Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1041, 116. löggjafarþing 307. mál: Íslensk endurtrygging.
Lög nr. 45 7. maí 1993.

Lög um stofnun hlutafélags um Íslenska endurtryggingu.


1. gr.

     Ríkisstjórnin skal beita sér fyrir stofnun hlutafélags undir nafninu Íslensk endurtrygging hf. er taki við núverandi rekstri, eignum og skuldum Íslenskrar endurtryggingar eins og nánar er ákveðið í lögum þessum.

2. gr.

     Hlutafé hins nýja félags skal nema 338.353.200 kr. og fá eigendur áhættufjár í Íslenskri endurtryggingu 1 kr. að nafnverði í hlutafé í hinu nýja félagi fyrir hverja 1 kr. sem þeir eiga af áhættufé. Skipti á áhættufjárskírteinum og hlutabréfum hafa ekki í för með sér skattskyldu hjá eigendum þeirra og gilda ákvæði 56. og 57. gr laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum, um skiptin eftir því sem við á.
     Hlutafélagið tekur við eignum og skuldum Íslenskrar endurtryggingar á bókfærðu verði eins og þær voru 1. janúar 1993 og frá sama tíma tekur félagið við hvers konar skuldbindingum, réttindum og skyldum Íslenskrar endurtryggingar. Stofnverð varanlegra rekstrarfjármuna samkvæmt lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, með síðari breytingum, skal vera bókfært verð þessara eigna 1. janúar 1993.
     Mismunur hinna yfirteknu eigna og skulda skal vera eigið fé hlutafélagsins og skiptist það í hlutafé, sbr. 1. mgr. þessarar greinar, og áhættusjóð sem yfirfærist óbreyttur, en það sem umfram verður leggst í varasjóð, sbr. 108 gr. laga nr. 32/1978, um hlutafélög.

3. gr.

     Engin sérréttindi fylgja hlutum í hinu nýja hlutafélagi önnur en forgangsréttur að nýjum hlutum og skulu engar hömlur lagðar á meðferð hlutabréfa í félaginu.

4. gr.

     Hlutabréf í félaginu, útgefin í tengslum við stofnun þess, skulu undanþegin stimpilgjöldum.

5. gr.

     Tilgangur félagsins er að annast endurtryggingu fyrir íslensk og erlend vátryggingafélög.
     Heimilt er að breyta tilgangi félagsins á hluthafafundi.

6. gr.

     Fastráðnir starfsmenn Íslenskrar endurtryggingar skulu hafa rétt til að starfa hjá hinu nýja hlutafélagi við yfirtökuna og skal þeim boðin sambærileg staða og þeir gegndu áður.

7. gr.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra annast fyrir hönd ríkisstjórnarinnar undirbúning og stofnun hins nýja hlutafélags og fer með hlutabréf ríkisins í því við stofnun þess. Ráðherranum skal heimilt að fela stjórn Íslenskrar endurtryggingar að annast stofnun félagsins, undirritun stofnsamnings þess og samþykkta og fara með stjórn þess til næsta aðalfundar þess. Félagið skal taka til starfa 15. júní 1993 og fyrsti aðalfundur þess skal haldinn eigi síðar en 30. júní 1993.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi 1.–14. gr. og 28. gr. laga nr. 43/1947, um innlenda endurtryggingu, stríðsslysatryggingu skipshafna o.fl., með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 28. apríl 1993.