Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1222, 120. löggjafarþing 366. mál: náttúruvernd (heildarlög).
Lög nr. 93 14. júní 1996.

Lög um náttúruvernd.


Markmið náttúruverndar.

1. gr.

     Tilgangur þessara laga er að stuðla að samskiptum manns og náttúru, þannig að ekki spillist að óþörfu líf eða land, né mengist sjór, vatn eða andrúmsloft.
     Lögin eiga að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru eftir eigin lögmálum, en verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt.
     Lögin eiga að auðvelda þjóðinni umgengni við náttúru landsins og auka kynni af henni.

2. gr.

     Með náttúruverndarsvæðum er í lögum þessum átt við friðlýst svæði, þ.e. náttúruvætti, friðlönd, þjóðgarða og fólkvanga, svo og svæði og náttúrumyndanir sem eru á náttúruminjaskrá. Til náttúruverndarsvæða teljast einnig afmörkuð svæði á landi og sjó sem njóta verndar samkvæmt öðrum lögum vegna náttúru eða landslags.
     Með náttúruminjum er átt við náttúruverndarsvæði, náttúruvætti, lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem friðlýst hafa verið eða ástæða er til að friðlýsa.

Stjórn náttúruverndarmála.

3. gr.

     Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn náttúruverndarmála.
     Við mótun stefnu í náttúruvernd og framkvæmdir og fræðslu á því sviði skal ráðherra hafa samráð við Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Náttúrufræðistofnun Íslands, bændur og aðra landnotendur, sveitarstjórnir og samtök áhugamanna um náttúruvernd eftir því sem við á hverju sinni.

4. gr.

     Náttúruvernd ríkisins er ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra.
     Umhverfisráðherra skipar að loknum alþingiskosningum Náttúruvernd ríkisins fimm manna stjórn. Þrír skulu skipaðir án tilnefningar, þar af formaður sérstaklega, einn samkvæmt tilnefningu Náttúruverndarráðs og einn samkvæmt tilnefningu samgönguráðherra. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
     Stjórnin hefur undir yfirstjórn ráðherra æðsta vald í málefnum Náttúruverndar ríkisins. Hún fjallar um starfs- og fjárhagsáætlanir hennar og hefur eftirlit með fjárreiðum og ráðstöfun fjár.
     Umhverfisráðherra skipar forstjóra Náttúruverndar ríkisins til fimm ára í senn að fengnum tillögum stjórnar. Hann skal hafa sérþekkingu sem nýtist honum í starfi. Forstjóri fer í umboði stjórnar Náttúruverndar ríkisins með daglega stjórn stofnunarinnar og hefur yfirumsjón með rekstri hennar. Forstjóri ræður aðra starfsmenn í samráði við stjórn stofnunarinnar.
     Ráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um hlutverk og starfsskyldur forstjóra og stjórnar, svo og um innra skipulag stofnunarinnar.

5. gr.

     Hlutverk Náttúruverndar ríkisins er:
 1. umsjón, rekstur og eftirlit með náttúruverndarsvæðum í samræmi við lög,
 2. eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri, að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum; ráðherra skal, að höfðu samráði við aðrar stofnanir og aðila sem fara með eftirlit samkvæmt sérstökum lögum, setja í reglugerð nánari ákvæði um eftirlit stofnunarinnar,
 3. eftirlit með umferð og umgengni á svæðum í óbyggðum,
 4. undirbúningur að friðlýsingu svæða, umsjón með gerð verndaráætlana fyrir náttúruverndarsvæði og skráning náttúruminja,
 5. umsjón með gerð skipulagsáætlana fyrir náttúruverndarsvæði í hennar umsjá í samráði við skipulagsstjóra ríkisins,
 6. fræðsla á náttúruverndarsvæðum og almenn fræðsla um náttúruvernd, m.a. í fjölmiðlum,
 7. rekstur gestastofa á náttúruverndarsvæðum,
 8. álitsgerð vegna meiri háttar framkvæmda og rekstrar,
 9. friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar, sbr. 18. gr.,
 10. skýrslugerð til umhverfisráðherra um ástand náttúruverndarsvæða í umsjá stofnunarinnar, framkvæmdir á þeim o.fl. sem máli skiptir og varðar vörslu svæðanna,
 11. önnur störf að náttúruvernd samkvæmt ákvörðun ráðherra.


Umsjón og rekstur friðlýstra svæða.

6. gr.

