Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1183, 120. löggjafarþing 356. mál: Innheimtustofnun sveitarfélaga (samningar við skuldara).
Lög nr. 71 11. júní 1996.

Lög um breytingu á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 3. mgr. 5. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega þegar til skuldarinnar hefur verið stofnað sökum félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku, mikilli greiðslubyrði, barnamergð eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Slíka samninga skal endurskoða reglulega og a.m.k. á sex mánaða fresti. Ef um áframhaldandi félagslega og fjárhagslega erfiðleika er að ræða hjá skuldara og stjórnin telur fullljóst að aðstæður skuldara séu þannig að hann geti eigi greitt áfallinn höfuðstól eða hluta hans, auk meðlaga sem falla til mánaðarlega, er stjórninni heimilt að afskrifa höfuðstól skuldara að hluta eða öllu leyti. Heimild til niðurfellingar höfuðstóls eða hluta hans er bundin því skilyrði að skuldari hafi í a.m.k. þrjú ár staðið við samning skv. 1. málsl. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett í reglugerð.
     Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að afskrifa og endurgreiða höfuðstól skuldara sem stofnast hefur eftir að niðurstaða blóðrannsóknar liggur fyrir og/eða mál hefur verið höfðað til ógildingar á faðernisviðurkenningu eða til vefengingar á faðerni barns. Heimildin til afskriftar og endurgreiðslu er þó bundin því skilyrði að niðurstaða dómsmáls leiði í ljós að skuldari er ekki faðir viðkomandi barns. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett í reglugerð.
     Stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga er heimilt að mæla með nauðasamningi þar sem fjallað er um niðurfellingu höfuðstóls og/eða dráttarvaxta að hluta eða öllu leyti, enda sé ljóst að hagsmunum Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði betur borgið með nauðasamningi.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 4. júní 1996.