Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 440, 121. löggjafarþing 150. mál: fjarskipti (heildarlög).
Lög nr. 143 27. desember 1996.

Lög um fjarskipti.


I. KAFLI
Gildissvið laganna og markmið.

1. gr.

     Lög þessi taka til fjarskipta og fjarskiptaþjónustu.
     Markmið fjarskiptalaga er að tryggja örugg fjarskipti og sem hagkvæmasta fjarskiptaþjónustu hér á landi.
     Íslenska ríkið skal tryggja eftir því sem unnt er að öllum landsmönnum bjóðist aðgangur að talsímaþjónustu og öðrum fjarskiptum, eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum þessum.

II. KAFLI
Orðskýringar.

2. gr.

     Merking nokkurra orða sem notuð eru í lögum þessum er sem hér segir:
      Fjarskipti: Það sem nefnt er „Telecommunication“ í alþjóðafjarskiptasamningum (nú Convention Internationale des Telecommunications, Nice 1989) og merkir hvers konar sendingu og móttöku tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum með raföldum (radio) eða öðrum rafsegulkerfum.
      Fjarskiptavirki: Hvers konar tæki, tækjahlutar, leiðslur, búnaður og því um líkt sem sérstaklega er ætlað til að koma á fjarskiptum eða reka þau, hvort heldur er til sendingar eða móttöku.
      Almennt fjarskiptanet: Innviðir fyrir almenn fjarskipti sem gera kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðgerðum.
      Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um fjarskiptanet með fjarskiptaaðferðum, öðrum en sjónvarpi eða hljóðvarpi.
      Almenn fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta, sbr. hér að framan, sem ætluð er til almenningsnota eða önnur starfsemi sem miðar að því að flytja fjarskiptaboð milli óskyldra og ótengdra aðila í atvinnuskyni.
      Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta, sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Nánar skal mælt fyrir um í reglugerð, sem samgönguráðherra setur, hvaða þættir fjarskiptaþjónustu falli undir alþjónustu.
      Talsímaþjónusta: Þjónusta, seld almenningi, sem fólgin er í beinum rauntímaflutningi á tali um sjálfvirkt fjarskiptanet þannig að notandi getur notað búnað tengdan við tengipunkt á netinu til að hafa samband við annan notanda sem tengdur er við annan tengipunkt.
      Virðisaukandi þjónusta: Þjónusta þar sem virðisaukandi þáttum er bætt við fjarskiptaþjónustu.
      Rekstrarleyfishafi: Aðili, einstaklingur, félag eða stofnun, sem fengið hefur leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar til að reka fjarskiptaþjónustu og/eða til reksturs fjarskiptanets.
      Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.
      Kapalkerfi: Þráðbundið kerfi sem ætlað er til dreifingar á útvarpsmerkjum til almennings.
      Lokaðir notendahópar: Hópar einstaklinga, félaga eða stofnana sem þurfa ekki að vera tengd fjárhagslega, en líta má á sem aðila með viðvarandi viðskiptatengsl vegna sameiginlegrar viðskiptastarfsemi þar sem innri fjarskiptaþarfir verða til vegna þeirra hagsmuna sem liggja að baki viðskiptatengsla þeirra.
      Símatorgsþjónusta: Upplýsingaþjónusta með sjálfvirkri svörun sem veitt er gegn gjaldi í gegnum sérstök upphringinúmer sem upplýsingaveitanda er úthlutað.

III. KAFLI
Um yfirstjórn fjarskiptamála.

3. gr.

     Samgönguráðherra fer með yfirstjórn fjarskiptamála.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa umsjón með fjarskiptamálum hér á landi og hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara.

IV. KAFLI
Réttur til að veita rekstrarleyfi.

4. gr.

     Íslenska ríkið hefur eitt rétt til þess að veita leyfi til reksturs fjarskiptaþjónustu hér á landi, í íslenskri landhelgi og lofthelgi og til þess að veita leyfi til reksturs almenns fjarskiptanets.
     Fjarskiptaleyfi skulu eingöngu veitt íslenskum aðilum eða aðilum með staðfesturétt innan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Samgönguráðherra getur mælt fyrir um það í reglugerð að rekstrarleyfi megi veita öðrum aðilum en þeim sem tilteknir eru í 2. mgr.

V. KAFLI
Rekstrarleyfi, undanþágur.

5. gr.

Útgáfa rekstrarleyfa.
     Póst- og fjarskiptastofnun veitir leyfi til fjarskiptaþjónustu og til þess að reka almennt fjarskiptanet, þar með talið kapalkerfi, samkvæmt lögum þessum. Í rekstrarleyfi skal skilgreina til hvaða þjónustu leyfið nær.
     Ekki þarf sérstakt leyfi til að veita virðisaukandi þjónustu eða til sölu á almennum notendabúnaði.

6. gr.

Skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingum.
     Póst- og fjarskiptastofnun setur skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingu skv. 5. gr. Skulu skilyrði vera hlutlæg, skýr og þannig að gætt sé jafnræðis meðal umsækjenda og leyfishafa. Rekstrarleyfi skulu vera tímabundin.
     Skilyrði fyrir rekstrarleyfi geta verið eitt eða fleiri, þar með talið:
 1. að greitt sé leyfisgjald og rekstrargjald í samræmi við lög um Póst- og fjarskiptastofnun og lög um aukatekjur ríkissjóðs,
 2. að rekstrarleyfishafi veiti þá þjónustu sem leyfið nær til á öllu landinu eða á tilteknum landsvæðum, og að hún nái til tiltekins hluta landsmanna innan tímamarka sem Póst- og fjarskiptastofnun ákveður,
 3. að aðgangur að fjarskiptaneti rekstrarleyfishafa sé að jafnaði opinn öllum á viðkomandi landsvæði, samkvæmt skilmálum sem tryggja að jafnræðis sé gætt,
 4. að rekstrarleyfishafi bjóði fjarskiptaþjónustu til útlanda þar sem það á við,
 5. að búnaður rekstrarleyfishafa sé ætíð í samræmi við tæknistaðla sem Póst- og fjarskiptastofnun mælir fyrir um og uppfylli á hverjum tíma tilskildar tæknikröfur til að veita alhliða fjarskiptaþjónustu á viðkomandi sviði,
 6. að rekstrarleyfishafi fullnægi á hverjum tíma kröfum um tæknilega þekkingu, samkvæmt reglum sem Póst- og fjarskiptastofnun setur,
 7. að viðskiptaskilmálar rekstrarleyfishafa í alþjónustu séu háðir samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar og að gjaldskrár fyrir alþjónustu sæti eftirliti hennar, sbr. VI. kafla laganna,
 8. að rekstrarleyfishafi sem leyfi hefur til reksturs almenns fjarskiptanets skuldbindi sig til að annast uppsetningu og viðhald slíks nets á starfssvæði sínu, tengja fjarskiptanet sitt fjarskiptanetum annarra rekstrarleyfishafa og veita öðrum rekstrarleyfishöfum heimild til samtengingar við fjarskiptanet sitt, sbr. VII. kafla laganna,
 9. að notendum verði úthlutuð númer úr þeim númeraröðum, sem Póst- og fjarskiptastofnun hefur veitt rekstrarleyfishafa heimild til að nota, í samræmi við reglur sem stofnunin setur,
 10. að rekstrarleyfishafi haldi skrá yfir notendur fjarskiptaþjónustunnar og gefi út eða taki þátt í útgáfu slíkrar skrár, en veiti ella öðrum heimild til útgáfu notendaskrár samkvæmt fyrirmælum Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá má gera rekstrarleyfishafa skylt að veita eða láta í té sambærilegar upplýsingar gegnum sérstakt upplýsinganúmer,
 11. að erlendur rekstrarleyfishafi setji upp starfsstöð hér á landi eða hafi hér á landi fulltrúa sem umboð hefur til að koma fram fyrir hönd rekstrarleyfishafa gagnvart notendum hér á landi,
 12. að rekstrarleyfishafi geti sætt eftirliti Póst- og fjarskiptastofnunar á fjárhagsstöðu sinni með tilliti til hugsanlegrar hættu á rekstrarstöðvun,
 13. að rekstrarleyfishafi fullnægi á hverjum tíma, eftir gildistöku leyfisins, þeim tilskipunum og reglum sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. lög um Evrópska efnahagssvæðið, og þeim skuldbindingum sem Ísland undirgengst samkvæmt gildandi alþjóðasamningum á sviði fjarskiptamála,
 14. að lokaðir notendahópar afhendi Póst- og fjarskiptastofnun fyrir fram lista yfir meðlimi með símanúmerum þeirra eða öðru kennimerki, enda geta þeir uppfært hann eftir þörfum. Lokaðir notendahópar skulu einnig, ef þess er óskað, halda skrá yfir upphafs- og endastað hvers uppkalls í því skyni að auðvelda eftirlit,
 15. að rekstrarleyfishafi taki þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði fjarskiptamála.

     Nánar skal mælt fyrir um skilyrði fyrir rekstrarleyfisveitingum í reglugerð.

7. gr.

Skylda til að veita alþjónustu.
     Við útgáfu rekstrarleyfa til þeirra sem veita fjarskiptaþjónustu á almennum fjarskiptanetum getur Póst- og fjarskiptastofnun mælt svo fyrir að auk þess að uppfylla skilyrði skv. 6. gr. skuli rekstrarleyfishafa skylt að veita alþjónustu á starfssvæði sínu.
     Sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu skv. 1. mgr., svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, skal ágreiningur vegna synjunar borinn undir Póst- og fjarskiptastofnun til úrskurðar.

8. gr.

Fjöldi rekstrarleyfishafa.
     Þegar takmarka þarf fjölda rekstrarleyfishafa á einstökum þjónustusviðum skal taka mið af því hve mörgum er hægt að heimila af tæknilegum ástæðum að veita þjónustuna, en að jafnaði skal þess gætt að samkeppni sé nægileg með tilliti til hagsmuna notenda fjarskiptaþjónustu.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal ákveða hversu mörgum aðilum verði veitt rekstrarleyfi í þeim tilvikum þar sem takmarka þarf fjölda rekstrarleyfa.

