Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 991, 115. löggjafarþing 188. mál: brunavarnir og brunamál (heildarlög).
Lög nr. 41 27. maí 1992.

Lög um brunavarnir og brunamál.


I. KAFLI
Stjórn brunamála.

1. gr.

     Félagsmálaráðherra fer með yfirstjórn brunamála í landinu.

2. gr.

     Brunamálastofnun ríkisins hefur á hendi eftirlit með öllum brunavörnum og brunamálum í landinu.
     Brunamálastofnun ríkisins skal hlutast til um að farið sé í hvívetna eftir lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál.
     Brunamálastofnun ríkisins ber að gera sjálfstæðar athuganir og úttektir til þess að geta gert sér grein fyrir ástandi mála, hvenær sem þurfa þykir, með fullri vitneskju og í sem bestri samvinnu við hlutaðeigandi brunamálayfirvöld.
     Önnur helstu verkefni Brunamálastofnunar ríkisins eru:
  1. Að leiðbeina sveitarstjórnum um allt það er lýtur að brunavörnum, þar á meðal að skilgreina þær brunatæknilegu kröfur sem vatnsveitukerfi sveitarfélaga eiga að uppfylla og hafa eftirlit með að þeim kröfum sé fullnægt.
  2. Að yfirfara brunahönnun og uppdrætti af nýbyggingum, viðbótum og meiri háttar breytingum á mannvirkjum sem slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi vísar til hennar og stofnunin sjálf kallar eftir til að ganga úr skugga um að lögum og reglugerðum um brunavarnir sé fullnægt. Einnig skal Brunamálastofnun gefa út leiðbeiningar og reglur um brunavarnir og brunahönnun mannvirkja eftir því sem kostur er.
  3. Að hafa eftirlit með og samþykkja slökkvibúnað, brunavarnakerfi, byggingarhluta og efni og annað það er snertir brunavarnir.
  4. Að hafa forgöngu um að fylgt sé fyrirmælum reglugerðar um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna, þar á meðal slökkviliðsstjóra og eldvarnaeftirlitsmanna.
  5. Að hafa æfingar með slökkviliðum, svo og að stuðla að aukinni menntun slökkviliðsmanna og eldvarnaeftirlitsmanna, m.a. með því að gangast fyrir reglubundnum námskeiðum.
  6. Að beita sér fyrir kynningar- og fræðslustarfsemi fyrir þá er sinna reglubundnu eldvarnaeftirliti; að gangast fyrir ráðstefnum og námskeiðum fyrir hönnuði og aðra tæknimenn og kynna þeim nýjungar á sviði brunavarna; að beita sér fyrir kynningar- og fræðslustarfsemi meðal almennings.
  7. Að halda uppi rannsóknastarfsemi á sviði brunavarna.
  8. Að semja árlega skýrslu um orsakir og afleiðingar eldsvoða. Vátryggingafélög skulu senda Brunamálastofnun, eigi síðar en 1. mars ár hvert, sundurliðaðar skýrslur um brunatjón á næstliðnu ári. Skal árleg yfirlitsskýrsla Brunamálastofnunar um eldsvoða birt opinberlega.
  9. Að undirbúa og endurskoða, eftir því sem þörf er á, reglugerðir um brunamál og sjá svo um að þær séu ávallt í samræmi við kröfur tímans.
  10. Að hafa samvinnu við samsvarandi stofnanir í nágrannalöndunum og fylgjast með framförum og nýjungum erlendis á sviði brunavarna.

     Ráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um verkefni, svo og starfshætti Brunamálastofnunar.

3. gr.

