Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1286, 116. löggjafarþing 306. mál: Menningarsjóður (heildarlög).
Lög nr. 79 18. maí 1993.

Lög um Menningarsjóð.


1. gr.

     Hlutverk Menningarsjóðs er að veita fjárhagslegan stuðning til útgáfu þeirra bóka á íslenskri tungu sem verða mega til eflingar íslenskri menningu. Sérstök áhersla skal lögð á að efla útgáfu fræðirita, handbóka, orðabóka og menningarsögulegra rita. Jafnframt veitir sjóðurinn fjárhagslegan stuðning annarri skyldri starfsemi eftir nánari ákvæðum í reglugerð.

2. gr.

     Stjórn Menningarsjóðs er skipuð þremur mönnum. Skulu þeir, ásamt jafnmörgum varamönnum, kosnir hlutfallskosningu á Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Menntamálaráðherra skipar formann úr hópi hinna kjörnu stjórnarmanna.
     Stjórn Menningarsjóðs hefur með höndum árlega úthlutun styrkja úr sjóðnum.
     Stjórn Menningarsjóðs gerir árlega áætlun um tekjur og gjöld sjóðsins og skal hún borin undir menntamálaráðherra til samþykktar. Kostnaður vegna starfsemi sjóðsins greiðist úr Menningarsjóði.

3. gr.

     Til Menningarsjóðs falla árlega þessar tekjur:
  1. Gjald af aðgöngumiðum að kvikmynda- og skuggamyndasýningum og dansleikjum skv. 8. gr. laga nr. 58/1970, um skemmtanaskatt.
  2. Fjárveiting sem veitt er í fjárlögum hverju sinni.


4. gr.

     Menntamálaráðherra setur nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd laga þessara.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Samtímis falla úr gildi lög nr. 50/1957, með síðari breytingum, um menningarsjóð og menntamálaráð.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Á árinu 1993 skulu 15 milljónir króna frá uppgjöri Bókaútgáfu Menningarsjóðs renna til Menningarsjóðs í stað framlags á fjárlögum.
     Á árinu 1993 skal a-liður 3. gr. ekki koma til framkvæmda.
     Menntamálaráð, sem kosið var af Alþingi samkvæmt lögum nr. 50/1957, með síðari breytingum, um menningarsjóð og menntamálaráð, skal leyst frá störfum við gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 8. maí 1993.