Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1267, 116. löggjafarþing 34. mál: skipan opinberra framkvæmda og opinber innkaup (Evrópskt efnahagssvæði).
Lög nr. 55 19. maí 1993.

Lög um breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, og lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup, með síðari breytingum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar svohljóðandi:
     Ákvæði VI. kafla laga þessara taka einnig til framkvæmda á vegum sveitarstjórna, samtaka þeirra og stofnana. Sama gildir um framkvæmdir annarra aðila sem reknir eru að mestu leyti á kostnað ríkis eða sveitarstjórna eða annarra opinberra aðila eða lúta yfirstjórn þessara aðila eða ef rekstur þeirra er undir yfirstjórn eða eftirliti stjórnar þar sem meiri hluti stjórnarmanna er skipaður af ríki eða sveitarstjórn eða öðrum opinberum aðilum.
     Ef þeir opinberu aðilar, sem getið er um í 1., 2. og 4. mgr., starfa á sviði viðskipta eða iðnaðar skulu þeir ekki háðir ákvæðum VI. kafla, enda sinni þeir ekki vatnsveitu, orkuveitu, flutningum eða fjarskiptum.

2. gr.

     Á eftir 20. gr. laganna kemur nýr kafli, VI. kafli, með 11 nýjum greinum. Fyrirsögn kaflans verður: Opinberar framkvæmdir á Evrópska efnahagssvæðinu. Töluröð annarra kafla og greina breytist samkvæmt því.
     Hinar nýju greinar orðast svo:
     
     a. (21. gr.)
     Ákvæði þessa kafla taka til verksamninga þar sem útboðsverðmæti er jafnt eða hærra en þau mörk sem getið er um í 22. gr. og gerðir eru af þeim aðilum sem getið er um í 1. gr. Ákvæði kaflans gilda einnig þegar aðilar skv. 1. gr. greiða meira en helming kostnaðar við verk sem annar aðili býður út og semur um. Jafnframt gilda ákvæði kaflans um verksamninga fyrirtækja sem sinna vatnsveitu, orkuveitu, fjarskiptum eða flutningum með almenningsvögnum á grundvelli sérleyfa eða annars konar einkaréttar sem veitt eru af opinberum aðilum.
     Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að einstakar tegundir verksamninga séu ekki háðar ákvæðum þessa kafla.
     
     b. (22. gr.)
     Skylt er að bjóða út á hinu Evrópska efnahagssvæði verk sem áætlað er að nemi 5 milljónum evrópskra mynteininga (ECU) eða meira án virðisaukaskatts.
     Við mat á verðmæti verksins skal miða við það gengi sem í gildi er þann dag er auglýsing skv. 24. gr. er send til birtingar.
     Við útreikning fjárhæðar verks skal ekki eingöngu byggja á heildarfjárhæð þess heldur skal einnig taka með í þann útreikning verðmæti aðfanga sem nauðsynleg eru við framkvæmdir og verkkaupi lætur verktaka í té.
     
     c. (23. gr.)
     Nú er verki skipt í áfanga þar sem hver áfangi er viðfangsefni sérstaks verksamnings og skal þá við mat á verðmæti verksins miða við samanlagða fjárhæð einstakra áfanga. Ekki þarf að taka með í þann útreikning áfanga sem að verðmæti nema allt að 1 milljón ECU án virðisaukaskatts, enda nái verðmæti þessa hluta ekki 20% af áætlaðri heildarfjárhæð allra verkáfanganna.
     Óheimilt er að skipta verki í áfanga í því skyni að koma í veg fyrir skyldu til að bjóða út verk skv. 22 gr.
     Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um mat á útboðsverðmæti.
     
