Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 602, 120. löggjafarþing 102. mál: löggilding starfsheita í tækni- og hönnunargreinum (heildarlög).
Lög nr. 8 11. mars 1996.

Lög um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.


1. gr.

     Lög þessi taka til eftirtalinna starfsheita:
  1. verkfræðinga,
  2. tæknifræðinga,
  3. arkitekta (húsameistara),
  4. byggingafræðinga,
  5. húsgagna- og innanhússhönnuða,
  6. iðnfræðinga,
  7. landslagshönnuða og
  8. skipulagsfræðinga.

2. gr.

     Rétt til að nota starfsheiti þau sem lög þessi taka til eða orð sem fela í sér þau heiti hafa þeir menn einir sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra, sbr. 3. gr., eða þeir sem fengið hafa staðfestingu ráðherra á leyfi til að bera samsvarandi starfsheiti sem veitt hefur verið í ríki sem er aðili að samningi um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 4. gr.

3. gr.

     Engum má veita leyfi það er um ræðir í 2. gr. nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðkomandi starfsgrein.
     Fagfélög þeirra starfsgreina sem lög þessi taka til skulu setja sér reglur um hvaða nám teljist leiða til fullnaðarprófs í viðkomandi starfsgrein. Þær reglur skulu taka gildi þegar þær hafa verið staðfestar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Rétt til að öðlast leyfi hafa þeir sem lokið hafa námi samkvæmt greindum reglum að mati ráðherra að fenginni umsögn viðkomandi fagfélags.

4. gr.

     Ráðherra skal staðfesta leyfi til að bera starfsheiti sem lög þessi taka til samkvæmt umsókn ríkisborgara frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ef viðkomandi leggur fram vottorð frá ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins sem uppfyllir skilyrði:
  1. tilskipunar 85/384/EBE ef um arkitekt er að ræða.
  2. tilskipunar 89/48/EBE ef um aðrar starfsstéttir er að ræða.

5. gr.

     Ráðherra sker úr ágreiningi sem rísa kann um notkun starfsheita.

6. gr.

     Ráðherra skal halda skrá um þá sem fengið hafa leyfi til að bera starfsheiti samkvæmt lögum þessum.

7. gr.

     Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um rétt manna til að bera starfsheiti samkvæmt lögum þessum.

8. gr.

     Brot gegn lögum þessum varða sektum.

9. gr.

     EES-gerðir, sem vísað er til í lögum þessum, eru birtar í sérritinu EES-gerðir, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 31/1993, nr. S 34 á bls. 1–8 og bls. 125–140.

10. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 62 5. september 1986, um rétt manna til að kalla sig verkfræðinga, húsameistara, landslagshönnuði, húsgagna- og innanhússhönnuði, tæknifræðinga eða byggingafræðinga, og lög nr. 46 11. maí 1982, um rétt manna til að kalla sig iðnfræðinga.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Ákvæði laga þessara breyta ekki rétti þeim sem menn hafa öðlast til að nota starfsheiti þau sem lög þessi taka til fyrir gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 26. febrúar 1996.