Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1040, 116. löggjafarþing 192. mál: eftirlit með skipum (heildarlög).
Lög nr. 35 30. apríl 1993.

Lög um eftirlit með skipum.


I. KAFLI
Gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

     Lög þessi gilda um öll íslensk skip sem eru sex metrar á lengd eða lengri, mælt milli stafna, og notuð eru á sjó. Lögin gilda þó um öll farþegaskip án tillits til stærðar.
     Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að lög þessi gildi að hluta eða öllu leyti fyrir erlend skip þegar þau eru í íslenskum höfnum eða innan íslenskrar lögsögu.
     Ráðherra getur ákveðið í reglugerð að eftirlit skuli haft með öryggi annarra atvinnutækja á sjó og vötnum og hvernig því eftirliti skuli haga.

2. gr.

     Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð og orðasambönd þá merkingu sem hér greinir:
 1. Skip er sérhvert fljótandi far nema annars sé getið.
 2. Íslenskt skip er hvert það skip sem skráð er hér á landi og rétt hefur til að sigla undir íslenskum fána.
 3. Flokkað skip er hvert það skip sem er flokkað af flokkunarfélagi sem viðurkennt er af ráðherra.
 4. Fiskiskip er skip sem notað er til að veiða fisk, hval, sel, skelfisk eða aðrar lífverur úr sjó.
 5. Farþegaskip er hvert það skip sem ætlað er að flytja farþega, sbr. þó ákvæði 6. tölul. þessarar greinar.
 6. Kaupskip eru önnur skip sem notuð eru til flutnings á farmi gegn endurgjaldi en geta jafnframt flutt 12 farþega eða færri í samræmi við alþjóðlegar reglur.


II. KAFLI
Gerð og búnaður.
Smíði, innflutningur og breytingar.

3. gr.

     Hvert skip skal smíðað og búið út á þann hátt að öryggi mannslífa á hafinu sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma.
     Skip skal fullnægja skilyrðum reglna á hverjum tíma um siglingatæki, vélbúnað, fjarskiptabúnað, björgunarbúnað, lyf og læknisáhöld og eldvarna- og slökkvibúnað til að tryggja öryggi skipverja, skips og farms.
     Vinnusvæði og vistarverur skipverja skal hanna og búa með hliðsjón af öryggi og velferð skipverja.
     Skip skulu smíðuð og búin með tilliti til varna gegn mengun.
     Ráðherra ákveður nánar í reglugerð um smíði, stöðugleika, hleðslumerki og búnað skipa.
     Ráðherra ákveður í reglum hvaða lög, stjórnvaldsfyrirmæli, skírteini og skipsbækur skuli vera um borð í skipum.

4. gr.

     Ráðherra setur reglur um aðbúnað og vinnuaðstöðu skipverja, svo sem hönnun og merkingar vinnusvæða, öryggisbúnað, notkun og viðhald vinnutækja og öryggisbúnaðar og heilbrigðis- og hollustuhætti í skipum.

5. gr.

     Ráðherra getur ákveðið að nýjar reglugerðir nái ekki til eldri skipa og skipa sem kjölur hefur verið lagður að eða eru á hliðstæðu byggingarstigi. Þó skal tekið tillit til varna gegn mengun, öryggis og aðbúnaðar um borð, enn fremur gerðar og fyrirhugaðrar notkunar skipanna.

6. gr.

     Nýsmíði skipa er háð eftirliti Siglingamálastofnunar í samræmi við reglur sem ráðherra setur. Þar sem þær ná ekki til skulu ekki gerðar vægari kröfur en gerðar eru af viðurkenndum flokkunarfélögum um smíði skipa. Eigandi skips skal tilkynna Siglingamálastofnun um smíðina. Áður en smíði hefst skal sá sem tekið hefur að sér smíði skips senda Siglingamálastofnun ríkisins smíðalýsingu, teikningar og önnur þau gögn sem siglingamálastjóri telur nauðsynleg vegna eftirlits.
     Ráðherra setur reglur um hæfniskröfur er þeir sem hanna og smíða skip skulu uppfylla. Þær skulu m.a. taka mið af réttindum hlutaðeigandi iðngreina.
     Eiganda skips er heimilt að fela einhverju hinna viðurkenndu flokkunarfélaga eftirlit með smíði skips, enda sé skipið smíðað eftir reglum þeirra sem gilda hér á landi.

