Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 861, 118. löggjafarþing 406. mál: endurgreiðsla oftekinna skatta og gjalda.
Lög nr. 29 6. mars 1995.

Lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.


Endurgreiðsla oftekins fjár.

1. gr.

     Stjórnvöld, sem innheimta skatta eða gjöld, skulu endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist lögum samkvæmt ásamt vöxtum skv. 2. gr.
     Stjórnvöld skulu hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hefur verið.
     Ákvæði þessarar greinar gilda ekki þar sem lög mæla fyrir á annan veg.
Vextir.

2. gr.

     Við endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda skv. 1. gr. skal greiða gjaldanda vexti, sem skulu vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma, af því fé sem oftekið var frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal greiða dráttarvexti skv. 10. gr. laga nr. 25/1987, með síðari breytingum, frá þeim tíma er gjaldandi sannanlega lagði fram kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra skatta eða gjalda.
     Vextir skv. 1. mgr. skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að fé var oftekið. Það sama gildir um greiðslu dráttarvaxta skv. 2. mgr. ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að krafa um endurgreiðslu var gerð.
     Ákvæði þessarar greinar gilda ekki þar sem lög mæla fyrir á annan veg.

Gjöld sem greidd eru fyrir fram eða samkvæmt áætlun.

3. gr.

     Þegar gjöld fyrir opinbera þjónustu, sem látin er í té samfellt eða reglubundið, eru greidd fyrir fram eða samkvæmt áætlun og í ljós kemur eftir uppgjör að ofgreitt hefur verið fyrir ákveðið gjaldatímabil er ekki skylt að endurgreiða það sem oftekið var þrátt fyrir ákvæði 1. gr. Þetta gildir þó ekki ef fjárhæð sú sem oftekin var er óvenjuhá miðað við fjárhæð gjaldanna.
     Greiða skal gjaldanda vexti á þá fjárhæð sem oftekin hefur verið við innheimtu slíkra gjalda. Skulu vextirnir vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma nema lög mæli fyrir á annan veg.
     Fjárhæðin ásamt vöxtum skal koma til frádráttar skuld fyrir næsta gjaldatímabil.

Fyrning.

4. gr.

     Krafa um endurgreiðslu samkvæmt lögum þessum fellur úr gildi fyrir fyrningu þegar fjögur ár eru liðin frá því að greiðsla átti sér stað. Þegar krafa um endurgreiðslu fyrnist fyrnast jafnframt allir áfallnir vextir.

Gildistaka.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996 og taka til ofgreiðslu á sköttum og gjöldum sem á sér stað eftir það tímamark.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.