     Ráðherra skipar fimm manna stjórn Brunamálastofnunar ríkisins til fjögurra ára í senn. Hann skipar einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga, einn eftir tilnefningu Landssambands slökkviliðsmanna, einn eftir tilnefningu Sambands íslenskra tryggingafélaga og einn eftir tilnefningu Brunatæknifélags Íslands. Einn mann skipar ráðherra án tilnefningar og skal hann vera formaður stjórnarinnar. Skipa skal varamenn með sama hætti. Ráðherra ákveður þóknun til stjórnarmanna fyrir störf þeirra.
     Stjórn Brunamálastofnunar skal hafa eftirlit með rekstri og starfsemi stofnunarinnar og að fylgt sé ákvæðum laga og reglna sem um stofnunina gilda. Stjórnin skal móta stefnu stofnunarinnar í samráði við brunamálastjóra, m.a. með því að samþykkja starfs- og fjárhagsáætlun fyrir eitt ár í senn. Stjórnin ber ábyrgð gagnvart ráðherra.
     Ráðherra skipar brunamálastjóra til sex ára í senn að fengnum tillögum stjórnar Brunamálastofnunar. Hann skal veita stofnuninni forstöðu og bera ábyrgð gagnvart stjórninni. Hann ræður starfsmenn Brunamálastofnunar og taka þeir laun samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Brunamálastjóri skal vera arkitekt, verkfræðingur eða tæknifræðingur eða með aðra sambærilega menntun á háskólastigi og hafa sérþekkingu á brunamálum.

4. gr.

     Sveitarstjórn og slökkviliðsstjóri skulu halda uppi almennum brunavörnum og opinberu eldvarnaeftirliti í sveitarfélagi í samræmi við kröfur sem nánar er kveðið á um í reglugerðum um brunavarnir og brunamál. Kostnaður greiðist úr sveitarsjóði.
     Sveitarstjórnir geta haft samvinnu sín á milli um brunavarnamál sveitarfélaga. Um þá samvinnu skulu gilda ákvæði IX. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986.
     Félagsmálaráðherra getur, að fenginni umsögn Brunamálastofnunar, undanþegið sveitarfélag skyldu til að halda uppi sérstökum brunavörnum berist rökstudd beiðni um slíkt frá sveitarstjórn.

II. KAFLI
Slökkvilið og slökkvistarf.

5. gr.

     Sveitarfélögum er skylt að leggja til og halda við nauðsynlegum tækjum og búnaði til almenns slökkvistarfs og brunavarna, þar með talið nauðsynlegt húsnæði fyrir slökkviliðið.
     Í reglugerð skal kveða á um lágmarkskröfur varðandi tækjakost, húsnæði og mannafla slökkviliða, svo og vatnsnotkun til slökkvistarfa.
     Sveitarfélögum ber að sjá um að nægilegt vatn og vatnsþrýstingur sé fyrir hendi til slökkvistarfs og fyrir sérstakan slökkvibúnað í þéttbýli, t.d. úðakerfi í meiri háttar byggingum. Í þeim sveitarfélögum, þar sem vatnsöflun er erfið, er þó heimilt að leita annarra lausna til að tryggja nauðsynlegar brunavarnir.
     Við skipulag byggðar og staðsetningu slíkra bygginga í sveitarfélagi ber að taka fullt tillit til ofangreindra þátta.

6. gr.

     Sveitarstjórn skipar slökkviliðsstjóra og varaslökkviliðsstjóra. Slökkviliðsstjóri, en í forföllum hans varaslökkviliðsstjóri, er yfirmaður og stjórnandi slökkviliðs. Hann hefur umsjón með öllum tækjum slökkviliðsins og brunahönum. Um starfsemi slökkviliða og verksvið slökkviliðsstjóra skal nánar kveðið á í reglugerð.
     Tæki og búnað slökkviliðs má einungis nota til slökkvi- og björgunarstarfs nema slökkviliðsstjóri heimili annað.

7. gr.

     Allir verkfærir menn 18–60 ára að aldri, sem hafa fasta búsetu í sveitarfélagi, eru skyldir til þjónustu í slökkviliði. Þeim er skylt að koma til slökkviæfinga allt að 20 klukkustundir á ári og auk þess skulu þeir koma hvenær sem eldsvoða ber að höndum samkvæmt nánari reglum um útköll.
     Sveitarstjórn skipar menn í slík slökkvilið eftir tillögum slökkviliðsstjóra. Um þóknun fyrir störf í slökkviliði fer eftir ákvörðun sveitarstjórnar að höfðu samráði við samtök slökkviliðsmanna.

8. gr.

     Í sveitarfélögum, þar sem slökkvilið er skipað fastráðnum starfsmönnum, má takmarka skyldur skv. 7. gr. eða fella þær niður.
     Slökkviliðsstjóra er skylt að sjá um að slökkviliðsæfingar séu haldnar eins oft og áskilið er í reglugerð.