     Náttúruvernd ríkisins hefur umsjón með náttúruverndarsvæðum. Ráðherra getur falið stofnuninni umsjón með öðrum svæðum sem sérstök þykja sakir landslags, gróðurfars eða dýralífs.
     Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu. Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, fyrirmæli um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.
     Náttúruvernd ríkisins getur falið einstaklingum eða lögaðilum umsjón og rekstur náttúruverndarsvæða að þjóðgörðum undanskildum. Gera skal sérstakan samning um umsjón og rekstur svæðanna sem ráðherra staðfestir. Í samningnum skal kveða á um réttindi og skyldur samningsaðila, mannvirkjagerð á svæðunum og aðrar framkvæmdir, landvörslu, menntun starfsmanna, móttöku ferðamanna og fræðslu þeirra. Um þjónustugjöld fer skv. 35. gr. Náttúruvernd ríkisins hefur eftirlit með því að umsjónar- og rekstraraðili uppfylli samningsskuldbindingar.

Rekstur þjóðgarða.

7. gr.

     Í hverjum þjóðgarði starfar þjóðgarðsvörður sem stjórn Náttúruverndar ríkisins ræður til fimm ára í senn að fengnum tillögum forstjóra stofnunarinnar. Þjóðgarðsverðir skulu hafa sérþekkingu og reynslu sem nýtist þeim í starfi.
     Þjóðgarðsverðir annast daglegan rekstur þjóðgarða í umboði Náttúruverndar ríkisins. Þeir gera tillögur til stjórnar stofnunarinnar um rekstur og fyrirkomulag þjóðgarða. Náttúruvernd ríkisins getur falið þjóðgarðsvörðum eftirlit og umsjón á öðrum svæðum sem stofnunin ber ábyrgð á.

Gestastofur.

8. gr.

     Náttúruvernd ríkisins er heimilt að stofna og reka gestastofur á náttúruverndarsvæðum eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Hafa skal samstarf við náttúrustofur, sbr. lög nr. 60/1992, um rekstur gestastofa þegar við á. Gera skal sérstakan samning um samstarfið sem umhverfisráðherra staðfestir.
     Náttúruvernd ríkisins getur falið sveitarfélögum eða héraðsnefndum umsjón og rekstur gestastofa. Um slíkt skal gera sérstakan samning sem umhverfisráðherra staðfestir.

Framkvæmd eftirlits.

9. gr.

     Náttúruvernd ríkisins er heimilt að fela náttúrustofum og náttúruverndarnefndum, sbr. 10. gr., að annast almennt eftirlit með náttúru landsins. Um slíkt skal gera samning sem umhverfisráðherra staðfestir. Í samningnum skal m.a. kveðið á um greiðslur fyrir eftirlitið, menntun eftirlitsmanna, skýrslugerð o.fl. sem máli skiptir.
     Nú telur Náttúruvernd ríkisins eða annar eftirlitsaðili skv. 1. mgr. nauðsynlegt að haldið verði uppi sérstöku eftirliti með framkvæmdum og skal þá gera um það samkomulag við framkvæmanda. Í samkomulaginu skal áætla kostnaðarliði eins og mögulegt er hverju sinni. Framkvæmanda ber að endurgreiða Náttúruvernd ríkisins eða öðrum eftirlitsaðila útlagðan kostnað vegna eftirlitsins. Rísi ágreiningur milli eftirlitsaðila og framkvæmanda um efni samkomulagsins eða greiðslur fyrir eftirlitið sker umhverfisráðherra úr.
     Að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins setur ráðherra gjaldskrá um kostnað vegna eftirlits með mannvirkjagerð. Heimilt er Náttúruvernd ríkisins að innheimta útlagðan kostnað með fjárnámi.

Náttúruverndarnefndir.

10. gr.

     Á vegum hvers sveitarfélags eða héraðsnefndar skal starfa þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd. Sveitarstjórnir og héraðsnefndir ákveða fjölda nefndarmanna, kjósa þá til fjögurra ára, ákveða formann og setja nefndinni erindisbréf. Varamenn skulu kosnir með sama hætti. Sveitarstjórnir greiða þann kostnað sem hlýst af störfum náttúruverndarnefnda.
     Hlutverk náttúruverndarnefnda er að stuðla að náttúruvernd hver á sínu svæði, m.a. með fræðslu, umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líkleg er til þess að hafa áhrif á náttúruna og að gera tillögur um úrbætur til sveitarstjórna og Náttúruverndar ríkisins.
     Náttúruvernd ríkisins og fulltrúar náttúruverndarnefnda skulu halda a.m.k. einn sameiginlegan fund á ári.

