Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 311, 121. löggjafarþing 143. mál: staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur (hlutdeildarskírteini, afföll).
Lög nr. 133 17. desember 1996.

Lög um breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.


1. gr.

     Á eftir orðunum „Seðlabanki Íslands“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: verðbréfasjóðir, sbr. lög um verðbréfasjóði, nr. 10/1993.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Staðgreiðsla af vöxtum skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 4. gr. skal fara fram þegar vextir eru greiddir út eða færðir eiganda til eignar á reikningi, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr.
  2. 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Við innlausn eða sölu skal gera skil á greiðslu skatts af gengishækkun hlutdeildarskírteina.
  3. Við 1. málsl. 3. tölul. 1. mgr. bætist: þegar þær koma til greiðslu.
  4. 2. málsl. 3. tölul. 1. mgr. fellur brott.
  5. Á eftir orðinu „verðbréfum“ í 5. tölul. 1. mgr. kemur: þar með talda gengishækkun hlutdeildarskírteina.
  6. Síðari málsliður 2. mgr. fellur brott.
  7. Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
  8.      Þegar verðbréf er selt, eða afhent sem greiðsla, skal skrá á það nafn seljanda, kennitölu hans og dagsetningu sölu ásamt söluverði (kaupverði). Þegar skilaskyldur aðili skv. 3. gr. selur eða hefur milligöngu í viðskiptum með verðbréf og annast innheimtu þeirra er skráningarskyldu fullnægt með því að dagsetning og söluverð (kaupverð) er skráð með tryggilegum hætti í tölvu. Þegar slík verðbréf fara úr vörslu skilaskylds aðila, áður en þau eru að fullu greidd, skal hann skrá söluverð (kaupverð) ásamt upphaflegri dagsetningu viðskiptanna á bréfin.


3. gr.

     Í stað 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir er orðast svo: Aðili, sem fellur undir 1. mgr. 3. gr., getur sótt til ríkisskattstjóra um að verða ekki færður á skrá um skilaskylda aðila, enda hafi hann að óverulegu leyti með höndum innheimtu á eða milligöngu með peningalegar eignir einstaklinga. Aðilar, sem fá slíka undanþágu, skulu árlega gefa skattyfirvöldum upplýsingar um þær fjármagnstekjur einstaklinga sem þeir hafa innheimt, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

4. gr.

     Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Við ákvörðun á fjárhæð áfallinna vaxta á kröfu og verðbréf skal þess gætt að færa uppreiknað verð, þ.e. eftirstöðvaverð, með áföllnum verðbótum og vöxtum á viðkomandi skjal við greiðslu eða fyrstu afborgun eftir 1. janúar 1997.
     Uppreiknað verð á verðbréfum sem uppfylla skilyrði um skráningu á Verðbréfaþingi Íslands, sbr. V. kafla laga nr. 11/1993, skal miðast við vegið meðaltal viðskipta í einstökum flokkum verðbréfa sem fram fara á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember 1996 á Verðbréfaþingi Íslands, þar með talin tilkynnt viðskipti fyrir sama tímabil.
     Uppreiknað verð á kröfu eða verðbréfi sem ekki er skráð á Verðbréfaþingi Íslands, sbr. V. kafla laga nr. 11/1993, og ber lægri nafnvexti en 5% skal ákvarðað sem nafnverð kröfunnar eða eftirstöðvar verðbréfsins 31. desember 1996, að teknu tilliti til 5% ávöxtunar á ári til loka lánstíma. Ef rétthafi vaxta getur sýnt fram á að ávöxtun kröfu eða verðbréfs sé lægri en greinir í 1. málsl. þessarar málsgreinar getur hann farið fram á leiðréttingu til samræmis við raunverulega ávöxtun. Slík leiðrétting skal gerð við álagningu að tekjuári liðnu. Þannig ákvarðað og uppreiknað verðmæti kröfu eða verðbréfs telst upphafsverð 1. janúar 1997 við staðgreiðslu fjármagnstekna. Krafa eða verðbréf sem bera nafnvexti 5% eða hærri skulu skattlögð samkvæmt því.
     Skuldaviðurkenningar, sem teknar eru sem greiðsla söluandvirðis samkvæmt kaupsamningi og eru í eigu seljanda, skulu metnar á uppreiknuðu verði í árslok 1996, sbr. þó 2. málsl. lokamálsgreinar 5. gr.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 11. desember 1996.