Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 437, 121. löggjafarþing 144. mál: virðisaukaskattur (málsmeðferðarreglur o.fl.).
Lög nr. 149 27. desember 1996.

Lög um breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðanna „falla undir gjaldflokk D í lögum nr. 97/1987, um vörugjald“ í 8. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna kemur: flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka við lög þessi.

2. gr.

     Við 7. mgr. 16. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Hafi aðili talið til innskatts virðisaukaskatt af öflun eða leigu ökutækis en ökutækið er síðar tekið til annarrar notkunar þar sem honum er heimill minni eða enginn frádráttarréttur ber honum að tilkynna það til skattstjóra áður en notkun er breytt og fjarlægja auðkenni sem sett hafa verið á ökutækið samkvæmt þessari grein.

3. gr.

     25. gr. laganna orðast svo:
     Skattstjóri skal ákvarða virðisaukaskatt skráðs aðila á hverju uppgjörstímabili.
     Hann skal rannsaka virðisaukaskattsskýrslur og leiðrétta þær ef þær eða einstakir liðir þeirra eru í ósamræmi við lög þessi eða fyrirmæli sem sett verða samkvæmt þeim. Þá skal skattstjóri áætla skatt af viðskiptum þeirra aðila sem ekki senda skýrslur innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Áætlun skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru. Skattstjóri skal tilkynna innheimtumanni og skattgreiðanda um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið. Þó skal skattstjóri ávallt leiðrétta augljósar reikningsskekkjur án sérstakrar tilkynningar til skattgreiðanda.
     Sé innskattur á einhverju uppgjörstímabili hærri en útskattur skal skattstjóri rannsaka skýrslu sérstaklega. Fallist skattstjóri á skýrsluna tilkynnir hann aðila og innheimtumanni ríkissjóðs um samþykki sitt til endurgreiðslu. Innheimtumaður ríkissjóðs skal endurgreiða aðila mismuninn. Kröfu um vangoldin opinber gjöld og skatta til ríkissjóðs ásamt verðbótum, álagi og dráttarvöxtum skal skuldajafna á móti endurgreiðslum samkvæmt lögum þessum.
     Hafi skýrslu verið skilað á tilskildum tíma skal endurgreiðsla fara fram innan fimmtán daga frá lokum skilafrests. Endurgreiðsla má þó aðeins fara fram að skattákvörðun liggi fyrir vegna fyrri tímabila. Berist skýrsla eftir lok skilafrests skal endurgreiðsla fara fram innanfimmtán daga frá því að skattstjóri kveður upp úrskurð skv. 29. gr. Geti skattstjóri ekki vegna aðstæðna aðila gert nauðsynlegar athuganir á gögnum þeim er skýrslugjöfin byggist á, þar með talið að aðili hafi lagt fram röng eða villandi gögn, framlengist framangreindur frestur um þann tíma sem slíkar aðstæður ríkja.
     Komi í ljós að endurgreiðsla samkvæmt þessari grein hafi verið of há skal skattstjóri þegar í stað tilkynna aðila og innheimtumanni ríkissjóðs þar um. Aðila ber eigi síðar en sjö dögum eftir tilkynningu skattstjóra um of háa endurgreiðslu að greiða innheimtumanni það sem ofgreitt var.

4. gr.

     26. gr. laganna orðast svo:
     Komi í ljós annmarkar á virðisaukaskattsskýrslu, fyrir eða eftir ákvörðun skv. 25. gr., eða telji skattstjóri frekari skýringa þörf á einhverju atriði varðandi virðisaukaskattsskil aðila skal hann skriflega skora á aðila að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn sem skattstjóri telur þörf á að fá. Fái skattstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan frests ákvarðar hann eða endurákvarðar virðisaukaskatt samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu og fengnum skýringum og gögnum. Ef eigi er bætt úr annmörkum á virðisaukaskattsskýrslu, svar aðila berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi eða eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir er skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila.
     Þá er skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt ef í ljós kemur að virðisaukaskattsskýrsla styðst ekki við tilskilið bókhald samkvæmt lögum nr. 145/1994, um bókhald, samkvæmt ákvæðum laga þessara eða ákvæðum reglugerða settra samkvæmt þeim. Jafnframt er skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila ef í ljós kemur að færsla á innskatti eða útskatti, eða öðrum þáttum sem virðisaukaskattsskýrsla byggist á, styðst ekki við lögmæt gögn. Sama gildir ef bókhald og þau gögn, sem liggja fyrir um fjárhæðir virðisaukaskattsskýrslu, verða ekki talin nægilega örugg eða ef tekjuskráning, þar með talin notkun sjóðvélar eða útbúnaður hennar eða notkun og form reikninga, er ekki í samræmi við ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Enn fremur er heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila ef ekki er lagt fram bókhald eða þau gögn sem skattyfirvöld kunna að biðja um til að sannprófa virðisaukaskattsskýrslu. Áætlun skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru. Ákvæði 27. gr. á við um áætlun samkvæmt þessari grein.
     Við ákvörðun eða endurákvörðun, sbr. 1. og 2. mgr., skal skattstjóri tilkynna aðila skriflega um fyrirhugaðar breytingar og af hvaða ástæðum þær eru gerðar til að aðili geti tjáð sig skriflega um efni máls og lagt fram viðbótargögn. Við endurákvörðun skal skattstjóri þó veita aðila a.m.k. 15 daga frest frá póstlagningu tilkynningar um fyrirhugaðar breytingar. Sé ekki kunnugt um dvalarstað aðila er skattstjóra heimilt að gera breytingar án þess að tilkynna um þær.
     Skattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum þess frests sem skattstjóri hefur veitt aðila til að tjá sig um fyrirhugaðar breytingar kveða upp rökstuddan úrskurð um endurákvörðun skv. 3. mgr. og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi. Tilkynning um skattbreytingu skal send viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs við uppkvaðningu úrskurðar. Samrit úrskurðar skal samtímis sent ríkisskattstjóra. Heimilt er aðila að kæra úrskurð skattstjóra til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
     Heimild til endurákvörðunar virðisaukaskatts samkvæmt þessari grein nær til skatts síðustu sex ára sem næst eru á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram. Sama gildir um endurákvörðun á áður ofendurgreiddum skatti. Fari fram rannsókn við embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins eða hjá ríkislögreglustjóra á skattskilum aðila reiknast heimild til endurákvörðunar frá byrjun þess árs þegar rannsókn hófst.
     Hafi skattstjóri eða ríkisskattstjóri grun um að skattsvik eða refsiverð brot á lögum um bókhald og ársreikninga hafi verið framin skal hann tilkynna það skattrannsóknarstjóra ríkisins sem ákveður um framhald málsins.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
  1. Í stað „26. gr.“ í 1. mgr. kemur: 25. gr.
  2. 7.–10. mgr. falla brott.