Náttúruverndarráð.

11. gr.

     Náttúruverndarráð skal skipað níu mönnum. Umhverfisráðherra skipar sex þeirra í upphafi náttúruverndarþings, fimm að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Bændasamtaka Íslands, Ferðamálaráðs og skipulagsstjóra ríkisins og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Þrír skulu kosnir á náttúruverndarþingi, sbr. 13. gr. Varamenn skulu skipaðir og kosnir með sama hætti.
     Framlag, sbr. 3. gr. laga nr. 52/1989, rennur til rekstrar Náttúruverndarráðs. Annan kostnað, sem leiðir af starfsemi ráðsins, skal greiða úr ríkissjóði.

Hlutverk Náttúruverndarráðs.

12. gr.

     Náttúruverndarráð skal stuðla að almennri náttúruvernd og fjalla um hvaðeina sem lýtur að náttúruvernd á Íslandi. Náttúruverndarráð er umhverfisráðherra til ráðgjafar um náttúruverndarmál. Ráðið gerir tillögur til ráðherra um friðlýsingar og aðrar verndunaraðgerðir, svo og um svæði á náttúruminjaskrá og skal fjalla um skrána áður en hún er gefin út.
     Náttúruverndarráð skal gangast fyrir ráðstefnum og opinni umræðu um náttúruverndarmál. Ráðið tekur í störfum sínum mið af þróun náttúruverndar á alþjóðavettvangi.
     Náttúruverndarráð veitir Náttúruvernd ríkisins faglega ráðgjöf.
     Náttúruverndarráð fer með vörslur Friðlýsingarsjóðs og er jafnframt stjórn sjóðsins. Að fenginni tillögu Náttúruverndarráðs setur ráðherra reglugerð um starfsemi Friðlýsingarsjóðs, úthlutanir úr honum o.fl.

Náttúruverndarþing.

13. gr.

     Umhverfisráðherra skal boða til náttúruverndarþings að loknum alþingiskosningum og síðan tveimur árum síðar.
     Náttúruverndarþing er vettvangur þeirra sem fjalla um náttúruverndarmál. Á náttúruverndarþingi skulu eiga sæti, auk Náttúruverndarráðs, fulltrúar setra Náttúrufræðistofnunar Íslands, náttúrustofa, náttúruverndarnefnda, hagsmunaaðila, félagasamtaka og stofnana sem vinna að náttúruvernd, svo og aðrir sem ráðið telur rétt að eigi seturétt hverju sinni. Jafnframt skulu fulltrúar ráðuneyta og þingflokka á Alþingi, forstjórar Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands, svo og þjóðgarðsverðir, eiga rétt til setu á þinginu með málfrelsi og tillögurétt.
     Hlutverk náttúruverndarþings er að fjalla um náttúruvernd og kjósa fulltrúa í Náttúruverndarráð. Ráðið skal undirbúa þingið og leggja fyrir það skýrslu um störf sín.
     Formaður Náttúruverndarráðs setur þingið og stýrir því uns það hefur kosið forseta. Þingið setur sér þingsköp. Náttúruverndarráð skal semja reglur fyrir hvert náttúruverndarþing þar sem kveðið er á um seturétt á þinginu, kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa. Reglurnar skal auglýsa með fullnægjandi hætti fjórum vikum fyrir upphaf náttúruverndarþings. Verði ágreiningur um kjörgengi og kosningarrétt þingfulltrúa skal málum vísað til úrskurðar á þinginu sjálfu.
     Seta á náttúruverndarþingi er ólaunuð, en hlutaðeigandi aðilar greiða kostnað fulltrúa. Annar nauðsynlegur kostnaður af þinghaldinu greiðist úr ríkissjóði samkvæmt úrskurði umhverfisráðherra.

Aðgangur almennings að náttúru landsins, umgengni, framkvæmdir o.fl.

14. gr.

     Almenningi er heimil för um landsvæði utan landareigna lögbýla, svo og dvöl á þessum svæðum í lögmætum tilgangi.
     Gangandi fólki er því aðeins heimil för um eignarlönd manna að þau séu óræktuð og ógirt og að dvöl manna þar hafi ekki í för með sér ónæði fyrir búpening né óhagræði fyrir rétthafa að landinu. Sé land girt þarf leyfi landeigenda til að ferðast um það eða dveljast á því. Sama gildir um ræktuð landsvæði.

