Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1247, 117. löggjafarþing 121. mál: Lyfjaverslun ríkisins.
Lög nr. 75 19. maí 1994.

Lög um stofnun hlutafélags um Lyfjaverslun ríkisins og heimild til sölu hlutabréfa í því félagi.


1. gr.

     Stofna skal hlutafélag sem tekur við öllum eignum, skuldum og rekstri Lyfjaverslunar ríkisins.

2. gr.

     Ríkissjóður er eigandi allra hlutabréfa félagsins við stofnun þess þrátt fyrir ákvæði laga nr. 32/1978, um hlutafélög, með síðari breytingum.

3. gr.

     Fastráðnir starfsmenn Lyfjaverslunar ríkisins skulu hafa rétt til að starfa hjá nýja hlutafélaginu við stofnun þess og skal þeim boðin sambærileg staða hjá félaginu og þeir áður gegndu hjá Lyfjaverslun ríkisins. Ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, á því ekki við um þá starfsmenn.

4. gr.

     Fjármálaráðherra annast undirbúning að stofnun félagsins og fer með eignarhlut ríkissjóðs í fyrirtækinu.
     Fjármálaráðherra er heimilt að selja allt að helming hlutabréfa ríkissjóðs í félaginu. Að öðru leyti skal leita heimildar Alþingis til sölu. Við sölu hlutabréfa skal þess gætt að samkeppni verði tryggð á sviði dreifingar og framleiðslu lyfja.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Nýtt hlutafélag tekur til starfa 1. júlí 1994.
     Eftirfarandi breytingar á lögum nr. 76/1982, um lyfjadreifingu, með áorðnum breytingum, taka gildi 1. júlí 1994:
  1. Við 8. mgr. 3. gr. Í stað „Lyfjaverslun ríkisins“ kemur: lyfjaframleiðslufyrirtækjum.
  2. Við 36. gr. Í stað „Lyfjaverslun ríkisins“ kemur: lyfjaheildsalar.
  3. 38. gr. fellur niður.
  4. 42.–46. gr. falla niður.
  5. 52.–53. gr. falla niður.
     Þann 1. júlí 1994 fellur úr gildi 1. mgr. 10. gr. laga nr. 38/1978, um ónæmisaðgerðir.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ráðherra skal leggja fyrir Alþingi skýrslu um hvernig birgðahald fyrir Almannavarnir ríkisins, sem Lyfjaverslun ríkisins annaðist, verði háttað eftir stofnun hlutafélags skv. 1. gr. þannig að fullnægjandi öryggissjónarmiða sé gætt.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1994.