6. gr.

     Í stað „26. gr.“ í 4. mgr. 28. gr. laganna kemur: 25. gr.

7. gr.

     29. gr. laganna orðast svo:
     Ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti skv. 25. gr. er kæranleg til hans innan 30 daga frá því er skatturinn var ákveðinn. Kærufrestur reiknast frá póstlagningu tilkynningar um skattákvörðun. Við ákvörðun virðisaukaskatts án sérstakrar tilkynningar til kæranda reiknast kærufrestur þó frá gjalddaga uppgjörstímabilsins, sbr. 24. gr. Kærur skulu vera skriflegar og rökstuddar. Innsend fullnægjandi virðisaukaskattsskýrsla skal tekin sem kæra þegar um er að ræða áætlanir skv. 25. gr.
     Ef virðisaukaskattur er endurákvarðaður samtímis ákvörðun, sbr. 26. gr., er endurákvörðunin jafnframt kæranleg til skattstjóra innan 30 daga frá því er skatturinn var ákveðinn, enda liggi ekki fyrir álagning skv. 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
     Skattstjóri skal að jafnaði innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests kveða upp rökstuddan úrskurð um kæruna og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi.
     Úrskurði skattstjóra má skjóta til yfirskattanefndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.
     Ágreining um skattskyldu og skatthæð má bera undir dómstóla, enda hafi áður verið um hann úrskurðað af yfirskattanefnd. Það skal þó gert innan sex mánaða frá því að yfirskattanefnd úrskurðar í málinu.
     Áfrýjun eða deila um skattskyldu frestar ekki gjalddaga skattsins né leysir undan neinum þeim viðurlögum sem lögð eru við vangreiðslu hans, en verði skattur lækkaður eftir úrskurði eða dómi skal endurgreiða það sem lækkuninni nemur.

8. gr.

     Í stað orðanna „5. mgr. 96. gr. og 4. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum“ í 4. mgr. 39. gr. laganna kemur: 6. mgr. 26. gr.

9. gr.

     Í stað orðsins „virðisaukaskatt“ í 3. málsl. 2. mgr. 42. gr. laganna kemur: 60% þess virðisaukaskatts.

10. gr.

     Við lögin bætist viðauki sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Viðauki.
     Af vörum til manneldis í eftirgreindum tollskrárnúmerum skal greiða 24,5% virðisaukaskatt:
     
1704.1000 1806.3109 2009.1109 2106.9011 2204.2161
1704.9001 1806.3201 2009.1901 2106.9019 2204.2911
1704.9002 1806.3202 2009.1909 2106.9021 2204.2921
1704.9003 1806.3203 2009.2001 2106.9022 2204.2931
1704.9004 1806.3209 2009.2009 2106.9031 2204.2941
1704.9005 1806.9023 2009.3001 2106.9039 2204.2951
1704.9006 1806.9024 2009.3009 2106.9061 2204.2961
1704.9007 1806.9025 2009.4001 2106.9063 2204.3001
1704.9009 1806.9026 2009.4009 2201.1000 2205.1001
1805.0001 1806.9028 2009.5001 2202.1001 2205.9001
1805.0009 1806.9029 2009.5009 2202.1009 2206.0001
1806.1000 1806.9039 2009.6001 2202.9009 2208.7011
1806.2001 1905.2000 2009.6009 2203.0001 2208.7091
1806.2003 1905.3011 2009.7001 2204.1001 2208.9091
1806.2004 1905.3019 2009.7009 2204.2111 2209.0000
1806.2005 1905.3021 2009.8001 2204.2121
1806.2006 1905.3029 2009.8009 2204.2131
1806.2009 1905.3030 2009.9001 2204.2141
1806.3101 2009.1101 2009.9009 2204.2151

     

11. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Hafi skattstjóri tilkynnt aðila um fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskatti fyrir 1. janúar 1997 skal fara með málið eftir þeim ákvæðum sem í gildi voru fyrir þann tíma.

II.
     Fari afhending á vinnu manna við endurbætur eða viðhald íbúðarhúsnæðis sannanlega fram fyrir 1. janúar 1997 er heimilt að endurgreiða virðisaukaskatt af henni að fullu, enda sé dagsetning sölureiknings fyrir þann tíma.
     Hafi verksamningur vegna afhendingar á þjónustu skv. 1. mgr. verið gerður fyrir 1. janúar 1997 og afhending farið fram bæði fyrir og eftir þann tíma skal einungis endurgreiða virðisaukaskatt að fullu af þeirri vinnu sem unnin var fyrir 1. janúar 1997.

Samþykkt á Alþingi 19. desember 1996.