Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 682, 121. löggjafarþing 171. mál: atvinnuleysistryggingar (heildarlög).
Lög nr. 12 13. mars 1997.

Lög um atvinnuleysistryggingar.


I. KAFLI
Skilyrði bótaréttar.

1. gr.

     Launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar, sem verða atvinnulausir, eiga rétt á bótum úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum, enda séu þeir í atvinnuleit og fullfærir til vinnu.
     Félagsmálaráðherra skal, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, setja nánari reglur um hvaða skilyrðum sjálfstætt starfandi einstaklingar skulu fullnægja til þess að njóta bóta úr sjóðnum. M.a. skulu settar reglur um hvaða skilyrðum menn verða að fullnægja til þess að teljast sjálfstætt starfandi og vera atvinnulausir.
     Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að ákveða að aðrir hópar en launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar geti notið bóta úr sjóðnum gegn greiðslu iðgjalda. Um bótarétt þessara hópa skal kveða á í reglugerð.

2. gr.

     Rétt til bóta samkvæmt lögum þessum hafa þeir sem fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 5. gr.:
 1. Eru orðnir 16 ára að aldri en yngri en 70 ára.
 2. Eru búsettir hér á landi eða hafa fengið leyfi til atvinnuleitar í EES-landi.
 3. Hafa óbundna heimild til þess að ráða sig til vinnu hér á landi.
 4. Hafa á síðustu tólf mánuðum unnið samtals í a.m.k. 10 vikur miðað við fullt starf í tryggingagjaldsskyldri vinnu en hlutfallslega lengri tíma ef um hlutastarf hefur verið að ræða, sbr. þó 17. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sbr. lög nr. 46/1993. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi skal miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi síðustu tólf mánuði. Til að finna vinnuframlag sjómanna skal telja fjölda lögskráningardaga. Mánaðarvinna sjómanna telst 21,67 lögskráningardagar.
 5. Hafa í upphafi bótatímabils verið skráðir sem atvinnulausir í þrjá daga samfellt.
 6. Eru reiðubúnir að ráða sig til allra almennra starfa.

     Við ákvörðun bóta samkvæmt framangreindu teljast ekki með þeir dagar er maður hefur verið í verkfalli eða verkbann tekur til.

3. gr.

     Sá sem fullnægir skilyrðum um bótarétt en tekur að stunda nám eða verður að hverfa frá vinnu af heimilisástæðum heldur í allt að 24 mánuði þeim bótarétti sem hann hafði áunnið sér. Sama á við um þá sem sviptir eru frelsi sínu með dómi.
     Á sama hátt og kveðið er á um í 1. mgr. heldur sá sem fer í fæðingarorlof áunnum bótarétti meðan á töku fæðingarorlofs stendur.

4. gr.

     Ef sá sem hefur áunnið sér rétt til bóta verður að hverfa frá vinnu vegna veikinda heldur hann þeim bótarétti þegar hann verður vinnufær á ný, enda sanni hann veikindin með læknisvottorði ef hann sækir um atvinnuleysisbætur að loknum veikindum.
     Bótarétt getur enginn öðlast vegna atvinnuleysis sem stafar af veikindum hans.
     Svæðisvinnumiðlun getur óskað eftir að umsækjandi leggi fram vottorð um vinnufærni sína sé um skerta vinnufærni að ræða.
     Svæðisvinnumiðlun er heimilt að leita álits trúnaðarlæknis Atvinnuleysistryggingasjóðs á vinnufærni umsækjanda.

5. gr.

