Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 862, 118. löggjafarþing 407. mál: réttur til endurgreiðslu af ofteknum sköttum (breyting ýmissa laga).
Lög nr. 31 6. mars 1995.

Lög um breytingar á lögum er varða rétt til endurgreiðslu og vaxta af ofteknum sköttum og gjöldum.


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
     Endurgreiðsla skv. 1. eða 2. mgr. skal taka hlutfallslegri breytingu sem nemur mismun á lánskjaravísitölu sem í gildi er á miðju því tímabili þegar staðgreiðslan var innt af hendi og lánskjaravísitölu sem í gildi er þegar endurgreiðslan fer fram.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,með síðari breytingum.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 112. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 2. mgr. orðast svo: Skulu vextir þessir vera jafnháir hæstu vöxtum óbundinna sparireikninga á hverjum tíma.
  2. Í stað orðsins „inneignarvextir“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: vextir.
  3. Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  4.      Sé kæra til meðferðar hjá yfirskattanefnd og nefndin leggur ekki úrskurð á kæru innan lögboðins frests skv. 1. og 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 skal greiða skattaðila dráttarvexti af fjárhæð sem yfirskattanefnd úrskurðar að skuli endurgreiða, eða dæmd er síðar, frá þeim tíma þegar frestur nefndarinnar til að kveða upp úrskurð leið.
         Ætíð má krefjast dráttarvaxta frá þeim tíma er dómsmál telst höfðað til endurgreiðslu skatta samkvæmt lögum þessum.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. 2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ef umsögn og greinargerð ríkisskattstjóra berst ekki fyrir lok frests skv. 3. mgr. 6. gr. skal þriggja mánaða fresturinn reiknast frá lokum þess frests.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Nú hefur yfirskattanefnd ákveðið sérstakan málflutning skv. 2. mgr. 7. gr. og skal frestur skv. 1. mgr. þá vera sex mánuðir og skal nefndin senda aðilum máls tilkynningu um þá ákvörðun sína.

IV. KAFLI
Gildistaka.

4. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996 og taka til ofgreiðslu sem á sér stað eftir það tímamark.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.