Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 912, 116. löggjafarþing 115. mál: Síldarverksmiðjur ríkisins.
Lög nr. 20 5. apríl 1993.

Lög um stofnun hlutafélags um Síldarverksmiðjur ríkisins.


1. gr.

     Ríkisstjórnin skal stofna hlutafélag með heimili og varnarþing á Siglufirði sem tekur við rekstri Síldarverksmiðja ríkisins. Ríkisstjórninni er í því skyni heimilt að leggja hlutafélaginu til eignir Síldarverksmiðja ríkisins, þar með taldar fasteignir, sem stofnfé. Mat skal fara fram á eignum og skuldum verksmiðjanna til viðmiðunar um upphæð hlutafjár og eiginfjárstöðu nýja hlutafélagsins.

2. gr.

     Tilgangur félagsins er að framleiða og selja fiskimjöl og lýsi, svo og önnur skyld starfsemi, samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Í því skyni er félaginu heimilt að gerast eignaraðili að stofnunum eða öðrum félögum, þar á meðal hlutafélögum.
     Heimilt er að breyta tilgangi félagsins á hluthafafundi.

3. gr.

     Ríkissjóður er eigandi allra hlutabréfa félagsins við stofnun þess. Sjávarútvegsráðherra fer með eignarhlut ríkisins í félaginu. Heimilt er að selja öll hlutabréfin í félaginu eða hluta þeirra samkvæmt nánari ákvörðun hluthafa.

4. gr.

     Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög, með áorðnum breytingum, gilda ekki um tölu stofnenda í hlutafélaginu. Ákvæði 1. mgr. 17. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 115. gr. sömu laga gilda ekki um tölu hluthafa. Að öðru leyti skulu ákvæði hlutafélagalaga gilda um félagið.

5. gr.

     Hlutabréf í félaginu, útgefin í tengslum við stofnun þess, skulu undanþegin stimpilgjöldum.

6. gr.

     Stofnfund nýja hlutafélagsins skal halda fyrir lok aprílmánaðar 1993 og skal félagið taka til starfa 1. ágúst 1993. Á stofnfundinum skal leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið.
     Stjórn hlutafélagsins skal skipuð fimm mönnum.

7. gr.

     Fastráðnir starfsmenn Síldarverksmiðja ríkisins skulu hafa rétt til starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir gegndu áður hjá verksmiðjunum. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.

8. gr.

     Sjávarútvegsráðherra annast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning að stofnun félagsins, þar með talið skipan matsnefndar, sbr. 1. gr.

9. gr.

     Fjármálaráðherra er heimilt fyrir hönd ríkissjóðs að yfirtaka skuldir Síldarverksmiðja ríkisins að fjárhæð allt að 500.000 þús. kr.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Lög nr. 1/1938, um Síldarverksmiðjur ríkisins, með síðari breytingum, falla úr gildi 1. ágúst 1993.

Samþykkt á Alþingi 1. apríl 1993.