Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1280, 117. löggjafarþing 557. mál: húsaleigubætur.
Lög nr. 100 20. maí 1994.

Lög um húsaleigubætur.


Markmið laganna.

1. gr.

     Markmið laganna er að lækka húsnæðiskostnað tekjulágra leigjenda og að draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaðnum. Stefnt er að því að ná þeim markmiðum með sameiginlegri kostnaðarþátttöku ríkis og sveitarfélaga sem nánar greinir í lögum þessum.

Ákvörðun sveitarstjórnar um húsaleigubætur.

2. gr.

     Aðstoð sú, sem hér um ræðir, er í formi greiðslna til leigjenda sem nefnast húsaleigubætur og annast félagsmálanefndir sveitarfélaga afgreiðslu umsókna.
     Til þess að íbúar sveitarfélags geti átt rétt til húsaleigubóta þarf að liggja fyrir ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar um greiðslu húsaleigubóta.
     Sveitarstjórn skal ákveða fyrir 1. október ár hvert hvort sveitarfélagið greiði húsaleigubætur næstkomandi ár samkvæmt ákvæðum þessara laga. Þá ákvörðun skal sveitarstjórn auglýsa með tryggilegum hætti og tilkynna hana félagsmálaráðuneyti fyrir 1. nóvember sama ár ásamt áætlun um fjárhæðir bóta næstkomandi ár.
     Félagsmálaráðuneytið skal sjá til þess að birt sé skrá í Lögbirtingablaði um þær sveitarstjórnir sem ákveðið hafa að greiða húsaleigubætur samkvæmt lögum þessum.

Skipting kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga.

3. gr.

     Sveitarfélög, sem greiða íbúum sínum húsaleigubætur samkvæmt ákvæðum þessara laga, skulu leggja út fé til greiðslu bótanna en ríkið endurgreiðir þeim 60% af útlögðum kostnaði.
     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga annast greiðslur frá ríki til sveitarfélaga vegna þessa.

4. gr.

     Telji ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrirsjáanlegt að endurgreiðsla ríkis skv. 1. mgr. 3. gr. nemi hærri fjárhæð en fjárlög heimila eða kveða á um skal nefndin gera um það tillögu til félagsmálaráðherra að ákvæði reglugerðar um fjárhæð húsaleigubóta verði endurskoðuð.

Almennt um rétt til húsaleigubóta.

5. gr.

     Þeir leigjendur eiga rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili, enda hafi viðkomandi sveitarfélag tekið ákvörðun um slíkar bætur, sbr. 2. gr.
     Dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur getur viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð. Umsókn um bætur skal send því sveitarfélagi þar sem námsmaður á lögheimili óháð aðsetri, enda hafi sveitarfélagið tekið ákvörðun um greiðslu húsaleigubóta.
     Það er skilyrði húsaleigubóta að húsaleigusamningur um viðkomandi húsnæði sé til sex mánaða eða lengri tíma og að honum hafi verið þinglýst.
     Um frekari skilyrði fyrir bótarétti og greiðslu bótanna fer samkvæmt nánari fyrirmælum þessara laga.

Meginreglur um ákvörðun húsaleigubóta.

6. gr.

     Félagsmálaráðherra setur í reglugerð ákvæði um útreikning og fjárhæð bóta.
     Húsaleigubætur skulu ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við ákveðinn grunn sem miðast við ákveðna fjárhæð fyrir hverja íbúð og hvert barn á framfæri umsækjanda að teknu tilliti til leigufjárhæðar, eigna og tekna.
     Bætur vegna barna greiðast frá næsta mánuði eftir fæðingu barns eða lögheimilisskráningu og þar til ungmenni nær 18 ára aldri eða flytur.

Atriði sem girða fyrir rétt til húsaleigubóta.

7. gr.

     Réttur til húsaleigubóta er ekki fyrir hendi:
  1. ef umsækjandi eða einhver, sem í húsnæðinu býr með honum, er skyldmenni leigusala sem býr í sama húsi í beinan legg eða kjörbarn, fósturbarn, systkini, barn þeirra eða tengdaforeldri,
  2. ef umsækjandi eða einhver, sem í húsnæðinu býr með honum, nýtur réttar til vaxtabóta,
  3. ef leiguíbúð er í eigu ríkissjóðs, sveitarfélags eða fyrirtækis sveitarfélags; þessi undanþága á þó ekki við um almennar kaupleiguíbúðir sveitarfélaga sem leigðar eru út,
  4. ef leigusamningur er til skemmri tíma en sex mánaða.

Íbúðarhúsnæði.

8. gr.

     Húsaleigubætur koma aðeins til álita vegna leigu á íbúðarhúsnæði.
     Með íbúðarhúsnæði í lögum þessum er átt við venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu og eru lágmarksskilyrði a.m.k. eitt svefnherbergi ásamt sér eldhúsi eða eldunaraðstöðu og sér snyrtingu og baðaðstöðu.
     Húsaleigubætur greiðast ekki vegna leigu á einstaklingsherbergjum eða ef eldhús, snyrting eða baðaðstaða er sameiginleg fleirum.
     Þá greiðast bætur ekki þegar húsnæði til annarra nota en íbúðar er leigt til íbúðar að öllu leyti eða hluta.