     d. (24. gr.)
     Verkkaupi skal í sérstakri kynningarauglýsingu lýsa megineinkennum þeirra verka sem hann hyggst bjóða út. Jafnframt er verkkaupa skylt að auglýsa þau verk sem hann hefur ákveðið að bjóða út. Þá er verkkaupa, sem gert hefur verksamning, skylt að auglýsa það.
     Auglýsingar þær, sem getið er um í 1. mgr., skulu sendar útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um útboð eða gerð verksamnings hefur verið tekin.
     Hvers konar birting hér á landi á auglýsingu skv. 1. mgr. er óheimil þar til hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar. Sendingardagur skal koma fram í auglýsingunni. Jafnframt er óheimilt að birta í þess konar auglýsingum aðrar upplýsingar um útboðið en þær sem koma fram í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.
     
     e. (25. gr.)
     Nú telur verktaki að stjórnvald eða annar verkkaupi, sem lög þessi taka til, hafi tekið ákvörðun í tengslum við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings sem felur í sér brot á ákvæðum VI. kafla laga þessara og getur hann þá kært þá ákvörðun til fjármálaráðuneytis.
     Kæra skal vera skrifleg og rökstudd og skulu fylgja henni nauðsynleg gögn. Fjármálaráðuneytinu er heimilt að krefja kæranda um frekari upplýsingar ef það telur ástæðu til.
     
     f. (26. gr.)
     Fjármálaráðuneytið getur, eftir að hafa fengið kæru til meðferðar, gripið til eftirfarandi aðgerða fram að þeim tíma er tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt:
  1. Stöðvað um stundarsakir útboð og gerð verksamnings.
  2. Breytt ákvörðun verkkaupa, m.a. með því að auglýsa útboð á nýjan leik, breyta útboðsauglýsingum, útboðsgögnum og útboðsskilmálum.

     Nú vill kærandi ekki una úrlausn fjármálaráðuneytis skv. 1. mgr. og getur hann þá borið ákvörðun verkkaupa í sambandi við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings undir dómstóla, sbr. þó 29. gr.
     
     g. (27. gr.)
     Verkkaupi er bótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á ákvæðum VI. kafla laga þessara hefur í för með sér fyrir verktaka. Bótafjárhæð skal miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og að taka þátt í útboði.
     
     h. (28. gr.)
     Telji eftirlitsstofnun EFTA áður en tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt að við gerð verksamnings hafi verið brotið gegn ákvæðum EES-samningsins á sviði opinberra innkaupa getur hún hafið rannsókn á meintu broti.
     Eftir að verkkaupa hefur borist tilkynning frá eftirlitsstofnun EFTA eða fjármálaráðuneyti um að stofnunin telji að um brot hafi verið að ræða skal verkkaupi innan viku frá því að fyrri tilkynningin berst senda fjármálaráðuneyti:
  1. staðfestingu á að bætt hafi verið úr brotinu eða
  2. rökstudda greinargerð um ástæður fyrir því að úrbót hafi ekki verið gerð.

     Fjármálaráðherra getur beitt heimildum þeim sem getið er um í 26. gr. ef eftirlitsstofnun EFTA hefur tilkynnt að hún telji að um brot hafi verið að ræða.
     
     i. (29. gr.)
     Ákvörðun verkkaupa í sambandi við framkvæmd útboðs eða gerð verksamnings verður ekki breytt eftir að tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt.
     Ákvörðun verður ekki kærð til fjármálaráðuneytis eftir að tilboð frá bjóðanda hefur verið samþykkt.
     
     j. (30. gr.)
     Verkkaupa er skylt að veita fjármálaráðuneyti upplýsingar um þá verksamninga sem hann hefur gert og eru yfir þeim mörkum sem getið er um í 22. gr.
     
     k. (31. gr.)
     Fjármálaráðuneytið skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara. Innkaupastofnun ríkisins skal annast útboð á Evrópsku efnahagssvæði fyrir þau sveitarfélög sem þess óska. Einnig skal hún vera sveitarfélögum og öðrum opinberum aðilum til ráðuneytis varðandi framkvæmd útboða á Evrópska efnahagssvæðinu.

3. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem orðast svo:
     Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laga þessara, svo sem um efni auglýsinga, útboðsgögn, útboðsaðferðir, tilboðsfresti, hæfi verktaka og val á tilboðum.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 52/1987, um opinber innkaup.

4. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Ákvæði 9.–14. gr. laga þessara gilda eingöngu um útboð og innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu.

5. gr.

     Á eftir 8. gr. laganna koma sex nýjar greinar og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því.
     Hinar nýju greinar orðast svo:
     
     a. (9. gr.)
     Á hinu Evrópska efnahagssvæði skulu boðin út innkaup þeirra aðila sem getið er um í 3. gr., svo og sveitarfélaga, samtaka þeirra, stofnana og fyrirtækja. Jafnframt skulu boðin út innkaup annarra opinberra aðila sem eru undir yfirstjórn eða eftirliti stjórnar þar sem meiri hluti stjórnarmanna er skipaður af opinberum aðilum. Starfi þessir aðilar á sviði viðskipta eða iðnaðar er þeim það þó ekki skylt, enda sinni þeir ekki vatnsveitu, orkuveitu, flutningum eða fjarskiptum.
     Ráðherra er heimilt að ákveða með reglugerð að einstakar tegundir samninga um innkaup verði ekki boðnir út á Evrópska efnahagssvæðinu.
     
     b. (10. gr.)
     Skylda til útboðs tekur til innkaupa á vörum sem áætlað er að nemi a.m.k. því verðmæti án virðisaukaskatts sem getið er um í 1.–4. tölul. þessarar greinar. Með innkaupum er átt við kaup, leigu, fjármögnunarleigu og kaupleigu. Samningur telst vera samningur um innkaup, jafnvel þótt hann feli í sér flutning á ákvörðunarstað og uppsetningu.
  1. 200.000 evrópskum mynteiningum (ECU) enda sé ekki um að ræða innkaup sem falla undir 2.–4. tölul.
  2. 130.000 ECU vegna innkaupa á vörum sem getið er um í viðauka við lög þessi enda séu innkaupin ekki á vegum sveitarfélaga.
  3. 400.000 ECU ef innkaupin eru gerð af aðila sem sinnir flutningum með almenningsvögnum, orkuveitu, vatnsveitu, flugvallar- eða hafnargerð.
  4. 600.000 ECU ef innkaupin eru gerð af Pósti og síma eða öðrum sambærilegum stofnunum sem reka fjarskiptakerfi eða veita almenna fjarskiptaþjónustu. Með innkaupum samkvæmt þessum tölulið er einnig átt við kaup á hugbúnaðarþjónustu sem sérstaklega er ætluð til notkunar í fjarskiptum.

     Ákvæði 3. og 4. tölul. 1. mgr. gilda einnig um innkaup þeirra fyrirtækja sem stunda þá starfsemi sem þar greinir á grundvelli sérleyfa eða annars konar einkaréttar sem veitt eru af opinberum aðilum.
     Við mat á verðmæti innkaupa skal miða við það gengi sem í gildi er þann dag er auglýsing skv. 12. gr. er send til birtingar.
     
     c. (11. gr.)
     Þegar gerðir eru samningar um leigu, fjármögnunarleigu eða kaupleigu skal við mat á verðmæti samningsins taka mið af heildarkostnaði út samningstímann. Ef samningur er ótímabundinn skal við það miðað að hann hafi verið til 48 mánaða.
     Þegar gerður er samningur sem endurnýja á innan ákveðins tíma skal við mat á verðmæti hans taka mið af sambærilegum samningum sem gerðir voru annaðhvort á síðasta reikningsári eða síðustu 12 mánuðum fyrir samningsgerð.
     Þegar innkaupum á sambærilegri vöru er deilt í nokkra hluta skal við mat á verðmæti innkaupanna tekið mið af samanlagðri fjárhæð einstakra hluta.
     Óheimilt er að skipta innkaupum á ákveðnu magni vöru í hluta í því skyni að koma í veg fyrir skyldu til að bjóða innkaupin út.
     Í reglugerð er heimilt að kveða nánar á um mat á útboðsverðmæti.
     
