Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1237, 117. löggjafarþing 617. mál: brunavarnir og brunamál (rannsókn eldsvoða).
Lög nr. 67 19. maí 1994.

Lög um breyting á lögum um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992.


1. gr.

     22. gr. laganna orðast svo:
     Lögreglan rannsakar eldsvoða samkvæmt ákvæðum laga um meðferð opinberra mála og kveður til sérfróða menn eftir því sem hún telur þörf á. Hún tilkynnir Brunamálastofnun ríkisins og Rafmagnseftirliti ríkisins um eldsvoðann og rannsókn sína.
     Að lokinni rannsókn sendir lögreglan afrit af rannsóknargögnum til Brunamálastofnunar, hlutaðeigandi slökkviliðsstjóra og vátryggingafélags nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum.

2. gr.

     Á eftir 22. gr. laganna kemur ný grein, 22. gr. a, sem orðast svo:
     Þegar um mikið brunatjón er að ræða skal Brunamálastofnun ríkisins, óháð lögreglurannsókn, rannsaka útbreiðslu eldsins, hvernig brunavarnir byggingarinnar hafi staðist hann og hvernig að slökkviliðsstarfi hafi verið staðið. Kanna ber síðustu úttektir eldvarnaeftirlits fyrir brunann, hvaða athugasemdir hafi þar verið fram settar og hvernig eftir þeim hafi verið farið.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1994.