Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 779, 118. löggjafarþing 323. mál: kísilgúrverksmiðja við Mývatn (skatthlutfall, atvinnusjóður).
Lög nr. 17 6. mars 1995.

Lög um breytingu á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn.


1. gr.

     Í stað hlutfallstölunnar „45%“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: 36%.

2. gr.

     Við lögin bætist ný grein er verður 12. gr. laganna og orðast svo:
     Starfræktur skal sérstakur sjóður sem hafi það hlutverk að kosta undirbúning aðgerða til þess að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi framleiðslufélagsins.
     Ráðstöfunarfé sjóðsins skal vera:
  1. 20% af námagjaldi framleiðslufélagsins til ársins 2001.
  2. 68% af námagjaldi framleiðslufélagsins frá og með árinu 2002 til og með árinu 2010.
  3. Allt að 20% af tekjum ríkisins sem eiganda framleiðslufélagsins samkvæmt heimildum í fjárlögum hverju sinni.

     Stjórn sjóðsins skal skipuð einum fulltrúa framleiðslufélagsins, einum fulltrúa Skútustaðahrepps, einum fulltrúa Húsavíkurbæjar, einum fulltrúa samgönguráðherra, einum fulltrúa umhverfisráðherra og einum fulltrúa iðnaðarráðherra sem jafnframt skal vera formaður stjórnarinnar.

     Iðnaðarráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um sjóð þennan.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 1. gr. koma til framkvæmda við álagningu gjalda á árinu 1995 vegna tekna á árinu 1994.

4. gr.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara skal skattstjóri endurákvarða tekjuskatt sölufélags og framleiðslufélags vegna tekna ársins 1993 samkvæmt lögum nr. 80/1966 og skal skatthlutfall við þá endurákvörðun vera 36%. Endurgreiða skal félögunum þann mismun sem kann að myndast við þessa endurákvörðun frá álagningu tekjuskatts félaganna á árinu 1994 vegna tekna ársins 1993.

Samþykkt á Alþingi 23. febrúar 1995.