9. gr.

Útboð.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að rekstrarleyfi, sbr. 8. gr., skuli veitt að undangengnu útboði.
     Útboð skal að jafnaði vera opið. Póst- og fjarskiptastofnun semur útboðsskilmála þar sem meðal annars skal mælt fyrir um þá þjónustu sem boðin er út og um lágmarksboð.
     Póst- og fjarskiptastofnun annast eða hefur umsjón með útboðum þessum.

10. gr.

Undanþágur.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur heimilað einstökum mönnum, félögum eða stofnunum að setja upp og reka fjarskiptanet til eigin nota, án þess að uppfyllt séu skilyrði skv. 6. gr., enda verði þau ekki nýtt fyrir aðra.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur heimilað lokuðum notendahópum að setja upp og reka fjarskiptanet til eigin nota og skulu þá ekki sett önnur skilyrði fyrir leyfisveitingu en um getur í a-, j-, k-, m- og o-liðum 6. gr.
     Fjarskipti, sem eingöngu eru boð eða sendingar með þræði innan húsakynna heimilis, fyrirtækis eða stofnunar, svo sem í sjúkrahúsum, gistihúsum, skólum og verksmiðjum, heyra ekki undir lög þessi.
     Póst- og fjarskiptastofnun sker úr ágreiningi um hvort fjarskipti falli undir ákvæði laga þessara eða ekki og hvort undanþáguheimildir 1.–3. mgr. eigi við.

VI. KAFLI
Viðskiptaskilmálar, gjaldskrár, uppgjörs- og bókhaldsreglur.

11. gr.

     Rekstrarleyfishafi í alþjónustu eða sem leyfi hefur til reksturs almenns fjarskiptanets skal semja og birta opinberlega þá skilmála sem gilda um fjarskiptaþjónustu hans. Þar skal mælt fyrir um biðtíma eftir tengingu við fjarskiptanet, eftir því sem við á, um viðgerðir eða lagfæringar ef tenging rofnar og um þjónustu rekstrarleyfishafa að öðru leyti.
     Rekstrarleyfishafa er heimilt að breyta skilmálum sínum skv. 1. mgr., enda sé slík breyting tilkynnt viðskiptamönnum rekstrarleyfishafa með hæfilegum fyrirvara.
      Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að mæla fyrir um breytingar á skilmálum ef þeir teljast ekki í samræmi við rekstrarleyfi.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa almennt eftirlit með gjaldskrám í alþjónustu. Gjaldtaka í alþjónustu skal taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að mæla fyrir um hámarksverð í alþjónustu þegar sérstaklega stendur á.
     Samgönguráðherra er heimilt, vegna eftirlits með verðlagningu alþjónustu, að setja í reglugerð sérstakar reglur um bókhald fjarskiptafyrirtækja, sundurgreiningu þess og fjárhagslegan aðskilnað milli einstakra rekstrarþátta fjarskiptaþjónustu annars vegar og fjárhagslegan aðskilnað fjarskiptaþjónustu frá annarri starfsemi rekstrarleyfishafa hins vegar.

VII. KAFLI
Um samtengingu neta.

12. gr.

Samtenging fjarskiptaneta.
     Nú vill rekstrarleyfishafi tengja fjarskiptanet sitt fjarskiptaneti annars rekstrarleyfishafa, og skulu þá viðkomandi aðilar leita samkomulags um tenginguna og skilmála hennar.
     Náist ekki innan hæfilegs tíma, sem lengstur skal vera þrír mánuðir, samkomulag milli rekstrarleyfishafa um að net skuli samtengd getur hvor aðili um sig leitað til Póst- og fjarskiptastofnunar sem skal leita sátta með aðilum, sbr. 13. gr.
     Telji stofnunin að samtenging geti valdið hættu á rekstrartruflunum á viðkomandi fjarskiptaneti eða samtengdum fjarskiptanetum getur stofnunin mælt svo fyrir að fjarskiptanet skuli ekki samtengd.

13. gr.

