Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1243, 117. löggjafarþing 562. mál: skipulag ferðamála (skipun ferðamálaráðs, rekstrarleyfi ferðaskrifstofu o.fl.).
Lög nr. 81 19. maí 1994.

Lög um breytingu á lögum um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, með síðari breytingum.


1. gr.

     2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
     Halda skal fund í ráðinu í janúarmánuði og afgreiða á þeim fundi fjárhagsáætlun ráðsins fyrir það ár, sbr. 8. gr. Aðrir fundir skulu haldnir samkvæmt ákvörðun ráðsins eða framkvæmdastjórnar.

2. gr.

     5. gr. laganna orðast svo:
     Samgönguráðherra skipar sjö manna framkvæmdastjórn ferðamálaráðs og skulu allir stjórnarmenn eiga sæti í ferðamálaráði.
     Einn er formaður ferðamálaráðs og skal hann vera formaður framkvæmdastjórnar. Annar er varaformaður ferðamálaráðs og skal hann vera varaformaður framkvæmdastjórnar. Eftirtaldir aðilar skulu tilnefna einn mann hver: Ferðamálasamtök landshluta sem tilgreind eru í 12.–18. tölul. 2. mgr. 4. gr. sameiginlega, Félag íslenskra ferðaskrifstofa, Flugleiðir hf., Reykjavíkurborg og Samband veitinga- og gistihúsa. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
     Framkvæmdastjórn fer með yfirstjórn á starfsemi ferðamálaráðs á milli funda ráðsins og í samræmi við ákvarðanir þess. Ferðamálaráði og framkvæmdastjórn er heimilt að skipa undirnefndir til þess að vinna að einstökum málaflokkum. Heimilt er að skipa í undirnefndir menn er ekki eiga sæti í ferðamálaráði.

3. gr.

     13. tölul. 7. gr. laganna orðast svo: Önnur þau verkefni sem ferðamálaráð ákveður eða því eru falin með lögum þessum eða á annan hátt.

4. gr.

     III. kafli laganna, 9., 10. og 11. gr., fellur brott og breytist númeraröð kafla og greina í samræmi við það.

5. gr.

     Við 1. mgr. 12. gr. laganna, er verður 9. gr., bætist nýr stafliður, e-liður, svohljóðandi:
  1. Starfrækslu bókunarþjónustu fyrir ferðir og gistingu, sbr. b-, c- og d-liði, og afþreyingu, þar með talinnar tölvubókunarþjónustu.

6. gr.

     14. gr. laganna, er verður 11. gr., orðast svo:
     Hver sá sem vill reka ferðaskrifstofu skal sækja um leyfi til ráðuneytisins. Leita skal umsagnar ferðamálaráðs um allar slíkar umsóknir.
     Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu skal veita í fyrsta sinn til tveggja ára en síðan til fimm ára í senn. Ráðherra er heimilt að ákveða að leyfum til reksturs ferðaskrifstofu sé skipt í flokka eftir starfsvettvangi og skal nánar kveðið á um flokkun ferðaskrifstofa í reglugerð.
     Samgönguráðuneytið skal ganga úr skugga um að öllum skilyrðum sé fullnægt.

7. gr.

     16. gr. laganna, er verður 13. gr., orðast svo:
     Ferðaskrifstofa, eða samtök slíkra fyrirtækja, skal setja tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem greitt hefur verið og fyrir greiðslu kostnaðar við heimflutning neytandans ef til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar viðkomandi ferðaskrifstofu kemur.
     Samgönguráðherra ákveður með reglugerð upphæð og skilmála tryggingar skv. 1. mgr. Skal þá miðað við að upphæð tryggingar sé í samræmi við umfang þess reksturs sem tryggingin nær til og þann kostnað sem greiða skal af tryggingarfénu.
     Ráðuneytið getur krafist ársreikninga og annarra upplýsinga frá ferðaskrifstofum.

8. gr.

     17. gr. laganna, er verður 14. gr., orðast svo:
     Samgönguráðuneytið ákvarðar hvort greiða skal af tryggingarfé skv. 13. gr. Eigi er heimilt að fella úr gildi tryggingu eða skerða tryggingarfé nema leyfi ráðuneytisins komi til.
     Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu fellur niður ef grípa þarf til tryggingarfjár samkvæmt þessari grein.

9. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Skipa skal nýtt ferðamálaráð og nýja stjórn ferðamálasjóðs samkvæmt lögum þessum þegar er því verður við komið. Skipunartími núverandi ferðamálaráðs og stjórnar ferðamálasjóðs skal haldast þar til skipað hefur verið í ráðið og stjórn sjóðsins að nýju.
II.
     Leyfi til reksturs ferðaskrifstofu, sem í gildi eru við gildistöku laga þessara, skulu halda gildi sínu í fimm ár, sbr. 7. gr., og endurnýjuð að þeim tíma liðnum.
III.
     Fella skal ákvæði laga þessara inn í meginmál laga um skipulag ferðamála, nr. 79/1985, með síðari breytingum, og gefa þau út svo breytt.

Samþykkt á Alþingi 6. maí 1994.