFLI
Stjórn.

2. gr.

     Háskólinn á Akureyri heyrir undir menntamálaráðuneyti.
     Í háskólanefnd eiga sæti:
  1. Rektor sem jafnframt er formaður nefndarinnar.
  2. Forstöðumenn deilda háskólans.
  3. Einn fulltrúi fastráðinna kennara og annar til vara, kjörnir til tveggja ára á almennum fundi þeirra.
  4. Einn fulltrúi og annar til vara, kjörnir af starfsmönnum öðrum en fastráðnum kennurum til tveggja ára á almennum fundi þeirra.
  5. Tveir fulltrúar nemenda og tveir til vara kjörnir til eins árs á almennum fundi þeirra.
  6. Framkvæmdastjóri, sbr. 4. gr., á sæti á fundum nefndarinnar og hefur þar málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Framkvæmdastjóri er ritari nefndarinnar.

     Háskólanefnd kýs sér varaformann úr hópi forstöðumanna deilda til eins árs í senn og er hann jafnframt staðgengill rektors.
     Rektor boðar til funda í háskólanefnd eftir þörfum. Skylt er að boða til fundar ef fjórir eða fleiri nefndarmenn krefjast þess. Varamenn sitja fundi nefndarinnar í forföllum aðalfulltrúa. Háskólanefnd er ályktunarhæf ef tveir þriðju hlutar nefndarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði rektors.
     Háskólanefnd, undir forsæti rektors, fer með yfirstjórn málefna er varða háskólann í heild, stuðlar að, skipuleggur og hefur umsjón með samvinnu deilda og samskiptum við aðila utan skólans, þar með talið samstarf við aðra skóla og rannsóknastofnanir. Enn fremur afgreiðir háskólanefnd árlega fjárhagsáætlun fyrir skólann í heild og hefur að öðru leyti úrskurðarvald í málefnum háskólans eftir því sem lög mæla og nánar er ákveðið í reglugerð.

3. gr.

     Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans. Hann vinnur að mörkun heildarstefnu í málefnum háskólans og hefur eftirlit með rekstri hans, kennslu, rannsóknum, þjónustu og annarri starfsemi.
     Rektor er skipaður af menntamálaráðuneyti til fimm ára. Skal staðan auglýst laus til umsóknar.
     Háskólanefnd skipar hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna stöðu rektors. Menntamálaráðuneytið tilnefnir einn mann í nefndina en háskólanefnd Háskólans á Akureyri hina tvo og er annar þeirra formaður nefndarinnar. Í nefnd þessa má skipa þá eina sem lokið hafa æðri prófgráðu við háskóla og öðlast stjórnunarreynslu á háskólastigi.
     Hæfni umsækjanda um rektorsembætti skal metin eftir vísinda- og útgáfustörfum hans, ferli hans sem háskólakennara, stjórnunarreynslu og öðrum störfum sem á einhvern hátt lúta að háskólastjórn og æðri menntun. Engum manni má veita embætti rektors við Háskólann á Akureyri nema meiri hluti dómnefndar hafi látið í ljós það álit að hann sé hæfur til þess og meiri hluti háskólanefndar hafi mælt með honum.
     Heimilt er að tillögu háskólanefndar að endurskipa sama mann rektor önnur fimm ár.

4. gr.

     Rektor ræður framkvæmdastjóra að fengnum tillögum háskólanefndar. Framkvæmdastjóri stýrir í umboði rektors og í samvinnu við forstöðumenn deilda skrifstofuhaldi háskólans og annast fjárreiður hans. Með sama hætti undirbýr hann árlega fjárhagsáætlun og hefur eftirlit með því að rekstur skólans sé í samræmi við gildandi heimildir.
     Rektor ræður annað starfslið við stjórnsýslu og rekstur eftir því sem fjárveitingar leyfa og heimildir standa til.

5. gr.

     Forstöðumaður, í umboði deildarfundar, hefur yfirumsjón með starfsemi og rekstri deildar og vinnur að stefnumörkun í málefnum hennar. Hann á jafnframt sæti í háskólanefnd.
     Forstöðumaður hverrar deildar er kjörinn á deildarfundi. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Kjörgengur er hver sá umsækjandi sem uppfyllir hæfnisskilyrði um stöðu háskólakennara, sbr. 10. gr. þessara laga, 11. gr. laga nr. 131/1990, um Háskóla Íslands, eða 32. gr. laga nr. 29/1988, um Kennaraháskóla Íslands, á vettvangi fræða sem annaðhvort eru kennd í viðkomandi deild eða tengjast viðfangsefnum hennar. Að fengnu samþykki háskólanefndar ræður rektor þann sem kjör hlýtur til þriggja ára. Deildarfundur kýs jafnframt staðgengil hans til þriggja ára úr hópi fastráðinna kennara við deildina. Í reglugerð skal kveða nánar á um tilhögun við kjör forstöðumanns.

