Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1279, 117. löggjafarþing 554. mál: reynslusveitarfélög.
Lög nr. 82 19. maí 1994.

Lög um reynslusveitarfélög.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

     Markmið þessara laga er að gera sveitarfélögum kleift að gera tilraunir í þeim tilgangi að undirbúa breytingar á löggjöf um stjórnsýslu sveitarfélaga, framkvæmd verkefna þeirra, tekjustofna sveitarfélaga og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Með tilraununum skal að því stefnt að auka sjálfsstjórn sveitarfélaga, að laga stjórnsýslu þeirra betur að staðbundnum aðstæðum, að bæta þjónustu við íbúana og nýta betur fjármagn hins opinbera. Tilraunirnar skulu ekki hafa í för með sér skerðingu á réttindum íbúanna né fela í sér auknar fjárhagslegar byrðar fyrir þá.
     Þau sveitarfélög, sem fá heimild til að gera tilraunir í samræmi við ákvæði laganna, nefnast reynslusveitarfélög.

2. gr.

     Heimildir ráðherra samkvæmt ákvæðum þessara laga til að víkja frá lögum eiga, nema annað sé sérstaklega tekið fram, við ákvæði þeirra um:
  1. stjórnsýslu sveitarfélaga og skipulag starfsemi þeirra,
  2. hvernig verkefni skuli leyst af hendi,
  3. hvernig eftirliti ríkisins með starfsemi sveitarfélaga skuli háttað,
  4. verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.
     Ráðherrum er ekki heimilt að víkja frá lögum nema tryggt sé að það hafi ekki í för með sér skerðingu á þeim rétti til þjónustu og fyrirgreiðslu sem íbúarnir njóta lögum samkvæmt og að réttaröryggi þeirra haldist óskert.

3. gr.

     Verkefnisstjórn hefur yfirumsjón með framkvæmd verkefnisins um reynslusveitarfélög. Verkefnisstjórnin skal skipuð tveimur mönnum tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og tveimur mönnum tilnefndum af félagsmálaráðherra og skal annar þeirra vera formaður. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
     Verkefnisstjórnin skal leiðbeina og aðstoða reynslusveitarfélög við undirbúning tilrauna og vera tengiliður þeirra við einstök ráðuneyti. Enn fremur skal hún veita viðkomandi ráðuneytum umsagnir um óskir reynslusveitarfélaga um tilraunir.
     Fulltrúar ráðuneyta skulu sitja fundi verkefnisstjórnar þegar mál, sem þau varða, eru þar til umfjöllunar.

4. gr.

     Félagsmálaráðherra tekur á grundvelli umsókna, og að fengnum tillögum verkefnisstjórnar, ákvörðun um hvaða sveitarfélög skuli verða reynslusveitarfélög. Þau geta orðið allt að tólf.
     Við val á reynslusveitarfélögum skal þess gætt að þau séu sem fjölbreytilegust að stærð og gerð. Sveitarfélög, sem sækja um þátttöku í tengslum við sameiningu, skulu að öðru jöfnu hafa forgang.
     Í B-deild Stjórnartíðinda skal birta auglýsingu um hvaða sveitarfélög séu reynslusveitarfélög.

5. gr.

     Ráðherra, sem hefur heimild til að setja reglugerð á ákveðnu sviði, getur sett sérstaka reglugerð fyrir reynslusveitarfélög, eitt eða fleiri, enda eigi hún sér stoð í þeim lögum sem veita heimild til setningar reglugerðar.

6. gr.

     Verkefnisstjórn skal, að fengnu samþykki félagsmálaráðherra, fela óháðum aðila, eða aðilum, að taka út tilraunir og meta hvernig til hafi tekist. Félagsmálaráðherra skal sjá til þess að niðurstöður þeirra verði kynntar Alþingi. Félagsmálaráðherra skal enn fremur hlutast til um að árlega verði lagðar fram á Alþingi skýrslur verkefnisstjórnar um framkvæmd verkefnisins. Fyrsta skýrslan verði lögð fram á Alþingi vorið 1995 og sú síðasta vorið 2001.

II. KAFLI
Samþykktir fyrir reynslusveitarfélög o.fl.

7. gr.

      Sveitarstjórn reynslusveitarfélags skal gera sérstakar samþykktir um tilraunir samkvæmt lögum þessum. Tvær umræður skulu fara fram um slíkar samþykktir í sveitarstjórn með a.m.k. einnar viku millibili.
     Samþykktirnar öðlast ekki gildi fyrr en viðkomandi ráðherra hefur staðfest þær. Hann skal afla samþykkis fjármálaráðherra ef um fjárhagslegar skuldbindingar fyrir ríkissjóð er að ræða.
     Staðfestar samþykktir skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.

8. gr.

