Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 860, 118. löggjafarþing 106. mál: jarðalög (EES-reglur o.fl.).
Lög nr. 28 3. mars 1995.

Lög um breytingu á jarðalögum, nr. 65/1976, með síðari breytingum, o.fl.


I. KAFLI
Jarðalög nr. 65/1976, sbr. breytingar með lögum nr. 71/1978, lögum nr. 37/1982,lögum nr. 90/1984, lögum nr. 108/1988 og lögum nr. 34/1992.

1. gr.

     2. og 5. tölul. 4. mgr. 6. gr. laganna verða svohljóðandi:
  1. Þegar ríkissjóður eða ríkisstofnanir kaupa eða selja.
  2. Þegar leigð eru eða heimiluð með öðrum hætti afnot af slægjum, beit, námum, veiðiréttindum, vatnsréttindum, einstökum húsum og íbúðum, þar með töldum sumarbústöðum, og leigutími eða annar réttindatími er þrjú ár eða skemmri.

2. gr.

     Við 4. mgr. 6. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, 6. og 7. tölul., sem verða svohljóðandi:
  1. Þegar landið (fasteign) hefur verið tekið úr landbúnaðarnotum með leyfi skv. 1. mgr. 12. gr., enda hafi slíku leyfi verið þinglýst.
  2. Þegar aðilaskipti verða að sumarbústað í sumarbústaðahverfi, enda sé bústaðurinn reistur í samræmi við skipulag samkvæmt skipulagslögum. Það telst vera sumarbústaðahverfi þegar fjórir eða fleiri sumarbústaðir eru byggðir á sömu lóð (landi) eða á samtengdum lóðum.

3. gr.

     Við 6. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, 6. og 7. mgr., svohljóðandi:
     Sveitarstjórn og jarðanefnd er heimilt að binda samþykki sitt samkvæmt þessari grein því skilyrði að sá sem öðlast réttindi yfir fasteign hafi í allt að tveimur árum fasta búsetu á eigninni eða innan eðlilegrar fjarlægðar frá henni til að nýta hana. Með sama hætti er heimilt að binda samþykki skilyrðum um að eignin verði nýtt til landbúnaðar eða annarrar atvinnustarfsemi í samræmi við þau áform sem lýst er í beiðni um samþykki. Slíkum skilyrðum skal þinglýst sem kvöð á eignina.
     Nú fullnægir aðili ekki þeim skilyrðum sem sett hafa verið skv. 6. mgr. og getur sveitarstjórn þá með samþykki ráðherra sett honum frest til að fullnægja skilyrðunum eða afsala fasteigninni til aðila sem fullnægir skilyrðunum. Hafi skilyrðunum ekki verið fullnægt innan þess frests getur sveitarstjórn að fengnu samþykki jarðanefndar og ráðherra leyst eignina til sín. Náist ekki samkomulag um verð skal um mat og greiðslu bóta fara eftir lögum um eignarnám.

4. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Óheimilt er að reisa sumarbústað á landi sem lögin taka til skv. 3. gr. og ekki hefur verið leyst úr landbúnaðarnotum skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. nema jarðanefnd samþykki. Ekki er skylt að afla samþykkis skv. 1. og 2. mgr. 12. gr. vegna lóða fyrir sumarbústaði.
     Sumarbústaður samkvæmt lögum þessum er bygging sem reist er til þess að búa í að sumri til og einungis endrum og eins á öðrum tímum árs. Ákvæði greinar þessarar taka einnig til veiðihúsa.

5. gr.

     11. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Ef það er ætlun þess sem fá þarf samþykki til að öðlast réttindi yfir fasteign skv. 6. gr. að nýta hana til landbúnaðar skal samþykki ekki veitt nema viðkomandi hafi starfað við landbúnað í tvö ár hér á landi. Ráðherra getur veitt undanþágu frá þessu ákvæði að fenginni umsögn sveitarstjórnar og jarðanefndar.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um hvaða starfsemi telst til landbúnaðar skv. 1. mgr., til hvaða fasteigna ákvæðið tekur og hvaða aðili/aðilar þurfa að uppfylla skilyrði 1. mgr. þegar félög og aðrir lögaðilar eða einstaklingar fleiri saman öðlast réttindi yfir fasteign.