9. gr.

     Slökkviliðsstjóra, eða staðgengli hans, er heimilt, þegar sérstaklega stendur á, að kveðja til slökkvistarfa eins marga menn og hann telur nauðsynlegt og getur enginn vinnufær maður skorast undan þeirri skyldu. Slík aðstoð skal veitt án endurgjalds.

10. gr.

     Slökkviliðsmenn og aðrir, sem vinna að brunavörnum eftir kvaðningu slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra, skulu slysatryggðir við æfingar og önnur störf í þágu brunavarna í samræmi við áhættu starfsins. Lágmarkstrygging þeirra skal vera í samræmi við skilmála um slysatryggingar opinberra starfsmanna samkvæmt kjarasamningum. Þeir sem verða fyrir tjóni við störf í þágu brunavarna eiga rétt á að fá tjónið bætt úr sveitarsjóði, enda verði tjónið ekki bætt af vátryggingafélagi. Náist ekki samkomulag um bætur skal tjónið metið af dómkvöddum mönnum.

11. gr.

     Félagsmálaráðherra getur að nokkru eða öllu leyti undanþegið sveitarfélag þeirri skyldu að hafa slökkvilið ef það hefur samið um að slökkvilið í nærliggjandi sveitarfélagi annist slökkvistarf. Um slíka samvinnu skal gera skriflegan samning og skal hann staðfestur af félagsmálaráðherra að fenginni umsögn Brunamálastofnunar.

12. gr.

     Hverjum manni er skylt, þegar eldsvoða ber að höndum, að leyfa aðgang að húsi sínu og lóð og una því að brotið verði niður og rutt burt því sem til fyrirstöðu er við slökkvistarf. Heimilt er að rífa niður byggingar ef slökkviliðsstjóri álítur það nauðsynlegt til að stöðva útbreiðslu elds. Slökkvilið hefur rétt til að nota öll tæki og áhöld sem til næst og að gagni mega koma við slökkvistarf þegar eldsvoða ber að höndum.

13. gr.

     Fjártjón, sem hlýst af ráðstöfunum skv. 12. gr., telst brunatjón.

14. gr.

     Ef slökkviliðsstjóri óskar þess skal lögregla annast löggæslu við slökkviæfingar og slökkviliðsstörf, en ella hreppstjóri eða sérstakur fulltrúi sem lögreglustjóri skipar. Við eldsvoða er löggæslulið á brunastað undir yfirstjórn slökkviliðsstjóra. Lögregla skal sjá slökkviliði fyrir greiðum aðgangi að brunastað, stöðva umferð um nærliggjandi götur, afgirða svæði sem slökkviliðið þarf til að gegna störfum sínum, vernda brunarústir sem rannsaka þarf eða bjarga verðmætum úr og varðveita muni sem bjargað er frá bruna þar til þeir eru afhentir réttum aðilum.

15. gr.

     Heimilt er slökkviliði, lögreglu eða þeim sem þessir aðilar kveðja til að fjarlægja hvern þann er truflar slökkvistarf og gera fullnægjandi ráðstafanir til að hann valdi ekki frekari truflun.

16. gr.

     Slökkviliði er heimilt að veita aðstoð við að slökkva eld utan eigin umdæmis. Slökkviliðsstjóri ákveður hverju sinni hversu mikið af tækjum og mannafla megi senda með hliðsjón af því að eigin umdæmi sé ekki stofnað í óeðlilega hættu.
     Kostnaður við slíka aðstoð telst til brunavarnakostnaðar þess sveitarfélags sem aðstoðar nýtur. Verði ágreiningur um kostnað skal hann ákveðinn af dómkvöddum mönnum. Héraðsdómari í því umdæmi, sem aðstoð veitir, útnefnir matsmenn.

III. KAFLI
Brunavarnir og meðferð eldfimra efna.

17. gr.