6. gr.

     Á deildarfundum eiga sæti forstöðumaður deildar, prófessorar, dósentar og lektorar hvort sem þeir gegna fullu starfi eða hlutastarfi. Einnig eiga þar sæti tveir fulltrúar stundakennara og tveir fulltrúar nemenda viðkomandi deildar. Framkvæmdastjóra eða fulltrúa hans er heimilt að sitja deildarfundi með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.
     Deildarfundur er ályktunarfær ef fund sækir meira en helmingur atkvæðisbærra manna. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði forstöðumanns.
     Deildarfundur fjallar um meginatriði í starfsemi viðkomandi deildar og ber ásamt forstöðumanni ábyrgð á að hún sé í samræmi við lög og gildandi reglur. Deildarfundur sker úr málum er varða skipulag kennslu og próf, kýs forstöðumann, leggur fram tillögu til háskólanefndar um árlega fjárhagsáætlun deildarinnar og sinnir að öðru leyti þeim verkefnum sem honum eru falin í lögum og reglugerð.

7. gr.

     Nánar skal ákveðið í reglugerð um verksvið og starfsskyldur háskólanefndar, deildarfunda, rektors, framkvæmdastjóra, forstöðumanna deilda og annars starfsfólks háskólans.

8. gr.

     Háskólinn á Akureyri og einstakar deildir hans skulu fyrir sitt leyti hafa samráð og samstarf við aðra skóla á háskólastigi til að nýta sem best tiltæka starfskrafta og gagnakost og stuðla með hagkvæmum hætti að fjölbreyttari menntunartækifærum. Í því skyni skulu samstarfsaðilar m.a. setja framkvæmdareglur um gagnkvæma viðurkenningu námsþátta. Háskólanum er einnig heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir, sem tengjast starfssviði skólans, um kennslu, rannsóknir og ráðningu starfsfólks. Réttindi þess skulu skilgreind í reglugerð.

III. KAFLI
Kennarar, deildir og stofnanir háskólans.

9. gr.

     Í Háskólanum á Akureyri eru þessar deildir: heilbrigðisdeild, rekstrardeild og sjávarútvegsdeild. Menntamálaráðuneytið heimilar stofnun fleiri deilda og skiptingu deilda í námsbrautir að fengnum tillögum háskólanefndar og innan marka fjárveitinga í fjárlögum.
     Deildir háskólans skulu hafa með sér náið samstarf. Þannig skal með samnýtingu mannafla, bókasafns, kennslutækja og annarrar aðstöðu stefnt að því að efla fjölbreytta menntunarkosti og tryggja hagkvæmni í rekstri. Í þessu skyni má nýta starfsskyldu þeirra sem ráðnir eru til starfa við einhverja deild háskólans í þágu annarra deilda eða skólans í heild.
     Í reglugerð skal setja nánari ákvæði um deildir háskólans, þar með talið mat á starfsemi þeirra.

10. gr.

     Fastir kennarar háskólans eru lektorar, dósentar eða prófessorar. Einnig starfa stundakennarar við skólann. Dósents- eða prófessorsstöðu skal því aðeins stofna að forsendur séu fyrir því að staðan tengist rannsóknastörfum.
     Forseti Íslands skipar prófessora, menntamálaráðuneyti skipar dósenta, en háskólanefnd ræður lektora. Rektor ræður stundakennara.
     Þá eina má skipa fasta kennara sem lokið hafa fullnaðarprófi frá háskóla eða annarri sambærilegri stofnun í aðalgrein þeirri er þeir eiga að kenna.
     Háskólanefnd skipar hverju sinni þriggja manna nefnd til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna fastri stöðu prófessors, dósents eða lektors. Menntamálaráðuneyti tilnefnir einn mann í nefndina, Háskóli Íslands annan og háskólanefnd Háskólans á Akureyri hinn þriðja og er hann formaður nefndarinnar. Í nefnd þessa má skipa þá eina sem lokið hafa háskólaprófi í hlutaðeigandi grein eða eru að öðru leyti viðurkenndir sérfræðingar í greininni.
     Dómnefnd skal láta uppi rökstutt álit um það hvort af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda svo og námsferli hans og störfum megi ráða að hann sé hæfur til að gegna embættinu. Álitsgerð nefndarinnar skal höfð til hliðsjónar þegar embættið er veitt og má engum manni veita embætti prófessors, dósents eða lektors við Háskólann á Akureyri nema meiri hluti dómnefndar hafi látið í ljós það álit að hann sé hæfur til þess og að meiri hluti háskólanefndar hafi mælt með honum.
     Um starfsskyldur og réttindi kennara fer eftir kjarasamningum og nánari ákvæðum í lögum og reglugerðum.

