Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1120, 120. löggjafarþing 464. mál: tekjustofnar sveitarfélaga (flutningur grunnskólans).
Lög nr. 79 11. júní 1996.

Lög um breytingu á lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
 1. Í stað „0,227%“ í b-lið kemur: 0,264%.
 2. Á eftir b-lið kemur nýr stafliður, er verður c-liður, og orðast svo: Hlutdeild í útsvarstekjum sveitarfélaga er nemi 0,74% af álagningarstofni útsvars ár hvert. Við skil á staðgreiðslu útsvars til sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skal jafnframt gera Jöfnunarsjóði sveitarfélaga skil á hlutdeild sjóðsins í staðgreiðslu útsvars.


2. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Bundnum framlögum skal úthlutað sem hér segir:
 1. Til Sambands íslenskra sveitarfélaga, 1,58% af tekjum sjóðsins skv. a-, b- og c-lið 8. gr.
 2. Til landshlutasamtaka sveitarfélaga, 2% af tekjum sjóðsins skv. a- og b-lið 8. gr. sem skiptist jafnt á milli þeirra allra.
 3. Til Lánasjóðs sveitarfélaga, 6,1% af tekjum sjóðsins skv. a- og b-lið 8. gr.
 4. Til greiðslu útgjalda skv. 4. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga.


3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
 1. C-liður orðast svo: Til kostnaðarsamra stofnframkvæmda hjá sveitarfélögum með innan við 2.000 íbúa, allt að 10,5% af tekjum sjóðsins skv. a- og b-lið 8. gr., sbr. 13. gr.
 2. D-liður orðast svo: Til að aðstoða dreifbýlissveitarfélög við að standa undir rekstri grunnskóla, þ.e. vegna aksturs og launakostnaðar af rekstri mötuneyta og heimavista og gæslu nemenda, allt að 18,5% af tekjum sjóðsins skv. a- og b-lið 8. gr., sbr. 14. gr.


4. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Jöfnunarframlög skiptast í tvennt, tekjujöfnunarframlög og þjónustuframlög, og skal þeim úthlutað sem hér segir:
 1. Tekjujöfnunarframlögum skal úthlutað til að jafna tekjur sveitarfélaga. Jöfnunin skal miðuð við sambærileg sveitarfélög og fullnýtingu tekjustofna þeirra.
 2. Þjónustuframlögum skal varið til að jafna mismunandi útgjaldaþörf sveitarfélaga með sérstöku tilliti til stærðarhagkvæmni þeirra, þar með talið til að jafna launakostnað sveitarfélaga af kennslu í grunnskólum, svo og til að jafna annan kostnað sem hlýst af flutningi grunnskólakostnaðar frá ríki til sveitarfélaga.

     Tekjum Jöfnunarsjóðs skv. c-lið 8. gr., að frádregnu framlagi til Sambands íslenskra sveitarfélaga skv. a-lið 10. gr., skal varið til þess að jafna launakostnað sveitarfélaga af kennslu í grunnskólum, svo og annan kostnað af flutningi grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, sbr. b-lið 1. mgr. Til jöfnunarframlaga skal að öðru leyti verja þeim tekjum sjóðsins sem eru umfram ráðstöfun skv. 10. og 11. gr.
     Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal vera í bakábyrgð fyrir greiðslum til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna þeirra lífeyrisskuldbindinga sem stofnast vegna kennara og skólastjórnenda við grunnskóla. Til ábyrgðargreiðslu af hálfu sjóðsins skal þó ekki koma fyrr en vanskil sveitarfélags hafa varað í a.m.k. sex mánuði. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skal halda eftir af sjóðsframlögum til einstakra sveitarfélaga þeim greiðslum ásamt vöxtum og áföllnum kostnaði sem sjóðurinn hefur greitt Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins vegna starfsmanna grunnskóla eða innheimta slíkar kröfur með öðrum hætti.
     Í reglugerð skal meðal annars setja nánari ákvæði um útreikning jöfnunarframlaga, viðmiðanir við útgjaldaþörf sveitarfélaga, sbr. b-lið 1. mgr., með tilliti til íbúafjölda og verkefna, svo og launakostnaðar og annarra útgjalda vegna flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, og hvaða skilyrðum sveitarfélög þurfi að fullnægja til að hljóta þau.

