Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1226, 120. löggjafarþing 540. mál: eftirlaun alþingismanna (forseti Alþingis, makalífeyrir).
Lög nr. 108 14. júní 1996.

Lög um breyting á lögum um eftirlaun alþingismanna, nr. 46/1965, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. Á eftir 2. málsl. greinarinnar kemur nýr málsliður er orðast svo: Á sama hátt greiðir forseti Alþingis í sjóðinn 4% af forsetalaunum eins og þau eru ákveðin á hverjum tíma og miðast mótframlag úr ríkissjóði við þau laun.
  2. Við greinina bætast þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  3.      Með „alþingismanni“ er í lögum þessum átt við þann sem tekið hefur fast sæti á Alþingi. Sömu reglur skulu einnig gilda um ráðherra sem ekki er jafnframt alþingismaður.
         Varaþingmaður skal einnig greiða í sjóðinn af þingfararkaupi sínu og eiga rétt til eftirlauna skv. 2.–3. gr.
         Þegar réttindi alþingismanna samkvæmt lögunum eru reiknuð út skal telja með þann tíma sem þeir greiddu í sjóðinn sem varaþingmenn.


2. gr.

     Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, 5. mgr., er orðast svo:
     Þeir sem gegnt hafa embætti forseta Alþingis eftir gildistöku laga nr. 88/1995 skulu, auk réttar skv. 1. og 2. mgr. þessarar greinar, eiga rétt til viðbótargreiðslna úr sjóðnum eftir sömu reglum og gilda um eftirlaun ráðherra, sbr. lög nr. 47/1965, með síðari breytingum, fyrir þann tíma er þeir voru í embætti. Greiðslur samkvæmt þessari málsgrein og greiðslur úr eftirlaunadeild ráðherra, sem fyrrverandi forseti kann að eiga rétt á, mega þó aldrei nema samtals hærri fjárhæð en 50% af ráðherralaunum og skerðast greiðslur samkvæmt þessari málsgrein sem því nemur.

3. gr.

     4. gr. laganna, sbr. 4. gr. laga nr. 73/1982, orðast svo:
     Eftirlifandi maki alþingismanns, fyrrverandi alþingismanns eða varaþingmanns á rétt á eftirlaunum að honum látnum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
     Eftirlaunaréttur maka alþingismanns eða fyrrverandi alþingismanns skal vera 20% af þingfararkaupi að viðbættum helmingnum af þeim hundraðshluta sem hinn látni alþingismaður hafði áunnið sér skv. 1.–2. mgr. 3. gr. Sé makalífeyrir samkvæmt þessari málsgrein hærri hundraðshluti en sá sem hinn látni alþingismaður hafði áunnið sér skal það sem umfram er falla niður eftir þrjú ár eða þegar yngsta barn hans verður 18 ára ef síðar er.
     Eftirlifandi maki varaþingmanns skal eiga rétt á eftirlaunum er nema helmingnum af þeim hundraðshluta sem hinn látni varaþingmaður hafði áunnið sér skv. 1.–2. mgr. 3. gr. Hafi samanlögð þingseta varamanns numið tveimur árum á eftirlifandi maki þó sama rétt og eftirlifandi makar alþingismanna og fyrrverandi alþingismanna skv. 2. mgr. þessarar greinar.
     Eftirlifandi maki fyrrverandi forseta Alþingis á rétt á viðbótargreiðslu sem nemur helmingi þess réttindahlutfalls af ráðherralaunum sem forsetinn hafði aflað sér skv. 5. mgr. 3. gr. laganna, auk 20% nema makinn eigi jafnframt rétt í ráðherradeild sjóðsins.
     Eftirlaun maka fylgja þingfararkaupi alþingismanna eins og það er á hverjum tíma og eru sá hundraðshluti þess sem eftirlaunaréttur skv. 2.–4. mgr. þessarar greinar segir til um.
     Reglur 4.–7. mgr. 14. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins skulu gilda um makalífeyri alþingismanna eftir því sem við á.

4. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., er orðast svo:
     Ákvæði þessarar greinar gilda ekki um börn eða kjörbörn varaþingmanna nema þingseta varaþingmanns hafi varað a.m.k. tvö ár samanlagt.

5. gr.

     6. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði a-liðar 1. gr. gilda frá 1. júlí 1995.
     Ný ákvæði 4. og 5. gr. laganna skerða ekki rétt þeirra er við gildistöku þessara laga taka maka- eða barnalífeyri úr sjóðnum eða hafa þá öðlast rétt til slíkrar greiðslu.

Samþykkt á Alþingi 5. júní 1996.