Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 454, 117. löggjafarþing 245. mál: kirkjumálasjóður.
Lög nr. 138 31. desember 1993.

Lög um kirkjumálasjóð.


1. gr.

     Stofna skal sjóð er nefnist kirkjumálasjóður.

2. gr.

     Ríkissjóði ber að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti gjaldi er nemur 11,3% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld. Gjaldið greiðist mánaðarlega.

3. gr.

     Kirkjumálasjóður skal skila á hverju ári fjárhæð er rennur til prestssetrasjóðs eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs. Framlagið skal eigi nema lægri fjárhæð en 52 milljónum króna og skal sú fjárhæð endurskoðuð árlega með hliðsjón af byggingarvísitölu í júlímánuði. Framlagið skal innt af hendi með jöfnum mánaðarlegum greiðslum.

4. gr.

     Auk framlags í prestssetrasjóð, sbr. 3. gr., skal kirkjumálasjóður standa straum af kostnaði við eftirtalið eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs:
  1. Kirkjuþing, kirkjuráð og prestastefnu.
  2. Biskupsgarð.
  3. Ráðgjöf í fjölskyldumálum (fjölskylduþjónustu kirkjunnar).
  4. Söngmálastjórn og tónlistarfræðslu á vegum þjóðkirkjunnar.
  5. Starfsþjálfun guðfræðikandídata.
  6. Önnur verkefni.

5. gr.

     Kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju hefur á hendi umsjá og stjórn kirkjumálasjóðs og ber ábyrgð fyrir kirkjuþingi á stjórn hans. Kirkjuráð semur árlega fjárhagsáætlun fyrir sjóðinn er kynnt skal dóms- og kirkjumálaráðuneytinu fyrir lok maímánaðar ár hvert. Áætlun skal einnig kynnt kirkjuþingi.
     Reikningshald sjóðsins skal vera í höndum biskupsstofu og reikningsleg endurskoðun framkvæmd af Ríkisendurskoðun í samræmi við lög um Ríkisendurskoðun, ásamt síðari breytingum.

6. gr.

  1. Lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36 4. maí 1993, breytast þannig:
    1. 1. tölul. 1. mgr. 39. gr. orðast svo: Á árinu 1994 skal gjaldið vera 139,88 kr. á einstakling á mánuði.
    2. Í stað „1994“ í 2. tölul. 1. mgr. 39. gr. kemur: 1995.
  2. Lög um kirkjuþing og kirkjuráð hinnar íslensku þjóðkirkju, nr. 48 11. maí 1982, breytast þannig:
    1. Við 2. mgr. 1. gr. bætist: nema kirkjuþing geri aðra skipan þar á.
    2. 14. gr. laganna orðast svo: Kirkjuþing kýs þingfararkaupsnefnd er ákvarðar dagpeninga, ferðakostnað og þóknun til kirkjuþingsmanna.
    3. 2. málsl. 17. gr. laganna fellur brott.

7. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994 en skulu koma til endurskoðunar eigi síðar en fjórum árum eftir gildistöku þeirra.
     Jafnframt falla úr gildi lög um söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar, nr. 3 24. febrúar 1981, frá sama tíma.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Kirkjumálasjóður skal starfrækja embætti söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar áfram, eins og við getur átt, til loka vormissiris 1995. Lokapróf frá Tónskólanum til þess tíma veitir sömu réttindi og aðrir tónlistarskólar, þ.e. til starfa sem organisti og sem kennari í tónlist. Tónskólinn skal til þess tíma kenna í samræmi við námsskrá sem hlotið hefur staðfestingu menntamálaráðuneytisins. Nemendur Tónskólans öðlast að öðru leyti réttindi í samræmi við þá áfanga (námsstig) sem þeir ljúka í námi og í samræmi við ákvæði í reglugerð.
     Fastráðnir starfsmenn söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar skulu hafa rétt til áframhaldandi og sambærilegra starfa hjá söngmálastjóra og Tónskóla þjóðkirkjunnar eftir að lög þessi öðlast gildi. Söngmálastjóri skal eiga sama rétt til áframhaldandi óbreyttra starfa. Forstöðumaður fjölskylduþjónustu kirkjunnar skal eiga rétt til áframhaldandi og sambærilegra starfa við fjölskylduþjónustuna við gildistöku laga þessara. Ákvæði 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38 14. apríl 1954, á því ekki við um þessa starfsmenn.
     Eignir þær, sem ríkið hefur lagt Tónskóla þjóðkirkjunnar til, renna til skólans við gildistöku laga þessara.
     Húseignin að Bergstaðastræti 75, Reykjavík, ásamt leigulóðarréttindum verður eign kirkjumálasjóðs við gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 1993.