Eftirlit með verðlagningu við samtengingu fjarskiptaneta o.fl.
     Verðlagning rekstrarleyfishafa á þjónustu fyrir afnot annars rekstrarleyfishafa af fjarskiptaneti skal taka mið af raunkostnaði þess sem viðkomandi fjarskiptanet rekur að teknu tilliti til hæfilegs hagnaðar.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að samningar sem gerðir eru milli rekstrarleyfishafa um samtengingu fjarskiptaneta séu lagðir fyrir stofnunina.
     Náist ekki samkomulag milli rekstrarleyfishafa um gjald og aðra samningsskilmála vegna samtengingar fjarskiptaneta, sbr. 2. mgr. 12. gr., skal Póst- og fjarskiptastofnun hafa milligöngu um ákvörðun samningsskilmála milli aðila. Getur stofnunin í því sambandi lagt fram miðlunartillögu eða á annan hátt gert tillögur um sættir. Náist ekki samkomulag, þrátt fyrir sáttatilraunir sem lengst skulu taka sex mánuði, skal Póst- og fjarskiptastofnun að kröfu aðila ákveða skilmála fyrir samtengingu. Við ákvörðun skilmála vegna samtengingar skal taka mið af fyrirmælum 1. mgr.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur við sáttameðferð eða ákvarðanatöku skv. 3. mgr. krafist upplýsinga úr bókhaldi rekstrarleyfishafa og falið löggiltum endurskoðendum að yfirfara slík gögn.
     Þegar sérstaklega stendur á getur Póst- og fjarskiptastofnun að kröfu annars hvors aðila mælt fyrir um breytingu á samningum um samtengingu neta eða á ákvörðunum sínum þar að lútandi.
     Samgönguráðherra er heimilt að mæla fyrir um í reglugerð bókhaldslegan aðskilnað eða aðgreiningu einstakra rekstrarþátta þannig að unnt sé að fylgjast með stofnkostnaði og kostnaði af rekstri samtengdra fjarskiptaneta.

VIII. KAFLI
Samningar og greiðslur fyrir alþjónustu.

14. gr.

Rekstur til almannaheilla. Umsóknir um fjárframlög og greiðslur þeirra.
     Telji rekstrarleyfishafi að alþjónusta, sem honum er gert skylt að veita samkvæmt rekstrarleyfi, sbr. 7. gr., sé rekin með tapi eða sé óarðbær getur hann krafist þess að honum verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá starfsemi sem um ræðir. Skal slík beiðni send Póst- og fjarskiptastofnun.
     Nú berst Póst- og fjarskiptastofnun beiðni um fjárframlög skv. 1. mgr., og ekki verður talið að þjónustan verði tryggð með öðrum hagkvæmari hætti, en jafnframt talið að þjónustan sé óhjákvæmileg og verði ekki aflögð, og skal stofnunin þá með fjárframlögum tryggja rekstrarleyfishafa eðlilegt endurgjald fyrir þá þjónustu sem veitt er.
     Skal Póst- og fjarskiptastofnun krefjast þess að rekstrarleyfishafi upplýsi nákvæmlega hvert rekstrartap af starfseminni er og hvernig það sundurliðast.
      Póst- og fjarskiptastofnun getur við mat á fjárframlögum krafist skýrslna löggiltra endurskoðenda, eða falið slíkum aðila að gera úttekt á rekstrarafkomu á viðkomandi rekstrarsviði. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að krefjast aðgangs að bókhaldi rekstrarleyfishafa við mat á fjárframlögum og eftirliti með þeim.
     Fjárframlög skulu að jafnaði miðuð við eitt ár í senn. Nú telur annar hvor aðili að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega, og getur hvor um sig þá krafist endurskoðunar á framlaginu.
     Nú er hluti af starfsemi rekstrarleyfishafa háður fjárframlögum samkvæmt ákvæði þessu, og getur Póst- og fjarskiptastofnun þá krafist þess að sá þáttur starfseminnar sé bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafans.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal skera úr ágreiningi um fjárframlög, þar á meðal um greiðslur samkvæmt þessari grein.

15. gr.

Jöfnunargjald.
     Til að stranda straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt þessum kafla skal innheimta álag, jöfnunargjald, sem rennur til Póst- og fjarskiptastofnunar.
     Skal jöfnunargjaldið lagt á rekstrarleyfishafa innan viðkomandi þjónustusviðs, í hlutfalli við bókfærða veltu á viðkomandi þjónustusviði. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem rekstrarleyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi hér á landi. Sá þáttur rekstrarleyfishafa sem lýtur að leyfisbundinni starfsemi hér á landi skal vera bókhaldslega aðskilinn frá annarri starfsemi leyfishafans.
     Jöfnunargjald samkvæmt lögum þessum skal ákveðið árlega með lögum, í fyrsta skipti fyrir gjaldárið 1998.
     Jöfnunargjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
     Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.– XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
     Samgönguráðherra setur með reglugerð nánari fyrirmæli um fjárframlög og jöfnunargjöld í fjarskiptaþjónustu, þar á meðal um útreikning á kostnaði við að veita fjarskiptaþjónustu, og um útreikning rekstrartaps.
     Í þeim tilfellum þar sem ekki verður beitt jöfnunargjaldi skal kostnaður vegna óarðbærrar alþjónustu skv. 7. gr. greiddur úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

IX. KAFLI
Samningar og greiðslur fyrir óarðbæra þjónustu, aðra en alþjónustu.

16. gr.

     Nú óskar samgönguráðherra eftir því að lagt sé í framkvæmdir eða rekstur sem er til almannaheilla í öryggisskyni, eða vegna byggðasjónarmiða, og ætla má að skili ekki arði, án þess þó að um alþjónustu sé að ræða, og skal Póst- og fjarskiptastofnun þá falið að gera um slíkt samning við rekstrarleyfishafa á viðkomandi sviði.
     Kostnaður sem rekja má til ákvarðana samgönguráðherra skv. 1. mgr. skal að jafnaði greiddur úr ríkissjóði, eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

X. KAFLI
Leynd og vernd fjarskipta.

17. gr.