11. gr.

     Háskólanefnd er heimilt að veita kennurum og öðrum fastráðnum starfsmönnum háskólans rannsóknarleyfi um allt að eins árs skeið með föstum embættislaunum, enda liggi fyrir fullnægjandi greinargerð um hvernig umsækjandi hyggst verja rannsóknarleyfinu til að auka þekkingu sína eða sinna sérstökum rannsóknaverkefnum. Leita skal umsagnar rektors um umsókn um rannsóknarleyfi.
     Eftir því sem fjárlög heimila getur háskólanefnd veitt einstaklingi, sem rannsóknarleyfi hlýtur, styrk til að standa straum af nauðsynlegum ferða- og dvalarkostnaði í sambandi við rannsóknarleyfið.
     Nánari reglur um rannsóknarleyfi og styrkveitingar má setja í reglugerð.

12. gr.

     Háskólanum er heimilt með samþykki menntamálaráðuneytis að koma á fót rannsóknastofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra aðila.
     Kennarar skólans geta fullnægt rannsóknaskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu stofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.
     Í reglugerð skal m.a. kveða á um starfssvið og deildir stofnunarinnar, stjórn, tengsl við háskólanefnd og deildir skólans, samstarf við rannsóknastofnanir sjávarútvegsins og aðrar stofnanir sem tengjast kennslu- og rannsóknasviði háskólans hverju sinni.
     Háskólanefnd skal setja reglur um skipulag og ráðstöfun á rannsóknasjóðum sem háskólinn hefur til umráða.

13. gr.

     Við háskólann er rannsókna- og sérfræðibókasafn sem tengist fræðasviðum skólans. Hlutverk þess er að veita nemendum og kennurum háskólans og öðrum lánþegum safnsins sérhæfða þjónustu vegna kennslu, náms og rannsókna.
     Rektor ræður yfirbókavörð að fengnum tillögum háskólanefndar. Setja skal í reglugerð nánari ákvæði um starfrækslu bókasafns og tilhögun ráðninga yfirbókavarðar og annars starfsfólks safnsins.

IV. KAFLI
Nemendur, kennsla og próf.

14. gr.

     Háskólaárið telst frá 15. ágúst til jafnlengdar næsta ár. Kennsluár skiptist í tvö kennslumissiri, haustmissiri og vormissiri. Á kennslumissiri skulu vera eigi færri en 15 kennsluvikur, próf og leyfi koma þar til viðbótar. Missiraskipting, próftímabil, leyfi og önnur kennsluhlé skulu ákveðin í reglugerð.

15. gr.

     Hver sá, sem staðist hefur stúdentspróf frá íslenskum skóla sem heimild hefur til að brautskrá stúdenta, getur sótt um að skrá sig til náms við háskólann gegn því að greiða skrásetningargjald. Háskólanefnd er heimilt að leyfa skrásetningu einstaklinga er lokið hafa öðrum prófum en að ofan greinir ef hlutaðeigandi deild eða námsbraut telur að um sé að ræða fullnægjandi undirbúning til náms við háskólann. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um inntökuskilyrði.
     Inntaka nemenda er í höndum háskólanefndar og getur hún að fengnu samþykki menntamálaráðuneytis takmarkað fjölda þeirra sem hefja nám við deildir skólans. Setja skal í reglugerð ákvæði er mæla fyrir um árlega skráningu nemenda. Skrásetningargjöld skulu háð árlegu samþykki háskólanefndar og menntamálaráðuneytis.

16. gr.

     Í reglugerð háskólans skal setja ákvæði um prófgreinar, próftíma, fullnaðarpróf, einkunnir, prófdómara og annað er að prófum lýtur.

V. KAFLI
Ýmis ákvæði.

17. gr.

     Menntamálaráðherra setur, að fengnum tillögum háskólanefndar, reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd laganna.

18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt falla úr gildi lög nr. 18/1988, um Háskólann á Akureyri.

Samþykkt á Alþingi 18. maí 1992.