     Þrátt fyrir ákvæði 1.–4. gr. eiga eftirtaldir einstaklingar ekki rétt á atvinnuleysisbótum:
 1. Þeir sem taka þátt í verkfalli eða verkbann tekur til.
 2. Þeir sem njóta slysa- eða sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar.
 3. Þeir sem sviptir eru frelsi sínu með dómi.
 4. Þeir sem hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst vinnu af ástæðum sem þeir sjálfir eiga sök á. Réttur til bóta samkvæmt þessum tölulið fellur niður í 40 bótadaga í fyrsta sinn og skerðist bótatímabil sem því nemur. Missi maður aftur rétt til bóta öðlast hann ekki bótarétt að nýju, nema hann sanni að hann hafi stundað vinnu í samfellt sex vikur eftir að hann missti bótaréttinn.
 5. Þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að setja reglur um að þeir sem hætta námi fyrir lok námsannar skuli undir sérstökum kringumstæðum eiga bótarétt. Reglur þessar skulu hljóta staðfestingu ráðherra.
 6. Þeir sem stunda vinnu í eigin þágu sem gefur þeim tekjur eða tekjuígildi er a.m.k. samsvarar hámarksbótum atvinnuleysistrygginga á hverjum tíma. Nú samsvara tekjurnar eða tekjuígildið ekki hámarksbótum atvinnuleysistrygginga og má þá greiða mismun atvinnuleysisbóta og teknanna eða tekjuígildisins.
 7. Þeir sem reynt hafa að afla sér bóta með sviksamlegum hætti, sbr. 15. gr.


II. KAFLI
Fjárhæð bóta og bótatímabil.

6. gr.

     Einstaklingur, sem öðlast bótarétt samkvæmt ákvæðum þessara laga, á rétt á bótum frá og með fyrsta skráningardegi, sbr. þó 10. gr.
     Atvinnuleysisbætur skulu greiðast fyrir alla daga nema laugardaga og sunnudaga á hverju bótatímabili.
     Nú fær hinn atvinnulausi tilfallandi vinnu dag og dag og skulu atvinnuleysisbætur hans þá skerðast vegna þessarar vinnu til samræmis við unninn stundafjölda og hlutfall bótaréttar hans þannig að samtals átta stunda vinna valdi skerðingu hámarksbóta í einn dag. Slík tilfallandi vinna skal ekki hafa áhrif á áunninn rétt til atvinnuleysisbóta fyrr en hún nemur samtals 173 vinnustundum á hverju tólf mánaða eða styttra tímabili.

7. gr.

     Hámarksbætur atvinnuleysistrygginga skulu nema 2.433 kr. á dag. Lágmarksbætur eru 1/ 4 hluti sömu fjárhæðar. Fjárhæð hámarksbóta kemur til endurskoðunar við afgreiðslu fjárlaga ár hvert með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Þó er félagsmálaráðherra heimilt, að fengnu samþykki ríkisstjórnar, að breyta bótafjárhæð ef verulegar breytingar verða á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
     Til viðbótar fjárhæð bóta skv. 1. mgr. skal greiða þeim sem hafa framfærsluskyldu gagnvart börnum yngri en 18 ára 4% af fjárhæð dagpeninga með hverju barni. Nú annast Innheimtustofnun sveitarfélaga innheimtu meðlags vegna barns og skal þá fjárhæðin renna beint til stofnunarinnar á móti kröfum hennar á hendur hinum meðlagsskylda.
     Af atvinnuleysisbótum greiðir hinn atvinnulausi 4% í lífeyrissjóð og Atvinnuleysistryggingasjóður 6%.
     Elli- og örorkulífeyrir, svo og örorkustyrkur frá Tryggingastofnun ríkisins, skal koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Sama gildir um greiðslur úr almennum og frjálsum lífeyrissjóðum. Nú fær hinn atvinnulausi ekki fullar atvinnuleysisbætur og skal þá eingöngu skerða bæturnar hlutfallslega.

8. gr.

