Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1296, 116. löggjafarþing 515. mál: sveitarstjórnarlög (sameining sveitarfélaga).
Lög nr. 75 19. maí 1993.

Lög um breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 8/1986.


1. gr.

     Við lögin bætast ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:
     Þrátt fyrir ákvæði X. kafla laga þessara skal félagsmálaráðherra á árunum 1993 og 1994 beita sér fyrir sérstöku átaki í sameiningu sveitarfélaga. Það skal gert í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, landshlutasamtök sveitarfélaga og einstök sveitarfélög. Í stað ákvæða um aðdraganda, undirbúning og framkvæmd sameiningar í X. kafla laganna skal við þá sameiningu byggt á eftirfarandi:
 1. Landshlutasamtök skulu fyrir 15. júní 1993 kjósa fimm til níu manna umdæmanefndir á starfssvæðum allra landshlutasamtaka sveitarfélaga.
 2.      Hlutverk umdæmanefnda er að gera tillögur að nýrri skiptingu hvers landshluta í sveitarfélög í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Jafnframt er hlutverk þeirra að hafa yfirumsjón með kynningu á sameiningartillögum og að sjá um almenna atkvæðagreiðslu um þær.
       Tillögur umdæmanefnda skulu vera tilbúnar fyrir 15. september 1993. Tveimur umræðum í sveitarstjórnum um tillögur umdæmanefnda skal lokið án atkvæðagreiðslu sveitarstjórna innan sex vikna frá því að tillögur eru lagðar fram. Almennri atkvæðagreiðslu um tillögurnar skal lokið innan tíu vikna frá sama tíma.
       Umboð umdæmanefnda fellur niður þegar þær hafa lokið störfum og í síðasta lagi 31. mars 1994.
 3. Umdæmanefndir ákveða hver fyrir sig í samráði við landshlutasamtök og sveitarfélög á svæðinu hvenær almenn atkvæðagreiðsla skuli fara fram um sameiningartillögu. Atkvæðagreiðsla skal fara fram samtímis á starfssvæði hverra landshlutasamtaka. Atkvæðisbærir við þessa atkvæðagreiðslu eru þeir sem eru skráðir með lögheimili í hverju sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár 1. september 1993 og eiga kosningarrétt við sveitarstjórnarkosningar skv. 19. gr. Að öðru leyti fer um atkvæðagreiðsluna eftir ákvæðum III. kafla laganna eftir því sem við getur átt.
 4.      Hljóti tillaga umdæmanefndar meiri hluta greiddra atkvæða í öllum þeim sveitarfélögum sem málið varðar skulu sveitarstjórnir þær sem hlut eiga að máli taka ákvarðanir um fjárhagsmálefni sveitarfélaganna, fjölda fulltrúa í nýrri sveitarstjórn, nafn hins sameinaða sveitarfélags og önnur nauðsynleg atriði. Tilkynning um ákvarðanir þessar skal send félagsmálaráðuneytinu sem ákveður hvenær sameining fer fram og auglýsir hana í Stjórnartíðindum.
       Hljóti tillaga umdæmanefndar ekki samþykki í öllum hlutaðeigandi sveitarfélögum en þó meiri hluta greiddra atkvæða í a.m.k. 2/ 3 þeirra er viðkomandi sveitarstjórnum heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga sem samþykkt hafa sameininguna enda hamli ekki landfræðilegar aðstæður.
 5. Verði ekki af sameiningu á grundvelli atkvæðagreiðslu skv. 2. tölul. að framan er umdæmanefnd heimilt að leggja fram nýja tillögu. Skal það gert fyrir 15. janúar 1994. Sömu reglur og tímamörk gilda um seinni tillögu og þá fyrri að því undanskildu að kjörskrá skal þá miðuð við íbúaskrá þjóðskrár 1. janúar 1994. Jafnframt gilda sömu ákvæði um ákvarðanir í framhaldi af almennri atkvæðagreiðslu og gilda um fyrri tillögu.
 6. Fyrir 1. júní 1993 skal félagsmálaráðherra skipa sérstaka samráðsnefnd um sameiningarmál sveitarfélaga. Starfstími nefndarinnar er til ársloka 1994. Samráðsnefndin skal skipuð fulltrúum tilnefndum af þingflokkum á Alþingi, Byggðastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneyti. Nefndin skal m.a. vera umdæmanefndum til ráðuneytis.
 7. Kostnaður við störf umdæmanefnda og samráðsnefndar skal greiddur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga en kostnaður við atkvæðagreiðslur skal greiddur af viðkomandi sveitarfélögum.
 8. Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd bráðabirgðaákvæðis þessa.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 1993.