Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 441, 117. löggjafarþing 278. mál: iðnaðarmálagjald (heildarlög).
Lög nr. 134 31. desember 1993.

Lög um iðnaðarmálagjald.


1. gr.

     Leggja skal 0,08% gjald, iðnaðarmálagjald, á allan iðnað í landinu eins og hann er skilgreindur í 2. gr. Skal gjaldstofn þess vera velta skv. 11. gr. laga um virðisaukaskatt að meðtalinni veltu sem undanþegin er virðisaukaskatti skv. 12. gr. þeirra laga.
     Óheimilt er að leggja gjaldið við verð á vöru eða þjónustu iðnfyrirtækja.
     Um álagningu og innheimtu iðnaðarmálagjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga um tekjuskatt og eignarskatt eftir því sem við á.
     Í ríkissjóð skal renna 0,5% af innheimtu iðnaðarmálagjalds skv. 1. mgr. vegna kostnaðar ríkissjóðs við innheimtu þess.
     Iðnaðarmálagjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn til þess myndaðist.

2. gr.

     Til iðnaðar telst öll starfsemi sem fellur undir atvinnugreinanúmer 200–499, 848 og 865–867 í atvinnuvegaflokkun Hagstofunnar.
     Undanþegin gjaldinu er eftirfarandi starfsemi:
  1. Fyrirtæki að öllu leyti í eign opinberra aðila svo og fyrirtæki sem stofnuð eru samkvæmt sérstökum lögum til að vera eign opinberra aðila að verulegu leyti nema annars sé getið í þeim lögum.
  2. Fiskiðnaður, atvinnugreinanúmer 203, 204, 312, 313, 314; slátrun og kjötiðnaður, atvinnugreinanúmer 201; mjólkuriðnaður, atvinnugreinanúmer 202, sbr. atvinnuvega-flokkun Hagstofunnar.

3. gr.

     Tekjur af iðnaðarmálagjaldi renna til Samtaka iðnaðarins. Tekjunum skal varið til þess að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu. Þau skulu senda iðnaðarráðuneytinu árlega skýrslu um ráðstöfun andvirðis teknanna.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Skal í fyrsta sinn lagt á iðnaðarmálagjald samkvæmt þeim árið 1994 á gjaldstofn ársins 1993. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 48/1975, um iðnaðarmálagjald.

Samþykkt á Alþingi 17. desember 1993.