Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 947, 118. löggjafarþing 445. mál: vaxtalög (verðtrygging sparifjár og lánsfjár).
Lög nr. 13 6. mars 1995.

Lög um breytingu á vaxtalögum, nr. 25/1987.


1. gr.

     Á eftir IV. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli, Verðtrygging sparifjár og lánsfjár, með fimm nýjum greinum, svohljóðandi:

     a. (20. gr.)
     Ákvæði kafla þessa gilda um skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem áskilið er að greiðslurnar skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli, sbr. 21. gr.

     b. (21. gr.)
     Það er skilyrði verðtryggingar sparifjár og lánsfjár skv. 20. gr. að grundvöllur hennar sé annaðhvort:
  1. vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði eða
  2. vísitala gengis á erlendum gjaldmiðli eða samsettum gjaldmiðlum sem Seðlabanki Íslands reiknar og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. Viðskiptaráðherra setur að fenginni tillögu Seðlabankans nánari ákvæði um gengisvísitölur í reglugerð.
Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir vegna verðtryggingar sparifjár og lánsfjár næsta mánuð á eftir.
     Seðlabankinn getur að fengnu samþykki viðskiptaráðherra heimilað að fleiri opinberlega skráðar vísitölur en tilgreindar eru í 1. mgr. geti verið grundvöllur verðtryggingar sparifjár og lánsfjár.
     Seðlabankinn skal að fengnu samþykki viðskiptaráðherra ákveða lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og lána. Bankinn getur jafnframt að fengnu samþykki ráðherra ákveðið að vextir verðtryggðra innstæðna eða lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum.

     c. (22. gr.)
     Þegar skuldbindingum með ákvæðum um verðtryggingu er þinglýst hjá sýslumönnum skulu þeir gæta þess að ákvæðanna sé getið í veðmálaskrám og að þær komi fram á veðbókarvottorðum.

     d. (23. gr.)
     Seðlabankinn setur nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í þeim skal meðal annars kveðið á um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana. Seðlabankinn getur beitt viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga um Seðlabanka Íslands sé ákvörðunum bankans í þessum efnum ekki sinnt.

     e. (24. gr.)
     Vísitala neysluverðs, sbr. 21. gr., með grunninn 100 í maí 1988, skal í hverjum mánuði margfölduð með stuðlinum 19,745. Útkoman, án aukastafa, skal gilda sem vísitala fyrir næsta mánuð á eftir, í fyrsta sinn fyrir apríl 1995, gagnvart fjárskuldbindingum sem samið hefur verið um fyrir 1. apríl 1995 og eru með ákvæðum um lánskjaravísitölu þá sem Seðlabanki Íslands reiknaði og birti mánaðarlega samkvæmt heimild í 39. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., sbr. reglugerð nr. 18/1989. Hagstofan skal birta mánaðarlega í Lögbirtingablaði vísitölu skv. 2. málsl. þessarar málsgreinar.
     Verði gerð breyting á grunni vísitölu neysluverðs skal Hagstofan birta í Lögbirtingablaði margfeldisstuðul fyrir þannig breytta vísitölu í stað stuðulsins sem getið er í 1. mgr.
     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda einnig um lánskjaravísitölu í lögum og hvers kyns stjórnvaldsfyrirmælum öðrum og samningum sem í gildi eru 1. apríl 1995.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Þau koma til framkvæmda 1. apríl 1995 og þá fellur úr gildi VII. kafli laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., með áorðnum breytingum. Þann dag fellur einnig úr gildi 6. gr. laga nr. 4/1960, um efnahagsmál.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1995.