Þagnarskylda.
     Allir þeir sem starfa við fjarskiptavirki, hvort sem um er að ræða starfsmenn rekstrarleyfishafa eða aðra, skulu skyldir, bæði meðan þeir gegna starfinu og eftir að þeir hafa látið af því, að halda leyndu fyrir óviðkomandi aðilum öllu því sem um fjarskiptavirkin fer, hvort sem um er að ræða efni skeyta eða samtala eða hvort fjarskipti hafa átt sér stað og milli hverra.
     Ekki má án undangengins dómsúrskurðar heimila óviðkomandi aðilum að sjá skeyti eða önnur skjöl sem um fjarskiptavirkin fara eða hlusta á fjarskiptasamtöl eða hljóðrita þau. Um aðgang lögreglu að upplýsingum um fjarskipti skal fara samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
     Rekstrarleyfishöfum skal heimilt að skrá upplýsingar um fjarskipti sem um fjarskiptavirki þeirra fara, enda sé um að ræða lið í reikningsfærslu gagnvart viðkomandi notanda.
     Samgönguráðherra setur reglur um skráningu og meðferð upplýsinga um fjarskipti, að fengnum tillögum Póst- og fjarskiptastofnunar.

18. gr.

Vernd skeyta- og merkjasendinga.
     Enginn sem starfar við fjarskiptavirki má aflaga, ónýta eða skjóta undan skeytum, myndum eða öðrum merkjum sem afhent eru til flutnings um fjarskiptavirkin eða liðsinna öðrum við þess konar athæfi.
     Sá sem fyrir tilviljun, mistök eða án sérstakrar heimildar tekur við símskeytum, myndum eða öðrum fjarskiptamerkjum eða hlustar á fjarskiptasamtöl má ekki skrá neitt slíkt hjá sér eða notfæra sér það á nokkurn hátt. Berist manni með slíkum hætti skeyti eða skjal skal viðkomandi tilkynna sendanda að slíkt hafi ranglega borist sér. Skylt er að gæta fyllsta trúnaðar í slíkum tilfellum.

XI. KAFLI
Eftirlit með búnaði, leyfisbréf o.fl.

19. gr.

Gerðarsamþykki búnaðar.
     Ekki má flytja inn, smíða eða setja á markað fjarskiptavirki eða annan búnað, er tengja á við almennt fjarskiptanet, nema að viðkomandi búnaður eða einstakir hlutar hans hafi eða fái gerðarsamþykki, sbr. 2.–5. mgr.
     Öll fjarskiptavirki skulu fá gerðarsamþykki Póst- og fjarskiptastofnunar, nema fyrir liggi að þau hafi þegar fengið gerðarsamþykki, sbr. 6. mgr.
     Fjarskiptavirki sem þurfa gerðarsamþykki eru:
 1. öll fjarskiptavirki fyrir þráðlaus fjarskipti, enda hafi undanþága ekki verið veitt,
 2. allur notendabúnaður, þ.e. fjarskiptavirki sem tengjast eða geta tengst almennum fjarskiptanetum.

     Nú liggja fyrir vottorð og mælingarskýrslur um fjarskiptavirki frá faggiltri prófunarstöð, innlendri eða erlendri, um að það sé í samræmi við viðurkennda staðla og reglur, og skal þá leggja slík gögn til grundvallar við útgáfu gerðarsamþykkis. Að öðrum kosti skal leggja mælingar og prófanir Póst- og fjarskiptastofnunar til grundvallar.
     Öll fjarskiptavirki sömu gerðar og hinn samþykkti búnaður skal merkja á þann hátt sem stofnunin ákveður. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skyldu til gerðarsamþykkis fjarskiptavirkja, enda sé búnaðurinn merktur á þann hátt sem stofnunin ákveður.
     Hafi fjarskiptavirki CE-merkingu til staðfestingar á því að það uppfylli viðeigandi kröfur um fjarskiptavirki innan Evrópska efnahagssvæðisins þarf Póst- og fjarskiptastofnun ekki að gefa út gerðarsamþykki. Á sama hátt má fella niður kröfu um gerðarsamþykki Póst- og fjarskiptastofnunar ef fjarskiptavirki hefur sérstaka merkingu í samræmi við samevrópskar reglur sem íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að hlíta.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal hafna viðurkenningu á fjarskiptavirki eða öðrum búnaði ef hann er ekki í samræmi við staðla sem gilda um fjarskiptabúnað á Evrópska efnahagssvæðinu. Jafnframt er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að afturkalla fyrri yfirlýsingu ef breyting verður á staðlakröfum eða ef forsendur fyrir leyfisveitingu hafa breyst eða brostið.

20. gr.