15. gr.

     Almenningi er heimilt að lesa ber, sem vaxa villt, á óræktuðu landi, til neyslu á vettvangi.
     Öllum er heimil berjatínsla á landsvæðum utan landareigna lögbýla.
     Umhverfisráðherra er heimilt að leggja bann við notkun tækja eða verkfæra við berjatínslu ef uggvænt þykir að af þeim hljótist spjöll á gróðri.

16. gr.

     Öllum er skylt að sýna varúð svo að náttúru landsins sé ekki spillt að þarflausu. Spjöll á náttúru landsins, sem framin eru með ólögmætum hætti af ásetningi eða gáleysi, varða refsingu.
     Að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins setur umhverfisráðherra reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílslóða og vega og leyfilegan öxulþunga vélknúinna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Þar sem hætta er á náttúruspjöllum er akstur utan vega og merktra slóða óheimill.
     Náttúruvernd ríkisins getur í verndarskyni tímabundið takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum, enda hafi stofnunin að jafnaði gert grein fyrir fyrirhugaðri lokun í skýrslu skv. 4. mgr. Slíkar ákvarðanir skal umhverfisráðherra staðfesta og birta í Stjórnartíðindum.
     Skal stofnunin á hverju hausti gera úttekt á ástandi svæða í óbyggðum og gefa umhverfisráðherra skýrslu um niðurstöður úttektarinnar. Í skýrslunni skal koma fram hvaða svæði eru í hættu og hvar geti komið til lokana. Niðurstöður skýrslunnar skulu birtar opinberlega og skal almenningur eiga greiðan aðgang að þeim.
     Bannað er að safna rusli í hauga á almannafæri eða við alfaraleiðir. Skylt er að ganga svo frá sorphaugum að hvorki fjúki úr þeim né fljóti. Hreinsa má rusl á kostnað þess er sannur er að broti á þessum fyrirmælum.

17. gr.

     Ekki skal að óþörfu eyða eða spilla gróðri með mosa-, lyng- eða hrísrifi eða á annan hátt eða saurga vatnsból eða spilla vatni, hvort heldur er rennandi vatn í ám og lækjum eða í stöðuvötnum og brunnum. Nánari ákvæði um þetta skal umhverfisráðherra setja í reglugerð.

18. gr.

     Umhverfisráðherra getur í samráði við landbúnaðarráðherra ákveðið friðunar- og uppgræðsluaðgerðir á sviði gróður- og skógverndar.
     Náttúruvernd ríkisins skal ásamt Landgræðslu ríkisins vinna að gróðurvernd og hafa eftirlit með ástandi gróðurs. Slíkt eftirlit má þó fela gróðurverndarnefndum að fengnu samþykki umhverfisráðherra og landbúnaðarráðherra.
     Náttúruvernd ríkisins skal ásamt Skógrækt ríkisins vinna að verndun og eftirliti með náttúrulegum birkiskógum og skógum til útivistar.

19. gr.

     Hafi byggingar, skip í fjöru, bifreiðir eða áhöld eða mannvirki, þar á meðal girðingar, verið skilin eftir í hirðuleysi og grotni þar niður svo að telja verði til lýta eða spjalla á náttúru er eiganda skylt að fjarlægja það.
     Fari jörð í eyði er landeigenda skylt að ganga svo frá jarðarhúsum, girðingum, brunnum og öðrum mannvirkjum að ekki valdi hættu fyrir fólk og skepnur né valdi náttúruspjöllum eða sé til lýta.
     Sveitarstjórn skal annast framkvæmdir þær, sem nauðsynlegar eru samkvæmt fyrirmælum þessum, á kostnað þess er skylt var að annast þær en hefur látið það ógert.

20. gr.

     Við samkomustaði úti í náttúrunni, skemmtisvæði, garðlönd almennings og aðra þvílíka staði, sem almenningi er ætlað að safnast á, skal jafnan komið fyrir nauðsynlegum hreinlætistækjum áður en staðurinn er tekinn til afnota.

21. gr.

     Malarnám, sandnám, grjótnám, gjallnám og vikurnám er hverjum manni heimilt í landi sínu ef ekki gengur í berhögg við 22.–30. gr. Sveitarstjórn getur, að fenginni umsögn náttúruverndarnefndar, bannað jarðrask af þessum sökum ef hún telur hættu á að með því verðisérkennilegu landslagi eða merkum náttúruminjum raskað. Skjóta má ákvörðun sveitarstjórnar til umhverfisráðherra sem úrskurðar um málið að fenginni umsögn Náttúruverndar ríkisins.
     Í almenningum er bannað allt nám jarðefna er um getur í 1. mgr., nema til komi samþykki umhverfisráðherra eftir að hann hefur leitað umsagnar Náttúruverndar ríkisins.
     Um jarðefni til vega fer eftir vegalögum.