     Hámarksbætur greiðast þeim sem hafa verið í fullu starfi síðustu tólf mánuði. Sé því skilyrði ekki fullnægt lækkar bótafjárhæð í hlutfalli við starfstímabil og starfshlutfall á síðustu tólf mánuðum þar til lágmarksbótarétti er náð, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 7. gr. Bótahlutfall getur þó aldrei orðið hærra en sem nemur því starfshlutfalli sem maður er reiðubúinn að ráða sig í.
     Bætur vegna barna skv. 2. mgr. 7. gr. skerðast ekki.
     Nú hefur umsækjandi, sem áunnið hefur sér bótarétt, auk þess stundað skólanám á síðustu tólf mánuðum í ekki skemmri tíma en sex mánuði og lokið námi eða einsýnt þykir að hann hafi hætt námi og skal þá reikna honum 13 vikur vegna námsins til viðbótar vinnuframlagi hans. Nú á umsækjandi geymdan bótarétt, sbr. 3. og 4. gr., og fær hann þá bætur í samræmi við það, nema starfstími hans eftir að hann hóf að nýju störf gefi tilefni til annars.
     Hafi umsækjandi notið atvinnuleysisbóta á síðustu tólf mánuðum skal reikna honum bótadaga á því tímabili til starfstíma í sama hlutfalli og bótaréttur hans var.
     Atvinnuleysistryggingasjóður semur skrá um ákvörðun dagpeninga. Skráin skal tilgreina 76 þrep, frá 25% til 100% bóta, þannig að bætur hækki um 1% hámarksbóta við hvert þrep eftir starfstíma og starfshlutfalli.
     Við ákvörðun bóta til manns, sem starfaði sem launamaður áður en hann varð atvinnulaus, er heimilt að taka tillit til starfstímabila sem hann á að baki í EES-landi, enda hafi hann fallið undir löggjöf um bætur vegna atvinnuleysis í því landi og leggi fram tilskilin vottorð um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil þar. Ráðherra setur með reglugerð nánari reglur um hvaða skilyrðum þarf að vera fullnægt til að njóta réttar samkvæmt framangreindu.

9. gr.

     Bótatímabil skal að hámarki vera fimm ár. Nú fær maður, sem er byrjaður á bótatímabili, launaða vinnu og framlengist þá bótatímabil hans sem svarar starfstímabilum. Nýtt bótatímabil getur hafist að liðnum tólf mánuðum frá því að bótatímabili lauk, enda eigi maður að baki samtals a.m.k. sex mánaða launaða vinnu eftir að bótatímabili lauk.

III. KAFLI
Bætur vegna samdráttar og gjaldþrota fyrirtækja.

10. gr.

     Nú ber nauðsyn til að skerða dagvinnutíma starfsmanna vegna samdráttar í starfsemi fyrirtækis og skal þá greiða starfsmönnum þann hluta þeirra atvinnuleysisbóta sem þeir eiga rétt á sem svarar til skerðingar dagvinnutímans, enda taki ráðstafanir þessar almennt til starfsmanna fyrirtækisins eða starfsmanna í einstökum greinum starfsemi þess ef um fleiri en eina er að ræða. Fyrirsjáanlega skerðingu vinnutíma skal atvinnurekandi tilkynna fyrir fram til stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og gera ítarlega grein fyrir ástæðum samdráttar. Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs staðreynir skrána, svo og síðari upplýsingar um það fólk sem skerðingin tekur til, og sendir til viðkomandi úthlutunarnefndar atvinnuleysisbóta sem síðan úrskurðar um bótarétt. Tilkynningu skal fylgja skrá um það starfsfólk sem ráðgert er að skerðingin taki til ásamt upplýsingum um starfshlutfall einstakra starfsmanna hjá fyrirtækinu á síðustu tólf mánuðum áður en til skerðingar kemur.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að synja um greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt þessari grein ef hún telur að fyrirtæki hafi ekki tilgreint nægilegar ástæður samdráttar. Ekki verða greiddar bætur samkvæmt þessari grein lengur en 30 bótadaga fyrir hvern starfsmann á almanaksári. Komi til uppsagna starfsmanna falla greiðslur niður og eiga þeir ekki bótarétt að nýju fyrr en að loknum uppsagnarfresti.

