Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1065, 120. löggjafarþing 344. mál: tekjuskattur og eignarskattur (nauðasamningar).
Lög nr. 64 30. maí 1996.

Lög um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað 2. mgr. 111. gr. laganna koma fjórar málsgreinar er orðast svo:
     Það skal vera stefna við innheimtu á tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt lögum þessum að allir gjaldendur, sem eins stendur á um við innheimtu, vanskil og nauðungaraðgerðir, skuli hljóta sams konar meðferð.
     Telji innheimtumaður tök á að tryggja greiðslu kröfu, sem ella mundi tapast, með samningi um greiðslu skal hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja slíkan samning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar.
     Telji innheimtumaður að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi gjaldanda við skuldheimtumenn skal hann gefa fjármálaráðherra skýrslu um málavöxtu. Fjármálaráðherra er heimilt að samþykkja nauðasamning, að fenginni umsögn Ríkisendurskoðunar, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
  1. Gjaldandi sé skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjaldi og vörugjaldi.
  2. Skattkröfur séu ekki tilkomnar vegna endurákvörðunar skattyfirvalda á gjöldum vegna skattsvika.
  3. Ljóst sé að hagsmunum ríkissjóðs verði betur borgið með nauðasamningi.

     Að loknu hverju innheimtuári skal Ríkisendurskoðun gefa Alþingi skýrslu um alla samninga skv. 3. mgr. og nauðasamninga skv. 4. mgr.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1996.

Samþykkt á Alþingi 23. maí 1996.