     Sveitarstjórn er skylt að kynna íbúum sveitarfélagsins fyrirhugaðar tilraunir áður en hún gengur frá samþykktum um þær.
     Hún skal enn fremur veita upplýsingar um framgang og árangur tilrauna.

III. KAFLI
Um stjórnsýslutilraunir.

9. gr.

     Viðkomandi ráðherra er heimilt að víkja frá ákvæðum laga um nefndir og stjórnir sveitarfélaga þegar reynslusveitarfélag á í hlut. Heimildin nær ekki til ákvæða um sveitarstjórnir, byggðarráð og kjörstjórnir.

IV. KAFLI
Heimildir félagsmálaráðherra.

10. gr.

     Félagsmálaráðherra er heimilt að víkja frá ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 97/1993, með síðari breytingum, um félagslegar íbúðir þegar reynslusveitarfélag á í hlut.

11. gr.

     Félagsmálaráðherra er heimilt, að höfðu samráði við viðkomandi svæðisráð, að fela reynslusveitarfélagi að annast þjónustu við fatlaða í sveitarfélaginu, að hluta til eða að öllu leyti, gegn umsamdri greiðslu á kostnaði úr ríkissjóði og framlagi úr Framkvæmdasjóði fatlaðra. Ráðherra er í því sambandi heimilt að víkja frá ákvæðum laga um málefni fatlaðra, nr. 59/1992.

12. gr.

     Félagsmálaráðherra er heimilt að víkja frá ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, með síðari breytingum, og ákvæðum laga um vinnumiðlun, nr. 18/1985, með síðari breytingum, þegar í hlut á reynslusveitarfélag sem vill gera tilraun til að bæta þjónustu við atvinnulausa.

13. gr.

     Félagsmálaráðherra er heimilt að víkja frá ákvæðum 2. mgr. 11. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990, með síðari breytingum, þannig að hluta af tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði varið til greiðslu framlaga til reynslusveitarfélaga sem komi, að öllu eða nokkru leyti, í stað sérstakra framlaga skv. 13. gr. laganna og jöfnunarframlaga skv. 14. gr. til þeirra. Í reglugerð skal setja ákvæði um útreikning þessara framlaga og skilyrði fyrir úthlutun.
     Ráðherra tekur ákvörðun um úthlutun framlaga til reynslusveitarfélaga skv. 1. mgr. að fengnum tillögum ráðgjafarnefndar, sbr. 17. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

V. KAFLI
Heimildir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.

14. gr.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt að fela reynslusveitarfélagi byggingu og/eða rekstur heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss gegn umsamdri greiðslu á kostnaði úr ríkissjóði og framlagi úr Framkvæmdasjóði aldraðra ef við á.

15. gr.

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er heimilt að víkja frá ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990, með síðari breytingum, og ákvæðum laga um málefni aldraðra, nr. 82/1989, með síðari breytingum, þegar í hlut á reynslusveitarfélag sem vill gera tilraun á því sviði sem þessi lög ná yfir. Óheimilt er þó að víkja frá ákvæðum laga er varða skilyrði um faglega ábyrgð í stjórnun heilbrigðisstofnana og innihald þeirrar þjónustu sem á að veita samkvæmt nefndum lögum.

VI. KAFLI
Heimildir umhverfisráðherra.

16. gr.

     Umhverfisráðherra er heimilt að víkja frá ákvæðum byggingarlaga, nr. 54/1978, með síðari breytingum, um meðferð umsókna um byggingarleyfi og verksvið byggingarfulltrúa í reynslusveitarfélagi.

VII. KAFLI
Sérákvæði um flutning verkefna til reynslusveitarfélaga.

17. gr.

     Meðan á tilraun, sem felur í sér flutning verkefna frá ríki til reynslusveitarfélags samkvæmt lögum þessum, stendur teljast hlutaðeigandi starfsmenn vera í þjónustu sveitarfélagsins. Engin formbreyting verður á ráðningarstöðu starfsmannanna á þessu tímabili og réttarstaða þeirra og réttindi haldast óbreytt, svo sem lífeyrisréttindi og stéttarfélagsaðild.
     Áður en til verkefnaflutnings kemur skulu viðkomandi fagráðherra, fjármálaráðherra og sveitarfélag semja um ábyrgðir sínar og greiðslur vegna réttinda og kjara starfsmanna.

18. gr.

     Ef reynslusveitarfélag yfirtekur verkefni frá ríkinu samkvæmt lögum þessum er heimilt að gera tilraun með nýtt fyrirkomulag á greiðslu kostnaðar og er viðkomandi ráðherra í því sambandi heimilt, að fengnu samþykki fjármálaráðherra, að víkja frá ákvæðum laga sem mæla fyrir um það efni.

VIII. KAFLI
Gildistökuákvæði o.fl.

19. gr.

     Félagsmálaráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

20. gr.

     Lög þessi, sem taka þegar gildi, skulu gilda til 1. janúar árið 2000.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1994.