22. gr.

     Hafi jarðrask orðið við mannvirkjagerð, malarnám, sandnám, grjótnám, gjallnám, eða á annan hátt af mannavöldum, skal þeim er valdið hefur skylt að ganga frá því á snyrtilegan hátt. Náttúruvernd ríkisins getur sett fyrirmæli um hvernig við skal skilið og m.a. sett mönnum ákveðinn frest til að ljúka frágangi.

23. gr.

     Valdi fyrirhuguð mannvirkjagerð eða jarðrask hættu á því að landið breyti varanlega um svip eða að merkum náttúruminjum verði spillt er skylt að leita álits Náttúruverndar ríkisins áður en framkvæmdir hefjast.
     Ef það er vanrækt getur Náttúruvernd ríkisins krafist atbeina lögreglustjóra til varna því að verk verði hafið eða því fram haldið.
     Virkjanir, verksmiðjur og önnur stór mannvirki skulu hönnuð í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Sama gildir um vegalagningu til slíkra mannvirkja.
     Nánari fyrirmæli samkvæmt þessari grein setur umhverfisráðherra í reglugerð.

24. gr.

     Óheimilt er að setja upp auglýsingar meðfram vegum eða annars staðar utan þéttbýlis. Þó er heimilt að setja upp látlausar auglýsingar um atvinnurekstur eða þjónustu eða vörur á eign þar sem slík starfsemi eða framleiðsla fer fram.
     Hvers konar áletranir á náttúrumyndanir eru óheimilar. Spjöld með leiðbeiningum fyrir vegfarendur, svo sem um leiðir, nöfn bæja, áningarstaði, þjóðgarða og friðunarsvæði, falla ekki undir ákvæði þessi.
     Umhverfisráðherra setur reglur um auglýsingar og leiðbeiningar samkvæmt þessari grein og úrskurðar um vafaatriði.

25. gr.

     Eigi má setja byggingar, girðingar né önnur mannvirki á sjávarströnd né á vatnsbakka og árbakka þannig að hindri frjálsa umferð fótgangandi manna. Ákvæði þessarar greinar eiga þó ekki við um þær byggingar eða þau mannvirki sem nauðsynleg eru vegna atvinnurekstrar, þar með talin íbúðarhús bænda, né þau sem reist eru með leyfi réttra yfirvalda á skipulögðum svæðum.

Friðlýsing náttúrumyndana.

26. gr.

     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðlýst sérstæðar náttúrumyndanir, svo sem fossa, eldstöðvar, hella og dranga, svo og fundarstaði steingervinga og sjaldgæfra steintegunda, ef telja verður mikilvægt að varðveita þær sakir fræðilegs gildis þeirra, fegurðar eða sérkenna. Náttúrumyndanir, sem friðlýstar eru samkvæmt þessu ákvæði, nefnast náttúruvætti.
     Friðlýsa skal svæði í kringum náttúruvætti, svo sem nauðsynlegt er, til þess að þau fái notið sín, og skal þess greinilega getið í friðlýsingu og markað á staðnum.
     Friðlýstum náttúruvættum má enginn granda, spilla né breyta.

Friðlýsing lífvera, búsvæða þeirra og vistkerfa.

27. gr.

     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðlýst lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem miklu skiptir frá náttúrufræðilegu eða öðru menningarlegu sjónarmiði að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt.
     Friðun getur ýmist verið staðbundin eða tekið til landsins alls.
     Ef ætla má að fyrirhugaðar framkvæmdir raski svo náttúrulegu umhverfi að hætta sé á að ákveðnar lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi eyðist eða verði fyrir verulegum skaða getur umhverfisráðherra látið friðlýsingu sína taka til banns við slíkum framkvæmdum, enda sé áður fengin umsögn Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Friðlýsing landsvæða.

28. gr.

