Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 913, 116. löggjafarþing 138. mál: fjarskipti (EES-reglur, Fjarskiptaeftirlit o.fl.).
Lög nr. 32 14. apríl 1993.

Lög um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 73/1984.


1. gr.

     1. gr. laganna orðast svo:
     Í lögum þessum merkja orðin:
      Fjarskipti: Það sem nefnt er „Télécommunication“ í alþjóðafjarskiptasamningum (nú Convention Internationale des Télécommunications, Nice 1989) og þýðir hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum með rafsegulöldum (radio) eða öðrum rafsegulkerfum.
      Almennt fjarskiptanet: Innviðir fyrir almenn fjarskipti sem gera kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum.
      Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, öðrum en hljóðvarpi og sjónvarpi.
      Talsímaþjónusta: Þjónusta, seld almenningi, sem fólgin er í beinum rauntímaflutningi á tali um almenna sjálfvirka netið eða netin þannig að hver notandi getur notað búnað tengdan við tengipunkt á netinu til að hafa samband við annan notanda búnaðar sem tengdur er við annan tengipunkt.
      Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.
      Notendabúnaður: Búnaður ætlaður til að tengjast almennu fjarskiptaneti, þ.e.:
  1. er ætlað að vera beint tengdur við nettengipunkt almenns fjarskiptakerfis eða
  2. er ætlað að virka með almennu fjarskiptaneti beint eða óbeint tengdur við nettengipunkt á netinu í þeim tilgangi að senda, meðhöndla eða taka á móti upplýsingum.
Tenging getur verið með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
      Grunnþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem gefur kost á flutningi merkja milli þeirra staða þar sem skil eru milli nets og notanda.
      Virðisaukandi þjónusta: Fjarskiptaþjónusta þar sem bætt er við grunnþjónustu þáttum sem auka verðmæti þjónustunnar.
      Fjarskiptavirki: Hvers konar tæki, tækjahlutar, leiðslur, búnaður og því um líkt sem sérstaklega er ætlað til að koma á fjarskiptum eða reka þau, hvort heldur er til sendingar eða móttöku.

2. gr.

     2. gr. laganna orðast svo:
     Ríkið hefur einkarétt á að veita talsímaþjónustu á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi og að eiga og reka almennt fjarskiptanet. Póst- og símamálastofnunin annast framkvæmd þessa einkaréttar.
     Samgönguráðherra getur heimilað aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins, EES, að reka ákveðna tegund fjarskiptaþjónustu, aðra en talsímaþjónustu á almennum fjarskiptanetum, að uppfylltum skilyrðum sem sett verða fyrir viðkomandi þjónustu.
     Samgönguráðherra setur skilyrði fyrir leyfisveitingu. Þau skulu vera hlutlæg, skýr og þannig að gætt verði jafnræðis. Rökstuðningur skal fylgja synjun leyfisumsóknar.
     Ekki þarf sérstakt leyfi til að veita virðisaukandi þjónustu sem er í samræmi við reglugerð sem samgönguráðherra setur.
     Ekki þarf sérstakt leyfi til að annast sölu á notendabúnaði.
     Póst- og símamálastofnuninni er heimilt að selja sérhverja tegund fjarskiptaþjónustu og búnað að uppfylltum sömu skilyrðum og gilda gagnvart öðrum aðilum.
     Samgönguráðherra getur heimilað einstökum mönnum, félögum eða stofnunum að stofna og reka fjarskiptanet til eigin nota eingöngu sem ekki verða nýtt fyrir aðra aðila og ekki tengd almennum fjarskiptanetum.
     Fjarskipti, sem ekki fara um fjarskiptavirki ríkisins, þegar eingöngu er um að ræða boð eða upplýsingar innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum eða verksmiðjum, falla sem slík ekki undir ákvæði laga þessara.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Hver sá, sem flytur inn eða smíðar búnað er tengja á við almennt fjarskiptanet, skal fyrir fram fá yfirlýsingu Fjarskiptaeftirlits ríkisins um að hver og ein tegund eða gerð tegundar búnaðar eða hlutar hans uppfylli þær tæknikröfur sem gilda þar um. Liggi fyrir vottorð frá viðurkenndri prófunarstofu um að búnaður sé í samræmi við staðla og reglur telst staðfesting frá Fjarskiptaeftirlitinu fullnægjandi.
     Þeir sem annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu fjarskiptavirkja skulu hafa til þess tilskilin réttindi samkvæmt reglugerð er ráðherra setur.

4. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Ráðherra getur mælt svo fyrir að íslensk skip, loftför og önnur farartæki séu búin fjarskiptavirkjum og setur hann nánari reglugerð þar um.
     Ráðherra getur heimilað með reglugerð að einstaklingar, félög og stofnanir setji upp jarðstöðvar til móttöku á sjónvarpsefni til eigin nota.
     Fjarskiptaeftirlit ríkisins gefur út leyfisbréf til handa þeim aðilum sem með sérstökum lögum eða alþjóðasamþykktum hafa fengið leyfi til eða eru skyldugir til að halda uppi fjarskiptum á ákveðnum sviðum. Í leyfisbréfum skal kveðið á um tæknilega eiginleika fjarskiptavirkja í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl.
     Fjarskiptaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með starfsemi þessara fjarskiptavirkja.

5. gr.

     Í stað 7.–9. gr. laganna koma þrjár nýjar greinar, svohljóðandi:
     
     a. (7. gr.)
     Fjarskiptaeftirlit ríkisins starfar undir yfirstjórn samgönguráðherra. Fjarskiptaeftirlit ríkisins annast útgáfu leyfisbréfa, eftirlit með gerð búnaðar og lögboðuðum tækniforskriftum, úthlutun tíðna og eftirlit með skilmálum um notkun. Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir þjónustu Fjarskiptaeftirlits ríkisins.
     
     b. (8. gr.)
     Samgönguráðherra setur, að fengnum tillögum Póst- og símamálastofnunar, gjaldskrá fyrir þjónustu sem stofnunin hefur einkarétt á.
     Við ákvörðun gjalda í samkeppnisgreinum fjarskiptaþjónustu skal taka mið af kostnaði.
     
     c. (9. gr.)
     Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála, eftirlit með þeim og annað er þar að lýtur. Honum er heimilt að setja reglugerðir á sviði fjarskipta að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði milli Efnahagsbandalags Evrópu, Kola- og stálbandalags Evrópu og aðildarríkja þess annars vegar og aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu hins vegar, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið.

6. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:
     Í leyfisbréfum, er Fjarskiptaeftirlit ríkisins gefur út skv. 6. gr. laga þessara, skal leggja á starfsmenn fjarskiptavirkja sem leyfisbréfið hljóðar um sams konar skyldur sem á starfsmönnum fjarskiptavirkja ríkisins hvíla eftir 15. og 16. gr., enda varða brot á þeim skyldum sömu viðurlögum og brot starfsmanna fjarskiptavirkja ríkisins. Sama gildir um þá sem fá réttindi til uppsetningar og tengingar fjarskiptavirkja skv. 3. gr.

7. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 1. apríl 1993.