     d. (12. gr.)
     Í sérstakri kynningarauglýsingu í upphafi hvers reikningsárs skal tilkynnt um heildarvörukaup eftir vöruflokkum ef áætluð fjárhæð þeirra innkaupa sem ráðgert er að bjóða út á næstu 12 mánuðum er jöfn eða hærri en 750.000 ECU án virðisaukaskatts. Jafnframt er skylt að auglýsa þau innkaup sem ákveðið hefur verið að bjóða út. Þá er kaupanda, sem gert hefur samning um innkaup, skylt að auglýsa það.
     Auglýsingar þær, sem getið er um í 1. mgr., skulu sendar útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um útboð eða gerð samnings um innkaup hefur verið tekin.
     Hvers konar birting hér á landi á auglýsingu skv. 1. gr. er óheimil þar til hún hefur verið send útgáfustjórn Evrópubandalagsins til birtingar. Sendingardagur skal koma fram í auglýsingunni. Jafnframt er óheimilt að birta í þess konar auglýsingum aðrar upplýsingar um innkaupin en þær sem koma fram í Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.
     
     e. (13. gr.)
     Nú telur bjóðandi að stjórnvöld hafi tekið ákvörðun í tengslum við framkvæmd útboðs eða gerð samnings um innkaup sem felur í sér brot á ákvæðum laga þessara um útboð á Evrópska efnahagssvæðinu og getur hann þá kært þá ákvörðun til fjármálaráðuneytis.
     Kæra skal vera skrifleg og rökstudd og skulu fylgja henni nauðsynleg gögn. Fjármálaráðuneytinu er heimilt að krefja kæranda um frekari upplýsingar ef það telur ástæðu til.
     
     f. (14. gr.)
     Um meðferð kæru, úrræði vegna kæru, bótaskyldu, valdsvið eftirlitsstofnunar EFTA, eftirlit og hlutverk Innkaupastofnunar ríkisins fer skv. 26.– 31. gr. laga nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, eftir því sem við á.

6. gr.

     Við lögin bætist ný grein sem orðast svo:
     Fjármálaráðherra skal í reglugerð kveða nánar á um framkvæmd laga þessara, svo sem um efni auglýsinga, útboðsgögn, útboðsaðferðir, tilboðsfresti, hæfi bjóðenda og val á tilboðum.
     Ráðherra er heimilt að gera breytingar á viðauka til samræmis við þær breytingar sem verða á þeim köflum í tollskrá sem viðaukinn vísar til. Breytingar samkvæmt þessari málsgrein skulu birtar í A-deild Stjórnartíðinda.

III. KAFLI
Gildistaka.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið öðlast gildi að því er Ísland varðar.

VIÐAUKI
     Í viðauka þessum er kveðið á um þær vörur sem falla undir 2. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga þessara. Við flokkun á vörunum er fylgt flokkunarreglum tollalaga, nr. 55/1987. Kaflaheiti vísar til samsvarandi kafla í viðauka I við tollalög, nr. 55/1987.
     
     

    25. kafli:    Salt; brennisteinn; mold og steintegundir; gipsefni, kalk og sement

    26. kafli:    Málmgrýti, gjall og aska

    27. kafli:    Eldsneyti úr steinaríkinu, jarðolíur og efni eimd úr þeim; jarðbiksefni; jarðvax
nema:
úr 2710: Eldsneyti fyrir sérstakar vélar

    28. kafli:    Ólífræn efni; lífræn eða ólífræn sambönd góðmálma, sjaldgæfra jarðmálma, geislavirkra frumefna eða samsætna
nema:
úr 2808: Sprengiefni
úr 2811: Sprengiefni
úr 2812: Táragas
úr 2825: Sprengiefni
úr 2829: Sprengiefni
úr 2834: Sprengiefni
úr 2844: Eiturefni
úr 2845: Eiturefni
úr 2847: Sprengiefni

