Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1242, 117. löggjafarþing 285. mál: hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit (EES-reglur).
Lög nr. 65 19. maí 1994.

Lög um breytingu á lögum nr. 81 3. ágúst 1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, ásamt síðari breytingum, vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.


1. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:

      3.1.     Til þess að stuðla sem best að framkvæmd mengunarvarna setur ráðherra mengunarvarnareglugerð eða reglugerðir að höfðu samráði við önnur ráðuneyti sem fara með einstaka málaflokka er snerta umhverfismál og í samræmi við alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að og gilda þær fyrir allt landið, lofthelgi og landhelgi.

      3.2.     Í mengunarvarnareglugerð eða öðrum reglugerðum skulu vera almenn ákvæði um:
  1. Starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun. Í reglugerð skulu m.a. vera ákvæði um staðarval, mengunarvarnir í einstökum atvinnugreinum og um rekstur og viðhald mengunarvarnaútbúnaðar.
  2. Endurskoðun starfsleyfa vegna verulegra breytinga á atvinnurekstri eða vegna tækniþróunar.
  3. Áhættumat fyrir nýjan og starfandi atvinnurekstur þar sem hætta er á stórslysum vegna aðferða og efna sem notuð eru við starfsemina og endurskoðun áhættumats, svo og upplýsingar sem ábyrgðaraðilum atvinnurekstrar er skylt að láta í té beri slys að höndum.
  4. Eftirlit, skráningu og tilkynningarskyldu.
  5. Umhverfisstjórn og eftirlitskerfi fyrirtækja, svo og viðurkenningar, úttektir og eftirlit með slíkum kerfum.
  6. Umhverfismerki á vörur, m.a. um veitingu þeirra og gjaldtöku.
  7. Eftirlit með flutningi úrgangs milli landa og tilkynningarskyldu aðila sem meðhöndla og flytja slíkan úrgang.
  8. Úttekt á hugsanlegri mengunarhættu.
  9. Meðferð vatns og sjávar í atvinnurekstri þar sem m.a. skulu fram koma viðmiðunarmörk vegna losunar tiltekinna efna.
  10. Úrgangsefni, svo sem eyðingu sorps og annars úrgangs.
  11. Frárennsli og skolp þar sem m.a. skulu koma fram reglur um hreinsun skolps og viðmiðunarmörk í frárennsli.
  12. Varnir gegn vatnsmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk og/eða gæðamarkmið fyrir grunnvatn og yfirborðsvatn.
  13. Varnir gegn loftmengun þar sem m.a. skulu koma fram viðmiðunarmörk fyrir loftgæði.
  14. Varnir gegn jarðvegsmengun og viðmiðunarmörk fyrir jarðveg.
  15. Hávaða og titring þar sem fram koma viðmiðunarmörk fyrir leyfilegan hávaða og titring með hliðsjón af umhverfi.
  16. Varmamengun þar sem fram skulu koma reglur um takmörkun slíks.
  17. Önnur sambærileg atriði.
       Enn fremur skal setja ákvæði um:
  1. Undanþáguheimildir og hvaða takmörkun þær skuli háðar.
  2. Valdsvið, skyldur og starfstilhögun heilbrigðisnefnda, heilbrigðisfulltrúa og Hollustuverndar ríkisins, svo og dagsektir.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1994.