Réttindi til að starfa við fjarskiptavirki.
     Þeir sem annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu við fjarskiptavirki skulu hafa til þess réttindi samkvæmt reglugerð sem samgönguráðherra setur.

21. gr.

Sérstök leyfisbréf og skírteini.
     Póst- og fjarskiptastofnun gefur út leyfisbréf og skírteini til handa þeim aðilum sem samkvæmt sérstökum lögum eða alþjóðasamþykktum hafa fengið leyfi til eða skuldbundið sig til að halda uppi fjarskiptum á ákveðnum sviðum. Í leyfisbréfum skal kveðið á um tæknilega eiginleika fjarskiptavirkja í samræmi við settar reglur og alþjóðasamþykktir, svo sem um tíðni og útgeislað afl. Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með starfsemi þessara fjarskiptavirkja.

XII. KAFLI
Um fjarskiptavirki í farartækjum.

22. gr.

Fjarskiptavirki í farartækjum.
     Samgönguráðherra getur mælt fyrir um það í reglugerð að íslensk skip, loftför og önnur farartæki séu búin fjarskiptavirkjum.

23. gr.

Fjarskiptavirki í erlendum farartækjum.
     Fjarskiptavirki í erlendum skipum, flugvélum eða öðrum erlendum farartækjum, sem eru innan íslenskrar land- eða lofthelgi, má aðeins nota í samræmi við íslensk lög og reglugerðir. Póst- og fjarskiptastofnun getur bannað notkun fjarskiptavirkja í erlendum förum innan íslenskrar lögsögu ef talið er að notkun þeirra sé andstæð íslenskum reglum.

XIII. KAFLI
Sérstök ákvæði um þráðlaus fjarskipti.

24. gr.

Notkun tíðnirófs.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu tíðnirófsins, skipuleggja notkun þess og úthluta tíðnum. Samgönguráðherra getur með reglugerð sett nánari reglur um skipulagningu og úthlutun tíðna.

25. gr.

Leyfi fyrir búnaði og kerfum til þráðlausra fjarskipta.
     Búnað fyrir þráðlaus fjarskipti, bæði sendi- og viðtæki, má aðeins hafa undir höndum, setja upp eða nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. XI. kafla laganna. Skulu leyfin vera tímabundin. Slík leyfi má binda skilyrðum, m.a. að því er varðar sendiafl, staðsetningu búnaðar, bandbreidd, útbreiðslusvæði og tengingar við almennt fjarskiptanet.
     Leyfi skv. 1. mgr. geta ýmist verið einstaklingsbundin eða almenn fyrir notkun tiltekinna gerða fjarskiptatækja, samkvæmt ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar.
     Kerfi með tækjum fyrir þráðlaus fjarskipti má aðeins setja upp eða nota að fengnu leyfi Póst- og fjarskiptastofnunar. Slíkt leyfi má binda skilyrðum, m.a. að því er varðar öryggisráðstafanir gegn óheimilli notkun kerfisins.
     Samgönguráðherra getur sett reglugerð um uppsetningu og notkun búnaðar og kerfa fyrir þráðlaus fjarskipti.

26. gr.

Synjun um leyfi. Afturköllun.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur synjað um tíðniúthlutun ef ekki hefur verið aflað nauðsynlegs leyfis til að reka fjarskiptanet eða fjarskiptaþjónustu.
     Tíðniúthlutun má afturkalla ef nauðsynlegt leyfi skv. 1. mgr. fellur úr gildi eða ef aðrar mikilvægar forsendur fyrir úthlutun eða leyfi breytast eða bresta, t.d. vegna alþjóðlegs samkomulags sem Ísland er aðili að.

XIV. KAFLI
Eftirlit með símatorgsþjónustu.

27. gr.

     Póst- og fjarskiptastofnun setur reglur um símatorgsþjónustu sem staðfestar skulu af samgönguráðherra.
     Nú telur Póst- og fjarskiptastofnun að símatorgsþjónusta sé andstæð almennu siðferði, svo sem vegna kláms eða því um líks, og getur Póst- og fjarskiptastofnun þá mælt fyrir um fyrirvaralausa stöðvun slíkrar starfsemi.

XV. KAFLI
Uppsetning og vernd fjarskiptavirkja.

28. gr.

