Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1020, 120. löggjafarþing 191. mál: rannsókn flugslysa.
Lög nr. 59 3. júní 1996.

Lög um rannsókn flugslysa.


1. gr.

     Ákvæði laga þessara taka til flugslysa og flugatvika, þar með talin flugumferðaratvik, í lögum þessum nefnd flugslys, eins og þau eru skilgreind í alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
     Með flugslysarannsóknum er átt við þá sérstöku málsmeðferð sem kveðið er á um í lögum þessum og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
     Flugslysarannsóknir samkvæmt lögum þessum miða að því einu að koma í veg fyrir að flugslys endurtaki sig og að öryggi í flugi megi aukast.
     Um rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við flugslys fer samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og er slík rannsókn óháð rannsókn flugslysa samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa annast rannsókn allra flugslysa samkvæmt lögum þessum og alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
     Í rannsóknarnefnd flugslysa eiga sæti fimm menn. Einn skal vera formaður nefndarinnar og annar varaformaður. Samgönguráðherra ræður þá sérstaklega til starfa í nefndinni en skipar aðra nefndarmenn til fjögurra ára í senn.
     Rannsóknarnefnd flugslysa hefur aðsetur í Reykjavík.
     Allur kostnaður við starfsemi nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.

3. gr.

     Formaður rannsóknarnefndar flugslysa er jafnframt rannsóknarstjóri hennar. Varaformaður er staðgengill hans.
     Formaður og varaformaður skulu hafa sérmenntun, þjálfun og starfsreynslu á sviði flugslysarannsókna. Aðrir nefndarmenn skulu hafa menntun og starfsreynslu á þeim sviðum sem sérstaklega nýtast við flugslysarannsóknir.

4. gr.

     Um sérstakt hæfi nefndarmanna og starfsmanna rannsóknarnefndar flugslysa fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

5. gr.

     Lögsaga rannsóknarnefndar flugslysa tekur til íslensks yfirráðasvæðis, svo og alls hins íslenska flugstjórnarsvæðis að því að varðar flugumferðaratvik.
     Nefndin skal m.a. rannsaka:
  1. flugslys þar sem borgaralega skráð loftför eiga hlut að máli og sem verða á eða yfir íslensku yfirráðasvæði,
  2. flugslys þar sem loftför skráð á Íslandi eiga hlut að máli og sem verða utan yfirráðasvæðis annarra ríkja eða á svæði þar sem viðkomandi ríki hefur ekki skuldbundið sig til að framkvæma rannsóknina,
  3. flugumferðaratvik sem verða á eða yfir íslensku yfirráðasvæði eða á íslensku flugstjórnarsvæði,
  4. flugatvik sem verða utan íslensks yfirráðasvæðis þar sem loftför skrásett á Íslandi eiga hlut að máli, nema því aðeins að viðkomandi ríki framkvæmi rannsóknina.


6. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Hún ákveður sjálf hvenær efni eru til rannsóknar flugslyss.
     Nefndin getur krafið Flugmálastjórn um aðgang að hvers konar gögnum sem nauðsynleg eru við rannsókn máls.
     Flugmálastjórn, Rannsóknarlögreglu og lögreglu er skylt að veita nefndinni nauðsynlegar upplýsingar og aðstoð við rannsókn máls.

7. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa skal gera tillögur um úrbætur í flugöryggismálum eftir því sem rannsókn á orsökum flugslysa gefur tilefni til. Tillögurnar skal birta opinberlega. Flugmálayfirvöldum ber að sjá til þess að úrbótatillögur nefndarinnar séu teknar til formlegrar afgreiðslu hverju sinni.
     Nefndin skal í lok hvers starfsárs semja yfirlit um hvernig tillögum hennar hefur verið framfylgt og senda það samgönguráðherra.

8. gr.

     Nú verður flugslys, sbr. 1. og 5. gr., og ber þá sérhverjum sem um það veit að tilkynna það rannsóknarnefnd flugslysa tafarlaust. Sérstaka skyldu í þessu efni hefur Flugmálastjórn.
     Sama gildir um hvern þann sem finnur loftfar eða aðra hluti við aðstæður er benda til þess að flugslys hafi orðið.

9. gr.

     Hafi flugslys orðið, sbr. 1. og 5. gr., má hvorki hreyfa né nema á brott loftfarið, hluta þess, innihald þess né verksummerki slyssins uns rannsókn er lokið nema rannsóknarnefnd flugslysa hafi heimilað það.
     Án slíks leyfis má þó hreyfa, flytja til eða nema á brott loftfarið, hluta þess eða innihald að svo miklu leyti sem nauðsynlegt reynist til að frelsa menn eða dýr, ná pósti úr loftfari, afstýra spjöllum af eldi eða öðrum orsökum eða koma í veg fyrir að loftfarið, hluti þess eða innihald valdi háska eða almenningi miklum baga.

10. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa og starfsmenn hennar skulu hafa óhindraðan aðgang að vettvangi flugslyss, eins þótt um staði í einkaeign sé að ræða.
     Nefndin og starfsmenn hennar hafa sjálfstæðan rétt til að kveðja sér til aðstoðar lögreglu, svo og annað björgunar- og hjálparlið. Er lögreglu skylt að veita nefndinni þessa rannsóknaraðstoð.
     Nefndin og starfsmenn hennar hafa rétt til skýrslutöku og gagnasöfnunar á vettvangi eftir eigin mati, sbr. 11. gr.
     Yfirstjórn vettvangsrannsóknar er í höndum nefndarinnar og starfsmanna hennar.

11. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa og starfsmönnum hennar er heimilt að krefjast framlagningar á bókum, öðrum skjölum og upptökum er varða loftfarið og áhöfn þess, taka skýrslur af eiganda, notanda eða umráðanda loftfarsins, áhöfn þess og hverjum öðrum sem ætla má að kunni að geta veitt vitneskju er stuðli að því að leiða í ljós orsök slyssins.
     Nefndin getur leitað aðstoðar rannsóknastofnana, innlendra eða erlendra, eftir því sem nauðsynlegt er við rannsókn flugslyss. Innlendum aðilum er skylt að veita nefndinni þessa aðstoð.
     Rannsóknarnefnd flugslysa er heimilt að kalla til starfa með nefndinni sérfræðinga á tilteknum sviðum telji hún það nauðsynlegt.

12. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa ákveður hvenær loftfar eða hlutar þess, sem rannsóknin beinist að, eru látnir af hendi.
     Nefndin getur haldið loftfari eða hverjum hluta þess sem er svo lengi sem hún telur þörf vegna rannsóknarinnar. Gögn úr flugritum ber að varðveita varanlega.

13. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa er heimilt að hljóðrita skýrslur aðila og vitna.
     Nefndin afritar það af upptöku sem hún telur máli skipta varðandi rannsókn máls. Ella skulu aðalatriði skýrslna aðila og vitna skráð.
     Skýrslur aðila og vitna skulu taldar réttar nema gerðar séu athugasemdir við þær.

14. gr.

     Þegar rannsókn er lokið skal rannsóknarnefnd flugslysa svo fljótt sem verða má semja skýrslu um niðurstöðu rannsóknarinnar. Rannsóknarskýrslu má gera á ensku ef málsaðili er útlendur. Í skýrslunni skal gerð grein fyrir orsök eða sennilegri orsök slyssins auk þess sem þar skulu gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum, sbr. 7. gr.
     Skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa skal ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum, sbr. 4. mgr. 1. gr., enda er markmið flugslysarannsókna samkvæmt lögum þessum að greina orsakaþætti flugslysa í því skyni einu að koma í veg fyrir frekari flugslys. Tilgangurinn er ekki að skipta sök eða ábyrgð. Skal þessa getið á forsíðu hverrar lokaskýrslu sem rannsóknarnefnd flugslysa sendir frá sér.
     Í þeim tilvikum sem flugslys verða tilefni rannsóknar að hætti laga um meðferð opinberra mála skal rannsóknarnefnd flugslysa veita Rannsóknarlögreglu upplýsingar og gögn sem varða vettvang og úrlausn tæknilegra álitaefna. Ekki skal afhenda gögn sem geyma framburð aðila og vitna fyrir nefndinni.

15. gr.

     Aðili máls, eigandi eða flugrekandi viðkomandi loftfars, svo og Flugmálastjórn, skal eiga þess kost, með þeim hætti sem rannsóknarnefnd flugslysa ákveður hverju sinni, að tjá sig um drög að lokaskýrslu nefndarinnar innan tilskilins frests áður en endanlega er gengið frá skýrslunni, sbr. 14. gr., enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða þeirra og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

16. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa getur endurupptekið þegar rannsakað mál, sbr. 14. gr., ef fram koma ný og mikilvæg gögn að hennar mati. Mat nefndarinnar í þessu efni er endanlegt.

17. gr.

     Rannsóknarnefnd flugslysa skal senda aðilum máls lokaskýrslu rannsóknar og hæfilegan eintakafjölda til Flugmálastjórnar sem afhendir þau þeim er þess óska.
     Nefndin skal gefa út heildarskýrslu um störf sín ár hvert.
     Skýrslur nefndarinnar má selja á kostnaðarverði.

18. gr.

     Í reglugerð, sem samgönguráðherra setur, skal nánar kveðið á um störf rannsóknarnefndar flugslysa, þar á meðal um samskipti við aðra rannsóknaraðila, skrifstofuhald, geymslu málsgagna, persónuskilríki um réttarstöðu nefndarmanna og heimildir þeirra í störfum, nauðsynlegan útbúnað og tæki nefndarinnar til vettvangsrannsókna og einstaka þætti málsmeðferðar eftir því sem þurfa þykir.

19. gr.

     Lög þessi taka þegar gildi.
     Með lögum þessum eru numin úr gildi ákvæði 141.– 147. gr. laga nr. 34 21. maí 1964, um loftferðir.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara fellur úr gildi skipun núverandi flugslysanefndar og skal ráðherra eftir gildistöku skipa rannsóknarnefnd flugslysa samkvæmt lögunum.
     Sá sem gegnir stöðu framkvæmdastjóra flugslysarannsóknadeildar Flugmálastjórnar skal hafa forgang til starfs formanns rannsóknarnefndar flugslysa og skulu laun og kjör hans eigi skerðast við tilflutninginn.

Samþykkt á Alþingi 21. maí 1996.