11. gr.

     Atvinnuleysistryggingasjóður skal tryggja launafólki fyrirtækja, sem verða gjaldþrota, rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem það er án atvinnu á uppsagnarfresti meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum um ábyrgðasjóð launa vegna gjaldþrota.

IV. KAFLI
Um missi bótaréttar.

12. gr.

     Samkvæmt ákvörðun úthlutunarnefndar getur það valdið missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus tekur ekki þátt í gerð starfsleitaráætlunar á vegum svæðisvinnumiðlunar eða fylgir ekki slíkri áætlun, þar á meðal hafnar úrræðum svæðisvinnumiðlunar skv. e-lið 1. mgr. 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Um missi bótaréttar gilda ákvæði 4. tölul. 5. gr. laga þessara.
     Þeim sem ekki hefur gert starfsleitaráætlun er skylt að láta skrá sig vikulega hjá viðurkenndum skráningaraðila. Geti umsækjandi ekki látið skrá sig vegna veikinda skal hann láta skrá sig næsta dag sem honum er unnt.
     Skrái hinn atvinnulausi sig ekki á tilskildum degi skal hann sæta missi bóta fyrir þá daga sem liðnir eru frá síðustu skráningu þar til hann skráir sig á ný.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs getur, að fengnum tillögum svæðisráðs svæðisvinnumiðlunar, ákveðið að á afmörkuðum svæðum og í tiltekinn tíma skuli skráning skv. 2. mgr. fara fram með öðrum hætti en vikulega.

13. gr.

     Það veldur missi bótaréttar að neita starfi sem býðst fyrir milligöngu svæðisvinnumiðlunar eða á annan sannanlegan hátt, enda sé vinnan heimil að lögum og laun fyrir hana og starfskjör öll í samræmi við 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
     Bótaréttur fellur ekki niður þótt sá sem notið hefur bóta í skemmri tíma en fjórar vikur hafni vinnu í starfsgrein sem hann hefur ekki áður stundað, enda séu góðar líkur á að hann muni fá vinnu í sinni starfsgrein.
     Þegar hafnað er vinnu fjarri heimili metur úthlutunarnefnd hvort það skuli varða missi bótaréttar og skal þá gætt m.a. heimilisástæðna umsækjanda.
     Bjóðist hinum atvinnulausa starf sem að starfshlutfalli er minna en bótaréttur hans segir til um skal úthlutunarnefnd meta með hliðsjón af möguleikum hans á fullu starfi, sbr. og 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga þessara, hvort honum sé eftir atvikum rétt eða skylt að taka því hlutastarfi sem í boði er.
     Um missi bótaréttar samkvæmt þessari grein gilda að öðru leyti ákvæði 4. tölul. 5. gr.

14. gr.

     Þeim sem sæta biðtíma eftir bótum er skylt að hlíta reglum um eftirlit með því að bótaskilyrðum sé fullnægt og skylt að taka starfi sem býðst að viðlögðum missi bóta samkvæmt almennum reglum þessara laga.

15. gr.

     Sá sem reynir að afla sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína missir rétt til bóta.
     Fyrsta brot varðar missi bóta í 2–6 mánuði en ítrekað brot í 1–2 ár.

V. KAFLI
Ákvörðun bóta og málskot.

16. gr.