Heimild til að leggja fjarskiptaleiðslur, um eignarnám o.fl.
     Nú er rekstrarleyfishafa nauðsynlegt að leggja leiðslur fjarskiptavirkja um land annars manns, yfir það eða í jörðu, yfir hús eða önnur mannvirki á landinu, á þeim, gegnum þau eða undir þeim, og er eiganda viðkomandi fasteignar þá skylt að heimila slíkt. Hafa skal samráð við eigendur eða umráðamenn slíkra fasteigna og mannvirkja um hvar leiðslur eru lagðar og skal þess gætt að sem minnst sé raskað hagsmunum eiganda viðkomandi eignar. Starfsmenn við fjarskiptavirki skulu gæta þess að valda eigendum og íbúum ekki meiri óþægindum en brýnustu nauðsyn ber til.
     Nú verður tjón á landi manna, mannvirkjum eða öðrum eignum við lagningu fjarskiptavirkja eða viðhald þeirra, og ekki verður úr bætt, eða lagning fjarskiptavirkja leiðir til takmörkunar á afnotamöguleikum viðkomandi eignar, og skal eigandi fjarskiptavirkis þá bæta tjónið. Náist ekki samkomulag um bótafjárhæð skulu bæturnar metnar samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms.
     Ef rekstrarleyfishafa er nauðsynlegt að tryggja sér land, lóð eða aðra eign í sambandi við lagningu eða rekstur almennra fjarskiptavirkja og samningum um kaup verður ekki við komið má samgönguráðherra heimila, að fenginni umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar, að eign eða hluti hennar sé tekinn eignarnámi gegn endurgjaldi sem meta skal samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Samþykki ráðherra fyrir eignarnámi skal m.a. háð því að eignarnemi setji tryggingu fyrir greiðslu áætlaðra eignarnámsbóta og kostnaðar við matið. Nú fást eignarnámsbætur ekki greiddar hjá eignarnema, og skal ríkissjóður þá ábyrgjast greiðslu þeirra, enda hafi eignarnámsþoli staðið tilhlýðilega að innheimtu þeirra hjá eignarnema.

29. gr.

Vernd fjarskiptavirkja.
     Þar sem fjarskiptavirki eru má ekki reisa mannvirki, setja upp tæki, leggja pípur, raflagnir, leiðslur og því um líkt, gera jarðrask eða aðrar ráðstafanir er af geta hlotist skemmdir á fjarskiptavirkjum eða truflanir á rekstri þeirra, nema áður hafi verið aflað upplýsinga um legu þeirra og samráð verið haft við eiganda fjarskiptavirkisins um tilhögun framkvæmdanna.
     Nú reynist nauðsynlegt vegna verklegra framkvæmda að flytja til eða breyta legu fjarskiptavirkja, og ber þá sá sem slíka framkvæmd annast allan kostnað sem af því kann að leiða, beinan og óbeinan, nema annað hafi orðið að samkomulagi.
     Ef jarðrask eða aðrar framkvæmdir hafa leitt til skemmda á fjarskiptavirkjum eða truflunum á rekstri þeirra skal sá sem þeim hefur valdið þegar í stað tilkynna það til eiganda fjarskiptavirkisins. Er tjónvaldi jafnframt skylt að bæta allt tjón sem af skemmdunum leiðir, bæði beint og óbeint, þar á meðal viðskiptatap, nema hann sýni fram á að ekki hafi verið komist hjá tjóni þó að fyllsta aðgæsla hefði verið sýnd.
     Nú liggur fyrir að tæki, raflagnir, pípur, leiðslur eða því um líkt valda truflun á rekstri fjarskiptavirkis, og er rekstrarleyfishafa þá heimilt að krefjast úrbóta frá eiganda án tafar, en ella er rekstrarleyfishafa heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir truflun þá sem af þessu hlýst. Nú er truflun að þessu leyti að rekja til gáleysis eiganda viðkomandi búnaðar, og ber eiganda þá að greiða allan kostnað sem af úrbótum leiðir.

30. gr.

Vernd sæstrengja.
     Þar sem fjarskiptastrengir liggja í sjó skulu sjófarendur sýna aðgæslu og gæta varúðar. Nú er tjóni valdið á fjarskiptastreng af ásetningi eða gáleysi, og skal þá sá sem tjóni hefur valdið bæta beint og óbeint fjártjón sem af því hlýst, nema hann sýni fram á að hann hafi gert allar nauðsynlegar varúðarráðstafanir til þess að komast hjá tjóni.

31. gr.

Viðgerð sæstrengja.
     Þegar skip er innan eða utan landhelgi að starfa við lagningu eða viðgerð fjarskiptastrengja og ber til sýnis alþjóðamerki eða önnur merki er gefa þetta til kynna, skulu önnur skip, sem sjá eða eiga að geta séð þessi merki, halda sig eigi skemmra en mílufjórðung frá sæsímaskipinu. Net og önnur veiðarfæri skal hafa í sömu fjarlægð. Fiskiskip skulu þó hafa 12 stunda frest til þess að fjarlægja veiðarfæri sem í sjó liggja.
     Nú hefur dufl verið lagt út vegna lagningar eða viðgerðar á sæstreng, og skulu skip þá halda sig og veiðarfærum sínum eigi skemmra en mílufjórðung frá duflinu.

32. gr.

Aðgerðir til verndar sæstrengjum, bætur o.fl.
     Ef skip hefur orðið að sleppa akkeri eða leggja net eða önnur veiðarfæri í sölurnar til þess að komast hjá því að skemma sæstrengi á það kröfu um skaðabætur frá eiganda strengjanna, enda hafi skipið sjálft ekki stofnað til hættunnar af gáleysi.
     Ef unnt er skulu skipverjar þegar færa til bókar skýrslu um tjónið sem staðfest skal af stjórnanda skipsins. Að auki skal eiganda sæstrengsins eða forsvarsmanni eiganda tilkynnt um atburðinn eins fljótt og kostur er.