7. gr.

     Engar meiri háttar breytingar má gera á skipi, svo sem stækkun farmrýmis eða yfirbyggingar, aðalvélarskipti eða breytingar sem hafa áhrif á mælingu skips, sjóhæfni, öryggi eða aðbúnað áhafna, án þess að fyrir liggi samþykki Siglingamálastofnunar ríkisins eða annars aðila sem stofnunin hefur veitt umboð. Breytingarnar skulu gerðar undir eftirliti Siglingamálastofnunar og gilda þar um sömu reglur um eftirlit og tilkynningarskyldu og um nýsmíði.
     Sömu reglur um tilkynningarskyldu og eftirlit skulu einnig gilda um meiri háttar viðgerðir sem áhrif geta haft á sjóhæfni skips, öryggi skips og aðbúnað áhafna.

8. gr.

     Skip, sem keypt er eða leigt frá útlöndum til skráningar hér á landi, skal fullnægja íslenskum lögum og reglum um styrkleika, búnað og haffæri. Skal skoðun fara fram áður en það er flutt inn. Að skoðun lokinni kveður siglingamálastjóri á um hvort hann mælir með innflutningi skips eða ekki.
     Eigi má flytja inn fiskiskip sem er 15 ára eða eldra.

III. KAFLI
Skoðun skipa og framkvæmd eftirlits.
Haffæri skipa.

9. gr.

     Skipstjóra er skylt að sjá til þess að skip sé haffært þegar það leggur úr höfn og hafi gild lögboðin skírteini um borð. Eiganda skips, útgerðarmanni og skipstjóra er skylt að sjá um að lögskipaðar skoðunargerðir fari fram á skipi eftir því sem við á.
     Um starfsskyldur yfirmanna við skoðunargerð og verkaskiptingu fer skv. III. kafla sjómannalaga, nr. 35/1985.

10. gr.

     Skoðunargerðir á skipum eru þrenns konar: aðalskoðun, aukaskoðun og skyndiskoðun.
     Starfsmenn Siglingamálastofnunar annast alla skoðun samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim eftir nánari ákvörðun siglingamálastjóra. Siglingamálastjóra er heimilt að fela öðrum hæfum aðilum að framkvæma einstaka þætti skoðunar.

11. gr.

     Aðalskoðun skal fara fram við lokaúttekt nýsmíði og á hverju skipi árlega eða samkvæmt alþjóðareglum þegar það á við.
     Siglingamálastofnun getur, þegar sérstakar ástæður mæla með því, veitt heimild til frestunar aðalskoðunar í allt að þrjá mánuði. Siglingamálastjóra er heimilt að fela slíka framlengingu öðrum opinberum aðila hverju sinni.
     Við aðalskoðun skal athuga búnað skips og annað er lýtur að öryggi þess og áhafnar.
     Sé skip í viðurkenndu flokkunarfélagi og gildu flokkunarskírteini er framvísað skal sú skoðun, sem fram fór á því til viðhalds á flokkuninni, talin fullnægjandi um styrkleika bols, eimkatla, vél- og rafbúnaðar, enda fullnægi skipið jafnframt þeim ákvæðum sem sérstaklega er mælt fyrir um í íslenskum lögum eða reglum varðandi þau atriði sem flokkunin tekur til.

12. gr.

     Aukaskoðun skal fara fram á skipi sem hér segir:
 1. Þegar skip hefur verið til viðgerðar vegna atriða sem varða öryggi skips og/eða áhafnar.
 2. Þegar eigandi skips, útgerðarmaður, skipstjóri, yfirvélstjóri, meiri hluti skipverja eða stjórn stéttarfélags krefst skoðunar. Krafa skal vera skrifleg og rökstudd. Starfsmenn Siglingamálastofnunar ríkisins eru bundnir þagnarheiti um hver borið hafi fram kröfu nema hún hafi reynst ástæðulaus. Þá skal Siglingamálastofnun gefa upp nafn þess sem bar fram kröfuna ef útgerðarmaður krefst þess.
 3. Þegar Siglingamálastofnun telur annars ástæðu til að rannsaka öryggi ákveðinna hluta skips eða búnaðar þess.


13. gr.

     Skyndiskoðun er fyrirvaralaus skoðun á haffæri skips, einkum þegar skip kemur til hafnar eða fer úr höfn.
     Siglingamálastofnun ríkisins og Landhelgisgæsla Íslands annast eftirlit skv. 1. mgr. og gera með sér samstarfssamning um hvernig þessu eftirliti skuli hagað.

