Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 439, 121. löggjafarþing 149. mál: Póst- og fjarskiptastofnun.
Lög nr. 147 27. desember 1996.

Lög um Póst- og fjarskiptastofnun.


1. gr.

Yfirstjórn o.fl.
     Póst- og fjarskiptastofnun hefur umsjón með framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi eftir því sem mælt er fyrir um í lögum þessum og öðrum lögum sem um fjarskipta- og póstmál fjalla.
     Póst- og fjarskiptastofnun er sjálfstæð stofnun, en undir yfirstjórn samgönguráðherra.

2. gr.

Starfsmenn.
     Samgönguráðherra skipar forstöðumann Póst- og fjarskiptastofnunar til fimm ára í senn. Forstöðumaður stjórnar daglegum rekstri og gætir þess að stofnunin starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma. Forstöðumaður Póst- og fjarskiptastofnunar ræður annað starfsfólk stofnunarinnar.
     Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar mega ekki vera stjórnarmenn eða starfsmenn félaga eða annarra aðila sem þeir hafa eftirlit með. Þeir mega ekki vera í hagsmuna- eða fjárhagstengslum við slíka aðila eða samtök þeirra.

3. gr.

Verkefni.
     Verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar eru m.a.:
  1. Að gefa út og veita leyfi til fjarskipta- og póstþjónustu samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu.
  2. Að hafa eftirlit með því að leyfishafar uppfylli og virði þau skilyrði og aðrar kvaðir sem rekstrarleyfunum fylgja.
  3. Að hafa eftirlit með því að ákvæði laga um fjarskipti og laga um póstþjónustu, auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, séu virt.
  4. Að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld og ráðuneyti á sviði fjarskipta- og póstmála og hafa eftirlit með því að Ísland uppfylli á hverjum tíma þær skuldbindingar sem mælt er fyrir um í alþjóðlegum samningum á sviði fjarskipta- og póstmála.
  5. Að gera áætlanir um notkun tíðnirófsins í samræmi við alþjóðlegar reglur og úthluta tíðnum til einstakra leyfishafa og fyrir mismunandi þjónustu, þar með talið útvarpsþjónustu.
  6. Að setja reglur um tæknilega eiginleika kapalkerfa og hafa eftirlit með því að þeim sé framfylgt.
  7. Að hafa eftirlit með viðskiptaskilmálum leyfishafa, gjaldskrám og bókhaldi, þar sem það á við.
  8. Að hafa umsjón með og ákvarða fjárframlög vegna alþjónustu og óarðbærrar þjónustu.
  9. Að hafa eftirlit með fjarskiptabúnaði.
  10. Að setja reglur um úthlutun notendanúmera.
  11. Að hafa eftirlit með samtengingu fjarskiptaneta.
  12. Að veita leyfi til að annast uppsetningu og aðra tækniþjónustu við fjarskiptavirki.
  13. Að framkvæma gerðarprófanir, gefa út gerðarsamþykki og hafa umsjón með innflutningi fjarskiptabúnaðar.
  14. Að taka þátt í samstarfi sem leiðir af alþjóðlegum skuldbindingum á sviði fjarskipta- og póstmála.
  15. Að gefa út öryggisvottorð fyrir fjarskiptabúnað þar sem þess er krafist samkvæmt lögum og reglugerðum.
  16. Að annast skráningu og halda skrá yfir póstrekendur.
  17. Annað sem lýtur að framkvæmd fjarskipta- og póstmála hér á landi.


4. gr.

Eftirlit með leyfishöfum.
     Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með starfsemi leyfishafa. Með leyfishöfum í lögum þessum er átt við þá aðila sem hafa rekstrarleyfi til fjarskiptaþjónustu og þá sem rekstrarleyfi hafa eða eru skráningarskyldir samkvæmt lögum um póstþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er jafnframt heimilt að hafa eftirlit með fjárhagsstöðu leyfishafa.

5. gr.

Eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar og viðurlög.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur krafist þess að leyfishafar upplýsi um alla þætti starfsemi sinnar sem leyfið eða skráningin tekur til. Getur stofnunin krafist hvort sem er munnlegra eða skriflegra upplýsinga, innan hæfilegs frests sem hún ákveður.
     Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt við eftirlit með fjárhagsstöðu að krefjast þess að leyfishafar láti stofnuninni í té ársreikninga, milliuppgjör, yfirlýsingar endurskoðenda eða aðrar sambærilegar upplýsingar. Telji Póst- og fjarskiptastofnun að fjárhagsstaða leyfishafa sé slík að hætta sé á að viðkomandi uppfylli ekki skyldur þær sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi getur stofnunin krafist þess að bætt verði úr innan tiltekins frests.
     Til að framfylgja eftirlitsskyldu sinni samkvæmt lögum þessum er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt, án sérstakrar tilkynningar eða dómsúrskurðar, að fara eftirlitsferðir í húsakynni leyfishafa.
     Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leggja á og innheimta dagsektir af leyfishöfum, uppfylli þeir ekki skilyrði sem þeim hafa verið sett eða aðrar kvaðir sem á þá hafa verið lagðar samkvæmt lögum um fjarskipti og lögum um póstþjónustu. Geta dagsektir numið frá 50.000 til 500.000 kr. á dag. Eru slíkar sektir aðfararhæfar skv. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989, um aðför.
     Vanræki leyfishafi skyldur sínar samkvæmt rekstrarleyfi eða uppfylli ekki kröfur sem Póst- og fjarskiptastofnun setur um úrbætur getur stofnunin svipt viðkomandi leyfi til fjarskipta- eða póstþjónustu, að undangenginni skriflegri aðvörun.
     Ef grunur vaknar um að aðili reki leyfis- eða skráningarskylda póst- eða fjarskiptastarfsemi án þess að hafa til þess rekstrarleyfi skal Póst- og fjarskiptastofnun krefjast þess að viðkomandi upplýsi um starfsemi sína. Vanræki viðkomandi að veita umbeðnar upplýsingar eða ef ætla má að grunur sé á rökum reistur getur stofnunin krafist opinberrar rannsóknar og saksóknar samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála.
     Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd eftirlits Póst- og fjarskiptastofnunar.