5. gr.

     Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
     Skólamálaskrifstofum sveitarfélaga og öðrum opinberum aðilum er skylt að láta Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í té allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til ákvörðunar og úthlutunar framlaga vegna stofnkostnaðar og reksturs grunnskóla.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 23. gr. laganna:
 1. Í stað „9,2%“ kemur: 11,95%.
 2. Í stað „8,4%“ kemur: 11,15%.


7. gr.

     Við lögin bætast þrjú ný ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
I.
     Til þess að standa straum af rekstri grunnskóla tímabilið ágúst 1996 til og með desember 1996 skal ríkissjóður greiða 2.734.000.000 kr. sem framlag til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Fjárhæðin greiðist með jöfnum greiðslum mánaðarlega.
     Af framlagi hvers mánaðar skulu 27% greidd sem framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
II.
     Ríkissjóður skal auk greiðslu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I greiða til sveitarfélaga og Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem hér segir:
 1. Í janúar 1997 fjárhæð er nemur 2,65% af staðgreiðslustofni í desember 1996, sbr. lög nr. 45/1987.
 2. Mánuðina ágúst 1997 til og með desember 1997 með jöfnum greiðslum fjárhæð er nemur 2,65% af þeim útsvarsstofni sem skattlagður er eftir á við álagningu útsvars árið 1997 vegna tekjuársins 1996 og ekki var innheimt staðgreiðsla af.

     Af framlagi hvers mánaðar skv. 1. mgr. skulu 27% greidd sem framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
     Um greiðslufyrirkomulag, skiptingu og ráðstöfun framlags skv. 1. og 2. mgr. skal setja nánari ákvæði í reglugerð að fengnum tillögum og í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 23. gr. laganna skal hámarksútsvar árið 1997 nema 11,9% og lágmarksútsvar 11,1%.
     Þrátt fyrir ákvæði c-liðar 8. gr. laganna skal hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga nema 0,73% af álagningarstofni útsvars árið 1997.
III.
     Til að tryggja einsetningu grunnskólans skal ríkissjóður verja allt að 265 milljónum króna á ári af tekjuskatti áranna 1997–2001 til að styrkja framkvæmdir við grunnskólabyggingar. Féð skal renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Til viðbótar framlagi ríkisins til stofnframkvæmda í grunnskólum renni árlegt lögbundið framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga á árunum 1997–2002, 135 milljónir króna á ári.
     Ráðstöfunarfé skv. 1. mgr. skal varið til að greiða allt að 20% af normkostnaði við grunnskólabyggingar í sveitarfélögum með 2.000 íbúa og yfir á árunum 1997–2002 í samræmi við norm og reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eins og þær eru hverju sinni. Sá hluti fjárhæðarinnar sem sveitarfélögin nýta ekki á viðkomandi ári skal færður á milli ára innan tímabilsins. Framlag ríkisins samkvæmt þessu ákvæði skal að hámarki vera 1.325 milljónir króna á tímabilinu.
     Endurskoða skal núgildandi norm og reglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um stofnframlög og setja nánari ákvæði og sérstakar reglur um úthlutun þessa fjár í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

8. gr.

     Ákvæði 1. gr. öðlast gildi 1. janúar 1997 og koma til framkvæmda við skiptingu staðgreiðslu 1997, sbr. lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og við álagningu 1998 vegna tekna á árinu 1997. Ákvæði 2.–4. gr. öðlast gildi 1. janúar 1997. Ákvæði 6. gr. öðlast gildi 1. janúar 1998 og koma til framkvæmda við skiptingu staðgreiðslu 1998, sbr. lög um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og álagningu 1999 vegna tekna á árinu 1998.
     Önnur ákvæði laga þessara öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 30. maí 1996.