Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 992, 116. löggjafarþing 193. mál: leiðsaga skipa (heildarlög).
Lög nr. 34 27. apríl 1993.

Lög um leiðsögu skipa.


Stjórn leiðsögumála.

1. gr.

     Samgönguráðherra fer með yfirstjórn leiðsögumála. Vitastofnun Íslands fer með framkvæmd leiðsögumála svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og lögum um vitamál.

Skilgreiningar.

2. gr.

     Í lögum þessum merkir:
      Skip: Hvert það far sem er sex metrar á lengd eða lengra, mælt milli stafna, og notað á sjó.
      Leiðsögumaður: Sá sem fengið hefur löggildingu til leiðsögu skipa um ákveðið svæði.
      Leiðsöguskylda: Skylda til að nota leiðsögumann við siglingu skipa um ákveðið svæði eða við ákveðnar aðstæður.
      Hafnsögumaður: Leiðsögumaður sem fengið hefur löggildingu til leiðsögu skipa um ákveðið hafnarsvæði. Hafnsögumaður er ráðinn af viðkomandi hafnarstjórn.
      Hafnsöguskylda: Skylda til að nota hafnsögumann við siglingu skipa um ákveðið hafnarsvæði eða við ákveðnar aðstæður.
      Hafnarsvæði: Svæði við höfn sem nánar er tilgreint í reglugerð.
      Umboðsmaður: Sá sem annast milligöngu útgerðar eða leigutaka skips og stjórnvalda.
      Hættuleg efni: Efni sem hættuleg teljast samkvæmt skilgreiningu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO Dangerous Goods Code).

Löggilding og skilyrði hennar.

3. gr.

     Vitastofnun Íslands löggildir leiðsögumenn. Löggilding gildir fyrir ákveðið svæði til allt að fimm ára í senn. Um löggildingu skal nánar ákveðið í reglugerð.
     Sá sem fullnægir eftirtöldum skilyrðum getur öðlast löggildingu til að vera leiðsögumaður skipa.
  1. Er 25–65 ára að aldri.
  2. Hefur fullnægjandi heilbrigðisvottorð.
  3. Hefur lokið 2. stigs skipstjórnarnámi eða samsvarandi námi og hefur siglt sem skipstjóri eða stýrimaður á skipi um svæði sem löggilding á að ná til og er nákunnugur siglingaleiðum á svæðinu.
  4. Hefur lokið námskeiði til að vera leiðsögumaður eftir því sem nánar segir í reglugerð.

     Þessum skilyrðum verður einnig að vera fullnægt eftir að löggilding er fengin.
     Vitastofnun Íslands er heimilt að veita tímabundna undanþágu frá þessum skilyrðum þegar sérstaklega stendur á.

Skyldur leiðsögumanns.

4. gr.

     Leiðsögumanni ber skylda til að aðstoða yfirvöld, svo sem löggæslu-, tolla-, heilbrigðis-, siglinga- og hafnaryfirvöld við störf þeirra. Þá ber honum að aðstoða á allan hátt stjórnendur skipa sem hann leiðbeinir og ráðleggja um siglingu skipsins þannig að á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt sé komist á milli áfangastaða. Þá skal leiðsögumaður aðstoða við að koma skipi í festar þegar ekki er um að ræða aðstoð hafnsögumanns viðkomandi hafnar.
     Sérstök varúð skal viðhöfð til að hindra mengun stranda og sjávar af völdum hættulegra efna. Mengunaróhöpp skal þegar í stað tilkynna viðkomandi hafnarstjóra og Siglingamálastofnun ríkisins. Leiðsögumaður er ábyrgur fyrir að tilkynningin berist réttum aðilum og skal reyna með öllum tiltækum ráðum að halda útbreiðslu mengunarinnar í lágmarki.
     Leiðsögumaður ber ekki ábyrgð á siglingu skips sem hann leiðbeinir heldur aðeins á þeim ráðum sem hann gefur.
     Samgönguráðuneytinu er heimilt að gefa út gjaldskrá um greiðslur fyrir leiðsögu skipa.

Umboðsmaður skips.

5. gr.

     Skylt er útgerð skips, sem siglir um íslenska landhelgi með varning umfram hættumörk samkvæmt reglugerð og áformar að hafa hér viðkomu, að hafa umboðsmann hér á landi. Sé skipið gert út af íslensku útgerðarfélagi telst útgerðin umboðsmaður. Í reglugerð skal setja skilyrði sem umboðsmanni ber að uppfylla.
     Umboðsmaður sér um að útvega löggilta leiðsögumenn til að fylgja skipinu og skal tilkynna yfirvöldum ef leiðsöguskylt skip notar ekki leiðsögumann.
     Ef ástæða þykir til er heimilt að krefjast trygginga vegna hugsanlegs tjóns er skipið kann að valda hér við land. Skal umboðsmaður skipsins hafa milligöngu um að leggja fram slíka tryggingu.

Tilkynning um komu.

6. gr.

     Öll skip, er koma erlendis frá inn í íslenska landhelgi með landtöku í huga, skulu með minnst 24 klst. fyrirvara tilkynna komu sína til hafnaryfirvalda í fyrstu viðkomuhöfn. Erlend veiðiskip, sem sigla inn í íslenska efnahagslögsögu, skulu tilkynna það Landhelgisgæslu Íslands. Í tilkynningu skal koma fram nafn skips, heimahöfn, þjóðerni, eigandi skips og útgerðaraðili, sé hann ekki eigandi, skipstjóri og umboðsmaður útgerðar hér á landi. Þá skal koma fram hver farmur er og magn ef um hættuleg efni er að ræða. Einnig skal geta áætlaðs komutíma og hvort óskað er leiðsögumanns.
     Áður en komið er í höfn skal með minnst 3 klst. fyrirvara hafa samband við viðkomandi hafnaryfirvöld.

Leiðsögu- og hafnsöguskylda.

7. gr.

     Öll skip, sem flytja hættuleg efni í meira magni en tiltekið er í reglugerð, skulu ætíð nota hafnsögumann við siglingu um hafnarsvæði. Hafnarstjórn er heimilt að veita kunnugum skipstjórum undanþágu frá hafnsöguskyldu.
     Um borð í öllum skipum með erlendum skipstjórnarmönnum, sem flytja hættuleg efni í meira magni en tiltekið er í reglugerð, skal við siglingu á milli hafna vera leiðsögumaður.
     Heimilt er með reglugerð að kveða á um leiðsögu- og hafnsöguskyldu.

Undanþágur.

8. gr.

     Undanskilin ákvæðum laga þessara um tilkynningarskyldu, leiðsögu og umboðsmann eru skip sem leita hafnar vegna bráðrar hættu eða til að setja á land sjúka menn eða slasaða.

Brot o.fl.

9. gr.

     Brot gegn lögum þessum varða missi leiðsögumannsréttinda og/eða skipstjórnarréttinda og sektum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum og skal farið með mál út af brotum á lögum þessum að hætti opinberra mála.
     Samgönguráðuneytið setur reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

Ákvæði til bráðabirgða.

10. gr.

     Leiðsögumenn, sem skipaðir hafa verið fyrir gildistöku laga þessara, halda réttindum sínum þann tíma sem skírteini þeirra kveða á um.
     Hafnsögumenn, sem starfa við hafnsögu skipa við gildistöku laga þessara, skulu innan fimm ára afla sér löggildingar sem hafnsögumenn.

Gildistaka.

11. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1993. Jafnframt falla úr gildi lög um leiðsögu skipa, nr. 48 19. júní 1933.

Samþykkt á Alþingi 20. apríl 1993.