     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, friðað í heild landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs, og nefnast þau landsvæði friðlönd. Má þar ekki raska náttúrufari né gera mannvirki sem spilla svip landsins. Í friðlýsingu skal nánar kveðið á um hversu víðtæk friðunin er, að hve miklu leyti framkvæmdir á landinu eru takmarkaðar umferð og umferðarrétt almennings og notkun veiðiréttar. Þá mega og fylgja friðlýsingu fyrirmæli um nauðsynlegar aðgerðir til þess að almenningur njóti svæðisins, svo sem um lagningu göngustíga, girðingar og þess háttar.
     Friðlöndum má enginn, hvorki landeigendur, ábúendur né aðrir, raska að því leyti sem fyrirmæli friðlýsingarinnar taka til.
     Umhverfisráðherra getur veitt undanþágu frá settum fyrirmælum í friðlýsingu ef ástæður eru fyrir hendi.

Stofnun þjóðgarða.

29. gr.

     Umhverfisráðherra getur, að fengnum tillögum eða áliti Náttúruverndar ríkisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndarráðs, lýst landsvæði þjóðgarð, enda sé það sérstætt um landslag, gróðurfar eða dýralíf eða á því hvílir söguleg helgi þannig að ástæða sé til að varðveita það með náttúrufari sínu og leyfa almenningi aðgang að því eftir tilteknum reglum.
     Landsvæði þjóðgarða skulu vera í ríkiseign, nema sérstakar ástæður mæli með öðru og um það náist samkomulag milli umhverfisráðherra og landeigenda.
     Ráðherra er heimilt að stofna ráðgjafarnefnd með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna til að fjalla um rekstur og skipulag þjóðgarða.
     Umhverfisráðherra setur, að fenginni tillögu Náttúruverndar ríkisins, reglugerð um meðferð og rekstur þjóðgarða og umgengni almennings.

Stofnun og rekstur fólkvanga.

30. gr.

     Nú óskar eitt sveitarfélag eða fleiri að tiltekið svæði verði lýst fólkvangur, og skal það eða þau þá bera fram ósk til Náttúruverndar ríkisins um slíkt. Skal gerð grein fyrir mörkum fólkvangsins og hvaða takmarkanir ákvörðun um fólkvang kunni að setja umráðarétti eigenda lands sem um er að ræða og annað er máli skiptir.
     Ef Náttúruvernd ríkisins getur á tillöguna fallist skal það tilkynnt í Lögbirtingablaði, svo og með þeim hætti sem venja er að birta stjórnvaldaauglýsingar á viðkomandi stað, að fyrirhuguð sé stofnun fólkvangs með tilteknum mörkum. Þar skal og nánar gerð grein fyrir hugsanlegum takmörkunum á umráðarétti landeigenda. Jafnframt skal tekið fram að þeir sem geri ekki athugasemdir við stofnun fólkvangs innan tiltekins frests, sem má ekki vera skemmri en átta vikur, teljist samþykkja þá ákvörðun og fyrirgeri þar með hugsanlegum rétti til bóta.
     Þegar frestur skv. 2. mgr. er liðinn skal Náttúruvernd ríkisins ákveða hvort athugasemdir, er kunna að hafa borist, séu svo veigamiklar að ástæða sé til að breyta upphaflegri fyrirætlun eða hverfa frá henni. Gefa skal fulltrúum sveitarfélaga, sem um ræðir í 1. mgr., kost á að vera viðstaddir þegar um þessi mál verður fjallað.
     Ef Náttúruvernd ríkisins og fulltrúar sveitarfélaga, sem í hlut eiga, verða sammála um að haldið verði fast við ákvörðun um stofnun fólkvangs, breytta eða óbreytta, skal umhverfisráðherra hlutast til um að dómkvaddir verði matsmenn til meta bætur fyrir tjón er aðilar, sem athugasemdir gera, sbr. 2. mgr., kunna að verða fyrir við stofnun fólkvangs. Um framkvæmd mats fer samkvæmt lögum nr. 11/1973.
     Þegar endanlegt mat liggur fyrir skal kannað hvort hlutaðeigandi sveitarfélög óska eftir að formleg ákvörðun verði tekin um stofnun fólkvangs. Ef þau óska slíks og umhverfisráðherra samþykkir skal hann birta ákvörðun um stofnun fólkvangsins í Stjórnartíðindum.
     Sveitarfélög, sem hlut eiga að máli, bera allan kostnað sem beinlínis leiðir af stofnun og rekstri fólkvangs að því leyti sem ekki koma til framlög úr ríkissjóði, og skal þeim kostnaði skipt í hlutfalli við íbúatölu sveitarfélaganna næsta ár á undan. Ef sveitarfélag hættir þátttöku í undirbúningi að stofnun fólkvangs er því skylt að greiða áfallinn kostnað hlutfallslega.
     Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, stofna með sér samvinnunefnd er starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila.
     Nú rís ágreiningur um skilning á grein þessari eða upp koma sérstök vafaatriði sem snerta rekstur fólkvangs, og sker þá umhverfisráðherra úr.

