Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1047, 116. löggjafarþing 3. mál: einkaleyfi og vörumerki (Evrópskt efnahagssvæði).
Lög nr. 67 7. maí 1993.

Lög um breytingar á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi, og lögum nr. 47/1968, um vörumerki, sbr. og lög nr. 31/1984.


I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 17/1991, um einkaleyfi.

1. gr.

     Í stað orðanna „hér á landi“ í 2. tölul. 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: á Evrópska efnahagssvæðinu.

2. gr.

     Á eftir 2. mgr. 75. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
     Einkaleyfi fyrir nautna- eða næringarefnum er hægt að veita á grundvelli umsókna sem lagðar eru inn eftir 1. janúar 1992.

3. gr.

     78. gr. laganna orðast svo:
     Um meðferð og ákvarðanir varðandi einkaleyfishæfi umsókna, sem lagðar hafa verið inn fyrir 1. janúar 1992, fer eftir ákvæðum laga nr. 12 20. júní 1923 með þeim undantekningum sem leiða má af öðrum ákvæðum þessa kafla.

4. gr.

     79. gr. laganna orðast svo:
     Hafi umsókn, sem var til meðferðar hjá einkaleyfayfirvöldum fyrir 1. janúar 1992, ekki verið auglýst fyrir þann tíma í samræmi við 13. gr. laga nr. 12 20. júní 1923 gilda ákvæði þessara laga um meðferð umsóknarinnar.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 47/1968, um vörumerki, sbr. lög nr. 31/1984.

5. gr.

     2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
     Vörumerki geta verið hvers konar tákn er birta má á prenti og til þess eru fallin að greina vörur eða þjónustu eins aðila frá vörum og þjónustu annarra, þ.e.:
  1. orð eða orðasambönd, þar á meðal vígorð, mannanöfn, nöfn á fyrirtækjum eða fasteignum,
  2. bókstafir og tölustafir,
  3. myndir og teikningar,
  4. útlit, búnaður eða umbúðir vöru.


6. gr.

     Aftan við 2. mgr. 3. gr. laganna kemur nýr málsliður sem orðast svo: Í rétti þessum felst þó ekki að eigandi vörumerkisins geti hindrað að aðrir noti nafn sitt, firmanafn eða nafn á fasteign sinni í atvinnuskyni í samræmi við góða viðskiptavenju.

7. gr.

     2. mgr. 6. gr. laganna orðast svo:
     Hætta á ruglingi telst þó vera til staðar gagnvart vel þekktu vörumerki hér á landi ef notkun á öðru líku merki felur í sér misnotkun eða rýrir aðgreiningareiginleika eða orðspor hins þekkta merkis.

8. gr.

     8. gr. laganna orðast svo:
     Yngri réttur á skráðu vörumerki getur notið verndar jafnhliða rétti á eldra vörumerki þótt merkin séu svo lík að villast megi á þeim, að því tilskildu að tilkynning um skráningu hafi verið afhent í góðri trú og eigandi eldra vörumerkisins hafi þrátt fyrir vitneskju um yngra merkið látið notkun á því afskiptalausa hér á landi í fimm ár samfellt frá skráningardegi.

9. gr.

     Síðasti málsliður 1. mgr. 13. gr. laganna fellur brott.

10. gr.

     Í 2. málsl. 17. gr. laganna falla niður orðin „og hver atvinnurekstur hans er“.

11. gr.

     Aftan við 1. mgr. 25. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Skráningin verður þó ekki felld úr gildi vegna ruglingshættu við annað vörumerki ef skilyrði 25. gr. a eiga við um það merki.

12. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 25. gr. a, sem orðast svo:
     Ef eigandi að skráðu vörumerki hefur eigi, innan fimm ára frá skráningardegi, notað vörumerkið hér á landi fyrir þær vörur eða þjónustu sem það er skráð fyrir eða hafi slík notkun ekki átt sér stað í fimm ár samfellt má ógilda skráninguna með dómi ef ekki koma fram gildar ástæður fyrir því að notkun á vörumerkingu hefur ekki átt sér stað.
     Ef vörumerki er notað í annarri útfærslu en greinir í vörumerkjaskrá, þó þannig að um sé að ræða óveruleg frávik sem ekki raska aðgreiningarhæfi þess eða ef merkið hefur verið sett á vörur hér á landi sem eingöngu eru ætlaðar til útflutnings eða á umbúðir þeirra, skal leggja slíkt að jöfnu við notkun skv. 1. mgr.
     Ef vörumerki er notað af öðrum en eiganda, en með samþykki hans, skal leggja þá notkun að jöfnu við notkun eiganda.
     Skráning verður þó ekki afmáð ef notkun á merki hefur hafist eftir lok fimm ára tímabilsins en áður en krafa um ógildingu kemur fram. Nú er krafa um ógildingu eigi lögð fram fyrr en þrír mánuðir hið skemmsta eru liðnir frá lokum fimm ára tímabilsins en eigandi merkis hefur hafið eða tekið aftur upp notkun þess á síðustu þremur mánuðum áður en krafa um ógildingu kom fram. Skal þá slík notkun ekki hafa áhrif á kröfu um ógildingu hafi eiganda merkis verið kunnugt um að krafan mundi koma fram er hann hóf undirbúning að notkun þess.

13. gr.

     Við lögin bætist ný grein, 25. gr. b, sem orðast svo:
     Hafi notkunarskyldu verið fullnægt fyrir hluta af þeim vörum eða þjónustu er vörumerkið var skráð fyrir skal ógildingin ekki taka til þess hluta skráningarinnar.

14. gr.

     2. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
     Vörumerkjaskrárritari er réttur sóknaraðili í málum samkvæmt ákvæðum 13. gr., 1.–3. tölul. 14. gr., 2. mgr. 25. gr. og 25. gr. a.

15. gr.

     34. gr. laganna orðast svo:
     Eigandi að skráðu vörumerki getur veitt öðrum leyfi til að nota merkið í atvinnuskyni (nytjaleyfi). Nytjaleyfi getur tekið til allrar vöru eða þjónustu sem vörumerkið nýtur verndar fyrir eða takmarkaðs hluta skráningar. Nytjaleyfi getur tekið til landsins alls eða afmarkaðra svæða þess. Eigandi að skráðu vörumerki getur krafist vörumerkjaréttar fram yfir rétt nytjaleyfishafa brjóti hann ákvæði nytjaleyfissamnings varðandi gildistíma, leyfilega útfærslu merkis, hvar og hvernig nota má það eða ákvæði er varða gæði vöru eða þjónustu er leyfishafi býður fram undir merkinu.
     Eigandi vörumerkis eða leyfishafi getur, gegn ákveðnu gjaldi, farið fram á að nytjaleyfi verði fært í vörumerkjaskrá og birt, sbr. 20. gr. Sami háttur skal á hafður er nytjaleyfi fellur úr gildi. Skráningaryfirvöld geta hafnað því að færa inn nytjaleyfi ef þau telja að notkun leyfishafa á merkinu geti leitt til ruglingshættu. Um áfrýjun slíkrar synjunar gilda ákvæði 4. mgr. 21. gr.
     Leyfishafi getur því aðeins framselt rétt sinn að um það hafi verið samið.

III. KAFLI
Gildistaka.

16. gr.

     Lög þessi öðlast gildi um leið og samningur um Evrópska efnahagssvæðið að því er Ísland varðar.

Samþykkt á Alþingi 29. apríl 1993.