Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 568, 116. löggjafarþing 295. mál: fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytis.
Lög nr. 115 30. desember 1992.

Lög um fjármálaráðstafanir á sviði dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.


I. KAFLI
Breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987.

1. gr.

     Á eftir 2. mgr. 115. gr. laganna kemur ný málsgrein svohljóðandi:
     Dómsmálaráðherra er heimilt að leggja á sérstakt umferðaröryggisgjald er renni til Umferðarráðs sem má nema allt að 100 kr. og greiðist við almenna skoðun ökutækis, skráningu ökutækis og skráningu eigendaskipta að ökutæki. Gjald þetta er grunngjald og er ráðherra heimilt að hækka gjaldið allt að því að það hækki í réttu hlutfalli við vísitölu framfærslukostnaðar. Grunntaxti er miðaður við 1. september 1992, þ.e. 161,3 stig. Ráðherra setur reglur um innheimtu umferðaröryggisgjalds og um skil þess í ríkissjóð.

II. KAFLI
Fjármálaráðstafanir á sviði kirkjumála.

2. gr.

     Á árinu 1993 skal taka af hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti samkvæmt lögum um kirkjugarða, nr. 21 23. apríl 1963, sbr. lög nr. 89 29. desember 1987, um breytingu á þeim lögum, til að standa undir kostnaði ríkisins við eftirtalin verkefni á sviði kirkjumála:
  1. Viðhald prestssetra.
  2. Byggingu prestssetra.
  3. Kaup eigna á prestssetursjörðum.
  4. Embætti söngmálastjóra þjóðkirkjunnar og Tónskóla þjóðkirkjunnar.
  5. Starfsþjálfun guðfræðikandídata.
  6. Kirkjuþing, prestastefnu og kirkjuráð.
  7. Ýmis verkefni.
  8. Fjölskylduþjónustu kirkjunnar.


3. gr.

     Meðan ekki liggur fyrir hverjar heildargreiðslur ríkisins skv. 2. gr. verða á árinu skal ríkissjóður halda eftir 20% af hlutdeild kirkjugarða í óskiptum tekjuskatti við mánaðarlega greiðslu gjaldanna til kirkjugarða. Þegar upplýsingar um heildargreiðslur þessar liggja fyrir, og eigi síðar en 15. apríl 1994, skal endurgreiða kirkjugörðum það sem oftekið kann að hafa verið, en ella skal, ef því er að skipta, taka af hlutdeild þeirra á árinu 1994, og eigi síðar en 15. apríl, það sem kann að vera ógreitt. Með heildargreiðslum er átt við greiðslur samkvæmt greiðsluuppgjöri ríkissjóðs fyrir árið 1993.

4. gr.

     Á lögum um kirkjugarða verða svofelldar breytingar:
  1. 3. mgr. 4. gr. laganna fellur niður.
  2. Við 5. mgr. 27. gr. laganna bætist: Laun umsjónarmanns kirkjugarða, sbr. 4. gr., greiðast úr Kirkjugarðasjóði.


III. KAFLI
Gildistaka.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1993.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1992.