6. gr.

Þagnarskylda.
     Starfsmenn Póst- og fjarskiptastofnunar eru bundnir þagnarskyldu. Þeir mega ekki að viðlagðri ábyrgð skýra óviðkomandi frá því sem þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um viðskipti og rekstur aðila sem þeir hafa eftirlit með. Sama gildir um endurskoðendur og aðra sérfræðinga sem starfa á vegum stofnunarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum.
     Með gögn og aðrar upplýsingar, t.d. að því er varðar viðskiptahagsmuni sem stofnunin aflar við framkvæmd eftirlits eða af öðrum ástæðum, skal að jafnaði fara sem trúnaðarmál.

7. gr.

Kvartanir.
     Telji notandi fjarskipta- eða póstþjónustu, rekstrarleyfishafi eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta að leyfishafi brjóti gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um fjarskipti eða lögum um póstþjónustu, eða gegn skilyrðum sem mælt er fyrir um í rekstrarleyfi, getur hlutaðeigandi beint kvörtun til Póst- og fjarskiptastofnunar um að hún láti málið til sín taka.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal leita álits viðkomandi leyfishafa á kvörtuninni og jafnframt freista þess að jafna ágreining aðila. Ella skal úr ágreiningi skorið með úrskurði.
     Úrskurðum Póst- og fjarskiptastofnunar má skjóta til úrskurðarnefndar skv. 8. gr. innan fjögurra vikna frá því viðkomandi varð kunnugt um úrskurð stofnunarinnar.

8. gr.

Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála.
     Ákvarðanir og úrskurðir Póst- og fjarskiptastofnunar sæta kæru til sérstakrar nefndar, úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála. Í úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála sitja þrír menn sem skipaðir eru af samgönguráðherra og jafnmargir til vara. Formaður og varaformaður skulu skipaðir eftir tilnefningu Hæstaréttar. Einn nefndarmaður ásamt varamanni skal skipaður samkvæmt tilnefningu stjórnar Verkfræðingafélags Íslands. Samgönguráðherra skipar einn nefndarmann ásamt varamanni án tilnefningar. Formaður og varaformaður skulu fullnægja hæfisskilyrðum hæstaréttardómara. Skipunartími nefndarinnar er fjögur ár.
     Úrskurður nefndarinnar skal að jafnaði liggja fyrir innan átta vikna frá því kæra berst henni.
     Úrskurðir nefndarinnar skulu vera endanlegir á stjórnsýslustigi. Nú vill aðili ekki una úrskurði nefndarinnar og getur hann þá borið úrskurðinn undir dómstóla, en slíkt mál skal höfða innan sex mánaða frá því aðili fékk vitneskju um úrskurð nefndarinnar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurða nefndarinnar.
     Um starfshætti nefndarinnar, málsmeðferð, málskotsgjald o.fl. skal mælt fyrir í reglugerð.

9. gr.

Gjaldtaka o.fl.
     Fyrir útgáfu rekstrarleyfisbréfa og skráningu póstrekenda greiðist gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs.
     Rekstrarleyfishafar skulu árlega greiða rekstrargjald sem nemur 0,25% af bókfærðri veltu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem leyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi.
     Við útgáfu rekstrarleyfa til fjarskiptaþjónustu, þar sem takmarka þarf fjölda rekstrarleyfishafa, er heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir rekstrarleyfi, auk gjalda samkvæmt 1. og 2. mgr. Póst- og fjarskiptastofnun getur ákveðið að gjaldið skuli ákvarðast með útboði.
     Póst- og fjarskiptastofnun getur gert leyfishöfum að greiða samkvæmt reikningi kostnað vegna sérstakra kannana sem stofnunin telur nauðsynlegt að framkvæma vegna eftirlits með starfsemi á þeirra vegum og ósanngjarnt telst að jafna á alla leyfishafa.
     Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir aðra þjónustu Póst- og fjarskiptastofnunar.
     Allar tekjur samkvæmt þessari grein skulu renna óskiptar til Póst- og fjarskiptastofnunar.
     Gjöld samkvæmt þessari grein má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þeirra myndaðist.
     Um álagningu og innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein fer samkvæmt ákvæðum VIII.– XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.

10. gr.

Skýrsla.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal árlega birta skýrslu um starfsemi sína. Í skýrslunni skal m.a. greint frá útgefnum leyfum og birtur listi yfir leyfishafa og skráða póstrekendur.

11. gr.

Reglugerðir.
     Samgönguráðherra setur í reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna.

12. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi þann 1. janúar 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Póst- og fjarskiptastofnun skal taka til starfa þann 1. apríl 1997. Frá gildistöku laga þessara og til þess tíma er Póst- og fjarskiptastofnun tekur til starfa skal samgönguráðuneytið annast þau verkefni sem Póst- og fjarskiptastofnun er falið í lögum þessum.
     Póst- og fjarskiptastofnun yfirtekur eignir og skuldir Fjarskiptaeftirlits ríkisins frá og með gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1996.