Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 944, 118. löggjafarþing 293. mál: hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit (varnir gegn mengun sjávar, stjórnskipulag, heilbrigðisnefndir o.fl.).
Lög nr. 70 10. mars 1995.

Lög um breyting á lögum nr. 81/1988, um hollustuhættiog heilbrigðiseftirlit, með síðari breytingum.


1. gr.

     7. tölul., 10. tölul. og 11. tölul. 13. gr. laganna falla niður og aðrir töluliðir 13. gr. færast til sem því nemur.

2. gr.

     14. gr. laganna orðast svo:

      14.1.    Umhverfisráðherra skipar Hollustuvernd ríkisins stjórn að afstöðnum hverjum alþingiskosningum. Þar skulu eiga sæti fimm fulltrúar skipaðir sem hér segir: tveir kjörnir af Alþingi, tveir skipaðir án tilnefningar, þar af annar formaður, og einn skipaður samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.

      14.2.    Stjórnin hefur undir yfirstjórn ráðherra æðsta vald í málefnum stofnunarinnar, mótar stefnu hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri. Stjórn og rekstur stofnunarinnar er að öðru leyti í höndum framkvæmdastjóra sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Framkvæmdastjóri skal hafa menntun og reynslu á sviði stjórnunar og rekstrar. Hann situr stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

      14.3.    Umhverfisráðherra skal samkvæmt tillögum stjórnar setja í reglugerð ákvæði um skiptingu stofnunarinnar í verkefnasvið. Leggi stjórn til breytta skipan sviða skal hún leita umsagnar framkvæmdastjóra og forstöðumanna. Forstöðumaður starfar yfir hverju sviði og ber faglega ábyrgð en rekstrarlega ábyrgð gagnvart framkvæmdastjóra. Forstöðumenn skulu hafa háskólamenntun, sérþekkingu og starfsreynslu á viðkomandi sérsviði. Þeir skulu ráðnir af stjórn stofnunarinnar að fenginni umsögn framkvæmdastjóra. Stjórnin skal að fenginni tillögu framkvæmdastjóra velja einn forstöðumann staðgengil framkvæmdastjóra. Forstöðumenn sitja stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.

      14.4.    Framkvæmdastjóri ræður annað starfsfólk stofnunarinnar í samráði við viðkomandi forstöðumenn þar sem við á.

3. gr.

     15. gr. laganna orðast svo:

      15.1.    Á vegum Hollustuverndar skal unnið að útgáfu upplýsinga og fræðsluefnis og skal stofnunin beita sér fyrir ráðstefnum, námskeiðum og fræðslufundum til að upplýsa og fræða þá aðila er starfa að heilbrigðiseftirliti og mengunarvörnum. Þá skal stofnunin gefa árlega út skýrslu um starfsemi sína á liðnu ári ásamt upplýsingum um ástand mála með hliðsjón af markmiði laganna.

4. gr.

     16. gr. laganna orðast svo:

      16.1.    Stofnunin annast eftirlit með innflutningi matvæla og skráningu upplýsinga um framleiðslu og dreifingu matvæla í þágu matvælaeftirlits.

      16.2.    Stofnunin annast eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum í nauðsynjavörum, svo og vöruskráningu vegna eiturefna og hættulegra efna. Jafnframt annast hún framkvæmd laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni, og reglugerða settra samkvæmt þeim lögum.

      16.3.    Stofnunin annast framkvæmd laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, og reglugerða settra samkvæmt þeim.

      16.4.    Stofnunin gerir tillögur um starfsleyfi og úrvinnslu gagna hvað snertir mengunarvarnir og gefur út starfsleyfi eftir því sem kveðið er á um í mengunarvarnareglugerð.

      16.5.    Stofnunin annast efna- og örverurannsóknir sem lög þessi gera ráð fyrir á sviði mengunar og matvæla-, neyslu- og nauðsynjavara. Enn fremur hefur hún umsjón með skipulagi og framkvæmd mengunarrannsókna í samræmi við lög þessi.

      16.6.    Stofnunin hefur eftirlit með framkvæmd alþjóðasamþykkta og samninga sem Ísland er aðili að og eru á verksviði hennar.

5. gr.

     17. gr. laganna orðast svo:

      17.1.    Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum stjórnar Hollustuverndar, sett gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni sem stofnuninni er falið að annast. Þá getur stofnunin tekið að sér verkefni, bæði rannsóknir og ráðgjöf, að fengnum tillögum stjórnar og samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur.

6. gr.

     18., 19., 20. og 21. gr. laganna falla brott og breytist greinatala samkvæmt því.

7. gr.

     31. gr. laganna orðast svo:

      31.1.    Þegar öðrum en heilbrigðisnefnd er með sérlögum falið eftirlit með starfsemi sem lög þessi taka til og fari fyrirmæli þeirra í bága við fyrirmæli nefndarinnar og takist ekki að samræma fyrirmælin skal leggja málið undir fullnaðarúrskurð umhverfisráðherra. Þetta gildir þó ekki þegar um er að ræða eftirlit með starfsemi samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lögum nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, og lögum nr. 77/1981, um dýralækna, svo og eftirlit með aðbúnaði og hollustuháttum í skipum.

      31.2.    Rísi ágreiningur um framkvæmd eftirlits sem fallið getur undir 2. málsl. 1. mgr. skal ágreiningur borinn upp í sérstakri samstarfsnefnd sem í eiga sæti framkvæmdastjóri Hollustuverndar ríkisins, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins, fiskistofustjóri, yfirdýralæknir og siglingamálastjóri. Skal samstarfsnefndin koma sér saman um framkvæmd heilbrigðiseftirlits og mengunarvarna í takmarkatilvikum og gæta þess að þessir aðilar fari ekki inn á svið annarra eða mismunandi kröfur séu gerðar um sömu atriði. Rísi upp ágreiningur í nefndinni og verði hann ekki jafnaður sker umhverfisráðherra úr málum. Samstarfsnefndin skal gera tillögur til stjórna viðkomandi stofnana eða ráðuneyta um verkaskiptingu og samstarf hinna einstöku eftirlitsaðila þar sem slíku verður við komið og hagkvæmt þykir.

      31.3.    Rísi upp ágreiningur milli svæðisnefndar eða heilbrigðisnefndar og sveitarstjórna um framkvæmd laga þessara, eða reglna settra samkvæmt þeim, skulu aðilar vísa málinu til stjórnar Hollustuverndar ríkisins til málamiðlunar. Takist málamiðlun ekki skal leita fullnaðarúrskurðar umhverfisráðherra.

8. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1995.

9. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða orðast svo:
      Lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, skulu endurskoðuð í heild innan árs frá gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1995.