14. gr.

     Synji siglingamálastjóri um skoðun þegar hennar er krafist í samræmi við 2. tölul. 12. gr. eða ef einhver þeirra aðila, sem þar um ræðir, getur ekki unað úrslitum skoðunargerðar getur sá sem telur sig vanhaldinn kært ágreininginn fyrir farbannsnefnd, sbr. 25. gr.

15. gr.

     Hafi skoðun leitt í ljós að ákvæðum laga og reglna um smíði og búnað er fullnægt skal siglingamálastjóri, starfsmaður stofnunarinnar sem til þess hefur heimild frá siglingamálastjóra eða annar viðurkenndur aðili gefa út haffærisskírteini skipi til handa eða önnur jafngild skírteini samkvæmt ákvæðum alþjóðasamþykkta eftir því sem við á.
     Á haffærisskírteini skal skráð nafn skips, skipaskrárnúmer, heimili, kallmerki, stærð skips samkvæmt gildandi reglum um mælingu skipa, smíðastaður og ár, nafn eiganda, umdæmisbókstafur fiskiskipa, að skip fullnægi þeim kröfum um öryggi skipa sem gerðar eru í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, gildissvið, gildistími og útgáfudagur.
     Haffærisskírteini skal eigi gefið út til lengri tíma en eins árs. Siglingamálastofnun er þó heimilt að miða gildistíma skírteinis við almanaksmánuð að ári liðnu frá útgáfudegi skírteinis og gildir skírteinið þá til loka þess mánaðar.
     Haffærisskírteini eða skoðunarvottorð skal fylgja skipsskjölum og sýnt við fyrstu árlegu lögskráningu eða við greiðslu slysatryggingagjalds skipverja þegar ekki er skylt að lögskrá á skipið, svo og þegar þess er krafist af starfsmönnum Siglingamálastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands eða lögreglu.
     Hafi skoðun leitt í ljós að kröfum um búnað og öryggi skipa er ekki fullnægt skal bætt úr því sem áfátt er. Ef ágallar eru þannig að eigi er unnt að bæta úr þeim þegar í stað en skipið getur þó siglt örugglega getur umdæmisstjóri veitt skipstjóra hæfilegan frest til úrbóta.

16. gr.

     Skip skal telja óhaffært:
 1. Hafi það ekki gilt haffærisskírteini eða önnur jafngild skírteini samkvæmt alþjóðasamþykktum.
 2. Liggi það dýpra en hleðslumerki þess leyfa samkvæmt alþjóðasamþykktum eða reglum.
 3. Sé bol þess, búnaði, vélum, tækjum eða skipshöfn svo áfátt eða skipið er af öðrum ástæðum svo á sig komið með tilliti til öryggis skipsins og þeirra manna sem skipinu fylgja að telja verður vegna sjóferðar þeirrar er skipið skal fara að hættulegra sé að vera í förum með það en venjulegt er.


17. gr.

     Hafi skip lent í árekstri, tekið grunn eða annað að borið svo ástæða sé til að ætla að skip sé óhaffært er skipstjóra skylt að láta skoða skipið á þeim stað er því verður fyrst við komið. Starfsmenn Siglingamálastofnunar eða aðrir aðilar, sem stofnunin hefur viðurkennt, skulu framkvæma þá skoðun.
     Þurfi að færa skip sem er óhaffært af slysstað eða úr höfn til viðgerðar eða nánari skoðunar skal Siglingamálastofnun ríkisins eða aðrir aðilar, sem stofnunin hefur viðurkennt, ákveða hvaða ráðstafanir skuli gerðar með tilliti til öryggis skipsins og þeirra manna sem skipinu fylgja.

18. gr.