Leigufjárhæð.

9. gr.

     Leigufjárhæð samkvæmt lögum þessum er hin beina greiðsla fyrir leiguafnot af húsnæði. Aðrar greiðslur og aðrir kostnaðarliðir, sem leigjanda ber að greiða samkvæmt samningi eða lögum, svo sem fyrir hita, vatn, rafmagn, rekstur, hússjóðsgjöld o.fl., teljast samkvæmt því ekki til leigufjárhæðar í skilningi laga þessara.
     Ef leigjandi gefur upp leigufjárhæð, sem er verulega hærri en markaðsleiga fyrir sambærilegt leiguhúsnæði í viðkomandi sveitarfélagi eða þykir óeðlileg að öðru leyti eða ef um er að ræða íburðarmikið og óhóflegt húsnæði, er sveitarfélagi heimilt að færa niður viðmiðunarleigu sem því nemur eða til þess sem eðlilegt þykir.
     Leigufjárhæð íbúða félagasamtaka, sem lögð er til grundvallar útreikningi bóta, skal aldrei vera hærri en viðmið Húsnæðisstofnunar ríkisins um leigu félagslegra íbúða.

Tekjur og eignir.

10. gr.

     Með tekjum í lögum þessum er átt við samanlagðar heildartekjur allra þeirra sem lögheimili eiga í viðkomandi leiguhúsnæði og eru þá tekjur barna 20 ára og eldri meðtaldar. Þó eru hér undanskildar tekjur barna sem stunda skólanám í sex mánuði eða lengur á árinu.
     Tryggingabætur og húsaleigubætur fyrra árs teljast ekki til tekna.
     Um hugtakið tekjur vísast að öðru leyti til II. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum.
     Ef samanlagðar eignir þeirra er 1. mgr. tilgreinir að frádregnum skuldum með vísan til 73. og 76. gr. framangreindra laga eru meiri en 3 milljónir króna skulu 25% þeirrar fjárhæðar sem umfram er bætast við þær tekjur sem liggja til grundvallar ákvörðun um fjárhæðir húsaleigubóta.

Umsókn um húsaleigubætur.

11. gr.

     Umsóknum um húsaleigubætur skal skilað til viðkomandi sveitarfélags sem annast afgreiðslu og útborgun bóta.
     Félagsmálanefnd viðkomandi sveitarfélags ákvarðar um bótarétt. Umsókn um húsaleigubætur skal vera skrifleg og á sérstöku þar til gerðu eyðublaði og skal beina henni til þess sveitarfélags þar sem viðkomandi leiguhúsnæði er.
     Umsækjandi skal gefa allar þær upplýsingar sem krafist er á umsóknareyðublaði og nauðsynlegar eru að öðru leyti til að staðreyna megi bótarétt hans.
     Sveitarfélög skulu veita allar upplýsingar um skilyrði húsaleigubóta og útreikning þeirra og önnur atriði sem máli kunna að skipta og veita umsækjendum nauðsynlegar leiðbeiningar og aðstoð við gerð og frágang umsókna.
     Um málsmeðferð einstakra mála er vísað til XVI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Fylgigögn með umsókn.

12. gr.

     Umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:
  1. Leigusamningur, gerður á staðfest samningseyðublað, undirritaður af báðum aðilum og þinglýstur.
  2. Ljósrit af skattframtölum þeirra sem lögheimili eiga í íbúðinni fyrir síðasta ár, staðfest af skattstjóra.
  3. Launaseðlar þeirra sömu og getið er í 2. tölul. fyrir þrjá síðustu mánuði.
  4. Önnur þau gögn sem tiltekin eru í reglugerð eða eðli máls, aðstæður og atvik kunna að kalla á.

Ófullnægjandi umsókn og upplýsingar.

13. gr.

     Sé umsókn ófullnægjandi eða henni fylgja ekki nauðsynleg gögn, sbr. 11. og 12. gr., eða umsækjandi gefur að öðru leyti ekki nauðsynlegar upplýsingar og skýringar, skal umsækjanda gerð grein fyrir því sem ábótavant er og honum gefinn kostur á að bæta úr því. Sinni hann þeim tilmælum ekki kemur umsókn hans ekki til álita og frekari meðferðar.

Greiðsla húsaleigubóta.

14. gr.

     Húsaleigubætur koma til greiðslu frá og með næsta mánuði eftir að réttur til bóta hefur verið staðreyndur.
     Bæturnar greiðast til leigjanda (umsækjanda) en þó er heimilt að greiða þær til leigusala samkvæmt sérstakri skriflegri beiðni leigjanda.
     Bæturnar greiðast mánaðarlega með einni greiðslu, eigi síðar en 5. dag hvers mánaðar. Samningar aðila um fyrirframgreiðslu á leigu breyta engu hér um.
     Húsaleigubætur greiðast ekki mánaðarlega sé útreiknuð fjárhæð undir 500 kr. Uppgjör til þeirra aðila greiðist einu sinni á ári.
     Húsaleigubætur greiðast aðeins á grundvelli eins húsaleigusamnings um sömu íbúð fyrir sama tímabil.

