Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 932, 118. löggjafarþing 339. mál: varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum (eftirlitsmenn, greiðslur úr ofanflóðasjóði).
Lög nr. 50 7. mars 1995.

Lög um breyting á lögum um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985.


1. gr.

     6. gr. laganna orðast svo:
     Lögreglustjórar skulu ráða starfsmenn til að kanna og fylgjast með landfræðilegum og veðurfarslegum aðstæðum með tilliti til hættu af snjóflóðum og/eða skriðuföllum í þeim umdæmum þar sem þörf er á slíkum athugunum að mati Almannavarna ríkisins. Lögreglustjórar skulu hafa samráð við sveitarstjórnir og almannavarnanefndir í umdæmi sínu, svo og Veðurstofu Íslands, við ráðningu þessara starfsmanna.
     Starfsmenn, sem ráðnir eru skv. 1. mgr., skulu starfa undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra, en athuganir þeirra skulu gerðar í samræmi við vinnureglur og önnur fyrirmæli Veðurstofu Íslands. Við athuganir sínar skulu starfsmennirnir hafa samráð við viðkomandi sveitarstjórnir eftir því sem frekast er unnt. Veðurstofan skal annast þjálfun starfsmannanna.

2. gr.

     Á eftir 1. mgr. 7. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
     Sé hagkvæmara talið, til að tryggja öryggi íbúa gagnvart ofanflóðum, er sveitarstjórn heimilt að gera tillögu um að kaupa húseignir í stað annarra varnaraðgerða sem ofanflóðasjóður fjármagnar að hluta eða öllu leyti samkvæmt þessum lögum. Um greiðslur til sveitarfélags vegna slíkra kaupa fer skv. 4. tölul. 1. mgr. 11. gr. Náist ekki samkomulag um kaup á húseign er sveitarstjórn heimilt að taka eignina eignarnámi.

3. gr.

     Við 9. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Sveitarstjórn ber ábyrgð á viðhaldi varnarvirkja.

4. gr.

     11. gr. laganna orðast svo:
     Fé ofanflóðasjóðs, sbr. 10. gr., skal notað til að greiða kostnað við varnir gegn ofanflóðum sem hér segir:
  1. Greiða skal allan kostnað vegna athugana skv. 6. gr. í samræmi við nánari reglur sem félagsmálaráðherra setur.
  2. Greiða skal allan kostnað við gerð hættumats.
  3. Greiða má allt að 100% af kostnaði við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna og eftirlits með ofanflóðahættu. Sama gildir um kostnað við rannsóknir sem miða að því að bæta hönnun og auka nýtingu varnarmannvirkja.
  4. Greiða má allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og húseignum auk kostnaðar við flutning þeirra vegna varna telst með framkvæmdakostnaði.
  5. Greiða má allt að 60% af kostnaði við viðhald varnarvirkja.
     Félagsmálaráðherra ákveður úthlutun úr ofanflóðasjóði að fengnum tillögum Almannavarna ríkisins. Ráðherra er heimilt að veita sveitarfélögum lán úr ofanflóðasjóði sem nemur kostnaðarhlut þeirra skv. 4. tölul. 1. mgr., enda sé viðkomandi sveitarfélagi fjárhagslega ofviða að leggja fram sinn kostnaðarhlut. Um lánskjör fer eftir nánari ákvörðun ráðherra.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1995.