    29. kafli:    Lífræn efni
nema:
úr 2904: Sprengiefni
úr 2905: Sprengiefni
úr 2908: Sprengiefni
úr 2909: Sprengiefni
úr 2912: Sprengiefni
úr 2913: Sprengiefni
úr 2914: Eiturefni
úr 2915: Eiturefni
úr 2917: Eiturefni
úr 2920: Eiturefni
úr 2921: Eiturefni
úr 2922: Eiturefni
úr 2925: Sprengiefni
úr 2926: Eiturefni
úr 2928: Sprengiefni

    30. kafli:    Vörur til lækninga

    31. kafli:    Áburður

    32. kafli:    Sútunar- eða litakjarnar; tannín og afleiður þeirra; leysilitir (dyes), dreifilitir (pigment) og önnur litunarefni; málning og lökk; kítti og önnur þéttiefni; blek

    33. kafli:    Rokgjarnar olíur og resinóíð; ilmvörur og snyrtivörur eða hreinlætisvörur

    34. kafli:    Sápa, lífræn yfirborðsvirk efni, þvottaefni, smurefni, gervivax, unnið vax, fægi- eða ræstiefni, kerti og áþekkar vörur, mótunarefni, tannvax og tannlækningavörur að meginstofni úr gipsefnum

    35. kafli:    Albúmínkennd efni; umbreytt sterkja; lím; ensím

    37. kafli:    Ljósmynda- og kvikmyndavörur

    38. kafli:    Ýmsar kemískar vörur
nema:
úr 3823: Eiturefni

    39. kafli:    Plast og vörur úr því
nema:
úr 3912: Sprengiefni

    40. kafli:    Gúmmí og vörur úr því
nema:
úr 4011: Skotheldir hjólbarðar

    41. kafli:    Óunnar húðir og skinn (þó ekki loðskinn) og leður

    42. kafli:    Vörur úr leðri; reiðtygi og aktygi; ferðabúnaður, handtöskur og áþekkar hirslur; vörur úr dýraþörmum (þó ekki silkiormaþörmum)

    43. kafli:    Loðskinn og loðskinnsgervi; framleiðsla úr þeim

    44. kafli:    Viður og vörur úr viði; viðarkol

    45. kafli:    Korkur og vörur úr korki

    46. kafli:    Framleiðsla úr strái, úr espartó eða öðrum fléttiefnum; körfugerðarvörur og tágasmíði

    47. kafli:    Deig úr viði eða öðru trefjakenndu sellulósaefni; úrgangur og rusl úr pappír eða pappa

    48. kafli:    Pappír eða pappi; vörur úr pappírsdeigi, pappír eða pappa

    49. kafli:    Prentaðar bækur, blöð, myndir og aðrar vörur prentiðnaðar; handrit, vélrit og uppdrættir

    65. kafli:    Höfuðfatnaður og hlutar til hans

    66. kafli:    Regnhlífar, sólhlífar, göngustafir, setustafir, svipur, keyri og hlutar til þeirra

    67. kafli:    Unnar fjaðrir og dúnn og vörur úr fjöðrum eða dún; gerviblóm; vörur úr mannshári

    68. kafli:    Vörur úr steini, gipsefni, sementi, asbesti, gljásteini eða áþekkum efnum

    69. kafli:    Leirvörur

    70. kafli:    Gler og glervörur

    71. kafli:    Náttúrulegar eða ræktaðar perlur, eðalsteinar eða hálfeðalsteinar, góðmálmar, málmar klæddir góðmálmi, og vörur úr þessum efnum; glysvarningur; mynt

    73. kafli:    Vörur úr járni eða stáli

    74. kafli:    Kopar og vörur úr honum

    75. kafli:    Nikkill og vörur úr honum

    76. kafli:    Ál og vörur úr því

    78. kafli:    Blý og vörur úr því

    79. kafli:    Sink og vörur úr því

    80. kafli:    Tin og vörur úr því

    81. kafli:    Aðrir ódýrir málmar; keramíkmelmi; vörur úr þeim

    82. kafli:    Verkfæri, áhöld, eggjárn, skeiðar og gafflar, úr ódýrum málmi; hlutar til þeirra úr ódýrum málmi
nema:
úr 8207: Verkfæri
úr 8209: Verkfæri, hlutar