Upplýsingaskylda leigjanda.

15. gr.

     Bótaþegi skal tilkynna viðkomandi sveitarfélagi þegar í stað um hverjar þær breytingar á högum sínum og heimilisaðstæðum og öðrum þeim atriðum sem áhrif geta haft á rétt hans til húsaleigubóta og á bótafjárhæð.

Brottfall réttar til húsaleigubóta.

16. gr.

     Réttur til húsaleigubóta fellur niður ef skilyrðum laga þessara er ekki lengur fullnægt.
     Við flutning leigjanda úr leiguhúsnæði fellur niður réttur hans til húsaleigubóta. Brottfall réttinda miðast við flutningsdag.
     Við andlát leigjanda fellur réttur til húsaleigubóta niður. Brottfall réttinda miðast við lok andlátsmánaðar.
     Við framsal leiguréttar, framleigu eða hvers kyns framlán fellur réttur til bóta niður að hluta eða öllu leyti.
     Félagsmálanefnd sveitarfélags er heimilt að fella niður greiðslur bóta eða stöðva bótagreiðslur ef nefndin fær vitneskju um veruleg leiguvanskil leigjanda.
     Sama á við ef leigjandi vanrækir upplýsinga- og tilkynningarskyldu sína skv. 15. gr. eða hefur að öðru leyti gefið rangar eða villandi upplýsingar sem máli skipta og þýðingu hafa um bótarétt hans.

Málskot.

17. gr.

     Telji leigjandi (umsækjandi) á rétt sinn hallað af hálfu félagsmálanefndar við framkvæmd laga þessara, svo sem við ákvörðun um bótarétt, fjárhæð bóta, niðurfellingu þeirra eða önnur atriði sem þýðingu hafa fyrir hann, getur hann skotið viðkomandi ákvörðun eða afgreiðslu til úrskurðarnefndar félagsþjónustu. Um málsmeðferð fer þá samkvæmt ákvæðum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Viðurlög og endurgreiðsla.

18. gr.

     Brot á lögum þessum varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
     Hafi bótaþegi ranglega fengið bætur eða of háar eða fyrir of langt tímabil eða yfirleitt fengið hærri greiðslur en honum bar skal hann endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var með 15% álagi. Endurgreiða skal ofgreiddar bætur hvort sem um mistök var að ræða hjá sveitarfélagi eða ofgreitt var á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga bótaþega, hvort sem hann var í góðri trú eða ekki. Sveitarfélagi skal þó heimilt að fella álag niður ef ofgreitt var vegna mistaka hjá sveitarfélagi og telja má víst að bótaþegi hafi verið í góðri trú.

19. gr.

     Komi í ljós að bótaþegi hafi fengið of háar bætur er sveitarfélagi heimilt að beina yfirlýsingu til þess aðila sem sér um innheimtu fyrir ríkissjóð um skuldajöfnun við inneign bótaþega á hendur ríkinu vegna endurgreiðslna barnabóta, barnabótaauka og vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 75/1981 að því leyti sem greiðslur þessar koma til útborgunar, þó þannig að áður hafi verið dregin frá öll þinggjöld og sveitarsjóðsgjöld í samræmi við áðurgreind lög. Hið sama á við um inneign bótaþega vegna endurgreiðslna skatta við álagningu eftir að samanburður á álagningarskrá og staðgreiðsluskrá hefur farið fram samkvæmt lögum nr. 45/1987, með áorðnum breytingum.
     Komi sveitarfélag fram með yfirlýsingu um skuldajöfnuð skv. 1. mgr. er innheimtumanni ríkissjóðs skylt að verða við þeirri kröfu.
     Áður en skuldajafnaðaryfirlýsingu er beitt skal sveitarstjórn tilkynna bótaþega um hana og gefa honum tækifæri á að koma að andmælum sínum. Tilkynning skal fylgja skuldajafnaðaryfirlýsingu til innheimtumanns ríkissjóðs.

Húsnæðismál sveitarfélaga.

20. gr.

     Lög þessi breyta á engan hátt þeirri ábyrgð er á sveitarfélögum hvílir varðandi húsnæðismál samkvæmt ákvæðum annarra laga, sbr. einkum XII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Kynning laganna.

21. gr.

     Félagsmálaráðuneytið annast kynningu á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Kostnaður vegna þessa greiðist úr ríkissjóði. Ráðherra getur falið öðrum aðilum þessa kynningu samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

Reglugerðarheimild.

22. gr.

     Félagsmálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar á meðal um umsókn, framkvæmd, útreikning og greiðslu húsaleigubóta auk ákvæða um upplýsingagjöf sveitarfélaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og um úthlutun úr sjóðnum.

Gildistaka.

23. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1995.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Lög þessi skal endurskoða innan tveggja ára frá gildistöku þeirra.

Samþykkt á Alþingi 7. maí 1994.