Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 297, 121. löggjafarþing 30. mál: meðferð opinberra mála (réttarstaða handtekinna manna o.fl.).
Lög nr. 136 13. desember 1996.

Lög um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19 26. mars 1991, með síðari breytingum (réttarstaða handtekinna manna o.fl.).


1. gr.

     Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     4. Dómari ákvarðar þóknun til handa dómtúlki eða þýðanda sem greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.

     Við 1. mgr. 32. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í því tilviki skal lögregla, svo fljótt sem kostur er eftir að sakborningur var handtekinn, tilkynna nánustu vandamönnum hans að hann hafi verið handtekinn og hvar hann sé vistaður. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um hvenær synja má handteknum manni um að hafa samband við nánustu vandamenn sína.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 69. gr. laganna:
  1. Við 5. mgr. bætist: en lögreglustjóri eða löglærður starfsmaður hans ákvarðar þóknun.
  2. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      6. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um tilhögun yfirheyrslna.


4. gr.

     Við 101. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     4. Dómsmálaráðherra setur í reglugerð ákvæði um skráningu á atriðum er varða vistun á handteknum mönnum.

5. gr.

     Á eftir 1. mgr. 108. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi, og breytist töluröð annarra málsgreina samkvæmt því:
     2. Þrátt fyrir ákvæði d-liðar 1. mgr. mega gæsluvarðhaldsfangar taka við og senda bréf til dómstóla, dómsmálaráðherra, umboðsmanns Alþings og verjanda síns án þess að efni þeirra sé athugað. Dómsmálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð ákvæði um að gæsluvarðhaldsfangar megi senda öðrum opinberum aðilum eða einstaklingum bréf án þess að efni þeirra sé athugað.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi 5. gr. laga um heimild fyrir stjórnarráðið til þess að veita mönnum rétt til þess að vera dómtúlkar og skjalþýðendur, nr. 32 2. nóvember 1914.

Samþykkt á Alþingi 10. desember 1996.