     Siglingamálastofnun ríkisins annast eftirlit með því að fullnægt sé ákvæðum gildandi laga og reglna um öryggi skipa.
     Þegar starfsmenn Siglingamálastofnunar eru að starfi hafa þeir rétt til þess að fara um borð í hvert skip sem statt er í íslenskri höfn eða innan íslenskrar landhelgi til þess að rannsaka það sem þeim ber samkvæmt stöðu sinni. Sama gildir um skip í smíðum.
     Komi í ljós að ásigkomulag skips eða búnaður þess er ekki í samræmi við lög þessi, reglur eða önnur fyrirmæli getur Siglingamálastofnun fyrirskipað að úr því skuli bætt þegar í stað eða innan ákveðins frests.
     Starfsmenn Siglingamálastofnunar skulu gæta þess að valda ekki óþarfa töfum á skipi né torvelda vinnu umfram nauðsyn.
     Starfsmenn Siglingamálastofnunar skulu framvísa starfsskírteinum sé þess óskað.
     Eigendur, útgerðarmenn, skipstjórar, vélstjórar og aðrir, sem starfa í umboði þeirra, skulu veita Siglingamálastofnun alla aðstoð og upplýsingar sem óskað er vegna eftirlits og öryggis skips, svo og upplýsingar um ástand skipsins, sem varðar lög þessi og reglur settar samkvæmt þeim.

19. gr.

     Löggæslumenn, hafnaryfirvöld, tollgæslumenn, trúnaðarmenn skipverja, starfsmenn tryggingafélaga eða lögskráningarstjórar, sem fá vitneskju um að lög þessi eða reglur settar samkvæmt þeim eru brotin eða telja sig hafa ástæðu til að ætla að skip sé ekki haffært, skulu tafarlaust gera næsta umdæmisstjóra Siglingamálastofnunar viðvart. Sama gildir um starfsmenn skipasmíðastöðva og verkstæða er þeir eru að starfi sínu, þó þannig að þeir skulu gera yfirmanni sínum viðvart sem tilkynnir það tafarlaust til næsta umdæmisstjóra.

IV. KAFLI
Farbann.

20. gr.

     Eigi að leggja skipi úr höfn án þess að það hafi gilt haffærisskírteini eða skip er annars óhaffært á ferð skal leggja farbann á það.
     Enn fremur skal leggja farbann á skip ef starfsmenn Siglingamálastofnunar eru hindraðir í störfum við framkvæmd eftirlits samkvæmt lögum þessum.

21. gr.

     Siglingamálastjóri getur lagt farbann á skip. Einnig geta þeir starfsmenn Siglingamálastofnunar lagt farbann á skip sem siglingamálastjóri hefur sérstaklega veitt til þess umboð. Skulu þeir tilkynna siglingamálastjóra þegar um farbann sem þeir leggja á.

22. gr.

     Ákvörðun um farbann skal þegar í stað tilkynna skipstjóra og útgerðarmanni skriflega. Ástæður fyrir farbanni skulu tilgreindar, svo og skilyrði fyrir því að banni verði aflétt. Starfsmenn Siglingamálastofnunar geta óskað eftir því ef nauðsyn krefur að lögreglustjórar, hafnar- og tollyfirvöld á hverjum stað, svo og starfsmenn Landhelgisgæslu Íslands, veiti þeim fulltingi við framkvæmd farbanns og ber þeim að verða við þeirri ósk.

23. gr.

     Ef ástæður farbanns eru ekki lengur fyrir hendi skal farbanni aflétt þegar í stað.
     Telji siglingamálastjóri að farbann, sem starfsmenn hans hafa lagt á, sé ekki á rökum reist skal hann þegar í stað fella það úr gildi.

24. gr.

     Útgerðarmaður skips og skipstjóri geta kært farbann til farbannsnefndar.
     Samgönguráðherra skipar farbannsnefnd til þriggja ára í senn. Farbannsnefnd skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Formaður skal fullnægja almennum dómaraskilyrðum. Hinir fjórir nefndarmennirnir skulu búa yfir sérþekkingu á sviði siglinga eða skipatækni í samræmi við verksvið nefndarinnar. Ráðherra setur nefndinni starfsreglur.
     Úrskurði nefndarinnar verður ekki skotið til æðra stjórnvalds.

25. gr.

     Verkefni farbannsnefndar eru:
 1. Að skera úr um hvort farbann skuli lagt á skip og úrskurða um gildi farbanns.
 2. Að skera úr um hvort skoðun á skipi skuli fara fram, annast yfirskoðunargerðir og kveðja til yfirskoðunarmenn eins og nánar greinir í 21. gr. laganna.

     Málshöfðun til ógildingar á úrskurði farbannsnefndar frestar ekki réttaráhrifum hans.

V. KAFLI
Málsmeðferð fyrir dómi.

26. gr.