     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skal í hverju umdæmi svæðisvinnumiðlunar skipa fimm manna úthlutunarnefnd til fjögurra ára í senn. Einn nefndarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Alþýðusambands Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, einn samkvæmt tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands og einn samkvæmt tilnefningu Vinnumálasambandsins. Formenn nefndanna skulu skipaðir án tilnefningar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt og aðalmenn. Nefndarmenn skulu vera búsettir í umdæmi svæðisvinnumiðlunar.
     Úthlutunarnefnd ákvarðar bætur og missi bóta samkvæmt lögum þessum.
     Umsækjanda og Atvinnuleysistryggingasjóði skal tilkynnt um ákvörðun úthlutunarnefndar. Þessum aðilum er heimilt að skjóta ákvörðun úthlutunarnefndar til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta, sbr. 17. gr., innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málskot frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.
     Þóknun til úthlutunarnefnda greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvörðun sjóðstjórnar, svo og kostnaður sem af starfi nefndanna leiðir.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að ákveða að fleiri en ein úthlutunarnefnd séu starfandi í umdæmi svæðisvinnumiðlunar ef það er talið nauðsynlegt með tilliti til fjölda atvinnulausra í umdæminu.
     Úthlutunarnefnd ákveður fyrirkomulag á afgreiðslu bóta.

17. gr.

     Félagsmálaráðherra skipar þriggja manna úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta til fjögurra ára í senn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
     Nefndarmenn skulu hafa víðtæka þekkingu á vinnumarkaðinum. Formaður og varamaður hans skulu fullnægja skilyrðum til þess að vera skipaðir héraðsdómarar. Úrskurðir nefndarinnar fela í sér endanlega stjórnvaldsákvörðun.
     Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvörðun ráðherra.
     Atvinnuleysistryggingasjóður skal sjá til þess að úrskurðir nefndarinnar séu gefnir út árlega.

VI. KAFLI
Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs og skrifstofuhald sjóðsins.

18. gr.

     Félagsmálaráðherra skipar níu manna stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs til fjögurra ára í senn. Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands skulu tilnefna tvo stjórnarmenn hvor aðili og tvo til vara. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna, Samband íslenskra sveitarfélaga og Vinnumálasambandið skulu tilnefna einn stjórnarmann hver aðili og einn til vara. Ráðherra skipar formann án tilnefningar og varaformann úr hópi aðalmanna.
     Aðalmenn stjórnarinnar skulu kjósa úr sínum hópi þriggja manna framkvæmdaráð. Formaður stjórnar skal eiga sæti í því. Ráðið hefur heimild til þess að taka fullnaðarákvarðanir um mál sem ekki fela í sér stefnubreytingar fyrir sjóðinn. Öll stjórnin skal taka þátt í gerð umsagna og tillagna um breytingar á lögum og reglum um sjóðinn og meiri háttar ákvörðunum sem snerta fjárhag hans.
     Þóknun stjórnarmanna greiðist úr Atvinnuleysistryggingasjóði samkvæmt ákvörðun ráðherra.

19. gr.

     Vinnumálastofnun annast sjóðsvörslu, reikningshald og daglega afgreiðslu fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð í umboði sjóðstjórnar og undir umsjá og eftirliti hennar. Félagsmálaráðherra getur ákveðið annað fyrirkomulag að fenginni umsögn sjóðstjórnar.
     Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans.

VII. KAFLI
Tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs.

20. gr.

     Tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs eru:
 1. Tekjur af atvinnutryggingagjaldi í samræmi við ákvæði laga um tryggingagjald.
 2. Vextir af innstæðufé sjóðsins og verðbréfum.


VIII. KAFLI
Fjárreiður Atvinnuleysistryggingasjóðs.

21. gr.

     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs tekur ákvarðanir um ávöxtun fjár sjóðsins. Skal þess gætt að sjóðurinn hafi nægilegt laust fé til að standa við skuldbindingar sínar.

22. gr.

     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er heimilt að veita styrki vegna úrræða fyrir atvinnulausa á vegum svæðisvinnumiðlana. Stjórninni er enn fremur heimilt að veita styrki til þess að aðstoða atvinnulausa við búferlaflutninga vegna atvinnutilboða.
     Stjórnin skal setja reglur um styrki samkvæmt þessari grein sem hljóta skulu staðfestingu félagsmálaráðherra.

23. gr.