Önnur útivistarsvæði.

31. gr.

     Til stuðnings við útivist getur Náttúruvernd ríkisins eða náttúruverndarnefndir gengist fyrir að halda opnum göngustígum, strandsvæðum til sjóbaða, vatnsbökkum og öðrum stígum og svæðum sem ástæða er til að halda opnum til að greiða fyrir því að almenningur fái notið náttúrunnar; enn fremur sett upp göngubrýr og girðingarstiga og afmarkað tjaldsvæði og gert annað það er þurfa þykir í þessu skyni.
     Framkvæmdir samkvæmt þessari grein skulu einungis gerðar með samþykki landeigenda.

Náttúruminjaskrá.

32. gr.

     Umhverfisráðherra gefur út náttúruminjaskrá fjórða hvert ár og auglýsir hana í Stjórnartíðindum.
     Náttúruvernd ríkisins skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands sjá um öflun gagna og skráningu í náttúruminjaskrá og undirbúa útgáfu hennar. Í skránni skulu vera upplýsingar um öll náttúruverndarsvæði landsins, náttúrumyndanir, lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem friðlýst hafa verið samkvæmt lögum þessum. Jafnframt skal skrá náttúrumyndanir, lönd og lífverur, búsvæði þeirra og vistkerfi sem æskilegt er að friðlýsa.
     Umhverfisráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um skráningu náttúruminja.

Framkvæmd friðlýsingar.

33. gr.

     Ef umhverfisráðherra telur ástæðu til friðlýsingar eða annarra náttúruverndaraðgerða samkvæmt lögum þessum skal hann fela Náttúruvernd ríkisins að freista þess að komast að samkomulagi við landeigendur, sveitarstjórnir og aðra er hagsmuna eiga að gæta. Verði samkomulag skal það fært til bókar og staðfest af hlutaðeigandi aðilum.
     Ákveði umhverfisráðherra friðlýsingu og liggi ekki þegar fyrir samþykki eigenda eða annarra rétthafa eða sveitarfélags þess er hlut á að máli skal Náttúruvernd ríkisins semja tillögu að friðlýsingunni.
     Tillagan skal send landeigendum, ábúendum og öðrum rétthöfum er friðlýsing snertir, svo og sveitarfélögum. Skal þeim gefinn kostur á að gera athugasemdir við friðlýsinguna, koma að mótmælum eða gera bótakröfur til umhverfisráðherra innan fjögurrra mánaða. Jafnframt skal í tillögunni tekið fram að berist kröfur ekki innan þess tíma verði þær ekki teknar til greina í friðlýsingunni.
     Berist mótmæli gegn friðlýsingu eða bótakröfur vegna hennar getur umhverfisráðherra reynt samninga á ný um bótakröfurnar og breytt friðlýsingunni í samræmi við mótmælin, enda skerði breytingin í engu rétt annarra.
     Þegar tekin hefur verið fullnaðarákvörðun um friðlýsingar og friðunarákvæði birtir umhverfisráðherra þau í Stjórnartíðindum og taka þau gildi frá þeim degi sem þau eru birt. Þau skulu og fest upp á staðnum eftir því sem við verður komið og nauðsynlegt er að mati Náttúruverndar ríkisins.

Ýmis ákvæði.

34. gr.

     Kostnaður við framkvæmd laga þessara skal greiddur úr ríkissjóði eftir því sem fé er til þess veitt á fjárlögum.

35. gr.

     Náttúruvernd ríkisins eða sá aðili sem falinn hefur verið rekstur náttúruverndarsvæðis getur ákveðið gjald fyrir veitta þjónustu. Rekstraraðili náttúruverndarsvæðis getur enn fremur ákveðið gjald fyrir aðgang að svæðinu ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum.
     Tekjum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. skal varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því.
     Eigi síðar en í september ár hvert skal Náttúruvernd ríkisins með opinberri auglýsingu birta skrá yfir gjaldtöku rekstraraðila náttúruverndarsvæða fyrir næsta ár. Gjaldskrá má kæra til ráðherra.
     Ráðherra er heimilt að setja nánari ákvæði um framkvæmd greinarinnar í reglugerð.