     Seljanda byggingarefna eða tækja eða annars varnings, sem haft geta áhrif á öryggi mannvirkja og fólks gagnvart eldi, er skylt að afla nauðsynlegra upplýsinga um brunatæknilega eiginleika þeirra og láta Brunamálastofnun þær í té. Slíkar upplýsingar skulu vera frá viðurkenndum og óháðum aðila sem Brunamálastofnun samþykkir. Brunamálastofnun tekur á grundvelli þessara upplýsinga ákvörðun um hvort nota megi byggingarefnið, tækið eða annan varning, til hvers og með hvaða skilyrðum.
     Brunamálastofnun getur bannað sölu byggingarefnis, tækis og annars varnings sem stofnunin telur geta valdið hættu á brunatjóni eða ekki hefur verið sótt um leyfi fyrir eða fullnægjandi brunatæknilegar upplýsingar fást ekki um. Lögreglu er skylt að aðstoða við slíkar aðgerðir ef þörf krefur.
     Brunamálastofnun skal halda skrá yfir þær viðurkenningar sem veittar eru á grundvelli 1. mgr., svo og það sem bannað er á grundvelli 2. mgr. Brunamálastofnun ber að senda slíka skrá reglulega til slökkviliðsstjóra, byggingarfulltrúa, hönnuða og annarra er þess óska.

18. gr.

     Eigandi mannvirkis er ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum um byggingar- og brunamál.
     Forráðamanni mannvirkis er skylt að sjá til þess að það fullnægi kröfum um brunavarnir fyrir þá starfsemi sem í mannvirkinu fer fram á hverjum tíma.
     Eigandi og/eða forráðamaður mannvirkis ber fulla ábyrgð á eigin brunavörnum, að þær séu virkar og því að haft sé reglubundið eftirlit með þeim. Jafnframt er þeim skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur sem eiga sér stoð í gildandi lögum og reglugerðum um brunavarnir og brunamál, byggingarmál, öryggismál og hollustuhætti.
     Skylt er að láta fara fram sérstaka brunahönnun á mannvirki þegar um er að ræða nýbyggingu þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða. Skal hún fullnægja þeim kröfum sem gildandi byggingarreglugerð og reglugerð um brunavarnir og brunamál mæla fyrir um.
     Sé um að ræða mannvirki sem þegar er byggt og í rekstri og þar sem af fyrirhugaðri starfsemi stafar sérstök eldhætta eða þar sem margir starfa, koma saman eða dveljast eða þar sem hætta er á stórfelldu eignatjóni í eldsvoða skal slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi gera úttekt á brunavörnum þess, m.a. með tilliti til viðvörunar- og slökkvibúnaðar, leggja hana fyrir eiganda eða forráðamann og senda síðan til vátryggingafélaga og Brunamálastofnunar. Sé brunavörnum slíks mannvirkis í veigamiklum atriðum ábótavant hafa slökkviliðsstjóri eða byggingarfulltrúi heimild til að fara fram á að gerð sé brunatæknileg hönnun eða úttekt á mannvirkinu.
     Séu breytingar gerðar á mannvirki, eða starfsemi þess breytt þannig að gerðar eru nýjar eða auknar kröfur um brunavarnir í þeim, er eiganda eða forráðamanni skylt að fá til þess samþykki byggingarnefndar og slökkviliðsstjóra og jafnframt að gera viðeigandi ráðstafanir til að kröfum um brunavarnir sé fullnægt fyrir hið breytta mannvirki eða hina breyttu starfsemi.
     Brunamálastofnun getur að höfðu samráði við sveitarfélag lagt svo fyrir að í mannvirkjum, sbr. 5. mgr., séu gerðar sérstakar ráðstafanir til brunavarna, t.d. með uppsetningu á sérhæfðum búnaði til viðvörunar- og slökkvistarfs og þjálfun tiltekinna starfsmanna í brunavörnum og slökkvistarfi.
     Eiganda eða forráðamanni mannvirkis og tryggingafélagi ber að gera viðeigandi ráðstafanir til björgunar verðmæta eftir bruna.

19. gr.

     Nauðsynlegum búnaði vegna almennra brunavarna má koma fyrir þar sem slíkt telst nauðsynlegt ef það veldur ekki óeðlilegu tjóni eða óþægindum. Slökkviliðsstjóri skal tilkynna aðila fyrir fram um slíkar aðgerðir.