33. gr.

Takmörkun fjarskipta vegna truflana.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur látið innsigla fjarskiptavirki eða hluta þeirra eða bannað notkun þeirra og eftir atvikum fyrirskipað að fá þau afhent til geymslu undir innsigli, ef fjarskiptavirkin trufla önnur fjarskipti eða hætta er á að öryggi fjarskipta sé raskað.

XVI. KAFLI
Fjarskipti á hættutímum.

34. gr.

     Á ófriðartímum getur samgönguráðherra samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnar mælt fyrir um stöðvun fjarskipta sem teljast hættuleg öryggi ríkisins.
     Í neyðartilvikum, svo sem þegar um er að ræða eldgos, jarðskjálfta, snjóflóð o.s.frv., getur samgönguráðherra að beiðni almannavarnaráðs mælt fyrir um takmörkun fjarskipta sem truflað geta neyðar- og öryggisfjarskipti. Á sama hátt skal heimilt að mæla fyrir um að tiltekin fjarskiptavirki skuli notuð í þágu björgunaraðgerða og að sett skuli upp ný fjarskiptavirki. Komi endurgjald til greina greiðist það úr ríkissjóði samkvæmt mati.

XVII. KAFLI
Ábyrgðartakmarkanir, útilokun sambanda, aðfararheimild.

35. gr.

Ábyrgðartakmarkanir.
     Þeim sem hefur leyfi til reksturs almenns fjarskiptanets samkvæmt lögum þessum er heimilt í viðskiptaskilmálum sínum að undanþiggja sig bótaábyrgð á tjóni sem rekja má til sambandsleysis, rofa á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins eða mistaka við afgreiðslu símskeyta, hvort sem slíkt má rekja til línubilana, bilana í sambandastöðvum eða annarra ástæðna. Slík ábyrgðartakmörkun er þó bundin við að tjónið verði ekki rakið til stórfelldra mistaka starfsmanna rekstrarleyfishafa.

36. gr.

Útilokun sambanda.
     Rekstrarleyfishafa er heimilt að mæla svo fyrir í viðskiptaskilmálum sínum að notanda, sem ekki stendur skil á áföllnum gjöldum á réttum gjalddaga fyrir fjarskipti eða afnot fjarskiptavirkja, megi útiloka frá almennum fjarskiptum um óákveðinn tíma eða þar til hann hefur greitt skuld sína að fullu.

37. gr.

Aðfararheimild.
     Gjaldfallnar kröfur rekstrarleyfishafa vegna afnotagjalda og tengdrar þjónustu, á hendur skráðum rétthöfum í talsímaþjónustu, má taka fjárnámi samkvæmt aðfararlögum án undangenginnar dómsúrlausnar eða dómsáttar.

XVIII. KAFLI
Viðurlög o.fl.

38. gr.

     Brot á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, en varðhaldi allt að sex mánuðum ef sakir eru miklar eða brot ítrekuð. Gáleysisbrot skulu eingöngu varða sektum.
     Brot gegn X. kafla laganna um leynd og vernd fjarskipta varða refsingu svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Sé slíkt brot framið í ávinningsskyni, hvort sem er í eigin þágu eða annarra, má refsa með fangelsi allt að þremur árum.
     Upptæk skal gera tæki þau og hluti sem í heimildarleysi hafa verið flutt inn, smíðuð eða starfrækt, sbr. 69. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.

39. gr.

     Notkunargjald fyrir talsímaþjónustu hjá hverjum rekstrarleyfishafa fyrir sig skal vera hið sama alls staðar á landinu eigi síðar en 1. júlí 1998 og skal þá innheimta sérstaks álags vegna langlínusamtala óheimil.

XIX. KAFLI
Reglugerðir.

40. gr.

     Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd fjarskiptamála.

XX. KAFLI
Gildistaka.

41. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.
     Jafnframt falla þá úr gildi lög um fjarskipti, nr. 73/1984, með síðari breytingum. Ákvæði 1. mgr. 3. gr., 3. og 4. mgr. 6. gr., 7. gr. og 17. gr. laganna er fjalla um Fjarskiptaeftirlit ríkisins skulu þó halda gildi sínu þar til Póst- og fjarskiptastofnun tekur til starfa 1. apríl 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Samgönguráðherra skal veita Pósti og síma hf. einkaleyfi til þess að reka almenna talsímaþjónustu hér á landi og til þess að eiga og reka almennt fjarskiptanet. Skal það rekstrarleyfi Pósts og síma hf. gilda þar til réttur til að veita einkaleyfi til almenns fjarskiptareksturs fellur niður eða eigi síðar en 1. janúar 1998. Á sama tíma skal öðrum óheimilt að eiga og reka almennt fjarskiptanet og veita almenna talsímaþjónustu.
     Um skilyrði fyrir einkaleyfi og um gjaldtöku á gildistíma einkaleyfis fer skv. 9. og 10. gr. laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, nr. 103/1996.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1996.