     Árlega skal verja ákveðinni fjárhæð úr Atvinnuleysistryggingasjóði til að styrkja starfsmenntun í atvinnulífinu, sbr. lög þar að lútandi, og til sérstakra þróunarverkefna til að fjölga atvinnutækifærum fyrir konur samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Fjárhæð þessara framlaga ákvarðast við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

24. gr.

     Reikningar Atvinnuleysistryggingasjóðs skulu endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun og birtir ár hvert í Lögbirtingablaði.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.

25. gr.

     Eigi má gera fjárnám í bótum samkvæmt lögum þessum sem ekki hafa verið greiddar hinum atvinnulausa. Eigi má heldur taka bætur til greiðslu opinberra gjalda annarra en staðgreiðslu opinberra gjalda. Óheimilt er að draga félagsgjöld til stéttarfélaga af bótum, nema skriflegt samþykki hins atvinnulausa liggi fyrir.

26. gr.

     Skattstjórum, Tryggingastofnun ríkisins, Innheimtustofnun sveitarfélaga og hlutaðeigandi lífeyrissjóðum er skylt að láta Atvinnuleysistryggingasjóði og úthlutunarnefndum í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga þessara.
     Með einstaklingsbundnar upplýsingar, sem Atvinnuleysistryggingasjóði eru látnar í té samkvæmt þessari grein, skal farið sem trúnaðarmál.

27. gr.

     Það varðar sektum að gefa rangar upplýsingar eða leyna upplýsingum í því skyni að fá bætur greiddar eða aðstoða við slíkt athæfi. Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála.
     Nú hefur maður aflað sér bóta með því að gefa rangar eða villandi upplýsingar eða leyna upplýsingum um hagi sína og skal hann þá til viðbótar missi bóta skv. 15. gr. endurkrafinn um allt að tvöfaldri þeirri bótafjárhæð sem þannig var aflað.

28. gr.

     Atvinnuleysistryggingasjóði er heimilt fyrir hönd þar til bærrar stofnunar í EES-landi að greiða ríkisborgara í EES-ríki, sem hingað kemur í atvinnuleit, atvinnuleysisbætur, enda endurgreiði sú stofnun sjóðnum þær fjárhæðir sem þannig eru inntar af hendi.

29. gr.

     Heimilt er að birta sem reglugerðir reglur Evrópusambandsins um atvinnuleysisbætur, enda eigi ákvæði þeirra stoð í lögum þessum.

30. gr.

     Félagsmálaráðherra skal að tillögu sjóðstjórnar setja nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

31. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1997. Jafnframt falla úr gildi lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 93/1993, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Á meðan kjararannsóknarnefnd starfar skal kostnaður við störf nefndarinnar greiddur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Reikningar yfir slíkan kostnað skulu samþykktir af forsætisráðherra.
     Verði breyting á starfsemi kjararannsóknarnefndar er forsætisráðherra heimilt að samþykkja greiðslu kostnaðar af hliðstæðri starfsemi þeirri sem kjararannsóknarnefnd hefur annast þótt ákveðið verði að hún skuli unnin af öðrum aðilum.

II.
     Hafi maður verið á atvinnuleysisbótum 1. júlí 1994 og samfellt síðan getur bótatímabil hans að hámarki varað til 1. júlí 1999. Nú hefst bótatímabil eftir 1. júlí 1994 og viðkomandi hefur verið samfellt á atvinnuleysisbótum fram að gildistöku laga þessara og getur þá bótatímabil að hámarki orðið fimm ár.

III.
     Ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga þessara tekur gildi 1. janúar 1998.
IV.
     Stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs skal heimilt á árinu 1997 að gera tillögu til að styrkja sérstök verkefni á vegum sveitarfélaga til eflingar atvinnulífi, enda verði dregið samsvarandi úr greiðslum atvinnuleysisbóta á viðkomandi stað. Úthlutun styrkja skal vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fenginni umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillögur sjóðstjórnar um styrkveitingu skulu staðfestar af ráðherra.

Samþykkt á Alþingi 3. mars 1997.