20. gr.

     Fara skal þannig með eld eða eldfim efni að sem allra minnst hætta sé á því að eldsvoði geti af því hlotist.

IV. KAFLI
Tilkynningar um eldsvoða og rannsóknir.

21. gr.

     Sá sem verður fyrir brunatjóni, eða sé hann ekki viðstaddur sá er kemur í hans stað, er skyldur að tilkynna brunann hlutaðeigandi vátryggingafélagi, svo og lögreglustjóra, fulltrúa hans, sbr. 14. gr., eða hreppstjóra, svo fljótt sem unnt er.

22. gr.

     Brunamálastofnun ríkisins skal sjá um að rannsókn fari fram á orsökum eldsvoða þegar eftir brunatjón. Brunarannsókn þarf ekki að fara fram séu orsakir kunnar eða tjón óverulegt. Rannsóknarlögregla ríkisins eða lögreglustjóri skal sjá um að lögreglurannsókn fari fram sé grunur um að um refsivert athæfi hafi verið að ræða. Haft skal samráð við sérfræðinga Brunamálastofnunar við slíka rannsókn. Rafmagnseftirliti ríkisins skal tilkynnt um slíkar rannsóknir.
     Brunarannsókn skal beinast að því að kanna hver upptök eldsins hafi verið og þróun og útbreiðsla brunans, enn fremur hvernig háttað hafi verið brunahönnun hlutaðeigandi húss, hvernig staðið hafi verið að brunavörnum þess og hvernig slökkvistarfið hafi gengið fyrir sig. Kanna ber síðustu úttektir eldvarnaeftirlits fyrir brunann, hvaða athugasemdir þar hafi verið fram settar og hvernig eftir þeim hafi verið farið.
     Afrit af gögnum um hverja brunarannsókn skal senda til hlutaðeigandi lögregluyfirvalda, slökkviliðsstjóra og vátryggingafélags þegar rannsókn er lokið.

V. KAFLI
Fjármál brunavarna.

23. gr.

     Öll tryggingafélög og aðrir, sem annast vátryggingar, skulu árlega innheimta með iðgjöldum sínum, sérstakt brunavarnagjald fyrir Brunamálastofnun ríkisins. Brunavarnagjaldið má nema allt að 0,045 prómillum af vátryggingarfjárhæð brunatrygginga fasteigna og lausafjár, svo og samsettra vátrygginga sem fela í sér brunatryggingu. Viðlagatrygging skal þó ekki teljast gjaldskyld trygging í þessu efni né heldur brunatryggingar skipa og flugvéla. Félagsmálaráðherra ákveður hversu hátt fyrrgreint hlutfall skal vera og setur nánari reglur um innheimtu brunavarnagjaldsins í reglugerð. Þeir aðilar, sem innheimta brunavarnagjaldið, skulu hafa staðið Brunamálastofnun ríkisins skil á gjaldinu innan þriggja mánaða frá innheimtu þess. Endanlegt uppgjör gjaldsins fyrir hvert ár fer fram þegar ársreikningar þeirra aðila, sem annast innheimtu brunavarnagjaldsins, liggja fyrir.

24. gr.

     Heimilt er Brunamálastofnun að veita slökkviliðsmönnum, eldvarnaeftirlitsmönnum og öðrum þeim, sem starfa að brunamálum, styrki til náms á sviði brunamála.
     Fjármagn til þessara styrkveitinga má nema allt að 5% brunavarnagjaldsins á hverju ári. Ráðherra ákveður hversu hátt þetta hlutfall skal vera hverju sinni og setur nánari ákvæði um styrki þessa í reglugerð.

VI. KAFLI
Ýmis ákvæði.

25. gr.

     Slökkviliðsstjóri hefur eftirlit með því í sínu umdæmi að farið sé eftir lögum þessum og reglugerðum sem settar verða samkvæmt þeim.
     Slökkviliðsstjóra og eftirlitsmönnum hans skal heimill aðgangur að atvinnu- og stofnanahúsnæði og öðrum þeim vinnustöðum þar sem eftirlits er þörf.

26. gr.

