Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 825, 118. löggjafarþing 319. mál: refsiákvæði nokkurra skattalaga.
Lög nr. 42 6. mars 1995.

Lög um breyting á refsiákvæðum nokkurra skattalaga.


1. gr.

      107. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, orðast svo:
     Skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn eða eignarskatt skal hann greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Skattur af álagi skv. 106. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
     Hafi skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að telja fram til skatts varðar það brot fésektum er aldrei skulu nema lægri fjárhæð en tvöfaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem á vantar ef áætlun reyndist of lág við endurreikning skatts skv. 2. mgr. 96. gr. laganna og skal þá skattur af álagi dragast frá sektarfjárhæð skv. 106. gr. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. hegningarlaga.
     Skýri skattskyldur maður rangt eða villandi frá einhverjum þeim atriðum er varða framtal hans má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á skattskyldu hans eða skattgreiðslu.
     Verði brot gegn 1. eða 2. mgr. ákvæðisins uppvíst við skipti dánarbús skal úr búinu greiða fésekt allt að fjórfaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur þessari skattfjárhæð að viðbættum helmingi hennar. Skattur af álagi skv. 106. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Sé svo ástatt sem í 3. mgr. segir má gera búinu sekt.
     Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi skattframtöl annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr. þessarar greinar.
     Hafi maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að gegna skyldu sinni samkvæmt ákvæðum 91., 92. eða 94. gr. skal hann sæta sektum eða varðhaldi.
     Tilraun til brota og hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
     Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

2. gr.

      30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, orðast svo:
     Skýri gjaldskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil hans skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
     Hver sá launagreiðandi sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um staðgreiðsluskil sín, hefur ekki haldið eftir fé af launagreiðslum eins og honum bar, hefur ekki afhent skilagreinar á lögmæltum tíma eða ekki innt af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða honum bar að halda eftir skal greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem hann vanrækti að halda eftir eða standa skil á og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni nema þyngri refsing liggi við brotinu eftir 247. gr. almennra hegningarlaga. Álag skv.1. tölul. 2. mgr. 28. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
     Hafi launagreiðandi af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að halda tilskilið launabókhald varðar það brot við refsiákvæði laga um bókhald, en við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sé um meiri háttar brot að ræða.
     Ef maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækir tilkynningarskyldu sína skv. 19. gr., upplýsingaskyldu skv. 25. gr., misnotar skattkort, vanrækir að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skilagreinar, skýrslur eða gögn svo sem ákveðið er í lögum þessum skal hann sæta sektum eða varðhaldi.
     Skýri skilaskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju er varðar skilaskyldu hans má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á skilaskyldu hans eða greiðsluskil. Sömu refsingu varðar það launamann sem lætur greiða sér laun vitandi um að launagreiðandi hans hefur eigi haldið eftir af launum hans þeirri fjárhæð opinberra gjalda sem skylt er samkvæmt lögum þessum eða skýrir rangt eða villandi frá einhverju er varðar skilaskyldu eða greiðsluskil vegna hans þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á þessi skil.
     Verði brot á 1. eða 2. mgr. ákvæðisins uppvíst við skipti dánarbús skal greiða úr búinu fésekt, allt að fjórfaldri þeirri skattfjárhæð sem vanrækt var greiðsla á og aldrei lægri fésekt en nemur skattfjárhæðinni að viðbættum helmingi hennar. Álag skv. 1. tölul. 2. mgr. 28. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Sé svo ástatt sem segir í 5. mgr. má gera búinu sekt.
     Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi skilaskyldu annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. eða 2. mgr. þessarar greinar.
     Tilraun til brota eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
     Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

3. gr.

      40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, orðast svo:
     Skýri skattskyldur maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi rangt eða villandi frá einhverju því er máli skiptir um virðisaukaskatt sinn eða afhendi hann eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattsskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða honum bar að innheimta skal hann greiða fésekt allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, vanrækt var greiðsla á eða endurgreidd var um of og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri þessari skattfjárhæð. Álag skv. 27. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
     Ef maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækir skyldu sína að halda tilskilið bókhald samkvæmt lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim, þar með talið að hann vanrækir að skrá sölu sína í sjóðvél með fullnægjandi útbúnaði, skal hann sæta sektum samkvæmt ákvæðum laga um bókhald nema þyngri refsing liggi við brotinu skv. 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.
     Vanræki maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi tilkynningarskyldu sína skv. 5. gr., upplýsingaskyldu skv. 38. gr. eða vanræki hann að veita upplýsingar eða láta í té aðstoð, skýrslur eða gögn svo sem ákveðið er í lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim skal hann sæta sektum eða varðhaldi.
     Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju er varðar virðisaukaskattsskýrslur hans skal sæta sektum þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á skattskyldu hans eða skattgreiðslur.
     Verði brot skv. 1. mgr. ákvæðisins uppvíst við skipti dánarbús skal greiða úr búinu sekt allt að fjórfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin eða vanrækt var að greiða og aldrei lægri fésekt en nemur þessari skattfjárhæð að viðbættum helmingi hennar. Álag skv. 27. gr. dregst frá sektarfjárhæð. Sé svo ástatt sem í 4. mgr. segir má gera búinu sekt.
     Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi virðisaukaskattsskýrslur annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr. þessarar greinar.
     Tilraun til brota eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
     Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar, sem hann sætir, gera lögaðilanum sekt og sviptingu starfsréttinda, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 24. febrúar 1995.