     Um refsimál, sem höfðað er út af brotum á lögum þessum, fer að hætti opinberra mála. Sé þörf sérkunnáttu við úrlausn máls skulu tveir sérfróðir meðdómendur skipa dóm, auk eins héraðsdómara.
     Áður en ákærandi höfðar opinbert mál út af brotum á lögunum skal hann jafnan leita umsagnar siglingamálastjóra liggi hún ekki þegar fyrir. Ber siglingamálastjóra að láta í té rökstudda umsögn svo fljótt sem verða má.
     Ákærandi skal útvega samgönguráðuneyti og Siglingamálastofnun eftirrit dóma í málum út af brotum á lögum þessum.

27. gr.

     Málum, sem höfðuð eru til ógildingar á úrskurðum farbannsnefndar skv. 14. eða 20. gr., skal hraða svo sem kostur er. Um mál þessi fer eftir almennri meðferð einkamála.

VI. KAFLI
Gjöld.

28. gr.

     Fyrir skoðun á skipum og búnaði þeirra, mælingu á skipum, útgáfu skírteina, samþykkt smíðalýsinga og teikninga og aðra skoðun, sem starfsmenn Siglingamálastofnunar ríkisins framkvæma, skal eigandi greiða gjöld til ríkissjóðs samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Eigandi skips skal greiða árlega skipagjald sem taki mið af því hvort skip er flokkað hjá Siglingamálastofnun ríkisins eða viðurkenndu flokkunarfélagi.
     Gjöldum skv. 1. mgr. fylgir lögveð í skipi, jafnsett lögveði fyrir lestagjaldi í eitt ár frá því er gjald var kræft.
     Siglingamálastofnun er heimilt að halda eftir haffærisskírteini eða öðrum jafngildum skírteinum samkvæmt alþjóðasamþykktum að lokinni skoðun ef gjöld skv. 1. mgr. eru ekki greidd.
     Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um gjald fyrir skoðun og þjónustu sem aðrir þar til bærir aðilar framkvæma og veita.

VII. KAFLI
Um refsingar, sviptingu réttinda o.fl.

29. gr.

     Brot gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim varða sektum, varðhaldi eða fangelsi ef miklar sakir eru.

30. gr.

     Um brot skv. 29. gr. skal beitt reglum almennra hegningarlaga um hlutdeild.
     Nú er brot framið með verknaði sem refsiverður er samkvæmt almennum hegningarlögum og skal þá einnig beita viðeigandi ákvæðum þeirra.

31. gr.

     Þegar um brot er að ræða og sérstaklega miklar sakir eru má svipta sökunaut rétti til skipstjórnar, stýrimennsku, vélstjórnar eða fjarskiptastarfa um ákveðinn tíma er eigi sé skemmri en þrír mánuðir.
     Nú er brot að öðru leyti sérstaklega stórfellt eða ítrekað og skal þá beita réttindasviptingu eigi skemur en sex mánuði og allt að fimm árum eða ævilangt.

32. gr.

     Svipting réttinda skv. 31. gr. skal gerð með dómi. Þó má ljúka máli um sviptingu réttinda með ákvörðun dómara hafi ákærði játað sekt sína og fallist skriflega á slík málalok enda mótmæli ákærandi þeim ekki.
     Ákærandi skal tilkynna öllum lögreglustjórum í landinu um réttindasviptingu og senda samgönguráðuneyti réttindaskírteini.
     Þegar tvö ár hið fæsta eru liðin frá því réttindasvipting var dæmd getur samgönguráðherra veitt réttindin á nýjan leik mæli sérstakar ástæður með því, enda þótt sviptingartími sé ekki liðinn.

33. gr.

     Sektir fyrir brot gegn lögum þessum renna í ríkissjóð. Dómara er heimilt að ákveða að þeim fylgi lögveð í skipi og búnaði þess, jafnsett lögveði fyrir lestagjaldi.

34. gr.

     Lög þessi raska í engu ákvæðum áfengislaga að því er snertir viðurlög ef menn eru undir áhrifum áfengis við störf sín.

VIII. KAFLI
Um gildistöku laganna o.fl.

35. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 51 30. mars 1987 og 9. gr. laga nr. 20 30. apríl 1986.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Mál, sem þingfest hafa verið fyrir siglingadómi við gildistöku laga þessara, skulu rekin fyrir dóminum eftir þeim reglum sem um hann hafa gilt, sbr. lög nr. 51/1987.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 1993.