6. gr.

     Aftan við 1. mgr. 12. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Með notkun til landbúnaðar í merkingu þessa ákvæðis er einnig átt við land sem nýtanlegt var til landbúnaðar við gildistöku laga nr. 65/1976, þar með taldar eyðijarðir og einstakar landspildur ef því hafði ekki með staðfestu skipulagi eða heimild í öðrum lögum verið ráðstafað til annarra nota.

7. gr.

     17. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Ákvörðunum sveitarstjórna eða jarðanefnda samkvæmt lögum þessum er heimilt að skjóta innan eins mánaðar til landbúnaðarráðuneytisins og skal úrskurður ráðuneytisins kveðinn upp innan sex vikna frá því er kæra barst.

8. gr.

     Við 30. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
     Sveitarstjórn, sem á forkaupsrétt skv. 1. mgr., er heimilt að framselja rétt sinn til Jarðasjóðs ríkisins, enda sé það gert innan 30 daga frá því að forkaupsréttartilboð barst sveitarstjórn. Sveitarstjórn skal þegar senda tilkynningu um slíka ákvörðun til landbúnaðarráðherra f.h. Jarðasjóðs ríkisins og kaupanda og seljanda þeirrar eignar sem forkaupsrétturinn tekur til. Jarðasjóður hefur þá 60 daga frá því að forkaupsréttartilboð barst sveitarstjórn til að svara forkaupsréttartilboði skriflega. Hafi Jarðasjóður ekki svarað innan þess tíma hefur hann í það sinn glatað rétti sínum til að kaupa eignina. Að öðru leyti gilda ákvæði þessa kafla um forkaupsrétt Jarðasjóðs ríkisins.

9. gr.

     Í stað orðanna „innan fjögurra vikna“ í 3. málsl. 32. gr. laganna kemur: innan 30 daga.

10. gr.

     Við 1. mgr. 35. gr. laganna bætist nýr töluliður, 3. tölul., svohljóðandi:
  1. Þegar ráðstafað er eignum sem falla undir 6. og 7. tölul. 6. gr.

11. gr.

     Við 3. mgr. 37. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Þá er heimilt að veita ábúanda jarðar í ríkiseign leyfi til að taka lán hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins til búvélakaupa með veði í jörðinni, að því marki að heildarskuldir ábúanda með veði í jörðinni nemi ekki hærri fjárhæð en svarar til eignarhluta hans í fasteignum á jörðinni að mati jarðadeildar.

12. gr.

     Niður fellur 2. tölul. 1. mgr. 38. gr. laganna og 3. tölul. verður 2. tölul. og 4. tölul. verður 3. tölul.

13. gr.

     Við 47. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
     Með sama hætti er eiganda ættaróðals heimilt að stofna til félagsbús með erfingja sem ákveðið hefur verið að erfi óðalið, enda séu uppfyllt skilyrði 25.–28. gr.

14. gr.

     61. gr. laganna verður svohljóðandi:
     Óðalsbóndi getur með leyfi landbúnaðarráðherra fengið óðalið leyst frá óðalsákvæðum, enda mæli jarðanefnd með því og þeir ættingjar, sem rétt hafa til óðalsins, hafa lýst því yfir skriflega að þeir óski ekki eftir að taka við því til ábúðar. Samþykki landbúnaðarráðherra lausn óðals frá óðalsákvæðum er óðalsréttarhafa heimilt að selja það við því verði og þeim kaupanda er hann kýs, enda hafi þeir sem forkaupsrétt eiga að lögum hafnað honum.

II. KAFLI
Lög nr. 34/1992, um Jarðasjóð.

15. gr.

     Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Jarðasjóði er jafnframt heimilt að kaupa eignir þegar sveitarstjórn hefur framselt sjóðnum forkaupsrétt sinn skv. 3. mgr. 30. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, með síðari breytingum. Ákvæði 2. mgr. 1. gr. og 3. gr. gilda ekki um kaup sjóðsins á slíkum eignum.

III. KAFLI
Gildistaka.

16. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.