Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 405, 120. löggjafarþing 134. mál: tryggingagjald (atvinnutryggingagjald o.fl.).
Lög nr. 141 19. desember 1995.

Lög um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verður 2. mgr., sem orðast svo:
     Tryggingagjald samkvæmt lögum þessum er samsett af tveimur gjöldum, almennu tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi.

2. gr.

     Í stað 1. mgr. 2. gr. laganna koma þrjár málsgreinar er orðast svo:
     Atvinnutryggingagjald skal vera 1,5% af gjaldstofni skv. III. kafla.
     Fyrir lok október ár hvert skal Atvinnuleysistryggingasjóður gefa fjármálaráðherra skýrslu um fjárhagslega stöðu sjóðsins þar sem gerð verði grein fyrir fyrirsjáanlegum útgjöldum á næsta fjárhagsári með hliðsjón af fyrirliggjandi spá Þjóðhagsstofnunar um atvinnuleysi og öðrum atriðum sem áhrif hafa á fjárhagslega stöðu sjóðsins. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta atvinnutryggingagjalds skal fjármálaráðherra flytja frumvarp þar að lútandi á Alþingi.
     Almennt tryggingagjald skal lagt á í tveimur gjaldflokkum, sérstökum og almennum. Í sérstökum gjaldflokki, sbr. 4. mgr., skal hundraðshluti gjaldsins vera 2,05% af gjaldstofni og í almennum gjaldflokki, sbr. 5. mgr., skal hundraðshluti gjaldsins vera 5,35% af gjaldstofni.

3. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Tekjur af atvinnutryggingagjaldi skulu renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
     Tekjum af almennu tryggingagjaldi skal ráðstafað sem hér segir:
  1. Vinnueftirlit ríkisins fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,08% af gjaldstofni skv. III. kafla. Þetta hlutfall skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðuneytið setur í samráði við stjórn stofnunarinnar fyrir eitt ár í senn.
  2. Tekjur af almennu tryggingagjaldi umfram það sem ákveðið er í 1. tölul. renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eftir reglum sem fjármálaráðherra setur með reglugerð.
     Um hlutdeild opinberra byggingarsjóða í almennu tryggingagjaldi fer eftir ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, svo og ákvæðum lánsfjárlaga og fjárlaga hverju sinni.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 3. mgr. 6. gr. laganna:
  1. Í stað fjárhæðarinnar „720.000“ í 2. málsl. kemur: 748.224.
  2. 3. málsl. fellur brott.

5. gr.

     Í stað orðsins „tryggingagjalds“ í viðauka I við lögin kemur: almenns tryggingagjalds.

6. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1996 og álagningu á árinu 1997.

Samþykkt á Alþingi 15. desember 1995.