36. gr.

     Um sölu jarðar, sem öll eða að hluta hefur verið sett á náttúruminjaskrá skv. 32. gr., fer eftir ákvæðum laga nr. 65/1976 en þó þannig að ríkissjóður skal hafa forkaupsrétt að þeim aðilum frágengnum sem hann er veittur með þeim lögum.

37. gr.

     Umhverfisráðherra er heimilt að taka eignarnámi lönd, mannvirki og réttindi til þess að framkvæma friðlýsingu er í lögum þessum greinir.

38. gr.

     Hver sá er fyrir fjártjóni verður vegna framkvæmdar á framangreindum ákvæðum á rétt til skaðabóta úr ríkissjóði. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar í samræmi við ákvæði laga nr. 11/1973.

39. gr.

     Brot gegn lögum þessum og reglum, er settar eru samkvæmt þeim, varða sektum eða varðhaldi. Sektir renna í ríkissjóð.
     Beita má dagsektum er renna í ríkissjóð til að knýja menn til framkvæmda á ráðstöfunum sem þeim er skylt að hlutast til um samkvæmt lögunum eða til þess að láta af atferli sem er ólögmætt. Hámark dagsekta skal ákveða í reglugerð.
     Umhverfisráðherra skal setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

40. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 47/1971, um náttúruvernd.
      Lög nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, halda gildi sínu þrátt fyrir gildistöku laga þessara.

Breyting á öðrum lögum.

41. gr.

     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
 1. Lög um bann gegn jarðraski, nr. 123/1940, ásamt síðari breytingum: Í stað orðsins „náttúruverndarráðs“ í 2. gr. laganna kemur: Náttúruverndar ríkisins.
 2. Lög um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu, nr. 36/1974, með síðari breytingum:
  1. Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 1., 2. og 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: Náttúruverndar ríkisins.
  2. 4. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
  3.      Þá eru heimilar án sérstaks leyfis Náttúruverndar ríkisins byggingar samkvæmt staðfestu skipulagi, enda hafi stofnunin fallist á skipulagsáætlun þá sem um er að ræða.
  4. 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Umhverfisráðherra skipar stjórn stöðvarinnar samkvæmt tilnefningum Náttúrufræðistofnunar Íslands, raunvísindadeildar Háskóla Íslands, hreppsnefndar Skútustaðahrepps, Landeigendafélags Laxár og Mývatns og Náttúruverndar ríkisins og skal fulltrúi hennar vera formaður stjórnar.
  5. Í stað orðanna „umhverfisráðuneytið setur, að fengnum tillögum Náttúruverndarráðs“ í 3. málsl. 2. mgr. 4. gr. laganna kemur: umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum stjórnar náttúrurannsóknastöðvarinnar.
  6. Í stað orðanna „Umhverfisráðuneytið setur, að fengnum tillögum heilbrigðisráðuneytisins og Náttúruverndarráðs“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: Umhverfisráðherra setur, að fengnum tillögum Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins.
  7. Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 6. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.

 3. Lög um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, nr. 60/1992: Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 5. mgr. 3. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.
 4. Lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994:
  1. Í stað orðsins „Náttúruverndarráði“ í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.
  2. Í stað orðsins „Náttúruverndarráðs“ í 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: Náttúruverndar ríkisins.

 5. Lög um skipulag ferðamála, nr. 117/1994:
  1. Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 9. tölul. 7. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.
  2. Í stað orðanna „Náttúruverndarráðs nema samþykki þess komi til“ í 2. mgr. 30. gr. laganna kemur: Náttúruverndar ríkisins nema samþykki hennar komi til.

 6. Lög um vernd Breiðafjarðar, nr. 54/1995: Í stað orðsins „Náttúruverndarráð“ í 3. mgr. 4. gr. laganna kemur: Náttúruvernd ríkisins.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 40. gr. skal umhverfisráðherra þegar skipa stjórn Náttúruverndar ríkisins og skal hún undirbúa starfsemi stofnunarinnar.
     Reglugerð skv. b-lið 5. gr. skal öðlast gildi um leið og lög þessi.
     Ráðherra skal boða til fyrsta náttúruverndarþings, sbr. 13. gr., í janúar 1997. Náttúruverndarráð það, sem lætur af störfum við gildistöku laga þessara, skal undirbúa þingið.
     Lög þessi skal endurskoða í heild sinni innan tveggja ára frá gildistöku.

Samþykkt á Alþingi 5. júní 1996.