     Nú kemur í ljós að ákvæði laga þessara eða reglugerða, sem settar eru á grundvelli þeirra, eru brotin og skal þá slökkviliðsstjóri þegar í stað gera ráðstafanir til að úr verði bætt. Slökkviliðsstjóra er heimilt að leita aðstoðar byggingarnefndar til að knýja eiganda og/eða forráðamann mannvirkis til úrbóta, sbr. 18. gr., og jafnframt er honum heimilt af sömu ástæðu að hafa samráð við Rafmagnseftirlit ríkisins og Vinnueftirlit ríkisins ef þörf krefur.
     Við áhættumat einstakra mannvirkja mega vátryggingafélög setja álag á brunatryggingaiðgjöld húsa þegar og meðan fyrir liggur að eigandi hefur ekki sinnt kröfum slökkviliðsstjóra um úrbætur skv. 1. mgr.
     Að fengnu samþykki sveitarstjórnar getur slökkviliðsstjóri í samráði við lögreglustjóra ákveðið að framkvæmdar verði nauðsynlegar úrbætur á kostnað eiganda eða forráðamanns eða ákveðið dagsektir uns úr verður bætt. Dagsektir renni til sveitarsjóðs.
     Ef almannahætta stafar af því að settum reglum um brunavarnir er ekki fylgt ber slökkviliðsstjóra eða lögreglustjóra að tilkynna það tafarlaust hlutaðeigandi sveitarstjórn. Að því loknu skal lögreglustjóri stöðva rekstur í viðkomandi mannvirki og loka því þar til úr hefur verið bætt með fullnægjandi hætti að mati þessara aðila.
     Ef upp kemur ágreiningur á milli slökkviliðsstjóra og sveitarstjórnar annars vegar og eiganda eða forráðamanns hins vegar um úrræði þau sem mælt er fyrir um í 1. eða 3. mgr. ber að vísa þeim ágreiningi tafarlaust til Brunamálastofnunar sem fellir úrskurð í málinu.

27. gr.

     Nú telur Brunamálastofnun að brotin séu ákvæði laga þessara eða reglugerða byggðra á þeim og slökkviliðsstjóri geri ekki fullnægjandi ráðstafanir til úrbóta skv. 26. gr. og skal þá Brunamálastofnun benda slökkviliðsstjóra á misbrestina og hefur stofnunin síðan rétt til að beita þeim heimildum sem slökkviliðsstjóra eru veittar í þeirri grein ef ekki er úr bætt.
     Telji Brunamálastofnun að sveitarstjórn gegni ekki skyldu sinni samkvæmt lögum þessum ber stofnuninni að undangenginni viðvörun til sveitarstjórnar að tilkynna það félagsmálaráðuneytinu sem veita skal sveitarstjórn áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslunni. Verði sveitarstjórn eigi við áskorun ráðuneytisins innan frests sem það tiltekur getur ráðuneytið með lögsókn krafist dagsekta af sveitarstjórn þar til úr hefur verið bætt. Dagsektir þessar skulu renna í ríkissjóð.

28. gr.

     Um matsgerðir samkvæmt lögum þessum fer að almennum reglum og venjum um möt dómkvaddra matsmanna. Meta skal raunverulegt fjártjón hverju sinni.

29. gr.

     Gjöld og dagsektir samkvæmt lögum þessum, svo og kostnað skv. 26. og 27. gr., má innheimta með lögtaki.

30. gr.

     Ráðherra setur, að fenginni tillögu Brunamálastofnunar, reglugerðir þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd laga þessara.

31. gr.

     Brot á lögum þessum og reglugerðum samkvæmt þeim varða sektum en varðhaldi eða fangelsi ef sakir eru miklar.

32. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 74 12. maí l982, um brunavarnir og brunamál.
     Ákvæði 2. mgr. 3. gr. um tímabundna skipun brunamálastjóra tekur ekki til núverandi brunamálastjóra.
     Við gildistöku laga þessara skal félagsmálaráðherra skipa nýja stjórn Brunamálastofnunar ríkisins í samræmi við 1. mgr. 3. gr. Umboð núverandi stjórnar fellur niður um leið og ráðherra hefur skipað hina nýju stjórn.

Samþykkt á Alþingi 18. maí 1992.