    83. kafli:    Ýmsar vörur úr ódýrum málmi

    84. kafli:    Kjarnakljúfar, katlar, vélbúnaður og vélræn tæki; hlutar til þeirra
nema:
úr 8401: Kjarnakljúfar
úr 8407 og úr 8408: Brunahreyflar
úr 8411 og úr 8412: Hverflar og aðrir hreyflar
úr 8456, úr 8457, úr 8458, úr 8459, úr 8460, úr 8461, úr 8462 og
úr 8463: Smíðavélar
úr 8471: Sjálfvirkar gagnavinnsluvélar
úr 8473: Hlutar og fylgihlutir til véla í nr. 8471

    85. kafli:    Rafbúnaður og -tæki og hlutar til þeirra; hljóðupptöku- og hljóðflutningstæki, mynda- og hljóðupptökutæki og mynda- og hljóðflutningstæki fyrir sjónvarp og hlutar og fylgihlutir til þess konar vara
nema:
úr 8517: Fjarskiptabúnaður á línu
úr 8525: Senditæki

    86. kafli:    Eimreiðar, vagnar og hlutar til þeirra fyrir járnbrautir eða sporbrautir; sporbúnaður og tengihlutar fyrir járnbrautir eða sporbrautir og hlutar til þeirra; hvers konar vélrænn umferðarmerkjabúnaður (þar með talinn rafknúinn)
nema:
úr 8601: Brynvarðar rafmagnseimreiðar
úr 8602: Aðrar brynvarðar eimreiðar
úr 8604: Viðgerðarvagnar fyrir járnbrautir eða sporbrautir
úr 8604 og 8605: Brynvarðir járnbrautar- eða sporbrautarvagnar
úr 8606: Vöruflutningavagnar fyrir járnbrautir eða sporbrautir

    87. kafli:    Ökutæki, þó ekki járnbrautar- eða sporbrautarvagnar, og hlutar og fylgihlutir til þeirra
nema:
úr 8701: Dráttarvélar
úr 8702, 8703 og 8704: Ökutæki til hernaðarnota
úr 8705: Gálgabifreiðar til að lyfta biluðum ökutækjum og flytja þau
úr 8710: Skriðdrekar og aðrir brynvarðir stríðsvagnar, einnig búnir vopnum, og hlutar til slíkra ökutækja
úr 8711: Mótorhjól
úr 8716: Tengivagnar

    89. kafli:    Skip, bátar og fljótandi mannvirki
nema:
úr 8906: Herskip

    90. kafli:    Áhöld og tækjabúnaður til optískra nota, ljósmyndunar, kvikmyndunar, mælinga, prófunar, nákvæmnisvinnu, lyflækninga eða skurðlækninga; hlutar og fylgihlutir til þeirra
nema:
úr 9005: Sjónaukar
úr 9012: Smásjár
úr 9013: Leysitæki; önnur optísk tæki og áhöld ót. a. í þessum kafla
úr 9015: Fjarmælar
úr 9018: Áhöld og tæki til lækninga
úr 9019: Tæki til mekanóterapí
úr 9021: Búnaður til réttilækninga
úr 9022: Tækjabúnaður sem byggir á notkun röntgengeisla
úr 9030: Mælar til að mæla og prófa rafmagnsstærðir

    91. kafli:    Klukkur og úr og hlutar til þeirra

    92. kafli:    Hljóðfæri; hlutar og fylgihlutir til þess konar vara

    94. kafli:    Húsgögn, rekkjubúnaður, dýnur, rúmbotnar, púðar og áþekkur stoppaður húsbúnaður; lampar og ljósabúnaður, ót. a.; ljósaskilti, ljósanafnskilti og þess háttar; forsmíðaðar byggingar
nema:
9401.1000: Sæti til nota í flugvélum

    96. kafli:    Ýmsar framleiddar vörur

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1993.