Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1316, 117. löggjafarþing 548. mál: lífeyrissjóður sjómanna.
Lög nr. 94 24. maí 1994.

Lög um Lífeyrissjóð sjómanna.


1. gr.

     Sjóðurinn heitir Lífeyrissjóður sjómanna og starfar með því skipulagi og markmiði sem segir í lögum þessum og reglugerð um sjóðinn.

2. gr.

     Sjóðfélagar eru allir sjómenn sem ráðnir eru á íslensk skip, þar með taldir þeir skipverjar sem ekki eru lögskráðir en starfa að viðhaldi og viðgerð skips eða öðrum störfum í þágu útgerðar.
     Yfirmönnum á skipum ríkissjóðs, sem við gildistöku laga þessara greiða iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, er heimilt að vera sjóðfélagar í þeim sjóði. Um heimild þessa að öðru leyti fer skv. 4. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.
     Sjómönnum, sem lögskráðir eru í tilteknum byggðarlögum eða landshlutum og ráðherra hefur veitt undanþágu frá aðild að þessum sjóði, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 78/1970, er heimilt að vera utan við sjóðinn fullnægi þeir tryggingarskyldu sinni með greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs viðkomandi byggðarlags.
     Sjóðfélögum, sem hætta störfum á sjó, skal heimil áframhaldandi þátttaka ef þeir hefja störf í landi við útgerð eða hliðstæð störf, svo sem fiskvinnslustöðvar eða frystihús, enda hafi þeir greitt iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. fimm ár og áunnið sér a.m.k. þrjú stig.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa félögum og samböndum sem standa að samningum um kaup og kjör sjómanna, er aðild eiga að sjóðnum, að tryggja starfsmenn sína í honum.
     Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa sjómönnum, sem stunda nám í sjómannafræðum, slasast eða veikjast, að kaupa sér réttindi í sjóðnum þann tíma sem úr hefur fallið af þessum sökum. Stjórn sjóðsins er heimilt að leyfa íslenskum sjómönnum, sem starfa á erlendum skipum, að greiða iðgjöld til sjóðsins.

3. gr.

     Launagreiðanda ber að halda iðgjöldum launþega eftir af launum hans og standa sjóðnum skil á þeim ásamt eigin iðgjaldahluta. Sé um vanskil að ræða af hálfu útgerðar skal lögskráningarstjóri ekki skrá á hlutaðeigandi skip ef krafa kemur fram um það frá sjóðnum.
     Iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda skulu hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi skipi og ganga fyrir öllum öðrum veðum. Heimilt er að krefjast nauðungarsölu á viðkomandi skipi án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.

4. gr.

     Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur og lífeyrisgreiðslur eru undanþegnar fjárnámi.

5. gr.

     Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi hans skal setja í reglugerð sem stjórn sjóðsins semur og staðfest er af Alþýðusambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Félagi íslenskra botnvörpuskipaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vinnuveitendasambandi Íslands og fjármálaráðherra.

6. gr.

     Lög þessi taka gildi 1. september 1994 og frá sama tíma falla úr gildi lög um Lífeyrissjóð sjómanna, nr. 49/1974, með síðari breytingum, enda hafi reglugerð um sjóðinn, sbr. 5. gr. laga þessara, verið staðfest með gildistöku frá sama tíma.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Áður en fjármálaráðherra staðfestir reglugerð fyrir sjóðinn, sbr. 6. gr., skal hann leita álits efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Samþykkt á Alþingi 11. maí 1994.