Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 680, 120. löggjafarþing 173. mál: Siglingastofnun Íslands.
Lög nr. 6 19. mars 1996.

Lög um Siglingastofnun Íslands.


1. gr.

Yfirstjórn.
     Samgönguráðherra fer með yfirstjórn siglinga-, hafna- og vitamála, nema annað sé ákveðið í öðrum lögum.

2. gr.

Siglingastofnun Íslands.
     Siglingastofnun Íslands fer með framkvæmd siglinga-, hafna- og vitamála samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum sem um þau mál fjalla.
     Forstjóri Siglingastofnunar Íslands skal að fenginni umsögn hafnaráðs og siglingaráðs skipaður af samgönguráðherra til fimm ára í senn. Forstjóri Siglingastofnunar ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.

3. gr.

Verkefni Siglingastofnunar Íslands.
     Verkefni Siglingastofnunar Íslands eru:
  1. Að annast þátt ríkisins í framkvæmd hafnalaga.
  2. Að hafa umsjón með ríkisstyrktum framkvæmdum við sjóvarnargarða og lendingarbætur.
  3. Að annast framkvæmd laga um eftirlit með skipum, laga um mælingu skipa og laga um skráningu skipa.
  4. Að annast framkvæmd laga um vitamál, laga um leiðsögu skipa og laga um kafarastörf.
  5. Að annast mál er varða lög um varnir gegn mengun sjávar og reglugerðir samkvæmt þeim að því leyti sem þau varða skip og búnað þeirra samkvæmt reglum sem umhverfisráðherra setur.
  6. Að annast samstarf við alþjóðastofnanir og framkvæmd alþjóðasamþykkta sem Ísland er aðili að og varða siglinga-, hafna- og vitamál.
  7. Að fylgjast með rannsókn sjóslysa og veita aðstoð við rannsókn þeirra og rita umsögn um sjópróf til ríkissaksóknara.
  8. Að annast mál er varða siglinga- og sjómannalög að því leyti sem þau tengjast skipum, skráningu þeirra og búnaði, siglingaöryggi og öðrum málum sem ráðuneytið kann að fela stofnuninni varðandi siglingar og áhafnir skipa.
  9. Að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um mál sem eru í verkahring stofnunarinnar.
     Siglingastofnun Íslands er heimilt með samþykki samgönguráðherra að fela öðrum að annast ákveðin verkefni.
     Siglingastofnun Íslands er heimilt með samþykki samgönguráðherra að kaupa og fara með hlut ríkisins í rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum, m.a. til þess að stuðla að útflutningi á íslenskri þekkingu á starfssviði stofnunarinnar.
     Samgönguráðherra getur með reglugerð kveðið nánar á um hlutverk og starfshætti Siglingastofnunar Íslands og einstök verkefni hennar.

4. gr.

Hafnaráð.
     Samgönguráðherra skipar hafnaráð sér til ráðuneytis um hafnamál. Í hafnaráði skulu eiga sæti fimm fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu tveir tilnefndir af Hafnasambandi sveitarfélaga til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Þrír fulltrúar skulu skipaðir án tilnefningar að loknum alþingiskosningum og skal einn þeirra vera formaður ráðsins. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

5. gr.

Verkefni hafnaráðs.
     Hafnaráð skal vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra og forstjóra Siglingastofnunar í hafnamálum. Hafnaráð skal fjalla um breytingar á lögum og reglum er varða hafnamál og framkvæmdaáætlanir fyrir einstök ár og til lengri tíma, svo og fjármál hafna, þar á meðal gjaldskrárbreytingar.
     Hafnaráð skal halda fundi með fulltrúum sjómanna og útgerðarmanna a.m.k. einu sinni á ári.
     Forstjóri Siglingastofnunar Íslands situr fundi ráðsins, með málfrelsi og tillögurétti, ásamt þeim starfsmönnum stofnunarinnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Skal hann leggja þar fyrir þau mál sem falla undir verksvið ráðsins samkvæmt framansögðu eða ráðið óskar eftir.

6. gr.

Siglingaráð.
     Samgönguráðherra skipar siglingaráð sér til ráðuneytis um siglinga- og vitamál. Í siglingaráði skulu eiga sæti ellefu fulltrúar og jafnmargir varamenn. Þar af skulu þrír fulltrúar skipaðir án tilnefningar að loknum alþingiskosningum og skal einn þeirra vera formaður ráðsins. Átta fulltrúar skulu skipaðir til allt að fjögurra ára samkvæmt tilnefningu eftirtalinna aðila sem tilnefna einn fulltrúa hver: Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Málmur, samtök fyrirtækja í málm- og skipaiðnaði, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Landssamband smábátaeigenda, Samband íslenskra kaupskipaútgerða, Sjómannasamband Íslands, Slysavarnafélag Íslands og Vélstjórafélag Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.

7. gr.

Verkefni siglingaráðs.
     Siglingaráð skal vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra og forstjóra Siglingastofnunar Íslands í siglinga- og vitamálum. Siglingaráð skal fjalla um breytingar á lögum og reglum er varða siglinga- og vitamál.
     Siglingaráð skal fjalla um öryggismál skipa og sjófarenda, svo og meiri háttar endurbætur og breytingar vitakerfisins. Forstjóri Siglingastofnunar Íslands situr fundi ráðsins, með málfrelsi og tillögurétti, ásamt þeim starfsmönnum stofnunarinnar sem hann telur ástæðu til eða ráðið óskar eftir. Skal hann leggja þar fyrir þau mál sem falla undir verksvið ráðsins samkvæmt framansögðu eða ráðið óskar eftir.

8. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi en koma ekki til framkvæmda fyrr en 1. október 1996. Þá falla jafnframt úr gildi lög um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20/1986, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skal skipa hafna- og siglingaráð svo fljótt sem því verður við komið eftir gildistöku laganna og hefja undirbúning að framkvæmd laganna.
     Öll störf hjá Siglingamálastofnun ríkisins og Vita- og hafnamálastofnun ríkisins (Hafnamálastofnun ríkisins og Vitastofnun Íslands) verða lögð niður frá 30. september 1996. Um rétt starfsmanna fer skv. 14. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 38/1954, með síðari breytingum.

Samþykkt á Alþingi 11. mars 1996.