Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 767, 116. löggjafarþing 297. mál: Skálholtsskóli (heildarlög).
Lög nr. 22 31. mars 1993.

Lög um Skálholtsskóla.


1. gr.

     Skálholtsskóli er kirkjuleg menningar- og menntastofnun, í eigu þjóðkirkju Íslands og starfar á grunni fornrar skólahefðar í Skálholti og norrænnar lýðháskólahefðar.
     Kirkjuráð ber stjórnunarlega og fjárhagslega ábyrgð á rekstri skólans fyrir hönd þjóðkirkju Íslands. Gerður skal samningur um þátttöku ríkissjóðs í rekstri hans.

2. gr.

     Markmið Skálholtsskóla er að efla tengsl kirkju og þjóðlífs og stuðla að sem víðtækustum áhrifum kristinnar trúar og kristinnar menningar í íslensku þjóðlífi. Skólinn skal leitast við að efla þjóðkirkjuna, m.a. með fræðslu starfsmanna hennar.

3. gr.

     Skólinn skal einkum starfa á eftirgreindum sviðum:
  1. Guðfræðisviði.
  2. Kirkjutónlistarsviði.
  3. Fræðslusviði.

     Sviðin skulu nánar skilgreind í samþykktum skólans, sbr. 4. gr.

4. gr.

     Kirkjuráð skipar skólaráð Skálholtsskóla til fjögurra ára í senn.
     Nánari ákvæði um starf og rekstur Skálholtsskóla skulu tilgreind í samþykktum hans sem kirkjuráð setur.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um Skálholtsskóla, nr. 31 12. maí 1977.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Lög þessi skulu endurskoðuð innan fjögurra ára með hliðsjón af endurskoðun samkomulags um rekstur Skálholtsskóla, dags. 1. desember 1992.

Samþykkt á Alþingi 19. mars 1993.